Fara í efni  

Bæjarstjórn

1323. fundur 01. desember 2020 kl. 17:00 - 00:11 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í fjarfundi og í lok fundar samþykkja fundarmenn fundargerðina með rafrænum hætti.

Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2010095 Deiliskipulag Dalbrautarreits Þjóðbraut 5, mál nr. 2004155 Deiliskipulag Stofnanareits Kirkjubraut 39 og mál nr. 2011275 Aðal- og deiliskipulag Skógarhverfis athugasemd við skipulag.

Málin verða nr. 6, 7 og 8 í dagskránni verði afbrigðin samþykkt.

Samþykkt 9:0

1.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2021-2024

2010230

Bæjarráð samþykkti 2:0 fyrirliggjandi fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2021 og þrigga ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024.

Áætluninni er vísað til endanlegrar ákvörðunar í bæjarstjórn Akraness.
Forseti gerir grein fyrir fyrirkomulagi vegna umræðna um fjárhagsáætlun og gerir að tillögu sinni að mál nr. 1 og mál nr. 2 verði tekin til umræðu saman.

Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar í heild sinni undir dagskrárlið nr. 2 en einnig færð sérstaklega til bókar undir lið nr. 1 atkvæðagreiðsla um fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunina.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.


Afgreiðsla: Forseti ber upp eftirfarandi tillögu að samþykkt bæjarstjórnar Akraness:

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024, til síðari umræðu í bæjarstjórn Akrness sem fer fram þriðjudaginn 15. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0

2.Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2022-2024

2009162

Bæjarráð samþykkir 2:0 að vísa fjárhagsáætlun árins 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fram fer þriðjudaginn 1. desember næstkomandi.
Til máls tóku:

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni og tillögum sem henni fylgja og fór yfir helstu áhersluþætti og hagstærðir.

Framhald umræðu:
ELA, EBr, KHS, BD, RBS, SMS, RÓ, ELA og SMS sem leggur fram eftirfarandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á rekstri og fjárhag Akraneskaupstaðar:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að gerð verði sjálfstæð úttekt á rekstri og fjárhag Akraneskaupstaðar með það að markmiði að koma fram með tillögur að hagræðingu í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins.

Greinagerð með tillögunni:
Á þessu kjörtímabili og kjörtímabilinu á undan hefur verið rætt um að launakostnaður Akraneskaupstaðar sem hlutfall af tekjum sé hár borið saman við sambærileg sveitarfélög. Þá sýnir sú rekstraráætlun sem meirihluti bæjarráðs afgreiddi til umræðu í bæjarstjórn að við kaupstaðnum blasa erfiðir tímar í rekstri ef ekki verður gripið til aðgerða til að stemma stigu við sívaxandi kostnaði sem ekki er studdur með vexti í tekjum.

Nýlega var farið í stjórnsýsluúttekt sem leiddu af sér tillögur að skipulagbreytingum sem nú eru til umræðu í bæjarstjórn. Þær breytingar auka enn við launakostnað kaupstaðarins án þess að þess sjáist merki í áætlun til þriggja ára að breytingarnar leiði af sér hagræðingu eða bætta rekstrarafkomu. Markmiðið með þeirri úttekt var að auka skilvirkni í verkferlum, ræða vinnustað framtíðarinnar, kanna tækifæri í upplýsingatækni og nútímavæða verkferla. Ekki var sérstaklega horft til þess að ná fram hagræðingu í þessari stjórnsýslu úttekt sem rímar við fyrirliggjandi tillögur frá meirihluta bæjarráðs.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ástæðu til þess að kafað verði ofan í hvernig megi viðhalda þjónustustigi við íbúa og um leið hagræða í rekstri til þess að ná fram sjálfbærni í rekstri sveitarfélagsins. Rekstraráætlun til þriggja ára sem er til umræðu í bæjarstjórn sýnir vöxt í útgjöldum umfram tekjur sem leiðir af sér að stigvaxandi hallarekstur næstu árin. Mörg sveitarfélög hafa á undanförnum árum látið rýna stjórnsýslu, rekstur og fjárhag til þess að viðhalda eða bæta þjónustu við íbúa og lækka kostnað. Í ljósi þess að launakostnaður sveitarfélagsins stefnir í að verða yfir 70% af tekjum sem er 15 prósentustigum hærra en gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum er nauðsynlegt að fara í naflaskoðun á rekstri sveitarfélagsins með hagsmuni íbúa framtíðarinnar að leiðarljósi. Það er því von undirritaðra bæjarfulltrúa að meirihluti bæjarstjórnar taki vel í þessa tillögu.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:
ELA, SMS og EBr. Gert fundarhlé kl. 20:00.

