Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

13. fundur 18. nóvember 2014 kl. 16:00 - 17:15 Bæjarþingsalur

Hljóðupptöku má nálgast hér. 

Mætt voru:

Anna Mínerva Kristinsdóttir (AMK), Brekkubæjarskóla
Arnór Sigurðsson (AS), fulltrúi Arnardals
Bryndís Rún Þórólfsdóttir (BRÞ), fulltrúi Hvíta hússins
Katarína Stefánsdóttir (KS), fulltrúi nemenda Grundaskóla
Sindri Snær Alfreðsson (SSA), fulltrúi nemendafélags FVA

Einnig sátu fundinn:

Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar sem stjórnaði fundinum
Regína Ásvaldsdóttir (RÁ), bæjarstjóri
Rakel Óskarsdóttir (RÓ), bæjarfulltrúi
Vilborg Guðbjartsdóttir (VG), bæjarfulltrúi
Ingibjörg Valdimarsdóttir (IV), bæjarfulltrúi
Valgarður L. Jónsson (VLJ), bæjarfulltrúi
Ólafur Adolfsson (ÓA), formaður bæjarráðs
Valdís Eyjólfsdóttir (VE), bæjarfulltrúi
Ingibjörg Pálmadóttir (IP), bæjarfulltrúi

Fundagerð ritaði: Helga Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs.

Sigríður Indriðadóttir setti fund og bauð fundarmenn velkomna til 13. bæjarstjórnarfundar unga fólksins en fyrsti fundur var haldinn árið 2002.

Bryndís Rún tók fyrst til máls og vildi benda á það sem vel hefur tekist til að undanförnu og nefndi sérstaklega endurbætur á torginu og að nýtt kaffihús hefði tekið til starfa.
Bryndís  lagði fram tillögur að ýmsu sem betur mætti fara og nefndi t.d. að setja mætti upp fallegt skilti við innkeyrslu í bæinn og að dagskrá Írska daga væri einnig sniðin að þörfum krakka á aldrinum 14-18 ára. Og einnig að setja ruslatunnur á fleiri stöðum í bænum.
En tvennt gerði hún aðallega að umtalsefni. „Á Akranesi er að finna marga leikvelli, en alltof margir þeirra eru alls ekki í nógu góðu ásigkomulagi; t.d. eru leiktækinn mörg hver komin til ára sinna og gróður og annað slíkt er illa hirt.  Það væri virkilega gaman að sjá ef að þau hverfi sem hafa leikvöll myndu t.d. skipa hverfanefnd sem myndi taka leikvöllinn í fóstur. Þetta gæti skapað vinalega og góða stemningu milli íbúa hverfisins. Leikvöllurinn yrði persónulegri og fólkið yrði eflaust duglegra að fara með krökkunum sínum út að leika.“
„Næsta umræðuefni hjá mér er að gera flottan útikörfuboltavöll. Áhugi fyrir körfubolta hér á Akranesi hefur verið að aukast upp á síðkastið. Mér finnst bráðvanta völl þar sem krakkar jafnt sem fullorðnir geta komið og æft sig. Einu körfuboltavellirnir eru á skólalóðunum tveimur og eru þeir ekki beint þeir glæsilegustu. Hugmyndin mín er að gera flottan völl sem er gerður úr sérhönnuðum plastflísum, sem fara mun betur með líkamann en malbikið.
Svona vellir hafa verið vígðir víða um land undanfarin ár. Sem dæmi má nefna í Keflavík, Grindavík, Gravarvogi og á Sauðárkróki. Ég spurðist fyrir um hvernig þessir vellir væru að virka í Reykjavík. Þau eru með tvo velli og sögðu að það það gengi mjög vel hjá þeim.
Hugmyndir að staðsetningu vallarins eru helst á annarihvorri skólalóðinni. Einnig er stórglæsilegt illa nýtt svæði á milli Stekkjarholts og Háholts. En nýtingin á vellinum yrði líklega best ef hann yrði í grennd við annan hvorn skólann.“

