Fara í efni  

Bæjarstjórn

1321. fundur 10. nóvember 2020 kl. 17:00 - 22:15 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Fundurinn fer fram í fjarfundi og samþykkja fundarmenn fundargerðina í lok fundar með rafrænum hætti.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2011114 - Málefni hjúkrunarheimila.

Málið verður nr. 5 í dagskránni verði afbrigðin samþykkt.

Samþykkt 9:0

1.Covid 19 - Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga

2003191

Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga hefur verið framlengd til 10. mars 2021. Auglýsing þess efnis birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 5. nóvember sl.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir með heimild samkvæmt VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaganna nr. 138/2011 sbr. auglýsingu nr. 1076/2020 eftirfarandi ráðstafanir til 10. mars 2021:

a. Að sveitarstjórn sé heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar, fagráða og nefnda sveitarfélagsins sbr. 1. tl. 1. mgr. auglýsingarinnar.

Samþykkt 9:0

b. Að engar takmarkanir verða á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar, fagráða og nefnda með fjarfundabúnaði sbr. 2. tl. 1. mgr. auglýsingarinnar.

Samþykkt 9:0

c. Að heimilt sé að staðfesta fundargerðir með samþykki í tölvupósti eða með öðrum rafrænum hætti, sbr. 5. tl. 1. mgr. auglýsingarinnar.

Samþykkt 9:0

2.Landsbankinn - yfirdráttarumboð og skilmálar

2010138

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 29. október sl. að veita, í samræmi við 58. sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, fullt og ótakmarkað umboð til þess að óska eftir því við Landsbankann að yfirdráttarheimild verði veitt á tilgreindan veltureikning Akraneskaupstaðar að tilgreindu hámarki skv. meðfylgjandi fylgiskjölum og ítarbókun.

Bæjarráð veitir Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, jafnframt heimild til að óska eftir breytingum á yfirdráttarheimildinni til lækkunar frá hámarksfjárhæðinni og að fella hana niður.

Bæjarráð vísaði ákvörðuninni til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir, í samræmi við 58. sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að veita Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, fullt og ótakmarkað umboð til þess að óska eftir því við Landsbankann að yfirdráttarheimild verði veitt á tilgreindan veltureikning Akraneskaupstaðar að tilgreindu hámarki skv. meðfylgjandi fylgiskjölum og ítarbókun.

Bæjarstjórn Akraness veitir Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, jafnframt heimild til að óska eftir breytingum á yfirdráttarheimildinni til lækkunar frá hámarksfjárhæðinni og að fella hana niður.

Samþykkt 9:0

3.Fjöliðjan - uppbygging á Dalbraut 10

1910179

Meirihluti bæjarráðs samþykkti á fundi bæjarráðs þann 15. október sl. að farið verði eftir sviðsmynd 1 í lokaskýrslu starfshóps um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar.
Til máls tóku:
RÓ sem leggur fram eftirfarandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt greinargerð:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við bæjarstjórn Akraness að fresta ákvörðun um val á leið við uppbyggingu á Fjöliðjunni, vernduðum vinnu- og hæfingarstað. Fresturinn gefur tækifæri til ítarlegrar skoðunar á uppbyggingaráformum með hliðsjón af breyttu skipulagi á aðliggjandi lóðum og fari fram samhliða fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2021.

Greinargerð:
Bruninn í Fjöliðjunni á Akranesi í maí á síðasta ári varð öllum íbúum bæjarins mikið áfall ekki síst þeim er þangað sóttu sína vinnu. Þar sem skemmdir af völdum brunans urðu miklar varð strax ljóst að grípa yrði skjótt til bráðabirgðaráðstafana svo tryggja mætti hið gefandi starf er þar fer fram. Það tókst og þá um leið skapaði bæjarstjórn sér nauðsynlegt andrými til þess að ákveða hvernig haga skyldi uppbyggingu á aðstöðu Fjöliðjunnar til framtíðar.