Framhald fundar kl. 20:18.

ELA og RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2021-2024:
Árið 2020, oft nefnt hið fordæmalausa ár eða ár heimsfaraldursins, hefur verið mikil rekstraráskorun fyrir Akraneskaupstað eins og mörg önnur sveitarfélög á Íslandi. Reksturinn hefur verið í járnum á árinu og samkvæmt útkomuspá mun Akraneskaupstaður verða rekinn með tapi í fyrsta sinn síðan árið 2012.

Fjárhagsáætlanagerðin fyrir 2021 og þriggja ára áætlun hefur gengið hægar fyrir sig en oft áður og ágreiningur verið milli bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúa meirihlutans, um leiðir til að mæta áskorunum í rekstri. Þar hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kallað eftir auknu aðhaldi í rekstri bæjarins. Í fyrirliggjandi rekstraráætlunum Akraneskaupstaðar til þriggja ára er gert ráð fyrir samfelldum taprekstri, sem uppsafnað nemur rúmum 700 milljónum króna. Þessa niðurstöðu geta bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki samþykkt og leggja til að á milli umræðna verði leitað frekara hagræðis í rekstri bæjarins með áherslu á að standa vörð um lögbundna þjónustu.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

VLJ óskar eftir að EBr varaforseti taki við stjórn fundarins þar sem hann óski eftir taka til máls undir þessum lið.

EBr tekur við stjórn fundarins.

Framhald umræðu:
VLJ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:

Meirihluti bæjarstjórnar, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra samþykkja framlagða fjárhagsáætlun ársins 2021 og þriggja ára áætlun 2022 ? 2024 við fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar er sterk en vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru þarf að gæta aðhalds í rekstri. Áhrif heimsfaraldurs eru þannig til komin að tekjur Akraneskaupstaðar standa í stað vegna þess að atvinnuleysi hefur aukist og framlag frá Jöfnunarsjóði er minna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Gjöld hafa hækkað umfram tekjur, m.a. vegna kjarasamninga og aukningar í þjónustu á velferðar- og mannréttindasviði.

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 182 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð samtals um 141 milljónir króna.

Á undanförnum árum hefur náðst góður árangur í rekstri bæjarins sem gaf bæjarfulltrúum möguleika á að fara í aðgerðir til viðspyrnu til að svara kalli atvinnulífs og íbúa með því að vernda heimili, fyrirtæki og félagasamtök fyrir mestu skakkaföllum. Samstaða var um það meðal allra bæjarfulltrúa um að fara í þessar aðgerðir þó það myndi þýða lakari rekstrarafkomu um tíma.

Áhrif heimsfaraldurs kórónaveru hefur ekki eingöngu haft efnahagsleg áhrif heldur einnig samfélagsleg. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram er viðbragð við mjög sérstöku ástandi þar sem fulltrúar meirihlutans setja sér skýr markmið um að standa vörð um grunnþjónustu í okkar góða samfélagi og mæta því álagi sem hefur orðið vegna aukinnar þjónustu í barnavernd og í félagsþjónustu á árinu.

Ábyrg fjármálastjórn gefur okkur svigrúm til að halda áfram þeirri stórsókn sem verið hefur í uppbyggingu innviða hér á Akranesi með það að markmiði að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Á þessu ári var Fimleikahúsið við Vesturgötu tekið í notkun, framkvæmdir hófust á skólalóð Brekkubæjarskóla, vinnuhópur settur af stað um hönnun á nýjum leikskóla, starfshópur settur af stað um lokahönnun íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum, lokahönd lögð á íbúðakjarna við Beykiskóga og íbúar hafa flutt inn, fyrstu lóðir á Sementsreitnum auglýstar til úthlutunar, framkvæmdir fóru af stað í Flóahverfi og breytingar á aðalskipulagi vegna þriðja áfanga Skógahverfis kláraðar og samþykktar í bæjarstjórn. Auk þessa var samþykkt að veita stofnframlög til uppbyggingar á íbúðum til að auka enn frekar húsnæðisöryggi íbúa.