Annar á mælendaskrá var Arnór Sigurðsson fulltrúi Arnardals. Hann byrjaði á að benda á ýmislegt sem vel er gert og nefndi aðgengið almennings að Akraneshöllinni og að það væru forréttindi að geta nýtt hana svo mikið sem raun ber vitni. Hann lýsti einnig yfir ánægju með þá starfsemi sem fram fer í Þorpinu og Arnardal.
En hans meginmál snérist um hreystibraut og vitnaði hann í bæjarstjórnarfund unga fólksins 2013 þar sem bæjarstjórn var hvött til að setja upp hreystibrautir í bæjarfélaginu. Hann sagði síðan;
„Í fyrsta lagi tel ég að hreystibrautir bjóði upp á aukna og fjölbreyttari hreyfingu. Það væri hægt að nota brautirnar við íþróttakennslu. Einnig sé ég að mismunandi íþróttagreinar geti nýtt sér brautirnar til að auka styrk og snerpu iðkenda sinna.
Varðandi íþróttakennsluna þá fengju allir nemendur tækifæri til að takast á við þessa braut en yngri nemendur eru oftast mjög spenntir þegar að skólahreystikeppninni kemur. Þannig gætu þau sjálf verið búin að prófa brautina og þetta skapað skemmtilega stemmningu í skólunum. Svo ég tali nú ekki um að tengja íþróttir meira við útikennslu.
Í öðru lagi mundi hreystibrautin auka fjölbreytileika á skólalóðunum.
Þegar við skoðum hvaða möguleikar eru í boði fyrir nemendur þá eru þeir ekki miklir. T.d. í  Grundaskóla er gervigrasvöllur, 3 körfur, einn körfuboltavöllur, 2 malbikaðir fótboltavellir, 5 rólur, kastali og lítil klifurgrind  en  þetta er hugsað fyrir 600 nemendur.
Það segir sjálft að hreystibraut á skólalóðina gæti klárlega leitt til meiri hreyfingar og aukinni þátttöku nemenda í frímínútum.
Í þriðja lagi vil ég nefna það sem oft hefur verið rætt um að hreyfing getur haft góð áhrif á námsárangur, eykur úthald og einbeitingu nemenda. Væri ekki snilld að standa upp frá dönskunni, fara í  10-15 mínútur í hreystibrautina,  fá smá útrás og koma svo aftur inn fullur af orku til að takast á við dönskuna og það sem bíður manns.
Í fjórða lagi er það síðan þátttaka skólanna í keppninni Skólahreysti.
Við viljum að sjálfsögu vera meðal þeirra bestu. Ég tel að hreystibraut myndi klárlega hjálpa okkur í því. Einnig er ég viss um að við fengjum fleiri nemendur til að taka þátt og undirbúa sig fyrir keppnina og þar af leiðandi yrðu lið skólanna sterkari, meiri samkeppni er jú af því góða.“
Arnór fjallaði svo um kostnað og hafði kynnt sér málið. Hreystibraut kostar uppsett kr. 13.000.000. Hægt væri að áfangaskipta verkinu og einnig leita eftir styrkjum hjá fyrirtækjum. Arnór enda mál sitt á að hvetja bæjarstjórn til að ráðast í verkefnið og um væri að ræða forvarnarverkefni og góð fjárfesting.

Næst á mælendaskrá var Anna Mínerva Kristinsdóttir en hún er fulltrúi nemendaráðs Brekkubæjarskóla. Hún gerði stöðu tónlistarskólakennara að umtalsefni og að þeir væru í verkfalli. Hún fjallaði um mikilvægi tónlistar og að hún kæmi alls staðar við sögu í mannlífinu. Hún sagði m.a.;
 „Tónlistin er ekki bara í tækjum heldur einnig í náttúrunni, hún er alls staðar. Tónlistarkennarar kenna okkur að þekkja hana og greina hana í sundur, og síðan kenna þeir okkur að spila á hvaða hljóðfæri sem við viljum. Tónlist, jafnt og nám er stór hluti af menningu og því skiptir hún ekki minna máli en nám og  ekki meira „
Hún skoraði á bæjarstjórnarfulltrúa að semja við tónlistarskólakennara og jafna kjör þeirra við aðra kennara. Síðan gerði hún að umtalsefni verkefnið „Rafbörn“  þar sem nemendur sjá um rafbörn eina helgi en verkefnið er talið hafa mikið forvarnargildi en foreldrar og nemendur hafa séð um að afla styrkja vegna þess.
Að lokum sagði Anna Mínerva; „Mig langar einnig til að hvetja bæjarstjórn til að hafa samráð við unga fólkið þegar ákvarðanir verða teknar um framtíð skólahúsnæðis á Akranesi.. Ég t.d vildi gjarnan sjá einn sameiginlega unglingaskóla. Þannig myndu unglingar kynnast betur og hægt væri að hafa fjölbreyttara unglingaval fyri alla. Margir hafa eignast nýja vini í fjölbrautaskólanum og oft eru það krakkar sem hafa verið í sitt hvorum skólanum, átt fáa vini í sínum skóla.“ 

