Fara í efni  

Bæjarstjórn

1363. fundur 13. desember 2022 kl. 17:00 - 20:36 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Ragnar B. Sæmundsson 2. varaforseti
  • Líf Lárusdóttir aðalmaður
  • Guðmundur Ingþór Guðjónsson aðalmaður
  • Liv Aase Skarstad aðalmaður
  • Sædís Alexía Sigurmundsdóttir aðalmaður
  • Jónína Margrét Sigmundsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2205137 - Suðurgata 34 bílskúr breyting í gestahús - umsókn um byggingarleyfi og mál nr. 2201004 Fundargerðir skóla- og frístundaráðs. Málin verða nr. 5 og nr. 17 í dagskránni verði samþykkt að taka þau á dagskrá og röð annarra dagskrárliða hliðrast til af þessum sökum.

Samþykkt 9:0

1.Kosning í ráð og nefndir tímabilið 2022 - 2026

2206003

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 10. nóvember sl. skipan í kjörnefndir vegna tímabilsins 2022 - 2026 og vísaði til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir skipan í kjörnefndir Akraneskaupstaðar vegna tímabilsins 2022 - 2026.

Samþykkt 9:0

2.Deiliskipulag - Garðabraut 1

2204191

Nýtt deiliskipulag Garðabrautar 1.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulag á Garðabraut 1, verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að deiliskipulag vegna Garðabrautar 1 verði auglýst samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 9:0

3.Reglur um niðurgreiðslu vegna dvalar barna hjá dagforeldrum - endurskoðun

2209178

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðnum reglur um niðurgreiðslu vegna dvalar barna hjá dagforeldrum en gert hefur verið ráð fyrir útgjöldunum í fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun.

Bæjarráð vísaði reglunum til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar afgreiðslu.
Til máls tóku: EBr, LL og KHS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir reglur um niðurgreiðslu vegna dvalar barna hjá dagforeldrum en reglurnar taka gildi þann 1. janúar næstkomandi.

Samþykkt 9:0

4.Framkvæmdaleyfi - Stækkun aðalhafnargarðs

2211256

Umsókn Faxaflóahafna um endurnýjun á framkvæmdaleyfi vegna endurbóta á aðalhafnargarði, felur í sér gerð nýs hafnarbakka (framlenging) með um 220 metra viðlegu (90 metra lenging á núverandi bakka) með um 11 metra dýpi. Dýpkun á snúningssvæði innan hafnar. Snúningssvæði með um 120 metra þvermáli og dýpi 10 metra. Dýpkun á snúningssvæði utan hafnarmynnis. Snúningssvæði um 180 metra þvermáli og dýpi 11 metra. Lengingu á brimvarnargarði um allt að 60 metra. Öldudeyfingu á milli aðalhafnargarðs og bátabryggju. Leyfi fyrir framkvæmdinni var áður samþykkt á fundi ráðsins þann 30.09.2019.

Framkvæmdaleyfið fellur undir lög um umhverfismat í flokki B. Tilkynningarskyldu. Óskað var eftir áliti Skipulagsstofnunar. Ákvörðunarorð Skipulagsstofnunar um matskyldu dagsett 26.9.2018 eru: Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurbætur á aðalhafnargarði Akraneshafnar, séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Hin umsótta framkvæmd er í samræmi við þá lýsingu sem lýst er í tilkynningu til Skipulagsstofnunar og er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag svæðisins. Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að veita hið umsótta framkvæmdaleyfi að nýju með þeim fyrirvörum sem fram koma í deiliskipulagi, umsókn og lýsingu á framkvæmdinni og að birta auglýsingu um útgáfu leyfisins skv. 10 gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Til máls tóku: KHS og RBS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis vegna stækkunar aðalhafnagarðs Akraneshafnar með þeim fyrirvörum sem fram koma í deiliskipulagi og birtingu auglýsingar þess efnis skv. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraness felur skipulagsfulltrúa frekari úrvinnslu málsins.

Samþykkt 9:0

5.Suðurgata 34 bílskúr breyting í gestahús - umsókn um byggingarleyfi

2205137

Umsókn Lón Fasteigna ehf. um að breyta bílskúr í íbúð. Húsnæðið er á óskipulögðu svæði.

