Fara í efni  

Æskulýðs- og félagsmálaráð (2000-2002)

612. fundur 23. október 2001 kl. 08:00 - 09:00


612. fundur æskulýðs- og félagsmálaráðs haldinn á félagsmáladeild
Stillholti 16-18, þriðjud. 23. október 2001 og hófst hann kl. 8:00.

Mættir voru: Inga Sigurðardóttir,
 Oddný Valgeirsdóttir,
 Sæmundur Víglundsson
 Tryggvi Bjarnason
 Pétur Svanbergsson

Auk þeirra félagsmálastjóri, Sólveig Reynisdóttir og Sveinborg Kristjánsdóttir félagasráðgjafi ritaði fundargerð. Trúnaðarbók ritaði Oddný Valgeirsdóttir.


Fundur settur af formanni.

Fyrir tekið:

1. Tillaga að stjórnskipulagsbreytingu Akraneskaupstaðar.
PriceWatherhouseCoopers hefur unnið nýja tillögu að skipuriti fyrir Akraneskaupstað. Í tillögunni er gert ráð fyrir að breytingar verði á núverandi Félags-, húsnæðis- og æskulýðsmálum með þeim hætti að stofnað verði Fjölskyldu- og tómstundasvið með sama verkssviði og áður auk þess sem að öll íþróttastarfsemi falli undir sviðið.  Einnig er lagt til að málefni áfengis- og vímuvarna falli undir verksvið íþróttanefndar og að æskulýðsfulltrúi taki við rekstri Bíóhallarinnar og þjónustumiðstöðvar unglinga.

Æskulýðs- og félagsmálaráð fagnar því að skipurit Akraneskaupstaðar sé tekið til endurskoðunar og lítur á hana sem mikilvægan lið í því að tryggja með sem bestum hætti að þjónusta við íbúanna verði skilvirkari. 

Æskulýðs- og félagsmálaráð leggur til að öll þjónusta  við fjölskyldur á
Akranesi verði sameinuð undir eitt fjölskyldusvið. Með því verður
samfélagsleg þjónusta skilvirkari og meira í takt við þarfir íbúanna. Ef
litið er til framtíðar þá er eitt af brýnustu verkefnum þeirra sem vinna að
málefnum einstaklinga og fjölskyldna að samhæfa þjónustu sína á sviði
fjölskyldumála. Í því felst m.a. að sameina sérfræðiþjónustu félags- og
skólamála. Fjölskyldusvið tæki til félags-, æskulýðs-, íþrótta-, skóla-, jafnréttis- og menningarmála. Samfara þessu leggur æskulýðs- og félagsmálaráð til að skoðað verði að rekstur einstakra mannvirkja falli að einhverju leyti undir annað svið eða deild t.d.sérstakan eignasjóðs eða fjármála- og stjórnsýslusvið.

Æskulýðs- og félagsmálaráð telur að það fyrirkomulag sem tillagan gerir ráð fyrir varðandi vímuvarnir sé ekki málefninu til framdráttar. Forvarnir á þessu sviði þurfa að taka til víðtækari aðgerða en þeirra sem eru á vettvangi íþróttanefndar. Það fyrirkomulag sem hefur verið á Akranesi þar sem margir aðilar hafa verið kallaðir til samstarfs (félagsþjónusta, íþróttafulltrúi, æskulýðsfulltrúi, lögregla, framhaldsskóli og skólaskrifstofa) er farsælla og Æskulýðs- og félagsmálaráð telur að halda beri áfram á þeirri braut og að ábyrgðin verði á höndum félagsmálastjóra og menningar- og skólafulltrúa eða sviðsstjóra hins sameinaða fjölskyldusviðs.

2. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga
 Inga Sigurðardóttur kynnti ályktun fundarins.

 Ályktun Landsfundar jafnréttisnefnda, Hvolsvelli, 19.-20.október 2001

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga, haldinn á Hvolsvelli 19.-20.október 2001 lýsir vonbrigðum sínum  með hve hægt miðar í að rétta hlut kvenna hvað varðar m.a. launajafnrétti og þátttöku í stjórnun fyrirtækja og sveitarfélaga.

Fundurinn skorar á öll stjórnmálaöfl að tryggja jafnan hlut kvenna og karla á framboðslistum í komandi kosningum. Sérstaklega er hvatt til þess að í tveimur efstu sætum hvers framboðslista sé fólk af báðum kynjum.

Fundurinn lýsir þungum áhyggjum vegna kynlífssölu í íslensku samfélagi. Bent er á að nektarstaðir eru löglegir samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta ári. Fundurinn  skorar á löggjafarvaldið að banna rekstur slílkra  nektarstaða, eða að öðrum kosti veita sveitarfélögum lagaheimild til að úthýsa þeim. 

Fundurinn fagnar áhuga og árangri margra fyrirtækja hvað varðar aðgerðir til að samræma einkalíf og atvinnu, sbr. verkefnið Hið gullna jafnvægi, og lýsir ánægju með þann fjölda feðra sem hefur tekið fæðingarorlof á árinu. 

Fundurinn lýsir áhyggjum af þeirri þróun sem á sér stað í atvinnumálum á landsbyggðinni. Störf sem konur hafa gegnt eru lögð niður og þær lausnir sem ráðamenn virðast eygja eru einhæfar og alls ekki til þess fallnar að halda konum í byggðunum, hvað þá að laða þær að.   Þessi þróun kemur hvorki landsbyggð né höfuðborgarsvæði til góða. 

3. Fjárhagsaðstoð
 Einstaklingsmál færð í trúnaðarbók.

4. Neyðarsími vegna barnaverndarmála
 Lagt fram bréf barnaverndarstofu.

5. Barnaverndarmál
Einstaklingsmál færð í trúnaðarbók.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 9:00

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00