Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

7. fundur 18. nóvember 2008 kl. 17:00 - 19:00

Ár 2008, þriðjudaginn 18. nóvember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0.

_________________________________________________________________________________________________________________________________

 

Mætt voru:            Harpa Jónsdóttir, formaður unglingaráðs Akraness

                              Gylfi Veigar Reykfjörð Gylfason formaður 

                              Arnardalsráðs,

                              Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir formaður NFFA

                              Krisín Björk Lárusdóttir formaður nemendaráðs Grundaskóla

                              Kristófer Ísak Karlsson, nemandi í Grundaskóla

                              Valgerður Helgadóttir, nemendafélag Brekkubæjarskóla

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri setti fund og stjórnaði umræðum.  Hann byrjaði á því að fara yfir fundargerð síðasta fundar og rifjaði upp mörg þeirra málefna sem voru til umræðu á fundinum fyrir ári síðan. Gísli bar upp fundargerðina til samþykktar.

Fundargerðin er á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Einnig sat fundinn Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála sem ritaði jafnframt fundargerð.

Jón Pálmi Pálsson bæjarritari stjórnaði útsendingu.

_________________________________________________________________________________________________________________________________

Dagskrá:

Fyrst tók til máls Harpa Jónsdóttir, formaður unglingaráðs Akraness. Hún byrjaði á því  að þakka fyrir það frábæra tækifæri fyrir unga fólkið að koma hér fram og koma skoðunum okkar á framfæri. Hún benti einnig á aðþegar rætt er um unglingalýðræði er horft til okkar Akurnesinga og margir líta á okkur sem fyrirmynd, sérstaklega hvað varðar bæjarstjórnarfundinn sjálfan.

Harpa sagði einnig:

?Þetta  er í annað skipti sem ég sit bæjarstjórnarfund  unga fólksins. Fyrra skiptið var árið 2004. Þá var ég í 9. bekk og talaði fyrir hönd Arnardals. Þegar ég las yfir fundargerðina fór ég að rifja upp. Við sem sátum þann fund höfðum fengið tækifæri til að taka þátt í ungmennaþingi í Fjarðabyggð. Þingið var afar gagnlegt og þar fórum við að tala  um hversu mikilvægt væri að fá stærra húsnæði undir starfsemi Arnardals. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að á þeim bæjarstjórnarfundum sem unga fólkið hefur tekið þátt í síðan hafi þessi ósk um stærra húsnæði ávallt verið borin fram. Þess vegna finnst mér afar ánægjulegt að geta á þessum fundi þakkað fyrir þá frábæru aðstöðu sem unglingum á Akranesi er boðið upp á í dag undir sitt tómstundastarf. Með tilkomu húsnæðisins að Þjóðbraut 13 sem við köllum Þorpið hefur starfsemin náð að blómstra. Starfsemin og húsið okkar hefur vakið athygli bæði innanlands og utan. Hingað hefur komið fólk frá hinum ýmsu stöðum til að kynna sér starfsemina okkar. M.a kom hingað hópur tómstundafræðinema frá Svíþjóð.

Harpa rakti síðan starfsemina í Þorpinu. Hún sagði m.a:

,,Í okkar Þorpi, eins og flestum öðrum þorpum á ýmislegt sér stað. Fjölbreytt starf með blómlegu mannlífi þar sem fjölbreyttur aldurshópur nýtur sín í starfi og leik. Í Þorpinu er félagsmiðstöðin Arnardalur fyrir unglinga 13-16 ára. Það er opið 3 kvöld í viku og margt í boði. Þar geta krakkar komið saman og spilað billjard, borðtennis, leikið sér í hinum ýmsu tölvuleikjum, horft á sjónvarpið, dundað sér í föndurherberginu eða spilað. Í vetur hefur einnig verið fjölbreytt skipulögð dagskrá fyrir unglingana. Þar má nefna leikjakvöld, brjóstsykursgerð, fótbolta-, billjard og borðtennismót. Einnig hafa komið góðir gestir í heimsókn frá öðrum félagsmiðstöðum. Arnardalur tekur þátt í starfi Samfés og fór m.a. með unglinga á landsmót félagsmiðstöðva í Reykjanesbæ. Fyrirhuguð er svo landshlutakeppni Samfés  sem verður haldin hér í janúar, hönnunar- og förðunarkeppnin Stíll svo eitthvað sé nefnt.

