Þjónusta við eldri borgara
Þjónusta við eldri borgara er hluti af velferðar- og mannréttindasviði Akraneskaupstaðar og hefur verkefnastjóri heimaþjónustu, í samvinnu við sviðsstjóra og félagsmálastjóra fjölskyldusviðs, umsjón með daglegum rekstri félagslegrar heimaþjónustu, heimsendingu matar, félags- og tómstundastarfi aldraðra og samskiptum við Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni (FEBAN). Verkefnastjóri sinnir almennt uppbyggingu og þróun málaflokksins, fræðslustarfi og kynningu á þjónustu við eldri borgara.
Nánari upplýsingar gefur Laufey Jónsdóttir verkefnisstjóri heimaþjónustu bæði í tölvupósti á netfangið laufey.jonsdottir@akranes.is og í síma 433 1000.
Gagnlegar upplýsingar um einstaka málaflokka má lesa sig til um hér að neðan.
Smelltu hér til sækja um stuðningsþjónustu
Stuðningsþjónusta ( stuðningur á heimili)
Stuðningsþjónusta getur verið veitt innan og utan heimilis umsækjanda og er alla jafna um einstaklingsmiðaðan stuðning að ræða. Með stuðningsþjónustu er átt við stuðning við heimilishald, athafnir daglegs lífs og/eða félagslegan stuðning til þess að rjúfa félagslega einangrun.
Markmið stuðningsþjónustu er ávallt að veita umsækjanda stuðning og þjálfun til þess að geta búið heima og verið félagslega virkur.
Stuðningur getur falið í sér:
• stuðning við heimilishald s.s. þrif á heimili, matseld og önnur heimilisstörf
• stuðning við athafnir daglegs lífs s.s. persónulega aðhlynningu, hreinlæti, klæða sig/hátta,
borða, taka inn lyf og annað sem varðar athafnir daglegs lífs
• félagslegan stuðning og/eða stuðning við rekstur erinda
• heimsendan mat
• öryggisinnlit
• sérhæfða ráðgjöf
Heimsending matar og akstursþjónusta
Heimsending matar
Heimsendur matur er í boði fyrir þá sem ekki geta sjálfir séð um matseld í skemmri eða lengri tíma. Dvalar- og hjúkrunarheimilið Höfði sér um að útbúa matinn og má sjá matseðil þeirra hér. Hægt er að sækja um heimsendingu matar til Laufeyjar Jónsdóttir verkefnastjóra heimaþjónustu í tölvupósti á netfangið laufey.jonsdottir@akranes.is og í síma 433 1000.
Akstursþjónusta
Þeir íbúar Akraneskaupstaðar sem eru 67 ára og eldri, búa sjálfstætt og eru ófærir um nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki geta sótt um akstursþjónustu í skipulagt þjónustustarf. Umsóknir um akstursþjónustu skulu berast til verkefnastjóra heimaþjónustu sem metur umsóknir í samráði við félagsmálastjóra.
Færni- og heilsumat
Færni- og heilsumatsnefnd Vesturlands
Færni- og heilsumat er faglegt, einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Um er að ræða staðlað mat ásamt skilgreindum upplýsingum frá heilbrigðis- og félagsþjónustu auk læknabréfa frá læknum viðkomandi, eftir því sem við á. Einnig er gert færni- og heilsumat fyrir tímabundna dvöl í hjúkrunarrými.
Umsóknir má finna á vef landlæknis:
- Umsókn um færni- og heilsumat fyrir búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum
- Umsókn um tímabundna dvöl (hvíldarinnlögn) í hjúkrunarrými
Umsókn um færni- og heilsumat á Vesturlandi þarf að berast til Færni- og heilsumatsnefndar Vesturlands en nefndin er með aðsetur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands að Borgarbraut 65 í Borgarnesi. Færni- og heilsumat er einungis framkvæmt ef einstaklingur er þegar tilbúinn til búsetu á öldrunarheimili og öll félagsleg þjónusta og heimahjúkrun til dvalar í heimahúsi hafi verið reynd, þar með talið mat á heilsufari og endurhæfing eftir því sem við á.
