Vilja kanna kosti og galla sameiningar við Hvalfjarðarsveit
Bæjarstjórn Akraness undirritaði á fundi sínum í gær bréf til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þar sem bæjarfulltrúar lögðu til að fenginn yrði óháður aðili til að kanna kosti og galla mögulegrar sameiningar sveitarfélaganna tveggja.
Í bréfinu segir: "Það er samdóma álit okkar bæjarfulltrúa á Akranesi, að á næstu árum muni okkur sem byggjum svæðið norðan Hvalfjarðar falla í skaut gríðarleg tækifæri til uppbyggingar og fjölgunar íbúa. Við sjáum þessa nú þegar merki, m.a. í auknum áhuga á uppbyggingu atvinnu á Grundartangasvæðinu og því að undirbúningur að lagningu Sundabrautar er nú loks kominn á góðan rekspöl. Það er á ábyrgð okkar sem nú stýrum sveitarfélögunum tveimur á svæðinu að marka stefnuna til framtíðar og tryggja að framtíðaruppbygging sveitarfélaganna verði farsæl, bæði fyrir okkur sem byggjum þau í dag og verðandi íbúa."
Þar kemur jafnframt fram að í samráðsgátt stjórnvalda liggi nú fyrir drög að frumvarpi til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem stefnt er að því að tryggja skýrar reglur um kostnaðarskiptingu sem byggi á raunkostnaði við starfsemi í hverju sveitarfélagi og veita sveitarfélagi sem sinnir verkefnum fyrir annað sveitarfélag heimild til að reikna sérstakt álag vegna veittrar þjónustu. "Verði þessi áform að lögum munu þau hafa bein áhrif á núverandi samvinnu sveitarfélaganna, enda ljóst að gjaldtaka og samningar um þjónustu þurfa að taka mið af raunverulegum kostnaði og því álagi sem felst í þjónustuveitingunni."
Þá segir einnig: "Bæjarstjórn telur bæði almennt og í ljósi áforma stjórnvalda og með hagsmuni íbúa beggja sveitarfélaga að leiðarljósi, rétt að kanna í sameiningu kosti og galla mögulegrar sameiningar sveitarfélaganna. Slík sameiningarathugun gæti skapað heildstæðari mynd af því hvernig best verður staðið að rekstri, þjónustu og framtíðarþróun svæðisins, með það að markmiði að tryggja sjálfbærni og gæði þjónustu til íbúa til framtíðar.
Bæjarstjórn telur mikilvægt að óháður aðili sjái um hina eiginlegu úttekt og greiningu og leggi jafnframt fram leiðir til að efla upplýsingamiðlun og samráð við íbúa beggja sveitarfélaga á öllum stigum."
Bæjarstjórn leggur til að settur verði á laggirnar sameiginlegur stýrihópur sveitarfélaganna sem komi sér saman um úttektaraðila og tryggi upplýsingaflæði til sveitarstjórnar/bæjarstjórnar og íbúa í báðum sveitarfélögum. "Bæjarstjórn leggur áherslu á að í slíkri könnun felst engin skuldbinding um frekari úrvinnslu en ákvörðunarvald þar að lútandi yrði alfarið í höndum hvors sveitarfélags um sig. Bæjarstjórn vonar að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar taki vel í þessa tillögu og sé reiðubúin til samtals um hana og væntir svars innan eins mánaðar frá dagsetningu bréfsins."