Vegna styrkrar fjármálastjórnar á þessu kjörtímabili og á undanförnum kjörtímabilum, þá eru meiri- og minnihluti bæjarstjórnar sammála um að halda áfram þeirri stórfelldu uppbyggingu sem hefur verið í fjárfestingum og framkvæmdum á undanförnum árum. Þannig sýnir bæjarstjórnin öll að hún stendur áfram með fyrirtækjum og heimilum í samfélaginu þó að það þýði lakari afkomu um tíma og kalli á lántöku.

Í fjárhagsáætlun ársins 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 birtist áfram skýr framtíðarsýn bæjarstjórnar. Uppbygging Þjónustumiðstöðvar við Dalbraut mun klárast, framkvæmdir við nýjan leikskóla munu hefjast, lokahönnun á Jaðarsbökkum mun klárast og framkvæmdir fara í gang. Framkvæmdir við uppbyggingu Fjöliðjunnar munu fara af stað, uppbygging mun halda áfram á Dalbrautarreit sem mun auka enn frekar húsnæðisöryggi íbúa. Gatnagerð í Skógarhverfi þriðja áfanga mun fara af stað, framkvæmdir halda áfram við skólalóð Brekkubæjarskóla og hefjast við skólalóð Grundaskóla.

Bæjarfulltrúar meirihlutans þakka bæjarfulltrúum minnihlutans fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum fyrir fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar 2022 ? 2024.
Jafnframt þakka þau bæjarstjóra, endurskoðanda og embættismönnum bæjarins fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag fyrir fyrstu umræðu.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)

Framhald umræðu:
SFÞ.

VLJ tekur að nýju við stjórn fundarins.

Forseti ber upp þá tillögu að framkominni tillögu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um sjálfstæða úttekt á rekstri og fjárhag Akraneskaupstaðar með það að markmiði að koma fram með tillögur að hagræðingu í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins, verði vísað til frekari umræðu og afgreiðslu í bæjarráði á milli umræðna um fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar en síðari umræða um áætlunina fer fram þann 15. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu að samþykkt bæjarstjórnar Akraness um afgreiðslu fjárhagsáæætlunarinnar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að vísa fjárhagsáætlun vegna ársins 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024, sem og tillögum sem henni fylgja til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þriðjudaginn 15. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0

3.Umbótavinna á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstað

2001210

Stjórnkerfisbreytingar hjá Akraneskaupstað hafa verið til meðferðar hjá embættismönnum og kjörnum fulltrúum síðastliðna mánuði.

Upphafið af þeirri vinnu má rekja til samþykktar bæjarráðs Akraness frá 27. febrúar sl. um að ráðast í umbótavinnu á rekstri og innra vinnulagi kaupstaðarins. Markmið þess verkefnis var að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi stjórnsýslu sveitarfélagsins með breytingum á stjórnun, verkferlum og samstarfi.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti á fundi sínum þann 26. nóvember sl. nýtt skipurit ásamt greinargerð og tillögum um stjórnkerfisbreytingar.

Ákvörðuninni er vísað til málsmeðferðar í bæjarstjórn Akraness og gert er ráð fyrir tveimur umræðum, þ.e. 1. desember og 15. desember næstkomandi.
Til máls tóku:
RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við bæjarstjórn að tillaga Sjálfstæðisflokksins að Stjórnkerfisbreytingum fái efnislega umfjöllun samhliða tillögum sem lagðar eru fram af meirihluta bæjarstjórnar við fyrri umræðu í bæjarstjórn 1. desember 2020.

Greinagerð með tillögunni:
Í nýlegri stjórnsýsluúttekt Capacent á rekstri og innra vinnulagi Akraneskaupstaðar komu fram tillögur að skipulagsbreytingum sem nú eru lagðar fram, lítilega breyttar, til fyrri umræðu hér í bæjarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti að fara í fyrrgreinda úttekt með það að markmiði að draga fram, ef einhverjir væru, annmarka sem eru á þjónustu Akraneskaupstaðar við íbúa, fyrirtæki og stofnanir sveitafélagsins.