Breytingin var grenndarkynnt samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2012 frá 9. nóvember til og með 8. desember 2022.

Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja áform um byggingarleyfi sbr. grenndarkynningu og minnisblað skipulagsfulltrúa.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir útgáfu byggingarleyfis vegna Suðurgötu 34, 300 Akranesi.

Samþykkt 9:0

6.Gatnagerðargjald - gjaldskrá 2022

2201198

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 1. desember sl. breytingu á gatnagerðargjaldskrá Akraneskaupstaðar og vísaði til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir breytingu á gjaldskrá nr. 666/2022 fyrir gatnagerðargjald í Akraneskaupstað sem öðlist gildi við birtingu í B- deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

7.Fjárhagsáætlun 2022 - viðaukar

2202114

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 24. nóvember viðauka nr. 22 en um er að ræða samþykktar tilfærslur bæjarráðs á milli deilda af málaflokki 20, Óviss útgjöld, inn á einstaka deildir, samtals að fjárhæð kr. 5.052.000, og samþykktar tilfærslur bæjarstjóra á sviðsstjórafundum af sama málaflokki, samtals að fjárhæð kr. 792.000, inn á einstaka deildir.

Heimildir bæjarráðs byggja á sérstökum reglum um viðauka þar sem ráðið getur ráðstafað fjármunum allt að kr. 2.000.000 hverju sinni (einstök ráðstöfun) án þess að vísa beri ákvörðunni til samþykktar bæjarstjórnar með viðauka heldur skuli það gert ársfjórðungslega og þá teknar saman allar slíkar ákvarðanir í einn sameiginlegan viðauka bæjarráðs.

Heimildir bæjarstjóra byggja á sérstökum reglum þar sem honum er heimilað að ráðstafa fjármunum allt að kr. 500.000 hverju sinni (einstök ráðstöfun) af deild 20830-4660 Tækjakaupasjóði, án þess að vísa beri ákvörðuninni til samþykkis bæjarráðs heldur skuli það gert ársfjórðungslega og þá teknar saman allar slíkar ákvarðanir í einn sameiginlega viðauka bæjarráðs.

Í meðfylgjandi bréfi er sundurliðun um framangreindar ákvarðanir þar sem tilteknar eru þær deildir sem fjármagnið er fært á. Viðaukinn felur ekki í sér breytingu á áætlaðri rekstrarniðurstöðu ársins.

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 22 og vísar honum til bæjarstjórnar Akraness til endanlegar ákvörðunar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 22 sem felur í sér tilfærslu fjármuna af deild 20830 samtals að fjárhæð kr. 5.844.000 og inn á hinar ýmsu deildir sbr. meðfylgjandi bréf vegna viðaukans.

Viðaukinn felur ekki í sér breytingu á áætlaðri rekstrarniðurstöðu ársins 2022.

Samþykkt 9:0

8.Menningar- og safnanefnd - málefni

2206211

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðnum, tilfærslu fjármuna af deild 05580 inn á deild 05750 að fjárhæð kr. 3.035.050 til að mæta útgjöldum vegna afmælishátíðar Akraneskaupstaðar.

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 23 til samræmis við framangreinda ráðstöfun og vísaði erindinu til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 23 sem felur í sér tilfærslu fjármuna af deild 05580 inn á deild 05750, samtals að fjárhæð kr. 3.035.050.

Viðaukinn felur ekki í sér breytingu á áætlaðri rekstrarniðurstöðu ársins 2022.

Samþykkt 9:0

9.Styrkir til greiðslu fasteignaskatta 2022

2210151

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðnum að veita styrk í samræmi við reglur Akraneskaupstaðar um styrki til greiðslu fasteignaskatts samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 til eftirtalinna félaga:
- Akur frímúrarastúka samtals kr. 816.270
- Dreyri samtals kr. 297.570
- Oddfellow samtals kr. 968.604
- Rauði Krossinn samtals kr. 40.168.