Þá tók Katarína Stefánsdóttir til máls en hún er fulltrúi nemendafélags Grundaskóla.
Hún byrjaði á að lýsa yfir ánægju með nýtt mötuneyti í skólanum sínum og sömuleiðis gangbrautavörsluna sem 10. bekkinga sinna í kringum skólann. Hún vildi líka hrósa þeim kennurum skólans sem hafa sett upp söngleiki á undanförnum árum og eru einmitt núna með nýtt verk í undirbúningi. Einnig vildi hún nefna nemenda- og kennaraverkefni í listsköpum sem verið hefur sl. tvö ár og nefndist sýningin í ár „Lítum okkur  nær“
Hún gerði að umtalsefni hverjar aðstæður nemenda í unglingadeild Grundaskóla eru í dag. Hún sagði m.a.;
„Þegar við í Unglingadeildinni fáum frítíma í skólanum og kennararnir fara á kaffistofuna þá höfum við engan stað til að vera saman á. Gryfjan er að vísu við unglingadeildina en við getum oftast ekki notað hana því að hún er orðin ein að kennslustofum skólans. Nemendur á öllum stigum skólans nota Gryfjuna t.d. fyrir samsöng,  fyrirlestra, þegar horft er á myndbönd, kvikmyndir og fleira.
Eins og gefur og skilja eru stundatöflurnar mismuandi eftir stigum og því oft verið að nota Gryfjuna þegar að það eru frímínútur í unglingadeildinni.
Í Gryfjunni er örbylgjuofn og samlokugrill fyrir okkur til að nota þegar við erum í nestistíma eða mat. Þetta getum við hinsvegar ekki nýtt okkur þegar aðrir eru í Gryfjunni.“
Hún nefndi eftirfarandi sem hugmynd að lausn;
„Eftir að hafa velt þessu svolítið fyrir mér og spurt aðra krakka og kennara hvað þeim finnst um þetta aðstöðuleysi þá velti ég því fyrir mér hvort það væri möguleiki á því að færa kennarana í minna rými. Það væri hægt að gera kennarastofu þar sem brauðsalan og geymsla nemendaráðs er. Í staðinn fengjum við rýmið sem kennararnir eru með í dag. Með því að opna það rými væri hægt að gera notalega setustofu fyrir okkur þar sem við gætum haft það notalegt saman sem hópur. 
Ég skora á ykkur að finna lausn við húsnæðisvandanum og þrengslunum í skólunum. Er ekki tími kominn að byggja nýjan skóla og byggja hann upp eins og gert var á sínum tíma með Grundaskóla.“

