Kona á skjön, um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi

Kona á skjön, um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi
Sýning á Bókasafni Akraness
Laugardaginn 10. mars næstkomandi kl. 13 opnar sýningin Kona á skjön, um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi. Kristín S. Einarsdóttir og Marín Guðrún Hrafnsdóttir opna sýninguna en einnig verður boðið uppá tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Akraness. Kaffiveitingar í boði bókasafnsins.
Rithöfundarferill Guðrúnar frá Lundi er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu og bækurnar tróna á toppi vinsældalista í rúma tvo áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út og eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum. Þetta gerðist í heimi fjölda hindrana fyrir alþýðukonu sem þráði að skrifa skáldsögur.
Guðrún var dáð af stórum hluta þjóðarinnar en raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli. Saga Guðrúnar birtir því bæði ævintýralegar og endurteknar vinsældir en einnig þann þunga undirtón háðs sem einkenndi um tíma alla umræðu um verk hennar.
Sýningin er farandsýning og var fyrst sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017, síðna á Borgarbókasafni Reykjavíkur í janúar- mars 2018 og nú á Bókasafni Akraness. Sýningarhöfundar og hönnuðir eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir, kennari og leiðsögumaður og Marín Guðrún Hrafnsdóttir, bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar.
Sýningin stendur yfir til 21. apríl og er opin á afgreiðslutíma safnsins. Í lok sýningartímans verður efnt til kaffikviss / spurningakeppni úr verkum Guðrúnar frá Lundi. Nánar auglýst síðar. Hvetjum bæjarbúa til að rifja upp kynni sín af Guðrúnu og verkum hennar og taka þátt í leiknum.