Hlakka til að fylla bæinn af tónlist um helgina

Um 320 nemendur í tónlistarskólum um land allt munu lita bæjarlífið hér á Akranesi um helgina ásamt foreldrum og kennurum. Tilefnið er svokallað Strengjamót sem er haldið annað hvert ár á Íslandi og var raunað haldið á Akranesi í fyrsta skipti árið 1992.
“Það verður æft um allan bæ, allt frá leikskólum upp í íþróttamiðstöðvar,” segir Úlfhildur Þorsteinsdóttir fiðlukennari við Tónlistarskólann á Akranesi sem hefur ásamt Heklu Finnsdóttur og foreldrum nemenda í Tóska haft veg og vanda af skipulagningu Strengjamótsins. “Við Hekla höfum unnið að þessu í rúmt ár og nú er komið að því að uppskera eftir mikla vinnu,” segir Úlla og vill koma á framfæri þökkum til forsvarsmanna stofnana hér í bæ fyrir gott samstarf í aðdragandanum. “Mót sem þetta er gífurleg vítamínsprauta fyrir nám þessara nemenda. Tónlistarskólar eru misstórir svo litlu skólarnir fá að spila með mörgum og stóru skólarnir að kynnast enn fleirum.”
Á sunnudag verða svo haldnir uppskerutónleikar í íþróttahúsinu við Vesturgötu kl. 14. Tónleikarnir eru hluti af Barnamenningarhátíð. Þeir eru opnir öllum og aðgangur er ókeypis. “Það er ekki oft sem maður fær að heyra 320 börn spila saman,” segir Úlla og hvetur bæjarbúa til að mæta. “Það eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.”