Að brjóta 1000 trönur
Að brjóta 1000 trönur - lokahóf trönuverkefnis þeirra Borghildar Josuadóttur og Bryndísar Siemens þar sem bæjarbúar komu saman og brutu trönur.
Origami er aldagamal japanskt pappírsbrot og trönur eru heilagir og táknrænir fuglar í Japan og segir þjóðtrúin að með því að brjóta 1000 trönur á einu ári verði ósk manns uppfyllt. Markmið okkar var að ná að brjóta 1000 trönur fyrir friði í heiminum, en þær urðu nær 2000. Við byrjuðum á verkefninu í janúar og unnum það í samvinnu við Bókasafn Akraness, Brekkubæjarskóla, Fjölbrautaskólann, Grundaskóla og Félagsstarf aldraðra. Úr þessu urðu sannkölluð listaverk og stærst þeirra er staðsett á Bókasafni Akraness, hin eru á bókasöfnum skólanna og í aðstöðu Félagsstarfs Akraneskaupstaðar. Verkin er hægt að skoða á opnunartíma þessara stofnana. Nú er komið að því að ljúka verkefninu með lokahófi á Bókasafninu miðvikudaginn 29. okt. klukkan 17:00 og þar munum við kynna verkefnið í heild sinni.

Origami
Origami er aldagamalt japanskt pappírsbrot og er sérstaklega vinstælt að brjóta trönur. Þær eru heilagir og táknrænir fuglar í Japan og segir þjóðtrúin að með því að brjóta 1000 trönur á einu ári verði ósk manns uppfyllt. Þær hafa djúpa táknræna merkingu í japanskri menningu og eru tengdar ýmsum jákvæðum eiginleikum og hugmyndum. Einnig eru þær tákn um langlífi og heilbrigði, gæfu, heppni og velgengni og því vinsælt tákn á hátíðum og í brúðkaupum. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar urðu trönur sérstaklega táknrænar fyrir frið í heiminum. „Að brjóta 1000 trönur“ hefur breiðst út um allan heim og byggir á sögunni um litlu stúlkuna Sadako Sasaki sem var tveggja ára þegar sprengjan féll á Hiroshima (1945). Vegna geislavirkni frá sprengjunni greindist hún 10 árum seinna með hvítblæði eins og mörg önnur börn. Vinkona hennar færði henni trönu á sjúkrahúsið og í framhaldinu fór Sadako að brjóta trönur í þeirri von að hún næði 1000 trönum og að ósk hennar um heilbrigði myndi rætast. Sadako náði að brjóta sexhundruð fjörutíu og fjórar trönur fyrir dauða sinn. Vinir hennar ákváðu síðan að brjóta þær trönur sem upp á vantaði í þúsund. Í framhaldi af því hófu þeir síðan söfnun fyrir minnismerki um Sadako. Fimmta maí árið 1958 var minnismerkið (The Children´s Peace Monument) vígt í friðargarðinum við Hiroshima (Hiroshima Peace Memorial Park).