Í Arnardal eru einnig starfandi félagsfærnis hópar, svokallaðir vinahópar, og miða þeir að því að veita stuðning og félagslega þjálfun þeim krökkum sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti félagsleg.

Í Þorpinu okkar er einnig ungmennahúsið Hvíta hús, starfsemi fyrir 16 ára og eldri.

Hvíta húsið er opið mánudaga til fimmtudaga frá kl 17-23. Þar er hægt að tefla, spila borðtennis-, billjard og tölvuleiki, horfa á sjónvarp og læra, svo eitthvað sé nefnt. Möguleikarnir takmarkast einungis við hugmyndaflug okkar sjálfra.

En þetta er ekki það eina. Í Þorpinu er einnig lengd viðvera fyrir fatlaða unglinga frá 5.-10. bekk. Þar fer fram metnaðarfullt starf sem miðar að því að gera tómstundir þessara unglinga innihaldsríkar og skemmtilegar.

Annað sem má segja frá sem á sér stað í Þorpinu er t.d íslensku og samfélagsfræðikennsla fyrir þær palestínsku konur sem Akranes tók á móti í haust.

Þá  hefur Rauði krossinn nýtt sér húsið okkar undir stærri fundi og samkomur, félag nýrra Íslendinga sömuleiðis. Foreldrafélögin hafa stundum fundað hér og stjórn nemendafélags FVA.

Danshópar hafa verið að nota salin mikið og hafa verið hin ýmsu dansnámskeið. Þar eru einnig mömmumorgnar þar sem mæður með nýfæddu börnin sín geta komið og spjallað. Einnig hafa hinir ýmsu hópar komið og fengið að gista í húsinu, þar má til dæmis nefna boxfélag, fótboltakrakkar og danskur skólahópur?

Að lokum sagði Harpa:

,,Allt þetta sem upp er talið sýnir svo ekki verður um villst að þetta var hárrétt ákvörðun hjá bæjaryfirvöldum að afhenda unga fólkinu þetta húsnæði. Hér geta allir unglingar á Akranesi óháð fjárhagsstöðu foreldra fundið sér eitthvað við hæfi. Þess vegna langar mig að biðla til bæjaryfirvalda að standa vörð um þá starfsemi sem fram fer í Þorpinu. Nú á þessum krepputíma, sem Eva Laufey kemur betur inná á eftir er hætt við að einhvers staðar þurfi að skera niður í opinberri þjónustu. Ég vona hins vegar að það bitni ekki á þeirri starfsemi sem fram fer í Þorpinu. Ef til þess kemur að foreldrar hafi ekki lengur efni á að greiða fyrir íþróttir eða  tónlistarnám þá er mikilvægt að börnin hafi aðgang að ókeypis frítímaþjónustu.?

Næstur tók til máls Kristófer Ísak Karlsson. Hann sagði m.a ,, Akranes er góður bær. Bær með marga góða kosti og góður staður að búa á. Svo góður er hann að það eru fáir aðrir staðir sem ég myndi kjósa sem heimili mitt af þeim aragrúa af stöðum sem ég hef búið á.

En allt það sem er gott er hægt að bæta. Í fyrstu sýn lítur ekki út fyrir að það vanti margt í bæ sem Akranes - við höfum góða menntun, gott heilbrigðiskerfi og gott félagstarf fyrir unglinga. Það er athvarf fyrir aldraða og bærinn þægilega lítill, svo að það er ekki langt í næstu búð. Íþróttastarfsemin er til fyrirmyndar og almennt góður andi í bænum.

Bærinn hefur stækkað mikið á undanförnum árum, eins og sést með byggingu Flatahverfis. Margir eru hins vegar í erfiðri aðstöðu þessa stundina og gætu þurft að losa sig við eignir. Eins og staðan er núna gæti það reynst mjög erfitt og þess vegna mikilvægt að bærinn sé aðlaðandi.

Því spyr ég sjálfan mig...Hvað getum við gert til að gera bæinn meira aðlaðandi, bæði fyrir heimsóknir Íslendinga jafnt og útlendinga, og þeirra sem vilja setjast að í góðu bæjarfélagi?