Síðastur á mælendaskrá var Sindri Snær Alfreðsson og talaði hann fyrir hönd Nemendafélags Fjölbrautarskóla Vesturlands.
Sindri byrjaði á að fjalla um aðstæður til að stunda líkamsrækt og benti á að tækjabúnaður í æfingaraðstöðu að Jaðarsbökkum væri úr sér genginn og þrengsli oft mikil. Hann hvatti bæjaryfirvöld til að fara í viðræður við ÍA þannig að bæta mætti aðstöðuna.
Því næst fjallaði hann um æfingaraðstöðu fyrir hljómsveitir og sagði m.a.;
„Nú þó svo tónlistarlífið hér á Akranesi blómstri eru til nóg um dæmi þar sem hljómsveitir hafa þurft að leggja árar í bátinn vegna skorts á æfingahúsnæðum. Ég þekki eitt dæmi þar sem ungmenni á mínum aldri gáfust upp á að leita hér á bæ. Og snéru þeir sér þá að Reykjavíkurborg. Þar leigja þeir herbergi í TÞM eða Tónlistarþróunnar miðstöðinni. Þar geta hljómsveitir leigt herbergi á viðráðanlegri mánaðarleigu. Með því skilyrði að þeir noti aðeins sínar græjur. Þeir hafa ótakmarkaðann aðgang að þessu herbergi á opnunartíma. TÞM er reyndar með starfsmann á vakt á opnunartíma sínum en það eru samt algjör forréttindi að getað mætt þannig séð þegar þeim sýnist og æft.
Ég hef talað um þetta mál áður og vildi ég aðeins leggja meiri áherslu á þetta. Eru ekki einhver hús í eigu bæjarins sem hægt væri að nota í þetta? Mér dettur strax í hug Sementsverksmiðjan sem stendur auð eins og er. Skagaleikflokkurinn fékk nýverið 150 fermetra starfsmannarými sem er staðsett fyrir neðan matsalinn í Sementsverksmiðjunni. Í samningnum sem Akraneskaupstaðurinn gerði við leikflokkinn kemur fram að leigan reiknist sem styrkur til flokksins en hann verði að ábyrgjast metnaðarfulls starfs. Þetta þyrfti ekki að vera einungis fyrir tónlistamenn heldur væri hægt að samnýta þetta með fleiri listum.“
Að lokum lagði  Sindri fram tillögu um;
„....að fá eitt ungmenni í öll ráð bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar. Mér þykir það afar mikilvægt þar sem ungmenni ættu nú að hafa einhverja rödd í ákvarðanatökum bæjarstjórnar. Nú veit ég að á Seltjarnarnesi var þetta gert fyrir nokkrum árum og eru bæjarbúar þar mjög ánægðir með þá ákvörðun. Þó svo að á fundum eins og þessum geti ungmenni lagt fram sínar tillögur að þá finnst mér mikilvægara að þau geti haft meiri vægi hér á bæ. Þannig gæti ungmennaráð átt áheyrandafulltrúa í Skóla og frístundaráði, framkvæmda og skipulagsráði og félags og mannréttindaráði. Ég mundi einnig vilja sjá fulltrúa ungmenna í menningarnefnd og í starfshópi um framtíð Sementversmiðjureitsins.“

Sigríður Indriðadóttir þakkaði öllum frummælendum fyrir þeirra framlag og gaf orðið laust.

RÓ tekur undir með BRÞ um að horft verði til þess að taka tilliti til yngri hóps, ungmenna við gerð dagskrár fyrir á Írskum dögum. Varðandi skólamálin vildi Rakel upplýsa að þau mál yrðu til skoðunar á næstu mánuðum.

AMK tók til máls og vakti athygli á að íþróttaiðkun snýst ekki alltaf um keppni.

KS upplýsti um að rafdúkkurnar kosta kr. 5.000 per nemanda.

VLJ fjallaði um nokkur atriði sem bæjarstjórnarfulltrúar unga fólksins fjölluðu um. Hann tók undir hugmyndir um skilti við innkeyrslu bæjarins og óskaði eftir hugmyndum um hvernig skiltin gætur verið. Vildi vita hvar væri best að setja upp hreystibrautir á Akranesi. Varðandi félagsaðstöðu fyrir unglinga þá styður Valgarður þá hugmynd sem Katarína lagði fram.

RÁ þakkaði frummælendum fyrir uppbyggilegan málflutning. Hún fjallaði svo um nokkur málefni s.s. skilti við innkeyrslu í  bæinn, aðstöðu til hljómsveitaræfinga o.fl.

ÓA upplýsti um að fjármagn til nýrra verkefna væri af skornum skammti. En jafnframt að kröfur til aðstöðu hefðu breyst í gegnum tíðina. Hann vill gjarnan fá ítarlegri rökstuðning fyrir verkefnunum.

IV þakkar fyrir ábendingarnar sem fram komu. Sumu hefur verið hægt að bregðast við en annað hefur þurft að bíða. Hún vill skoða hugmyndina með áheyrnarfulltrúa í ráðum og nefndum nánar með öðrum bæjarfulltrúum.

VG taldi ánægjulegt hvað bæjarfulltrúar unga fólksins hugsað í lausnum og hefðu áhuga á heilsueflingu í gegnum hreyfingu. Einnig ræddi hún um verkfall tónlistarskólakennara og áhrif þess á bæjarlífið og skólastarf. Hún ræddi um aðstöðu til hljómsveitaræfingar og að aðstaðan gæri jafnvel nýst til iðkunar fleiri listgreina.

IP fór yfir nokkur atriði sem fjallað hefur verið um á fundinum.

VE Þakkaði bæjarstjórnarfulltrúum unga fólksins fyrir þeirra framsögur og framlag.

Sigríður þakkaði öllum fundarmönnum fyrir umræðurnar og sleit fundi kl. 17:15.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00