Fyrsta skref bæjarstjórnar var tekið í upphafi árs 2020, þegar hún tók einróma ákvörðun um að starfsemin yrði áfram á lóðinni að Dalbraut 10. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem átti samkvæmt erindisbréfi að skila mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu starfseminnar við Dalbraut. Samningar náðust á milli Akraneskaupstaðar og Festi hf. um framtíðarlóð undir starfsemi dótturfélags fyrirtækisins, N1 sem rekur bensínstöð og dekkjaverkstæði. Um leið losnuðu lóðir fyrirtækisins við Dalbraut og Þjóðbraut sem var hvalreki á fjörur starfshópsins í vinnuferlinu og opnaði á skipulag mun stærra svæðis og skapaði rými til þess að hýsa ýmsa tengda starfsemi Fjöliðjunnar eins og dósamóttöku og Búkollu nytjamarkaðar. Þá er ljóst að frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni þarf húsnæði sem hæfir betur þörfum þess hóps og er tækifæri til að hugsa þá starfsemi í nálægð við starfsemi Fjöliðjunnar.

Á fundi bæjarráðs þann 15. október sl. ákváðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra að uppbyggingu Fjöliðjunnar skyldi háttað á þá leið að rústir fyrra húss yrðu endurbyggðar og við það skeytt nýbyggingu samkvæmt teikningu frá árinu 2007. Þrátt fyrir að hús Fjöliðjunnar hafi á sínum tíma verið sérhannað til starfseminnar sem hófst árið 1989, hafa þarfir og aðstæður breyst umtalsvert á þeim 30 árum sem síðan eru liðin. Núna horfum við til næstu áratuga með uppbyggingu á aðstöðu þessarar mikilvægu starfsemi.

Fyrir bruna Fjöliðjunnar kom í ljós alvarlegur mygluvandi í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir. Umfjöllun fjölmiðla á síðustu dögum um myglu í húsum ásamt þeim alvarlegu áhrifum sem hún getur haft á heilsu fólks og hversu erfitt hefur reynst að uppræta hana með viðgerðum, kallar á endurskoðun á því mati sem meirihluti bæjarráðs lagði til grundvallar sinni ákvörðun. Fjölmörg dæmi einstaklinga á Akranesi sem glímt hafa við veikindi vegna myglu tala einnig sínu máli.

Dæmin sanna að fyrirtæki og sveitarfélög hafa reynt að koma í veg fyrir að þessi vágestur lifi í húsakynnum þeirra en niðurstaðan leiðir oftar en ekki til niðurrifs. Þá hefur jafnvel verið kostað miklu til sem reynist glatað fé. Heilsa fólks er dýrmæt og verður ekki metin til fjár. Að hafa þessa vá yfirvofandi er óþarfa áhætta og að stefna viðkvæmum einstaklingum inn í mögulega ótryggt húsnæði er umhugsunarvert.

Horfum saman til framtíðar. Látum hanna og byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi Fjöliðjunnar. Húsnæði sem mætir öllum nútímakröfum sem gerðar eru til starfseminnar, mætir þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga nú og til lengri framtíðar. Horfum á ný tækifæri á stækkaðri lóð. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar, vilji er allt sem þarf.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu um framkomna tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
ELA, KHS, BD, SMS, EBr, RBS, KHS, ÓA, RBS, RÓ, EBr, ELA, VLJ, RBS, SMS, BD, ÓA, RBS, RÓ og RBS.

Forseti ber tillögu Sjálfstæðisflokksins um málsmeðferð upp til atkvæðagreiðslu:

Samþykkir tillögunni: 4, (RÓ/SMS/EBr/ÓA)
Á móti tillögunni: 5, (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS)
Hjáseta: 0
Tillagan er felld.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu til samþykktar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að farið verði eftir sviðsmynd 1 í lokaskýrslu starfshóps um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar.