Kristófer kom einnig með nokkrar hugmyndir.

,,Fyrst og fremst vantar gistiaðstöðu. Það er sáralítið um aðstöðu fyrir fólk sem vill eyða nóttinni eða lengur á Akranesi, ef það hefur ekki aðgang að húsbíl, hjólhýsi eða tjaldi. Ef þetta er eitthvað sem bærinn gæti hugsað sér að bæta, þá er ég nokkuð viss um að ekki hefur selst í allar blokkir hérna sem var verið að byggja. Í sameiningu með einkaaðilum, væri hægt að breyta einni slíkri blokk í íbúðarhótel - og voila: Hótel Akranes!

En þegar komin er gistiaðstaða vantar náttúrulega aðdragandann að heimsókninni.

Það sem þarf, er eitthvað sem dregur fólk til bæjarins til að eyða deginum, eða jafnvel helginni, í okkar heittelskaða bæ.

Það stendur til, eða allavegana áður en hin svo kallaða ?Kreppa? skall á, að byggja yfirbyggða sundlaug við hliðina á lauginni sem er hér nú þegar. Ég held að það gæti verið góð hugmynd að byggja yfirbyggðan sundlaugargarð við hina nýju innanhúslaug eða hreinlega í staðin fyrir hana. Þá er ég ekki að tala um sundlaugagarð með rennibrautum og þvílíku, heldur nokkuð sem hefur sprottið upp í Þýskalandi og Hollandi sérstaklega ? og hefur notið mikilla vinsælda. Í þess konar sundlaugargörðum eru ein til tvær laugar ásamt heitum pottum, gufubaði og öllu sem því fylgir. Þar er einnig veitingaaðstaða og möguleiki á að komast í nudd. Staðurinn er upphitaður og yfirbyggður eins og áður segir og þar af leiðandi jafn aðlaðandi að sumri jafnt sem vetri. Mín rök eru að þar sem hugmyndin um byggingu innanhúslaugar er nú þegar á teikniborðinu þá væri hægt að útfæra hana og reisa fyrstu sundlaugaparadís á landinu. Ef þessi hugmynd væri rétt útfærð gæti það þýtt mikla aukningu ferðamanna og annarra gesta til bæjarins. Svo væri auðvitað hægt að útfæra hugmyndina á marga aðra vegu og laga hana að þörfum bæjarins. En í ljósi þess að öllum framkvæmdum hefur verið slegið á frest þar til jafnvægi verður komin á efnahagslíf okkar Íslendinga, þá er þetta kjörið tækifæri til að endurskoða ákvörðunina að byggja innanhús-sundlaug og útfæra hana eins og ég hef stungið upp á?.

 

Nú hef ég rætt um hvernig væri hægt að bæta þjónustu bæjarins til þeirra sem leitast að afslöppun og afþreyingu.  En hvað þá með þá sem vilja halda samkomur eða fundi hér í bæ? Eftir minni bestu vitund er engin alvöru aðstaða til þess að halda samkomur og fundi sem er sérbúin fyrir slíkar uppákomur. Ég held að það gæti verið gott fyrir bæinn að koma upp einhvers konar aðstöðu fyrir fyrirtæki og fólk til að halda fundi og ráðstefnur, hvort sem það er tengt viðskiptum, pólítík eða öðru. Það jafvel tengja það með einhverjum hætti við gistiaðstöðu.Þá væri hægt að nota það eða húsnæði fyrir samkomur hérna á Skaganum, s.s. ættarmót, ráðstefnur eða öðrum félagstengdum uppákomum.? Að lokum hvatti Kristófer bæjaryfirvöld til að hafa samráð við  unga fólkið í framkvæmdum í framtíðinni

Næst tók til máls Kristín Björk Lárusdóttir. Kristín byrjaði á því að þakka þann styrk sem nemendafélag Grundaskóla fékk í fyrra til að bæta félagsaðstöðuna. Hún sagði einnig: ,,Unglingar á Akranesi hafa í gegnum árin staðið fyrir margs konar sýningum og verkum. Margar hverjar eru svo flottar að varla má sjá mun á þeim og sýningum hjá atvinnuleikurum og öðrum skemmtikröftum. Má sem dæmi nefna leiksýningar sem Grundaskóli og Fjölbrautaskólinn hafa sett á svið síðustu ár, tónlistakeppni fjölbrautaskólans, tónlistarverkefnið Ungir/Gamlir þar sem eldri tónlistarmenn koma og spila með krökkum úr grunnskólunum auk þess sem Brekkubæjarskóli hefur staðið fyrir danssýningum og nú síðast myndlistarsýningu í tengslum við verkefnið Skáld á Skaga. Síðast en ekki sist má nefna Þjóðlagasveitina sem skipuð er efnilegu ungu listafólki.

Bærinn hefur hingað til staðið við bakið á mörgum þessara verka, auglýst og veitt styrki og þökkum við fyrir það. Þessar sýningar væru ekki framkvæmanlegar án stuðnings bæjarins. Góður stuðningur bæjarbúa eru okkur einnig mikil hvatning. Ungt fólk hefur margt fram að færa og þann kraft á Akraneskaupstaður að nýta og styrkja.

Margir unglingar eiga í vandræðum með skólann og hefðbundið bóknám er ekki fyrir alla. Viðkomandi aðilar búa hins vegar margir yfir mikilli verk- og listrænni hæfni.  Í leiklist, tónlist, myndlist o.fl. fá þessir nemendur tækifæri til að sýna sig og sanna og því er ómetanlegt fyrir einstaklingana og þá ekki síður samfélagið á Akranesi að styðja við svona starf. 

Öflugir skólar og framsækið skólastarf er ekki sjálfgefið.  Það er mikið lán fyrir Akranes að eiga slíka skóla og við verðum að gera allt til að hlúa að þeim og efla. Stuðla að fjölbreyttni í  námi, sjálfstæði og styrkingu einstaklinga. Listastarf krefst mikillar hópavinnu sem  útaf fyrir sig er mikil lífsleikni og mikil forvörn gegn áfengi og fíkniefnum?

Kristín vék síðan að byggingu nýs grunnskóla á Akranesi. ,,Nýji skólinn sem á að byggja einhvern tímann á komandi árum ætti að verða forsenda þess að skipulaginu á skólanum yrði aðeins breytt. Við í ungmennaráði og nemendafélög grunnskólanna höfum rætt það og okkur finnst að stofna ætti einn gagnfræðiskóla, sem sagt 8. ? 10. bekk og svo tvo barnaskóli, 1. -7.bekkur. Þetta kerfi gæti boðið upp á mun meiri möguleika.

T.d. gætu valfögin sem boðið yrði upp á fyrir elstu bekkina orðið fjölbreyttari og fleiri, því fleiri kennarar væru til staðar. Þá er líklegra að meira jafnræði yrði milli skóla og nemenda og minni likur á að valfögin í einum skóla séu betra en í öðrum. Má nefna að í fótboltavali í Grundaskóla eru um 60 krakkar en einungis um 15 í Brekkubæjarskóla. Með þessum breytingum væri hægt að hafa þá einn risa hóp eða tvo meðal stóra. Einn unglingaskóli myndi einnig styðja við öflugra list- og menningarlíf. Þannig ættu t.d. allir unglingar kost á að komast í uppsetningu á söngleik eða stórum tónlistarviðburðum.

Auðveldara yrði að skipuleggja félagslífið með því að hafa alla undir sama þaki og yrði þá eitt stórt nemendaráð í staðinn fyrir tvö. Það er líka staðreynd að Grundaskólakrakkar sækja meira á Grundaskólaböll og sama má segja með Brekkubæjarskóla. Værum við þá öll saman og yrði aðsóknin á böll líklegast meiri og unglingarnir samheldnari.

Skipting á bekkjum hefur verið svolítið vandamál hjá nokkrum árgöngum og má nefna minn árgang ?93 sem dæmi. Síðustu ár hefur fjölgað stöðugt í Grundaskóla og eru nú svo komið að um 60% nemenda ganga í Grundaskola en 40 % í Brekkubæjarskóla. Þetta hefur þýtt breytingar á bekkjarskiptingu í skólunum.  Þessi munur gæti vaxið á komandi árum og því finnst okkur skynsamlegt að hugleiða hvort stofna eigi einn unglingaskóla.?

Að lokum hvatti Kristín Björk  bæjaryfirvöld til að tala við unga fólkið þegar þessi vinna fer fram.

Næst tók til máls Valgerður Helgadóttir. Hún gerði strætómálin að umtalsefni.

Hún sagði m.a. ,,Fyrst vil ég þakka fyrir þær góðu umbætur sem hafa orðið hafa í strætómálum á Akranesi. Það frábært skref hjá bæjaryfirvöldum að bjóða upp á gjaldfrjálsan strætó og munar það miklu fyrir bæjarbúa, sérstaklega okkur unga fólkið.

Gjaldfrjáls strætó er alls ekki sjálfsagður hlutur því það eru ekkert margir bæir á landinum sem bjóða upp á þessháttar þjónustu. Þrátt fyrir þetta má bæta strætómálin hér í bæ og ætla ég að koma með nokkur dæmi.

Á álagstímum er strætóinn er alltof lítill, þ.e.a.s. klukkan átta á morgnanna og eftir skóla um tvö leytið og einnig á milli 16-18. Það sem hægt væri að gera í þessu væri annað hvort að fá stærri strætó, eða fá tvo strætóa og láta ganga á 15 mínútna fresti í stað hálftíma. Á þessum álagstímum á fólk í erfiðleikum með að komast út úr vagninum án þess að aðrir farþegar þurfi að fara út á meðan. Þetta veldur því að strætó verður langt á eftir áætlun og kemst fólk kannski ekki á áfangastað á réttum tíma. Einnig bendi ég á að hann mætti ganga lengur fram eftir, en hann gengur einungis til 18:30 á kvöldin. Gott væri að hann gengi einum til tveimur hringjum meira  þótt best væri ef hann gengi til 21:00.

Annað sem rétt er að benda á er að hann gengur ekki upp í Flatahverfið. Eins og staðan er í dag býður hann kannski ekki upp á það en þetta er engu að síður eitthvað sem vert er að benda á. Þá væri einnig hægt að prófa að hafa hann gangandi um helgar, en það er eitthvað sem mér finnst einnig vanta.

Kannski er ég að nefna of margar breytur í þessu sambandi en mér finnst engu að síður allt í lagi að þið vitið hvað okkur finnst um þessi mál?.

Valgerður vildi líka ræða mötuneytismál í grunnskólunum. Hún sagði:

,,Mig langar líka að tala dálítið um mötuneyti í grunnskólunum. Ég veit að þetta er mikið verk og er kannski ekki svo spennandi starf að þurfa að elda ofaní mörg hundruð manns, þurfa að reyna að taka tillit til allra aðilla, hafa takmarkað fjármagn og hlusta á reglur lýðheilsustöðvar. En þó er hægt að reyna að gera matinn meira spennandi. Það er ýmislegt sem hægt er að gera fyrir ekki svo mikinn pening og tíma. Það mætti t.d. vera oftar bara einfalt pasta og sósa eins og tómatsósa eða bara kjúklinganaggar eða sveppasúpa. Það væri líka hægt að prófa að hafa súpu? og salatbar en sú gæti fallið vel í kramið því krakkar í unglingadeildinni eru allaveganna spenntari fyrir því en matnum sem nú er í boði. Þarf ekki að vera á hverjum degi heldur bara 1x, 2x eða 3x í viku

Að lokum vildi Valgerður benda á að: ,,salurinn sem Brekkubæjarskóli hefur sem matsal þurfum við líka að nota undir allskonar kynningar, samkomur o.fl. Salurinn þarf hins vegar alltaf að vera laus klukkan hálf 11 en þá fara yngstu krakkarnir í mat og hamlar mjög aðra notkun á honum?