Starfsmaður færni- og heilsumatsnefndar Vesturlands er Erla Katrín Kjartansdóttir, sjúkraliði og er hún með aðsetur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Borgarnesi. Hægt er að ná í Erlu Katrínu í síma 432 1430 og eru símatímar á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 13:00 - 16:00
Félagsstarf Akraneskaupstaðar
Félagsstarf eldri borgara og öryrkja fyrir 67 ára og eldri er starfrækt að Dalbraut 4 á Akranesi. Félagsstarfið er ætlað fyrir íbúa Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar og er það opið alla virka daga frá kl. 13:00-16:00. Vikan skiptist þannig að á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum er starfsemin ætluð eldri borgurum og þriðjudagarnir ætlaðir öryrkjum.
Starfinu er ætlað að fyrirbyggja félagslega einangrun og koma til móts við áhugasvið, færni og þekkingu þátttakenda á hverjum tíma í ýmis konar listsköpun og verkefnum sem oft eru árstíðabundin. Félagsstarf aldraða hefur það markmið að stuðla að samskiptum og veita félagsskap.
Síminn í félagsstarfinu er 8417116
Umsjón með félagsstarfinu hefur Laufey Jónsdóttir verkefnisstjóri heimaþjónustu og gefur hún nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangið laufey.jonsdottir@akranes.is og í síma 433 1000.
Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni - FEBAN
Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og réttinda eldra fólks á Akranesi og nágrenni og vinna að málefnum aldraðra í landinu. Félagið var stofnað 5. febrúar 1989 á Hótel Akranesi. Til stofnfundarins var boðað af undirbúningsnefnd sem félagsmálaráð Akraneskaupstaðar skipaði. Í nefndinni voru: Herdís Ólafsdóttir, Lilja Ingimarsdóttir og Sveinn Guðmundsson. Valdimar Indriðason var fundarstjóri og Auður Sæmundsdóttir var fundarritari. Húsfyllir var á stofnfundinum og 200 manns skráðu sig í félagið. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Magnús Kristjánsson.
Starfsemi félagsins hefur undið upp á sig á þessum rúmlega 24 árum sem það hefur starfað og núna eru 645 skráðir félagar. Til að gerast félagi þarf viðkomandi að vera orðinn 60 ára. Öllum sem verða 60 ára á árinu er sent kynningarbréf um starfsemi félagsins og því fylgir umsóknareyðublað, síðasta fréttabréf og sú dagskrá sem unnið er eftir á þeirri stundu.
Í stjórn og varastjórn eru 10 manns. Með stjórninni starfa 8 nefndir sem sinna hver um sig sérstökum verkefnum eins og nöfn þeirra bera með sér. Nefndirnar eru: húsnefnd, ferða- og skemmtinefnd, kórnefnd, íþróttanefnd, menningar- og fræðslunefnd, laganefnd, lífeyris- og trygginganefnd og samstarfsnefnd við Akraneskaupstað. Það eru 50 manns sem sitja í stjórn og nefndum félagsins.
Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni er aðili að Landssambandi eldri borgara, skammstafað LEB. Eldri borgara félögin eiga hvert á sínu svæði að reyna að vinna á móti félagslegri einangrun. Landssamband eldri borgara berst fyrir félögin við ríkisvaldið og mestur er bardaginn við Heilbrigðisráðuneytið.
Félagið hefur aðsetur að Dalbraut 4 á 1.hæð. Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins gefur Ragnheiður Hjálmarsdóttir formaður í síma 431 2000.
Heilsuefling
Yfir vetrartímann býður Akraneskaupstaður fólki sem er 67 ára og eldra upp á fjölbreytta íþróttaiðkun undir leiðsögn íþróttakennara. Heilsueflingin er auglýst sérstaklega í september og janúar ár hvert.
Auk þess býður FEBAN upp á margvíslega heilsueflingu, s.s. boccia, sundleikfimi, golf og fleira. Nánari upplýsingar veitir formaður FEBAN í síma 431-2000.
Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili