Fara í efni  

Bæjarstjórn

1304. fundur 10. desember 2019 kl. 17:00 - 21:16 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Guðjón Viðar Guðjónsson varamaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

1.Jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar

1906161

Fagráð Akraneskaupstaðar og Jafnréttistofa hafa samþykkt fyrirliggjandi Jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar og vísa henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn Akraness.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 9:0

2.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2020-2023

1912062

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar 2020-2023.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 2 og mál nr. 3 verði tekin til umræðu saman. Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 3 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2020 undir lið nr. 2.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2020 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2021 til og með 2023.

Samþykkt 5:1 (ELA/RBS/GVG/KHS:EBr), 3 sitja hjá (RÓ/SMS/ÓA).

3.Fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2021-2023

1906053

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 5. desember síðastliðinn að vísa fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2021 til og með 2023 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.
Til máls tóku:
SFÞ gerir grein fyrir helstu hagstærðum í áætluninni og breytingum sem orðið hafa á milli umræðna.

Framhald umræðu:

ELA, RBS, KHS, RÓ, EBr, forseti óskar eftir að varaforseti taki við stjórn fundarins þar sem hann óski eftir að taka til máls.

EBr, fyrsti varaforseti, tekur við stjórn fundarins.

Framhald umræðu:

VLJ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra við síðari umræðu fjárhagáætlunar í bæjarstjórn Akraness:

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 309 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B-hluta verði jákvæð samtals um 310 milljónir króna. Á undanförnum árum hefur náðst góður árangur í rekstri bæjarins. Það sést vel á 9 mánaða uppgjöri ársins í ár, þar sem rekstarniðurstaða er jákvæð um rúmar 452 milljónir en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 266 milljóna rekstrarafgangi.

Þessi góða staða er til komin vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og gefur okkur svigrúm til að ráðast í stórsókn í uppbyggingu innviða til að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Í fjárhagsáætlun ársins 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023 birtist skýr framtíðarsýn bæjarstjórnar. Fimleikahús við Vesturgötu verður tekið í notkun á næsta ári, uppbygging þjónustumiðstöðvar við Dalbraut heldur áfram og byggingaframkvæmdir hefjast við nýjan leikskóla. Stóraukið fé er lagt í endurbætur á stofnanalóðum við leik- og grunnskóla, haldið áfram með endurbætur á innra rými Brekkubæjarskóla og með tilkomu nýs leikskóla fæst einnig viðbót við húsnæði Grundaskóla, en þessar framkvæmdir eru unnar með það að markmiði að bæta vinnuaðstæður starfsmanna og nemenda. Einnig er á næsta ári gert ráð fyrir fjármunum til að tryggja Fjöliðjunni gott húsnæði fyrir sína starfsemi til framtíðar og byggð verður reiðhöll á félagssvæði Dreyra.

Áfram verður unnið að stórum skipulagsverkefnum, ráðist verður í gatnagerð í Skógahverfi til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu, uppbygging hefst í Flóahverfi á næsta ári og þá munum við einnig hefja úthlutun lóða á Sementsreit. Uppbygging íþróttamannvirkja við Jaðarsbakka er sett á langtímaáætlun og hefst árið 2022.

Við gerð þessarar fjárhagsáætlunar er aðhalds gætt í rekstri og möguleikar nýttir til að draga úr álögum á íbúa og fyrirtæki. Farið er að einu og öllu að tilmælum um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, sem felur það í sér að gjaldskrár kaupstaðarins hækka ekki umfram 2,5% að meðaltali.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra þakka bæjarstjóra, embættismönnum og endurskoðanda Akraneskaupstaðar fyrir þá miklu vinnu sem að baki er við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Auk þess viljum við þakka öllum bæjarfulltrúum fyrir góða samvinnu í þeirri vinnu sem fram fór í ráðum og nefndum bæjarins.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Guðjón Viðar Guðjónsson (sign)

Forseti tekur að nýju við stjórn fundarins.

Framhald umræðu:

SMS, GVG, RBS, ELA, EBr, RÓ, EBr, ÓA, SMS sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við seinni umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn Akraness:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi eru að mestu ánægðir með fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem og fjárfestingar- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2020 til 2023. Þær bera þess skýrt merki, líkt og fjárhagsáætlun 2019, að halda eigi áfram með þau góðu verkefni sem farið var af stað með á árunum 2017 og 2018. Verkefni á borð við fimleikahús við Vesturgötu, reiðskemma hestamannafélagsins Dreyra, uppbygging á Dalbrautarreit og ný grunnsýning á Byggðasafni ættu að verða að veruleika á árinu 2020 og 2021.

Í undirbúningi að fjárhagsáætlun 2020 bentu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að ákveðið stefnuleysi hefur ríkt í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar á þessu kjörtímabili. Vinnubrögð núverandi meirihluta við gerð upphaflegrar fjárhagsáætlunar einkenndust af skorti á langtímasýn og eingöngu var horft til eins árs í senn við gerð hennar. Bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins vilja árétta að með skýrri framtíðarsýn, vel ígrundaðri þarfagreiningu og góðri þekkingu á fjárfestingar- og rekstrargetu sveitarfélagsins er bæjarstjórn betur í stakk búin til að taka stefnumótandi ákvarðanir um þjónustu við íbúa og fjárfestingar til framtíðar. Meirihluti bæjarstjórnar hefur mætt þessari gagnrýni og tekið leiðsögn Sjálfstæðisflokksins vel.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt margt til við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 og þriggja ára fjárfestingar- og framkvæmdaáætlunar. Má þar helst nefna:

1. Lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um 11,4% á milli ára.
2. Virða Lífskjarasamninga um lágmarkshækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins.
3. Efla lærdómssamfélagið Akranes með byggingu nýs leiksskóla og auka þannig rými Grundaskóla um leið.
4. Fylgja eftir hugmyndum um endurskoðun á skólastefnu Akraneskaupstaðar.
5. Breytingar á skipan mötuneytismála í stofnunum bæjarins með það að markmiði að auka fjölbreytni, gæði og öryggi.
6. Hefja uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum sem mun nýtast vel skólasamfélaginu, íþróttahreyfingunni og styður við stefnu um heilsueflandi samfélag.
7. Aukin fjárveiting til nýframkvæmda gatna í Skógarhverfi en yfirvofandi skortur er á nýjum einbýlis-, par- og raðhúsalóðum á Akranesi strax á næsta ári.
8. Fylgja eftir kröfum unga fólksins um aukna fjármuni til forvarnarmála.
9. Athygli vakin á búsetuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga á Akranesi. Hafa þarf hraðar hendur á fyrstu mánuðum nýs árs og leggja grunn að þeirri stefnu sem bærinn hyggst taka til framtíðar í málaflokknum. Það þolir að mati Sjálfstæðisflokksins enga bið.

Fulltrúar Framsóknar og frjálsra og Samfylkingar í meirihluta bæjarstjórnar, hafa tekið flestum hugmyndum Sjálfstæðisflokksins vel og samþykkt þær. Fyrir það eru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakklátir.

Þá leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að fremur verði horft til lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins í stað gæluverkefna. Meirihluti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hyggst verja 40 milljónum króna á árinu 2020 í aðstöðu Keilufélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn er algjörlega mótfallinn þessari forgangsröðun og vill fremur verja fjármununum til einhverra af þeim fjölmörgu verkefnum sem fagráð sveitarfélagsins lögðu áherslu á í undirbúningi fjárhagsáætlunar og fá því miður ekki brautargengi hjá núverandi meirihluta. Þessari fjárhæð væri betur varið til að efla lögbundna þjónustu sveitarfélagsins, sem fagráðin kölluðu eftir og bænum ber að sinna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ánægðir með fingraför sín á fjárhagsáætlun ársins 2020. Þau atriði sem nefnd eru hér að framan falla öll að þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði á síðasta kjörtímabili og tefldi fram í kosningabaráttu sinni árið 2018. Lögbundnum verkefnum verður alltaf að sinna fyrst og fremst. Aðeins þannig sköpum við eftirsóknarvert samfélag.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akraness.