Næstur tók til máls Gylfi Veigar Reykfjörð Gylfason. Hann byrjaði á því að þakka fyrir góða aðstöðu í Þorpinu. Síðan gerði hann Akraneshöllina að umtalsefni.  Hann sagði: ,,Ég vil fyrst lýsa yfir mikilli ánægju með nýjan inngang í höllina og að klósettaðstaða sé brátt fyrir hendi.  Þessi höll er frábær fyrir knattspyrnu- og frjálsíþróttafólk sem þar æfir en auk þess getur fólk á öllum aldri nýtt sér aðstöðuna til að ganga, hlaupa eða leika sér. Gríðarlegur fjöldi notar því höllina á degi hverjum, allt frá ungu fólki upp í þessa gömlu kalla sem leika sér á kvöldin. En alltaf er hægt að bæta hana.

Aðalvandamálið er kuldinn. Vegna erfiðs efnahagsástands skil ég vel að ekki er hægt að hita upp alla höllina með nýjum tækjum og tólum, en hægt væri að beina hita á þá staði sem ekki er verið að hreyfa sig á. Til dæmis á áhorfendapallana og varamannabekkina. Á þeim stöðum er fólk ekki á hreyfingu og finnur því meira fyrir kuldanum. Sem dæmi má nefna var ég að keppa og kom pabbi að horfa. Því miður fór hann í hálfleik vegna þess að hann fann ekki fyrir puttunum lengur. Hitinn þarf ekki að vera mikill né lengi í gangi. Sérstök ljós er hægt að nota sem yrðu þá sett fyrir ofan pallana og bekkina. Önnur hugmynd er sú að setja ofna fyrir neðan áhorfendapallana og varamannabekkina og þannig notfæra okkur heita vatnið sem kemur frá sundlauginni.                                                                                                                                                    

Annað vandamál er boltageymslan. Boltarnir eru geymdir í tunnum úr plasti og oft þegar að byrjað er á æfingu eru boltarnir freðnir. Ég hef oft fundið fyrir þessu, þetta er ekkert öðrvísi en að sparka í kringlóttan stein. Hægt væri að gera geymslu þar sem tunnurnar yrðu settar í. Hana er hægt að byggja einhversstaðar í höllinni með svipuðum hætti og hina nýju klósettaðstöðu og þar gæti jafnvel einnig verið aðstaða fyrir starfsmenn. Þar kæmi aftur við sögu að nota heita vatnið frá sundlauginni til að hita upp þá aðstöðu. Einnig væri hægt að nota þá geymslu fyrir aðra hluti eins og t.d keilur, hatta og stangir.  Þá vil ég leggja til að ný mörk verði keypt. Mörkin sem nú eru í höllinni er of stór og nokkuð þung. Þau ná vel út á hlaupabraut þegar þau eru á línunum og geta þar af leiðandi truflað frjálsíþróttaæfingar. Þá er mikilvægt að þau séu á hjólum þannig að það sé auðvelt að ýta þeim. Það er mjög mikilvægt, sérstaklega fyrir yngstu flokkanna?. 

Að lokum benti Gylfi á að gæslan í höllinni mætti vera betri. Mikið hefur verið eyðilagt af dóti þegar ekki er gæsla en opið almenningi.

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands var síðust á mælendaskrá. Hún gerði efnahagsástandið að umtalsefni og hvatti yfirvöld til að upplýsa fólk betur, sérstaklega unga fólkið. Hún sagði:

Unga fólkið er framtíðin og því er mikilvægt að huga vel að því. Það er frábært að vera hér í dag og fá tækifæri til þess að koma þeim málefnum, sem okkur þykir mikilvæg, á framfæri. Ég hef ákveðið að fjalla um efnahagsmálin á Íslandi í dag, sumsé kreppuna, hvernig ég upplifi hana og hvað það er sem þarf að huga að,að mínu mati.

Hræðsla, ringlureið og óvissa eru þau orð sem lýsa einna helst þeirri tilfinningu sem ég hef fyrir kreppunni. Áhyggjur af fjölskyldu og vinum eykst með degi hverjum þar sem fjölmiðlar landsins keppast við að koma með skelfilegustu fréttina svo hún hræði mann örugglega nógu mikið. ?Er allt á niðurleið??  spyr maður sjálfan sig. Það er eins og enginn hafi svör við einu né neinu. Það er eins og það sem virkilega er í gangi megi ekki líta dagsins ljós.