Heildarfjárhæðinni, samtals kr. 2.122.612, yrði ráðstafað af liðnum 20830-5946 en þau félög sem eiga rétt á úthlutun fá styrk sem nemur 78% af fasteignaskatti C. Ráðstöfunin er færð á deildir 05890 og 06890 og 07890.

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 24 til samræmis við framangreinda ráðstöfun og tilfærslu á alls kr. 2.350.000 af deild 20830-5946 og inn á deildir 05890-5948, 06890-5948 og 07890-5948 sbr. meðfylgjandi fylgiskjal og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Til máls tóku:
VLJ sem víkur af fundi vegna vanhæfis. Ekki gerðar athugasemdir við ákvörðun bæjarfulltrúans af hálfu annarra bæjarfulltrúa. Þá vék SFÞ einnig af fundi og ekki voru gerðar athugasemdir við þá ákvörðun af hálfu bæjarfulltrúa.

EBR, fyrsti varaforseti tók við stjórn fundarins.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 24 sem felur í sér tilfærslu fjármuna af deild 20830-5946 inn á deildir 05890, 06890 og 07890, samtals að fjárhæð kr. 2.330.000 sbr. meðfylgjandi bréf vegna viðaukans.

Viðaukinn felur ekki í sér breytingu á áætlaðri rekstrarniðurstöðu ársins 2022.

Samþykkt 8:0

VLJ og SFÞ taka sæti á fundinum á ný og VLJ tekur við stjórn fundarins að nýju.
Fylgiskjöl:

10.Langtímaveikindi starfsmanna 2022 (veikindapottur)

2206184

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðnum úthlutun fjármuna vegna kostnaðar stofnana Akraneskaupstaðar við afleysingar vegna veikindaforfalla starfsmanna á árinu 2022. Úthlutunin er vegna tímabilsins 1. júlí og með 31. desember 2022 og nemur samtals kr. 21.442.884 sbr. meðfylgjandi fylgiskjal. Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 25 samtals að fjárhæð kr. 21.443.000 og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Ráðstöfuninni verður mætt með lækkun á áætluðum rekstrarafgangi og fært á tegundarlykilinn 1691 á hverja stofnun fyrir sig samkvæmt skiptingu sbr. meðfylgjandi fylgiskjal.

Samtals hefur þá verið úthlutað kr. 78.282.884 til stofnana Akraneskaupstaðar á árinu 2022 vegna afleysingakostnaðar sem tilkominn er vegna langtímaveikinda starfsmanna.
Til máls tóku: EBr, SFÞ og RBS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 25 samtals að fjárhæð kr. 21.443.000 sem færast inn á tilteknar stofnanir Akraneskaupstaðar sbr. meðfylgjandi bréf vegna viðaukans. Ráðstöfuninni er mætt með lækkun á áætluðum rekstrarafgangi ársins 2022.

Samþykkt 9:0

Fylgiskjöl:

11.Notendaráð um málefni fatlaðs fólks 2022-2026

2206183

Bæjarráð lagði við bæjarstjórn Akraness að Halldór Jónsson yrði skipaður formaður notendaráðs tímabilið 2022 til 2026 en auk hans er ráðið skipað þeim Ágústu Rósu Andrésdóttur og Ólöfu Guðmundsdóttur sbr. fund bæjarstjórnar nr. 1355 frá 7. júní síðastliðnum.

Bæjarráð lagði til við bæjarstjórn Akraness að Sylvía Björg Kristinsdóttir yrði skipuð varafulltrúi í notendaráði en það láðist að skipa fulltrúann á tilvitnuðum fundi bæjarstjórnar síðastliðið sumar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að skipa Halldór Jónsson formann notendaráðs vegna tímabilsins 2022 - 2026.

Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að skipa Sylvíu Björg Kristinsdóttur, varafulltrúa notendaráðs vegna tímabilsins 2022 - 2026.

Samþykkt 9:0

12.Fjárhagsáætlun Höfða 2023 - 2026

2211018

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 8. desember síðastliðinn að vísa fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024 til og með 2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fram fer þriðjudaginn 13. desember næstkomandi.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 12, nr. 13 og nr. 14 verði tekin til umræðu saman. Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 14 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárhagsáætlun Höfða undir lið nr. 12 og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun undir lið nr. 13.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024 til og með 2026.

