Mikill metnaður í árlegri hurðaskreytingakeppni
Á ári hverju keppa nemendur á unglingastigi í Brekkubæjarskóla í hurðaskreytingakeppni sem felst í því að allir bekkir á unglingastiginu skreyta hurðina að kennslustofunni sinni.
Óhætt er að segja að mikill metnaður sé lagður í keppnina, en nemendur fá einn dag til að klára verkið. Undirbúningur hefst þó oft mun fyrr enda hafa nemendur margir hverjir hurðaskreytingakeppnina á bakvið eyrað allt árið. “Stundum hafa þau haft meiri tíma en við ákváðum að í ár hefðu þau bara þennan eina dag,” segir Hafþór Daði Halldórsson dönsku- og leiklistarkennari við skólann. “Það er mjög mikið keppnisskap í hópnum og hiti í loftinu.”
Eftir að nemendur luku við verk sín fékk þriggja manna dómnefnd það erfiða hlutverk að velja sigurvegara, en í ár voru veittar viðurkenningar fyrir fallegustu, frumlegustu og skemmtilegustu hurðina.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá glæsileg sköpunarverk nemenda og hvaða hurðir sigruðu í keppninni í ár.