Vitaskuld eru margir sem vita nákvæmlega hvað er í gangi í þjóðfélaginu okkar. Það er þó alltaf skýrt á eitthvern undarlegan hátt í fjölmiðlum. Það myndi létta á hjartanu hjá mörgum hverjum ef það kæmu svör á mannamáli.

Það þarf einna helst að tryggja það að fólk fái svör, þá er ég aðallega að tala frá mínu sjónarhorni. Ungt fólk þarf líka að fá svör. Við erum ekki ósýnilegur hópur sem er alveg sama. Efnahagsvandamálin snerta okkur eins og hvern annan Íslending. Ungt fólk er að missa vinnuna, þarf að hætta í skóla vegna peningaleysis og fara út á vinnumarkaðinn ef það er möguleiki á annað borð, lán hækka og háskólasjóðir hverfa. Þá þarf þetta unga fólk einnig að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að fjölskyldan geti orðið gjaldþrota. Þetta eru dæmi sem margir hverjir eru að ganga í gegnum núna á þessum tímum.

Við viljum fyrst og fremst vita hvað það er sem að bíður okkar í framtíðinni. Við viljum vita hverjir möguleikar okkar eru. koma skattar til með að hækka? Verður aðgangur að lánsfé fyrir hendi?

Nú hefur t.d. verið mikil hagræðing hjá mörgum fyrirtækjum landsins og verið er að segja upp fólk í grið og erg, mörg fyrirtæki hafa einnig farið á hausinn. Atvinnuleysi er að aukast og gera svörtustu spár ráð fyrir 10% atvinnuleysi, jafnvel meira. Það þýðir að um 660 atvinnuhæfir Skagamenn verða án vinnu. Hvað verður þá um atvinnu handa skólafólki næsta sumar? Hefur bærinn hugsað út í það?

Það sem ég er að biðja um er að það verði útskýrt á mannamáli fyrir t.d. nemendum í FVA hvað það er sem að er að gerast. Ég vil einnig fá að vita hvernig þetta byrjaði allt saman. Af hverju kom þessi skellur?

Það líður ekki sá dagur að maður komi ekki í skólann án þess að langflestir séu að tala um kreppuna, allir að bera saman bækur sínar um ástandið hjá sér. Það dettur alltaf smám saman inn með hverjum deginum að ástandið er virkilega slæmt. En hversu slæmt? Lagast þetta? Hvenær? Hvernig? Hvað þarf að gerast?  Það eru ekki nein svör í boði.

Ég, sem formaður nemendafélagsins, ætlaði að fá hagfræðing til að koma í skólann og útskýra fyrir ringluðum nemendum hvað er að gerast. En það tók skólastjórnin ekki í mál. Töldu að ekki væri nokkur maður sem gæti komið með einhver gáfuleg svör.

Ef það er ekki óhuggulegt að engin viti neitt þá veit ég ekki hvað.

Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að það er ekki nein ein lausn að þessum vanda, heldur vil ég bara skilja og fá svör, þau þurfa ekki að vera fullkomin en það þarf að vera eitthvað til í þeim. Allavega svo maður sé skrefinu nær að skilja það hugtak sem kallast ,,kreppa".

Þann 13. nóvember stóð Æskulýðsvettvangurinn fyrir málþingi á Grand Hótel. Þar talaði, meðal annarra, Magnús Fjalar Guðmundsson hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Þar kom hann m.a. inn á ástæður kreppunnar og við hverju má búast. Hann stóð þar sem einstaklingur ekki sem fulltrúi bankans. Af hverju ekki að fá hann í heimsókn? Sá fundur eða fyrirlestur gæti þess vegna átt sér stað í Hvíta húsinu.

Eva Laufey vakti einnig athygli á framtaki Hins hússins í Reykjavík og sagði:                            

,,Klár í kreppu" er dæmi um frábært framtak sem Hitt húsið, Neytendasamtökin og Reykjarvíkurborg standa fyrir. Þar er um að ræða ókeypis fjármálafræðslu fyrir ungt fólk. Tilgangur námskeiðsins er að ungt fólk öðlist skilning og stjórn á eigin fjármálum, vilja vera vel upplýstir og meðvitaðir neytendur, vilja losna við yfirdrátt og neyslulán, vilja öðlast skilning á öllum helstu hugtökum fjármálaheimsins, vilja læra að gera fjárhagsáætlun og geta haldið utan um sitt eigið bókhald.