Samþykkt 9:0

13.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2023 - 2026

2208072

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðinn að vísa fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024 til og með 2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fram fer þriðjudaginn 13. desember næstkomandi.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024 til og með 2026.

Samþykkt 9:0

14.Fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024-2026

2207107

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. desember síðastliðnum að vísa fjárhagsáætlun ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2024 til og með 2026 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fram fer þriðjudaginn 13. desember næstkomandi.
Til máls tóku:
SFÞ sem gerir grein fyrir helstu breytingum á milli umræðna sem og helstu forsendum fjárhagsáætlunarinnar.

Framhald umræðu:
LL, GIG, KHS, JMS og RBS sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Framsóknar og frjálsra:
Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra fagna fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2023 til 2026.

Áætlunin er í senn metnaðarfull og framsækin. Nokkrum af þeim stóru verkefnum sem hófust á síðasta kjörtímabili er senn að ljúka, á meðan önnur eru komin af stað eða hefjast á næstu misserum. Á kjörtímabilinu 2018 til 2022 fór fram mikil vinna við stefnumótun framtíðaruppbyggingu innviða og því fögnum við bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra að núverandi meirihluti kjósi að vinna áfram eftir þeirri stefnumótun.

Stefnumótun um uppbyggingu Grundaskóla, íþróttamannvirkja við Jaðarsbakka, Samfélagsmiðstöðvar, áhaldahúss, Búkollu og flöskumóttöku auk endurbóta á Brekkubæjarskóla og undirbúning að byggingu á nýjum leikskóla.

Við fögnum því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur horfið frá þeim áformum sem kynnt voru við fyrri umræðu áætlunarinnar og fólu í sér mikla hækkun fasteignagjalda. Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra hafa lagt á það mikla áherslu við gerð fjárhagsáætlunar að ekki verði kvikað frá þeirri vegferð sem mörkuð var af síðustu bæjarstjórn og skilaði einum lægstu álögum fasteignagjalda á meðal sveitarfélaga í landinu.

Samhliða gerð fjárhagsáætlunar hefur farið fram mikil greiningarvinna á öllum sviðum bæjarins. Því miður er það svo að sá góði árangur sem náðst hefur síðustu ár er ekki að endurspeglast í þeirri áætlun sem nú er til afgreiðslu. Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra hafa bent á þá staðreynd að sá vöxtur sem birtist á milli ára er langt umfram auknar tekjur og við því verði að bregðast.

Á milli umræðna um fjárhagsáætlunina hefur farið fram mikil umræða þar sem allir bæjarfulltrúar hafa komið að borðinu og fyrir það erum við þakklát. Það er einlæg trú okkar bæjarfulltrúa Framsóknar og frjálsra að við höfum tækifæri til þess að snúa vörn í sókn og sækja fram af fullum krafti. Tækifærin eru hér, nýtum þau!

Ragnar Sæmundsson (sign)
Liv Ase Skarstad (sign)
Sædís Sigurmundsdóttir (sign)

Framhald umræðu:
EBr, SFÞ, LÁS og KHS sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar:

Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram til afgreiðslu í bæjarstjórn inniheldur skýra framtíðarsýn um metnaðarfulla uppbyggingu og öfluga þjónustu Akraneskaupstaðar, sem byggir á ábyrgri fjármálastjórn og traustum rekstri. Engum dylst að á undanförnum árum hefur samdráttur átt sér stað í íslensku efnahagslífi og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Ábyrgð og festa í fjármálastjórn Akraneskaupstaðar um langa hríð hefur hins vegar tryggt það að fjárhagsstaða kaupstaðarins er sterk og skapar möguleika til að sækja fram, íbúum á Akranesi til heilla.