Til máls tóku:
EBr, RBS, ÓA, KHS, RBS og RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með þá ákvörðun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra að hafna tillögu um að fresta ákvörðun vegna uppbyggingar Fjöliðjunnar um fáeinar vikur og nýta þann tíma til að yfirfara betur þau gögn sem liggja fyrir og kunna að varða framtíðar heilsufar starfsmanna Fjöliðjunnar. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir mat fagaðila á þeirri heilsuvá sem kann að verða fylgifiskur þess að endurnýta eldri byggingu Fjöliðjunnar stendur það upp á bæjarfulltrúa meirihlutans að svara þeirri spurningu af hverju starfsmenn Fjöliðjunnar vinnu- og hæfingarstað fá ekki að njóta vafans og að málið verði skoðað ofan í kjölinn.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdótir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

BD sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra:
Undirritaðir, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra, þakka starfshópi um uppbyggingu Fjöliðjunnar fyrir góða og faglega vinnu sem birtist í vandaðri skýrslu þar sem skýrir valkostir eru dregnir upp.

Það er mat starfshópsins að endurbygging núverandi húsnæðis og viðbygging samkvæmt fyrirliggjandi teikningu frá árinu 2007 sé góður kostur til að tryggja starfsemi Fjöliðjunnar fyrsta flokks húsnæði fyrir starfsemi hennar til framtíðar. Þetta álit starfshópsins leggjum við til grundvallar þeirri ákvörðun okkar að þessi leið verði farin við endurbyggingu húsnæðisins.

Nú liggur fyrir að starfsemi N1 muni í nánustu framtíð hverfa af aðliggjandi lóðum í nágrenni Fjöliðjunnar og fyrir bæjarstjórn liggur það verkefni að skipuleggja þetta svæði upp á nýtt. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hefja nú þegar endurbyggingu húsnæðisins við Dalbraut 10 og halda jafnframt áfram með frekari hönnun aðliggjandi svæða þannig að þróun þessarar og tengdrar starfsemi haldist í hendur við frekari þróun á skipulagi reitsins.

Þessi ákvörðun er ekki tekin af fljótfærni eða í tímaskorti, heldur að vandlega yfirveguðu ráði eftir vandaða vinnu starfshópsins. Þá skal því haldið til haga að í uppistandandi byggingum liggja verðmæti og því væri það sóun á verðmætum að rífa núverandi hús og farga því, þegar hægt er að endurbyggja það með myndarlegum hætti.

Við teljum að með þessari ákvörðun fái Fjöliðjan, vinnu- og hæfingarstaður, gott og myndarlegt húsnæði undir starfsemi sína sem mæti öllum kröfum sem til slíkra starfsstöðva eru gerðar.

Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)

Samþykkt 5:4 (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS):(RÓ/SMS/EBr/ÓA)

4.Breyting á staðgreiðslutekjum, framlagi Jöfnunarsjóðs og arðgreiðslna í fjárhagsáætlun 2020

2010238

Áætlun vegna staðgreiðslutekna hefur verið endurskoðuð út frá nýrri áætlun frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2020. Breytingin á staðgreiðslutekjum er til lækkunar að upphæð kr. 198.500.000. Fyrir lá í júlímánuði að Jöfnunarsjóður myndi skerða framlög til sveitarfélaga á árinu 2020. Framlög hafa verið endurreiknuð og munu framlög til Akraneskaupstaðar lækka í heildina. Arðgreiðslur eru hærri en áætlun gerðu ráð fyrir eða að fjárhæð kr. 72.060.000.

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 29 við fjárhagsáætlun 2020 vegna breytinga á tekjum á fundi sínum þann 29. október sl. Bæjarráð vísaði viðaukanum til endanlegrar samþykktar í bæjarstjórn.
Til máls tóku:
VLJ sem ber upp tillögu að bókun bæjarstjórnar.
ELA og RÓ sem biður um fundarhlé. Forseti samþykkir beiðnina.

Fundi framhaldið kl. 19:40 að loknu fundarhléi.

