Hoppland á sjónvarpsskjánum í gær
12.09.2025

Bjarki Sigurðsson fréttamaður í heita pottinum við Hoppland ásamt Konna Gotta, eiganda Hopplands, og hluta af krakkahópnum sem heldur til Noregs í október.
Hoppland hér á Akranesi fékk góða heimsókn á dögunum þegar fréttamaður Íslands í dag, Bjarki Sigurðsson, kom í heimsókn. Tilefnið var fyrirhuguð æfinga- og keppnisferð Hopplandskrakka til Noregs.
Núna á laugardag, 13. september, mun hópurinn hoppa í sjóinn við Hoppland í átta klukkustundir samfellt (frá kl. 12-20), framkvæma hinar ýmsu dýfur og fleira. Hægt verður að mæta á staðinn og styrkja hópinn til ferðarinnar með því að heita á þau, snúa "Hopphjólinu" eða kaupa kaffi og kökur af foreldrum þeirra.
Afraksturinn af heimsókninni birtist á skjánum í gærkvöldi. Hægt er að horfa á umfjöllunina með því að smella á myndina hér fyrir neðan. Sjón er sögu ríkari.