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um rúmar 252 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 142 milljónir króna. Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum upp á rúmlega 2,5 milljarða króna sem sýnir glögglega metnað bæjarstjórnar til að halda áfram uppbyggingu mikilvægra innviða með það að markmiði að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Eins og áður sagði er efnahagslíf á Íslandi í þrengingum. Verðbólga hefur vaxið, vaxtastig er hátt og heimilin í landinu finna sannarlega fyrir verðhækkunum í sínu daglega lífi. Bæjarstjórn kemur til móts við heimili og fyrirtæki á Akranesi með því að lækka álagningarprósentur fasteignagjalda, með það að markmiði að draga úr áhrifum hækkunar fasteignamats á upphæð fasteignagjalda. Leikskólagjöld hækka ekkert á milli ára og sama gildir um gjaldskrá félagslegrar heimaþjónustu, en þannig hlífum við sérstaklega þeim hópum sem þiggja og greiða fyrir þessa þjónustu, fyrir verðhækkunum sem að öðrum kosti hefðu haft áhrif á heimilisbókhaldið.

Vissulega eru ýmis atriði í rekstri kaupstaðarins sem þarfnast skoðunar. Launakostnaður hefur farið vaxandi á undanförnum árum hjá Akraneskaupstað eins og hjá öðrum sveitarfélögum, fyrst og fremst vegna fjölgunar stöðugilda í fjölbreyttri þjónustu bæjarins. Þá sjást þess einnig skýr merki að kostnaður við félagsþjónustu, sértæk búsetuúrræði og þjónustu við fatlaða hafi aukist ár frá ári og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga séu engan veginn í takt við þá þróun. Þetta er verkefni sem er í skoðun og von er á niðurstöðum úttektar á kostnaðarskiptingu vegna málefna fatlaðra snemma á næsta ári. Við bindum vonir við að þær niðurstöður leiði til leiðréttingar á þeirri ójöfnu stöðu sem uppi er og að ríkið komi í auknum mæli að fjármögnun þjónustunnar í samræmi við sínar skyldur.

En Akranes er sannarlega samfélag í sókn. Aldrei hefur jafn miklu fjármagni verið veitt til fjárfestinga og framkvæmda og við erum hvergi nærri hætt.

Stærstu fjárfestingarverkefni næsta árs eru áframhald uppbyggingar á nýju íþróttahúsi við Jaðarsbakka og stórfelldar endurbætur og í raun endurbygging á hluta húsnæðis Grundaskóla. Meðal annarra verkefna sem áætluð eru á næstu árum má nefna endurbætur á húsnæði Brekkubæjarskóla, byggingu húsnæðis fyrir áhaldahús, dósamóttöku og Búkollu og byggingu á nýjum íbúðakjarna fyrir fatlaða. Þá ætlum við að byggja samfélagsmiðstöð þar sem aðstaða verður fyrir fjölbreytta þjónustu á vegum bæjarfélagsins. Þá má einnig nefna að á næstu árum verður unnið að verulegum framkvæmdum í gatnagerð, en í fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að á árinu 2023 verði lagðar nýjar götur fyrir um 600 milljónir króna og þeirri gatnagerð svo haldið áfram af krafti næstu ár þar á eftir.

Þessi framtíðarsýn er í samræmi við þá ímynd sem við viljum skapa til að laða nýja íbúa og ný fyrirtæki hingað á Akranes. Sú ákvörðun bæjarstjórnar að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði og halda aftur af gjaldskrárhækkunum þjónustu er mikilvægur þáttur í þeirri framtíðarsýn.

Við, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þökkum bæjarfulltrúum Framsóknar og frjálsra fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum við gerð fjárhagsáætlunar áranna 2023 - 2026. Jafnframt þökkum við bæjarstjóra og embættismönnum bæjarins fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.
Sú fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir blæs okkur bjartsýni í brjóst og við hlökkum til að starfa eftir henni á næstu árum, Akranesi og Akurnesingum öllum til heilla.

Líf Lárusdóttir (sign)
Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Einar Brandsson (sign)
Jónína Margrét Sigmundsdóttir (sign)
G. Ingþór Guðjónsson (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)

Framhald umræðu:
SAS, RBS, EBr og LL.

Ekki frekari umræða og gengið til atkvæðagreiðslu.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:

1. Álagning gjalda 2023.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2023:
a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2023.
Samþykkt 9:0

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts verða eftirfarandi á árinu 2023:

i. 0,2306% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga
(lækkað frá fyrra ári, var 0,2514%).