Capacent kom fram með tillögur sem til stóð að samþykkja óbreyttar og nær án umræðu í bæjarráði fyrr í sumar.Bæjarráð starfaði á þeim tíma í umboði bæjarstjórnar sem var í sumarfríi. Sjálfstæðisflokkurinn setti sig á móti afgreiðslunni þar sem engin umræða hafði átt sér stað á milli meiri og minni hluta í bæjarstjórn um tillögurnar.

Fallið var frá afgreiðslunni og henni frestað fram yfir sumarfrí bæjarstjórnar. Í október tóku oddvitar í bæjarstjórn samtal um hvernig málið skyldi unnið áfram. Undir lok mánaðarins birtu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra tillögu sem er lítið frábrugðin tillögu Capacent. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa aðra sýn á það hvaða skipulagsbreytingar geta styrkt rekstur sveitafélagsins með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu til oddvita Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra í tölvupósti þann 22. október sl. þar sem lögð er áhersla á að efla fjármáladeild Akraneskaupstaðar með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri, aukinni skilvirkni og auka þjónustu við stofnanir og stoðdeildir bæjarins í formi greininga og almennri rekstrarráðgjöf. Þetta er í samræmi við niðurstöður stjórnsýsluúttektar um að auka þurfi greiningar og undirbyggja þannig betur stefnumarkandi ákvarðanir hjá Akraneskaupstað.

Tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa til þessa ekki fengið neinar efnislegar umræður. Tillögurnar voru ekki teknar fyrir við afgreiðslu þessa máls í Bæjarráði og því vilja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við bæjarstjórn að tillögurnar verði teknar fyrir samhliða tillögum meirihlutans hér í fyrri umræðu. Tillögurnar verði svo ræddar milli fyrri og seinni umræðu um skipulagsbreytingar hjá Akraneskaupstað.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja þá bæjarfulltrúa sem skipa meirihluta bæjarstjórnar að nota tímann milli umræðna að ræða stjórnkerfisbreytingar við bæjarfulltrúa minnihlutans áður en meirihlutinn ákveði breytingar á stjórnskipun bæjarins einhliða og í ágreiningi.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:
ELA, EBr og ELA. Gert fundarhlé kl. 21:13.

Framhald fundar kl. 22:30.

Forseti gerir grein fyrir því að samkomulag sé um að tillaga Sjálfstæðisflokksins ásamt skipuriti verði einnig tekin til efnislegrar umræðu á fundinum, til fyrri umræðu.
Forseti gefur orðið laust.
ELA, SMS, RBS, ELA, KHS, RÓ, ELA, RÓ.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
Stjórnkerfisbreytingunum í heild ásamt nýjum skipuritum Akraneskaupstaðar er vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fyrirhuguð er þann 15. desember næstkomandi.

Samþykkt: 9:0

4.Launaviðaukar - fjárhagsáætlun 2020

2003227

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 32 við fjárhagsáætlun ársins 2020. Viðaukinn felur í sér ráðstöfun að fjárhæð kr. 53.130.489 vegna samþykktar kjarasamnings Félags grunnskólakennara og er mætt með auknum tekjumframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Viðaukinn hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Bæjarráð vísar viðaukanum til samþykktar í bæjarstjórn Akraness
Til máls tók: VLJ sem óskar eftir að varaforseti taki við stjórn fundarins þar sem forseti óski eftir að víkja af fundi vegna vanhæfis. Ekki gerðar athugasemdir við að forseti víki af fundi.
EBr tekur við stjórn fundarins.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 32 við fjárhagsáætlun ársins 2020. Viðaukinn felur í sér ráðstöfun að fjárhæð kr. 53.130.489 vegna samþykktar kjarasamnings Félags grunnskólakennara og er mætt með auknum tekjumframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Viðaukinn hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Samþykkt 8:0

VLJ tekur sæti á fundinum að nýju og tekur við stjórn fundarins af varaforseta.

5.Fjárhagsáætlun 2020 - viðaukar

2002074

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 33 við fjárhagsáætlun ársins 2020 sem felur í sér breytingar milli liða sem ekki hafa áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu.

Í viðaukanum er einnig breyting á fjárhagsáætlun vegna aukinna gatnagerðargjalda sem leiðir til hækkunar á áætluðum rekstrarafgangi.