Samþykkt að bókuninni verði vísað til frekari úrvinnslu í bæjarráði á fund sem fram fer þann 12. nóvember nk.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu um afgreiðslu á viðauka nr. 29:

Bæjarstjórn samþykkir viðauka nr. 29 við fjárhagsáætlun 2020.

Viðaukinn felur í sér lækkun á staðgreiðslutekjum að fjárhæð kr. 198.500.000, lækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 35.359.000 og hækkun á arðgreiðslum að fjárhæð kr. 72.060.000. Samtals felur ráðstöfunin í sér breytingu að fjárhæð kr. 161.799.000 sem er mætt með lækkun á handbæru fé.

Samþykkt 9:0

5.Málefni hjúkrunarheimila

2011114

Ályktun bæjarstjórnar Akraness til heilbrigðisráðherra um rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila
Til máls tóku:
ELA og ÓA.

Forseti leggur fram eftirfarandi áskorun bæjarstjórnar:

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá árinu 2017 segir: "Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu."

Fjórða árið í röð er rekstrarfé hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma skert af hálfu ríksins með svonefndri aðhaldskröfu sem nemur 0,5% á ári. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir 2021 verður aðhaldskrafan 306,6 milljónir króna. Samtals mun því ríkið greiða 2,3 milljörðum minna til reksturs hjúkrunarheimila og dagdvala á tímabilinu 2018-2021. Árlegar greiðslur til hjúkrunarheimila og dagdvala mun því verða rúmlega einum milljarði króna lægri en það hefði orðið ef ekki hefði komið til umræddra skerðinga.

Ekkert hefur því farið fyrir efndum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á ofangreindri yfirlýsingu í stjórnarsáttmála hennar.

Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis frá því í desember 2019 segir: "Mikill meirihluti hjúkrunarheimila er rekinn með halla ár eftir ár, en afkoma er engu síður mjög misjöfn eftir heimilum. Þessi breytileiki bendir til þess að rekstur margra hjúkrunarheimila mætti vera betri. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér stefnir í mun lakari afkomu á yfirstandandi ári en í fyrra. Fjölmörg sveitarfélög sem bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila hafa rökstutt og bent á viðvarandi hallarekstur."

Það er mat bæjarstjórnar Akraness að rekstrarstaða hjúkrunarheimila og dagdvala sé algjörlega óviðunandi og skorar bæjarstjórnin á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina að falla frá þeirri aðhaldskröfu á hjúkrunarheimilin í framlögðu fjárlagafrumvarpi.

Bæjarstjórn Akraness fagnar skipun starfshóps til að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila en starfshópurinn átti að skila niðurstöðu sinni eigi síðar en 1. nóvember síðastliðinn. Nú er ljóst að þessi vinna starfshópsins mun dragast fram á næsta ár. Því skorar bæjarstjórn Akraness á heilbrigðisráðherra og ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur að styrkja nú þegar rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og dagdvala um 1.500 milljónir króna á árinu 2021.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Rakel Óskardóttir (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

6.Aðalskipulag - stækkun Skógarhverfis.

2004169

Í tillögunni felst stækkun Skógarhverfis til norðurs og austurs, að íþróttasvæði við Skógarhverfi verði breytt í útivistarsvæði, tjaldsvæði við Garðalund verði útivistarsvæði, mörkum Garðalundar verði breytt og miðist við gömlu skógræktarmörkin, gert verði ráð fyrir nýrri gatnatengingu við Akrafjallsveg (þjóðveg) norðan Skógarhverfis og að svæði fyrir verslun og þjónustu (hótelreitur) verði fellt út og verði útivistarsvæði. Jafnframt er stígakerfi lagað að breyttum mörkum Skógarhverfis.

Fjórar athugasemdir bárust við breytinguna. Skipulags- og umhverfisráð leggur fram til bæjarstjórnar meðfylgjandi greinargerð dagsetta 2.11.2020 sem svör við þeim athugasemdum.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að á grunni ofangreindar greinargerðar, að auglýst tillaga verði samþykkt óbreytt og send Skipulagsstofnun til staðfestingar.
Til máls tóku:
RÓ sem víkur af fundi undir þessum lið. Ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu annarra fundarmanna.
ÞG tekur sæti á fundinum undir þessum dagskrárlið sem og undir dagskrárlið nr. 8.