Samþykkt 9:0

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
(óbreytt frá fyrra ári)
Samþykkt 9:0

iii. 1,3718% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
(lækkað frá fyrra ári, var 1,4000%)
Samþykkt 9:0

c. Sorphreinsunargjald verði kr. 19.256 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp). Sorpeyðingargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði kr. 16.422 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
(óbreytt frá fyrra ári)
Samþykkt 9:0

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2023 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2023.
Samþykkt 9:0

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2023, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2023.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem byggir á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Heimilt er með sértækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki um 7,0% þann 1. janúar 2023 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrá.
Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2023:

A. Gjaldskrá leikskóla, verður óbreytt og tekur ekki hækkun.
Samþykkt 9:0

B. Gjaldskrá vegna skólamáltíða, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

C. Gjaldskrá frístundar, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

D. Gjaldskrá dagstarfs, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

E. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

F. Gjaldskrá íþróttamannvirkja, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

G. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar, verður óbreytt og tekur ekki hækkun.
Samþykkt 9:0

H. Gjaldskrá Bókasafns Akraness, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

I. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

J. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

K. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

L. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

M. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

N. Gjaldskrá Akranesvita, tekur almennri hækkun.
Samþykkt 9:0

P. Gjaldskrá Tjaldsvæðisins á Akranesi (sértæk ákvörðun í samvinnu við þjónustuveitanda)
Samþykkt 9:0

Q. Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi verður óbreytt og tekur ekki hækkun.
Samþykkt 9:0


3. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2023.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 2,0 m.kr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2023 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2024 - 2026, ásamt tillögum.

Samþykkt 9:0

Fjárhagsáætlun 2023 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 142,2 m.kr. og að handbært fé í árslok verði um 1269,3 m.kr.

15.Fundir bæjarstjórnar

2212074

Gerð er tillaga um frestun fundar bæjarstjórnar sem samkvæmt fundaáætlun ársins er þann 27. desember næstkomandi.

Hefð er fyrir því að bæjarstjórn Akraness fundi aðeins einu sinni í desember ár hvert.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að næsti fundur bæjarstjórnar verði þriðjudaginn þann 10. janúar nk. kl. 17:00.

Samþykkt 9:0

16.Fundargerðir 2022 - bæjarráð

2201002

3518. fundargerð bæjarráðs frá 24. nóvember 2022.
3519. fundargerð bæjarráðs frá 1. desember 2022.
3520. fundargerð bæjarráðs frá 8. desember 2022.
Til máls tóku:
EBr um fundargerð nr. 3520, dagskrárlið nr. 1.
RBD um fundargerð nr. 3520, dagskrárlið nr. 1.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

17.Fundargerðir 2022 - skóla- og frístundaráð

2201004

205. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 7. desember 2022
Til máls tók:
SAS um dagskrárlið nr. 2.

Fundargerðin lögð fram til kynningar

18.Fundargerðir 2022 - skipulags- og umhverfisráð

2201005

251. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 28.11.2022
252. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 5.12.2022
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

19.Fundargerðir 2022 - velferðar- og mannréttindaráð

2201003

193. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 6. desember 2022.
Til máls tóku:
KHS um dagskrárliði nr. 1 og nr. 2.
LL um dagskrárlið nr. 2.
EBr um dagskrárlið nr. 2.
KHS um dagsrkárlið nr. 2.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

20.Fundargerðir 2022 o.fl. - Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

2203254

135. fundargerð stjórnar Höfða frá 28. nóvember 2022 ásamt fylgigögnum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

21.Fundargerðir 2022 og tilkynningar - Samband íslenskra sveitarfélaga

2201057

915. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn föstudaginn 25. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

22.Fundargerðir 2022 - Orkuveita Reykjavíkur

2203045

322. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 26. september 2022.
323. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 3. október 2022.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

23.Fundargerðir 2022 - Heilbrigðisnefnd Vesturlands og fylgiskjöl

2201046

179. fundargerð Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 7. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Forseti þakkar bæjarfulltrúum fyrir samstarfið á árinu 2022 og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Fundi slitið - kl. 20:36.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00