Rakel Óskarsdóttir (sign)

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)

Einar Brandsson (sign)

Ólafur Adolfsson (sign)

Ekki frekari umræða og gengið til atkvæðagreiðslu.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:

1. Álagning gjalda 2020.







Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2020.
a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2020.
Samþykkt 9:0

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts breytast frá fyrra ári (2019) til lækkunar og verða eftirfarandi á árinu 2020:

i. 0,2407% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan lækkuð um 15,971% samanborið við árið 2019 - var 0,2865%).
Samþykkt 9:0

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan er lögbundin og er óbreytt á milli áranna 2019 og 2020).
Samþykkt 9:0

iii. 1,400% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan lækkuð um 11,415% samanborið við árið 2019 - var 1,5804%).
Samþykkt 9:0.

c. Sorphreinsunargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði óbreytt þriðja árið í röð og verði kr. 18.786 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp). Sorpeyðingargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði óbreytt frá fyrra ári og verði kr. 16.021 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða (lækkuð um 5,22% samanborið við árið 2019 - var 1,265%) og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða (lækkuð um 20,47% frá fyrra ári - var 0,3815%) og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2020 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2020.
Samþykkt 9:0

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2020, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2020.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem var nú 3,4% og byggði á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 1. júní síðastliðnum. Heimilt er með sérstækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að almennar þjónustugjaldskrár taki breytingum samkvæmt tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaga landsins um að væntanlegar gjaldskrárhækkanir taki mið af forsendum lífskjarasamningum aðila almenna vinnumarkaðarins sem undirritaður var 3. apríl síðastliðinn. Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki um 2,5% þann 1. janúar 2020 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrá.

Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2020:
1.
Gjaldskrá leikskóla (hækkun um 2,5%)
2.
Gjaldskrá vegna skólamáltíða (hækkun um 2,5%)
3.
Gjaldskrá frístundar (hækkun um 2,5%)
4.
Gjaldskrá dagstarfs (hækkun um 2,5%)
5.
Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness (hækkun um 2,5%)
6.
Gjaldskrá íþróttamannvirkja (hækkun um 2,5%)
7.
Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar (hækkun um 2,5%)
8.
Gjaldskrá Bókasafns Akraness (efnisleg breyting)
9.
Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness (óbreytt gjaldskrá)
10.
Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness (efnisleg breyting, liðir felldir út hækkun einstaka liða en nánast allir lægra en sem nemur 2,5%)
11.
Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum (efnisleg breyting - gildir frá sumaropnun sem er áætluð þann 15. maí 2020.)
12.
Gjaldskrá um hundahald á Akranesi (hækkun um 2,5%)
13.
Gjaldskrá um kattahald á Akranesi (hækkun um 2,5%)
14.
Gjaldskrá Akranesvita (hækkun um 2,5%)
15.
Gjaldskrá Tjaldsvæðisins á Akranesi (sértæk ákvörðun í samvinnu við þjónustuveitanda)
16.
Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi (óbreyttar fjárhæðir frá 2019)

Gjaldskrár samkvæmt tölulið nr. 1 til og með tölulið nr. 9.
Samþykkt 9:0

Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness samkvæmt tölulið nr. 10.
Samþykkt 9:0

Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum samkvæmt tölulið nr. 11.
Samþykkt 9:0

Gjaldskrár samkvæmt töluliðum nr. 12 til og með nr. 16.
Samþykkt 9:0

3. Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2020.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 1505 mkr. vegna ýmissa fjárfestinga og framkvæmda á árinu 2020 en þar af eru um 486 mkr. vegna verkefna sem færast frá árinu 2019 yfir á árið 2020. Við framsetningu fjárhæðarinnar hefur verið tekið tilliti til tekna. Stærstu verkefnin sem færast á milli ára eru fimleikahúsið við Vesturgötu, þjónustumiðstöð á Dalbraut og framkvæmdir vegna Flóahverfis.

