Barnamenningarhátíð um allt Vesturland!
Barnó! – Barnamenningarhátíð á Vesturlandi fer fram í fyrsta sinn í ár sem sameiginlegt verkefni allra sveitarfélaga í landshlutanum. Með þessu er stigið mikilvægt skref í átt að markvissari eflingu menningarstarfs fyrir börn og með börnum um allt Vesturland.
Heiti hátíðarinnar, Barnó! – Best Mest Vest!, varð til í samkeppni meðal vestlenskra barna, en hugmyndina áttu Kristín Lind Estrajher og Björn Ágúst Dal Stefánsson, nemendur við Grunnskólann í Borgarnesi.
Dagskrá Barnó! stendur frá 9. október til 14. nóvember og spannar fjölbreytta viðburði á sviði sirkuslista, tónlistar, bókmennta, myndlistar og leiklistar, auk smiðja og sýninga þar sem börn taka virkan þátt í sköpunarferlinu.
Barnó! er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands og er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands. Verkefnið byggir á víðtæku samstarfi sveitarfélaga, skóla, menningarstofnana og listafólks sem leggja áherslu á að efla skapandi starf barna og ungmenna á Vesturlandi.
Barnamenning stuðlar að sjálfstrausti, sköpunarhæfni og samfélagslegri þátttöku barna. Með Barnó er lagður grunnur að framtíð þar sem börn fá aukin tækifæri til að taka virkan þátt í menningu og móta sitt eigið samfélag.