Andleg kreppa og stress einkennir marga á þessum tímum, áhyggjur af fjölskyldum, vinum og vandamönnum eykst með hverjum deginum og brátt fer öll orkan í það. Það getur komið illa niður á lærdómnum. Þó svo að það væri ekki nema eitthver sálfræðimenntaður sem kæmi einu sinni í viku í skólann og nemendur myndu þá fá tækifæri til þess að fá aðstoð við vanlíðan og stressi. Bara smá spjall getur bætt mikið úr skák. Oftast nær dugir það að bara fá eitthvern til þess að kýla mann í gang til þess að horfa á björtu hliðarnar á lífinu. Peningar eru ekki allt en þeir eru engu að síður mjög stór hluti af okkar lífi og hafa mikil áhrif.

Að lokum sagði Eva Laufey:

,,Að lokum langar mig að minnast á að það er mjög mikilvægt að skerða ekki þjónustu við bæjarbúa. Háttvirtur bæjarstjóri hefur þegar sagt að svo verði ekki og vonum við að því verði framfylgt. Það yrði til að mynda mjög slæmt ef einhverjir krakkar þyrftu að hætta í íþróttum eða öðrum tómstundum vegna þessa erfiða efnahagsástands.?

Gísli þakkaði fyrir fróðlega framsögu og sagði að m.a að mikils væri að vænta af unga fólkinu eftir að hafa hlustað á framsögu þeirra. Gísli kom með nokkrar spurningar og umræður spunnust. T.d hvort einhverjir annmarkar væru í samskiptum milli eldri og yngri notenda Þorpsins. Harpa vildi ekki meina að það væru neinir annmarkar og í góðu lagi að skipta húsnæðinu. Hann spurði einnig hvort einhverjar hugmyndir væru varðandi nýtingu á Garðalundi sem hægt væri að nýta í ferðaþjónustu eða í tengslum við þær hugmyndir sem Kristófer lagði fram. Kristófer fagnaði því að hugmyndir væru um byggingu hótels. Hann vildi frekar tengja útivistarsvæðið við Langasand.

Þá varpaði Gísli þeirri spurningu fram hvort raunhæft væri að elstu nemendur grunnskólans færu inn í framhaldsskólann. Kristínu Björk finnst það ekki vænlegur kostur þar sem hún telur krakka á þessum aldri ekki bera nægjanlega þroska til að takast á við sjálfstætt náms eins og er í Fjölbraut. Bæjarstjóri spurði um leið til að koma á framfæri óskum nemenda um breytingu á mötuneyti grunnskólanna.Valgerður lagði til að  framkvæmd yrði könnun  hvað varðar útfærslu á mötuneytinu.  Hún sagði einnig að hugsanlega væri hægt að hafa aðskilið mötuneyti fyrir eldri og yngri. Bæjarstjóri þakkaði einnig fyrir ábendingar varðandi Akraneshöllina og kallaði eftir hugmyndum varðandi gæslu í húsið. Bæjarstjóri spurði einnig hvort að einhvern tímiafrekar en annan þyrfti á gæslu að halda í Akraneshöll. Gylfi lagði til að vallargæslumaður yrði ráðin til að sjá um höllina.  Bæjarstjóri bauðst til að koma í Fjölbrautaskóla Vesturlands og ræða við nemendur um efnahagsástandið. Gísli spurði hvort ungt fólk væri tilbúið að vinna með höndunum þ.e ekki bara að horfa á tæki vinna því það er það helsta sem bærinn getur boðið upp á til að skapa mannfrek störf. Eva taldi unga fólkið ekki telja það eftir sé að vinna við grjóthleðslu ef það er það sem þarf. Eva fagnaði því ef bærinn kemur inn með atvinnu fyrir skólafólk. Bæjarstjóri fullvissaði bæjarfulltrúa um að allt verði gert til að grunnþjónusta bæjarins verði ekki skert og sagði frá þeim hugmyndum sem uppi eru varðandi atvinnuskapandi verkefni t.d í Garðalundi.

Að lokum þakkaði Gísli bæjarfulltrúum vel unnin störf.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið kl. 18.05.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00