Þegar foreldrar velja dagforeldri fyrir barn sitt er mikilvægt að þeir kynni sér vel þjónustuna sem í boði er s.s. allan aðbúnað, leikfangakost, hvíldaraðstöðu og leikaðstöðu bæði úti og inni. Foreldrar skulu gera skriflegan samning við dagforeldrið um dvalartíma og gjald fyrir vistunina. Ákvörðun um vistun barnsins er ætíð á ábyrgð foreldra.
Aðlögun barns hjá dagforeldri skiptir sköpum og getur tekið mislangan tíma háð því hvaða barn á í hlut. Barnið er að fara úr aðstæðum sem það þekkir og er öruggt í, frá foreldrum sínum yfir í daggæslu þar sem þau þurfa, jafnvel í fyrsta sinn, að deila athyglinni með öðrum börnum. Það er því mjög eðlilegt að börnin bregðist misjafnlega við. Sum eru mjög ósátt til að byrja með á meðan önnur una glöð við sitt. Foreldrar þurfa því að athuga þarfir barnsins vegna þess að barnið þarf að geta treyst dagforeldrinu áður en það sleppir hendi af foreldrunum.
Daggæsla í heimahúsi á að vera góð og uppbyggileg fyrir barnið og skal vera rekin af fagmennsku og umhyggju fyrir börnum. Foreldrar ættu að hafa þetta í huga þegar þeir velja dagforeldri fyrir barnið sitt. Gott er að hafa að leiðarljósi að foreldrar eru að kaupa þjónustu af dagforeldrum og því eðlilegt að gera kröfur um gæði.