Landsátak í sundi
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1.-30. nóvember.
Markmiðið er að hvetja almenning til að hreyfa sig oftar og meira í daglegu lífi og nota meðal annars sund til þess. Á síðasta ári syntu þátttakendur samtals 31.271 kílómetra, eða um 24 hringi í kringum landið. Skólar og sundfélög eru einnig sérstaklega hvött til þátttöku.
Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land. Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.
Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá synta metra. Þeir sem eiga notendanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn.
Skráningarblaðið er hugsað fyrir þá sem geta ekki notað tölvu til skráningar á metrum, en auðveldast er að starfsfólk sundlauga skrái samtöluna inn í kerfið t.d. Vikulega.
Skagamenn eru hvattir til að taka virkan þátt í landsátakinu enda fátt betra fyrir líkama og sál en góður sundsprettur.