Helstu einstöku þættir fjárfestinga eru eftirfarandi:
a. Götur, gangstéttar, grunnskólaskólalóðir, leikvallalóðir þar sem sérstaklega verður hugað að yngstu leikskólabörnunum, aðrar stofnanalóðir Akraneskaupstaðar, bætt umferðaröryggi, Faxabraut, Flóahverfi, græn verkefni, stofnstígar/reiðstígar, endurnýjun ljósastaura o.fl. samtals að fjárhæð um kr. 272 mkr. að teknu tilliti frádráttar vegna tekna (gatnagerðargjöld).

b. Fasteignir, stærri verkefni, samtals að fjárhæð um 585 mkr. Helstu verkefnin eru bygging nýs leikskóla í Skógarhverfi, bygging þjónustumiðstöðvar á Dalbraut, framkvæmdir við Brekkubæjarskóla, framkvæmdir vegna húsnæðis Fjöliðjunnar, framkvæmdir vegna Byggðasafnsins í Görðum og framkvæmdir vegna hleðslustöðva. Tekið hefur verið tillit til tekna (endurgreiðsla virðisaukaskatts).

c. Fasteignafélag Akraneskaupstaðar, samtals að fjárhæð um mkr. 491 mkr. Stærstu einstöku verkefnin eru fimleikahúsið við Vesturgötu þ.á m. við svonefnda Þekju og vegna byggingar reiðskemmu/reiðhallar Dreyra. Tekið hefur verið tillit til tekna (endurgreiðsla virðisaukaskatts og styrkveitingar frá Hvalfjarðarsveit vegna Dreyra).

d. Uppbygging nýrra svæða, samtals að fjárhæð um 23 mkr. en um er að ræða framkvæmdir á svonefndum Sementsreit (nýtt vinnuheiti: Langasandsreitur) og á Dalbrautarreit.

e. Aðrar framkvæmdir og kaup á stofnbúnaði, samtals að fjárhæð um 134 mkr. Helstu verkefni eru kaup á nýjum körfubíl og ýmsum öðrum búnaði fyrir Slökkviliðið, vegna kaupa á keilubúnaði, vegna endurnýjunar tölvubúnaðar í stofnunum Akraneskaupstaðar, vegna endurnýjunar sæta í stúku og annarra framkvæmda á aðalvellinum á Jaðarsbökkum, vegna endurnýjunar bíls í áhaldahúsinu, vegna skipulagsmála, vegna framkvæmda á Breið og Langasandi o.fl. vegna skipulagsmála og vegna veðurstöðvar o.fl.

Um fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vísast til afgreiðslu í máli 1906053 sbr. dagskrárlið nr. 2 hér að framan.

4. Almennt og sérgreint viðhald fasteigna 2020.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 137 mkr. til almenns og sérgreinds viðhalds í Eignasjóði og í Fasteignafélagi Akraneskaupstaðar slf. á árinu 2020.
Þessi liður er einnig hluti af fjárfestinga- og framkvæmdáætlun og vísast til afgreiðslu í máli nr. 1906053 hér að framan.

5. Útgjöld vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 3504 mkr. króna vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði á árinu 2020 sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni.
Samþykkt 9:0

6. Útgjöld vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 1138 mkr. króna vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði á árinu 2020 sbr. sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni.
Samþykkt 9:0

7. Útgjöld vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 577 mkr. vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði á árinu 2020 sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni.
Samþykkt 9:0

8. Útgjöld vegna starfsemi sviði menningarmála hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 236 mkr. vegna menningarstarfsemi á árinu 2020 sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni.
Samþykkt 9:0

9. Útgjöld vegna starfsemi á sviði atvinnu- og ferðamála hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 23 mkr. vegna starfsemi á sviði atvinnu- og ferðamála á árinu 2020 sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni.
Samþykkt 9:0

10. Útgjöld vegna sameiginlegs kostnaðar hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 839 mkr. vegna sameiginlegs kostnaðar á árinu 2020 sbr. yfirlit um skiptingu útgjalda á milli málaflokka í fjárhagsáætluninni að teknu tilliti til þess sem óráðstafað er samkvæmt áætlun (um 129 mkr.).
Samþykkt 9:0

11. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2020.




Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 1,0 mkr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2021-2023, ásamt tillögum.

Fjárhagsáætlun 2020 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 310 mkr. og að handbært fé í árslok verði um 1,4 milljarður króna.
Samþykkt 8:0, 1 (EBr) situr hjá.

4.Aðalskipulag Tjaldsvæði - við Kalmansvík

1904033

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akraness 2005-2017 vegna tjaldsvæðis í Kalmansvík. Afmarkað er svæði til sérsakra nota O-16 sunnan Kalmansvíkur og norðan íbúðarbyggðar við Esjubraut. Tjaldsvæðið er afmarkað sem afþreyingar- og ferðamannasvæði. Mörkum hverfisverndarsvæðis Hv-1 er breytt og þau löguð að staðháttum. Haldinn var opið hús/kynningarfundur 18. nóvember 2019.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn, að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Áður en tillagan verður auglýst skal hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillaga um breytingu á Aðalskipulagi Akraness 2005-2017 vegna Tjaldsvæðisins í Kalmansvík verði auglýst í samræmi við 31. gr. skilpulagslaga nr. 123/2010 en verði áður send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Samþykkt 9:0

5.Deiliskipulag Tjaldsvæði við Kalmansvík

1904037

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagi Tjaldsvæðisins við Kalmansvík verði auglýst í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsbreytingin skal auglýst samhliða breytingu á Aðalskipulag Akraness 2005-2017 vegna Tjaldsvæðisins í Kalmansvík.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillaga að deiliskipulag við Tjaldsvæðisins við Kalmansvík verði auglýst í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og verði auglýst samhliða breytingu á Aðalskipulagi Akraness 2005-2017.

Samþykkt 9:0

6.Fundargerðir 2019 - bæjarráð

1901005

3393. fundargerð bæjarráðs frá 28. nóvember 2019.
3394. fundargerð bæjarráðs frá 2. desember 2019.
3395. fundargerð bæjarráðs frá 5. desember 2019.
Til máls tóku:
RÓ um fundargerð nr. 3393, fundarliði nr. 7 og nr. 10.
RÓ um fundargerð nr. 3395, fundarlið nr. 8.
GVG um fundargerð nr. 3395, fundarlið nr. 3.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2019 - skóla- og frístundaráð

1901007

118. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 3. desember 2019.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2019 - velferðar- og mannréttindaráð

1901006

116. fundargerð velferðar- og mannréttindaráð frá 3. desember 2019.
Til máls tóku:
KHS um fundarliði nr. 1 og nr. 5.
ELA um fundarlið nr. 5.
EBr um fundarlið nr. 5
GVG um fundarlið nr. 5.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

9.Fundargerðir 2019 - skipulags- og umhverfisráð

1901008

135. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 25. nóvember 2019.
136. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 2. desember 2019.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2019 - Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

1901010

104. fundargerð stjórnar Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis frá 18. nóvember 2019.
Til máls tóku:
ÓA um fundarlið nr. 1.
ELA um fundarlið nr. 1.
GVG spyr hvað nákvæmlega sé verið að skoða varðandi mögulegt rekstrarform Höfða.
ELA gerir nánari grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í þessu samhengi og að vilji sé til af öllum fulltrúum að halda þeirri vinnu áfram án skuldbindingar um tiltekna niðurstöðu.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2019 - Samband íslenskra sveitarfélaga

1901018

876. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. nóvember 2019.
Til máls tóku:
KHS um fundarlið nr. 11.
RÓ um fundarlið nr. 11.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerðir 2019 - Orkuveita Reykjavíkur

1901021

281. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. október 2019.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Forseti þakkar bæjarfulltrúum fyrir samstarfið á árinu 2019 og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Samþykkt að næsti fundur bæjarstjórnar verði þriðjudaginn 14. janúar 2020.
Samþykkt 9:0

Fundi slitið - kl. 21:16.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00