Framhald umræðu:
EBr og SMS sem ber upp eftirfarandi tillögu:

Undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til breytingartillögu við Aðalskipulagstillögu um stækkun Skógarhverfis. Lagt er til að fallið verði frá þeim áformum að fella út úr Aðalskipulaginu hótelreit við Garðavöll.

Greinargerð:
Í breytingartillögu skipulags- og umhverfisráðs við Aðalskipulag Akraness 2005 - 2017 er lagt til að hótelreitur sem er á núverandi skipulagi sé felldur út. Rökin fyrir þeirri breytingu eru að engin framkvæmdaáform séu í kortunum og að áhugaverðari reitir fyrir uppbyggingu hótels á Sementsreit.

Nýlega hafa fjárfestar sýnt áhuga á því að reisa hótel við Garðavöll sem er einn vinsælasti golfvöllurinn hér á landi og laðar til Akraness fjölda fólks yfir sumarmánuðina. Það er okkar skoðun að áfram eigi að hafa í skipulagi kaupstaðarins möguleika á uppbyggingu á hóteli við Garðavöll sem mun ýta frekar undir ferðamennsku í tengslum við útivistarsvæði Akurnesinga við Garðavöll og Garðalund. Hótel við Langasand er líka góður kostur en það er ekki þannig að annað útiloki hitt að okkar mati.

Einar Brandsson (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)

Framhald umræðu:
RBS, SMS, EBr, RBS og EBr.

Forseti ber breytingatillögu þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins upp til atkvæðagreiðslu:
Samþykkir tillögunni: 3, (EBr/SMS/ÞG)
Á móti tillögunni: 5, (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS)
Hjáseta: 1 (ÓA)
Tillagan er felld.

Forseti ber upp eftirfarandi til samþykktar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrirliggjandi greinargerð dags. 2. nóvember sem svör bæjarstjórnar við framkomnum athugasemdum.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að auglýst tillaga um breytingu á afmörkun Skógarhverfis og aðliggjandi svæða í Aðalskipulagi Akraness 2005-2017 verði samþykkt óbreytt og send Skipulagsstofnun til staðfestingar.

Samþykkt 6:1 (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS/ÓA): (EBr), tveir sitja hjá (SMS og ÞG).

Forseti ber upp tillögu um afgreiðslu dagskrárliðs nr. 8 á undan dagskrárlið nr. 7 svo ÞG geti tekið þátt í afgreiðslu málanna í samfellu í stað þess að víkja af fundi og koma inn aftur. Fundarmenn gerðu engar athugasemdir við tillöguna.

7.Deiliskipulag Skógarhverfis áfangi 3 A

2005360

Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir þéttri byggð einbýlis- og raðhúsa á einni til tveim hæðum. Einnig er gert ráð fyrir opnum svæðum með vatnsfarvegi sem er liður í ofanvatnslausnum og nýtist sem útivistarsvæði.

Fjórar athugasemdir bárust við þær skipulagstillögur, sem auglýstar voru samtímis, og eiga tvær þeirra beinlínis við deiliskipulagstillöguna. Skipulags- og umhverfisráð leggur fram til bæjarstjórnar meðfylgjandi greinargerð dagsetta 2.11.2020 sem svör við þeim athugasemdum.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að á grunni ofangreindar greinargerðar verði auglýst tillaga samþykkt óbreytt, send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Til máls tóku:
EBr, RÓ og SMS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrirliggjandi greinargerð dags. 2. nóvember sem svör bæjarstjórnar við framkomnum athugasemdum.