Bæjarráð vísar viðaukanum til samþykktar í bæjarstjórn.
Til máls tók: RÓ

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 33 við fjárhagsáætlun ársins 2020 sem felur í sér breytingar milli liða sem ekki hafa áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu.

Í viðaukanum er einnig breyting á fjárhagsáætlun vegna aukinna gatnagerðargjalda sem leiðir til hækkunar á áætluðum rekstrarafgangi.

Samþykkt 8:1 (RÓ er á móti)

6.Deiliskipulag Dalbrautarreits - Þjóðbraut 5

2010095

Breyting deiliskipulagssins var grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 19. október til 19. nóvember 2020. Grenndarkynnt var fyrir eigendum á Þjóðbraut 1 Þjóðbraut 3, Dalbraut 4, Dalbraut 6 og 8. Engar athugasemdir bárust.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu, hún verði send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

7.Deiliskipulag Stofnanareits - Kirkjubraut 39 breyting

2004155

Um er að ræða breytingu á deiliskipulagi Stofnanareits vegna lóðarinnar við Kirkjubraut 39. Breytingin felst í að breyta húsinu úr því að vera verslunar og hótelbygging í að vera íbúðarhús með verslun og þjónustu á 1. hæð, bílageymsla og geymslur í kjallara. Hámarksnýtingarhlutfall fer úr 1,56 í 1,9.
Lögð fram greinargerð vegna athugasemdar sem barst vegna skipulagsins.
Ein athugasemd barst við breytinguna.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að á grunni meðfylgjandi greinargerðar, verði auglýst skipulagstillaga samþykkt óbreytt, send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir meðfylgjandi greinargerð og að skipulagstillaga verði samþykkt óbreytt, send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

8.Aðal- og deiliskipulag Skógarhverfis athugasemd við skipulag

2011275

Athugasemd við aðal- og deiliskipulag Skógarhverfis.
Eftir að greinargerð Skipulags- og umhverfisráðs með svörum við athugasemdum sem gerðar voru við aðalskipulagsbreytingu í Skógahverfi stækkun, deiliskipulag Skógahverfi áfangi 3A og deiliskipulag Garðalundar og Lækjarbotna var afgreidd úr ráðinu og síðar bæjarstjórn kom í ljós að láðst hafði að taka eina athugasemd fyrir. Í ljósi þess er greinargerðin uppfærð. Athugasemdin er ekki með þeim hætti að hún hafi áhrif á fyrri afstöðu skipulags-og umhverfisráðs til fyrrgreindra skipulaga, sem er að samþykkja þau óbreytt frá auglýsingu.

Skipulags- og umhverfisráð vísar því uppfærðri greinargerð til bæjarstjórnar til samþykktar og að hún verði send sem hluti skipulagsgagna til Skipulagsstofnunar.
Til máls tóku:
RBS, EBr og RÓ, VLJ og RÓ sem gerir grein fyrir að hún sé vanhæf við afgreiðslu á aðalskipulagsbreytingu í Skógarhverfi og víki því af fundi eins og málið sé borið upp til afgreiðslu.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir meðfylgjandi uppfærða greinargerð og að hún verði send sem hluti skipulagsgagna til Skipulagsstofnunar.

Samþykkt 7:1 (EBr á móti)

9.Fundargerðir 2020 - Bæjarráð

2001002

3438. fundargerð bæjarráðs frá 17. nóvember 2020.
3440. fundargerð bæjarráðs frá 26. nóvember 2020.
Til máls tóku:
ÓA um fundargerð 3438, fundarlið nr. 2.
ÓA um fundargerð 3440, fundarlið nr. 2.
ELA um fundargerð 3438, fundarlið nr. 2.
ELA um fundargerð 3440, fundarlið nr. 2.
ÓA um fundargerð 3438, fundarlið nr. 2.
ÓA um fundargerð 3440, fundarlið nr. 2.
ELA um fundargerð 3438, fundarlið nr. 2.
ELA um fundargerð 3440, fundarlið nr. 2.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2020 - Skóla- og frístundaráð

2001004

148. fundargerð skóla- og frístundaráð frá 27. nóvember 2020.pdf
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2020 og tilkynningar - Samband íslenskra sveitarfélaga

2002057

891. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 20. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 00:11.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00