Deiliskipulagsgögn vegna Skógahverfis áfanga 3A, verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 7:2 (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS/SMS/ÓA): (RÓ/EBr)

8.Deiliskipulag Garðalundar og Lækjarbotna - endurskoðun

1906111

Í skipulaginu er m.a. gerð grein fyrir afmörkun skógræktar og opinna svæða, aðkomu ökutækja, bílastæðum, stígakerfi, tengslum við aðliggjandi svæði, leiksvæðum, matjurtargörðum, núverandi og fyrirhuguðum byggingum. Við gildistöku nýs deiliskipulags verður deiliskipulag Garðalundar frá 2010 fellt úr gildi.

Fjórar athugasemdir bárust við þær skipulagstillögur, sem auglýstar voru samtímis, og eiga tvær þeirra beinlínis við deiliskipulagstillöguna. Skipulags- og umhverfisráð leggur fram til bæjarstjórnar meðfylgjandi greinargerð dagsetta 2.11.2020 sem svör við þeim athugasemdum.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að á grunni ofangreindar greinargerðar verði auglýst tillaga samþykkt óbreytt og send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
ÞG situr fundinn undir þessum lið en RÓ víkur af fundi.

TIl máls tóku:
EBr og ÞG.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrirliggjandi greinargerð dags. 2. nóvember sem svör bæjarstjórnar við framkomnum athugasemdum.

Deiliskipulagsgögn vegna Garðalundar og Lækjarbotna, verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 6:3 (VLJ/ELA/BD/KHS/RBS/ÓA):(EBr/SMS/ÞG)

ÞG víkur af fundi og RÓ tekur sæti á fundinum á ný.

9.Deiliskipulagsbreyting Akratorgsreits - Skólabraut 19

2008110

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi Akratorgsreits vegna Skólabrautar 19. Breytingin felst í að skilgreina byggingarreit fyrir nýjar útitröppur og svalir á 2. hæð. Engar athugasemdir bárust.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarstórn samþykkir að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 8:0, einn situr hjá (EBr)

10.Jaðarsbraut 9, Nýjar svalir - umsókn um byggingarleyfi

1906126

Umsóknin var grenndarkynnt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 22. september til og með 22. október 2020. Engar athugasemdir bárust.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn, að heimila stækkun svala á Jaðarsbraut 9, skv. grenndarkynningu.
Bæjarstjórn samþykkir heimild til byggingarfulltrúa til að veita byggingarleyfi fyrir breytingu sem felst í stækkun svala við Jaðarsbraut 9.

Samþykkt 9:0
Fylgiskjöl:

11.Jaðarsbraut 33 - umsókn um byggingarleyfi

2007110

Umsóknin var grenndarkynnt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 22. september til og með 22. október 2020. Engar athugasemdir bárust. Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn, að heimila stækkun og breytingu á svölum á Jaðarsbraut 33, skv. grenndarkynningu.
Bæjarstjórn samþykkir heimild til byggingarfulltrúa til að veita byggingarleyfi fyrir breytingu sem felst í stækkun svala við Jaðarsbraut 33.

Samþykkt 9:0

12.Fundargerðir 2020 - Bæjarráð

2001002

3433. fundargerð bæjarráðs frá 29. október 2020.
3434. fundargerð bæjarráðs frá 5. nóvember 2020.
Til máls tóku:

RÓ um fundargerð nr. 3433, fundarlið nr. 10.
RÓ um fundargerð nr. 3434, fundarliði nr. 1 og nr. 2.
ELA um fundargerð nr. 3434, fundarlið nr. 1 og nr. 2.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

13.Fundargerðir 2020 - Velferðar- og mannréttindaráð

2001003

138. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 4. nóvember 2020.
Til máls tók:
KHS um fundarliði nr. 3 og nr. 4.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

14.Fundargerðir 2020 - Skóla- og frístundaráð

2001004

146. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 4. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Fundargerðir 2020 - Skipulags- og umhverfisráð

2001005

178. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 26. október 2020.
179. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 2. nóvember 2020.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

16.Fundargerðir 2020 og tilkynningar - Samband íslenskra sveitarfélaga

2002057

890. fundargerð stjórnar Sambandsins frá 30. október 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 22:15.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00