Fara í efni  

Fulltrúaráð Grundartangahafnar (2002-2004)

6. fundur 16. desember 2004 kl. 17:00 - 18:00

Fundur fulltrúaráðs Grundartangahafnar, skv. 5. gr. reglugerðar hafnarinnar, var haldinn að Mótel Venus, fimmtud. 16. desember 2004 og hófst hann kl. 17:00.


 

Mættir voru:                       Gunnar Sigurðsson,

                                          Guðmundur Vésteinsson,

                                          Lárus Ársælsson,

                                          Guðni Tryggvason,

                                          Ingi Tryggvason,   

                                          Jón Stefánsson,

                                          Marinó Tryggvason,

                                          Sigurður Sverrir Jónsson,

                                          Ásbjörn Sigurgeirsson,

                                          Sigurður Valgeirsson,

                                          Guðmundur Gíslason,

                                          Stefán Ármannsson,

                                          Eiður Ólafsson.

 

Auk þeirra Gísli Gíslason, hafnarstjóri og Guðmundur Eiríksson.

 

Gunnar Sigurðsson, formaður hafnarstjórnar, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


 

Fyrir tekið:

 

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi hafnarinnar.

Hafnarstjóri og formaður hafnarstjórnar fóru yfir skýrslu um starfsemi stjórnar hafnarinnar og er hún svofelld:

 

1.1  Inngangur.

Stjórn Grundartangahafnar hefur á liðnum mánuðum unnið áfram að mörgum þeim verkefnum sem getið var í skýrslu tjórnarinnar til fundar fulltrúaráðsins, sem haldinn var 14. maí s.l.  M.a. hefur áfram verið unnið að stækkun hafnarinnar, ýmsum brýnum viðhaldsverkefnum, breytingum á samningum hafnarinnar við Íslenska Járnblendifélagið ehf., stofnun Faxaflóahafna og fleira.  Verður hér á eftir gerð gerin fyrir helstu verkenfum stjórnarinnar.

 

2.1  Stækkun Grundartangahafnar.

Framkvæmdir við stækkun Grundartangahafnar hafa gengið vel.  Lokið er við dælingu í bryggjustæðið og verið er að keyra út grjóti, sem samið hefur verið um kaup á við Norðurál hf.  Stálþil, sem boðið var út seinni hluta síðasta sumars er komið til landsins og tilboð í niðurrekstur þess og gerð þetkju verður opnað föstudaginn 17. desember.  Áætluð verklok þess áfanga sem boðinn hefur verið út er í september á næsta ári.

 

3.1  Hafnarvernd.

Á siðasta sumri tóku gildi nýjar reglur um hafnarvernd.  Kostnaður hafnarinnar við girðingar, lýsingu, vaktskýli, myndavélakerfi o.fl. mun nema um 20 mkr.  Samið var við Klafa ehf. um framkvæmd hafnarverndarinnar og gildir sá samningur til ársins 2007.  Í upphafi var sett gjaldskrá vegna þjónustu fyrirtækisins, sem nú hefur tvívegis verið lækkuð, en frá næstu ármaótum er gert ráð fyrir að samræmd gjaldskrá Faxaflóahafna gildi um hafnarverndina.  Ljóst er að það verði sameiginlegt verkefni eigenda Klafa ehf. og eigenda Faxaflóahafna að halda gjaldtöku af hafnarverndinni í lágmarki og hafa breytingar á gjaldskránni miðað að því.

 

4.1  Viðræður við Íslenska Járnblendifélagið ehf. og Noðruál um breytingar á hafnasamningum.

Um nokkurt skeið hefur stjórnin unnið að því að fá gildandi hafnasamningi við Íslenska Járnblendifélagið ehf. breytt.  Hafa breytingarnar miðast að því að niður falli ákvæði um forkaupsrétt félagsins að elsta hluta hafnarinnar og seturétt fulltrúa félagsins á stjórnarfundum.  Á móti hefur stjórn hafnarinnar boðið að vörugjöld muni til framtíðar taka sömu breytingum og byggingavísitala, eins og gildir um samning Alcoa varðandi Fjarðarál, að haldnir verði formlegir samráðsfundir með fyrirtækinu, að gerð verði viljayfirlýsing um tímabundinn viðbótarafslátt hyggist fyrirtækið auka starfsemi sína veruleg og loka að greiða fyrirtækinu hófega fjárhæð vegna umsýslu þess viðhöfnina á liðnum árum.  Á fundi aðila miðvikudaginn 15. desember s.l. náðist samkomulag milli aðila um að fjárhæð vörugjalda verði tengd byggingavísitölu og að komi til stækkunar verksmiðjunnar með byggingu tveggja ofna þá verði fyrirtækinu gefinn 36 mánaða aðlögunartími vegna framleiðslu úr hvorum ofni, en á móti falla niður ákvæði um seturétt á sjtórnafundum og ákvæði um forkaupsrétt fyrirtækisins.  Samkomulag þetta ætti að vera hvetjandi fyrir Íslenska Járnblendifélagið ehf. til að auka starfsemi sína á Grundartanga samhliða því sem ákvæði hafnarsamningsins eru einfölduð til samræmis við samning hafnarinnar við Norðurál hf.

 

Rætt hefur verið við fulltrúa Norðuráls hf. um að vörugjöld þeirra verði tengd byggingavísitölu og er stefnt að því að ljúka því máli við fyrsta tækifæri.

 

5.1  Stofnun Faxaflóahafna sf.

Þann 17. nóvember s.l. undirrituðu eigendur Grundartangahafnar, Akraneshafnar, Reykjavíkurhafnar og Borgarneshafnar sameignarsamning um stofnun fyrirtækisins Faxaflóahafnir sf.  Stjórn fyrirtækisins hefur þegar verið skipuð og hún tekin til starfa.  Vinnur stjórnin m.a. að gerð fjárhagsæáætlunar fyrir árið 2005, framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára og samræmdrar gjaldskrár.

 

6.1.Viðhaldsverkefni og tjón á Grundartangahöfn.

Á seinni hluta ársins hefur verið unnið að ýmsum brýnum viðhaldsverkefnum.  M.a. hefur hluti af þekju hafnarinnar verið endurnýjaður og nú er unnið að endurnýjun á svokölluðum dekkjarúllum og annast GTT ? tækni það verkefni.  Áætlað er að verkinu verði lokið á næsta ári.  Þá varð tjón á höfninni þegar skip keyrði á stálþilið og hefur verið unnið að lagfæringu þess á liðnum vikum, en tjónið verður greitt af tryggingafélagi skipsins.

 

7.1  Samningur við Skógræktarfélag Borgarfjarðar.

Stjórn Grundartangahafnar hefur átt viðræður við fulltrúa Skógræktarfélags Borgarfjarðar um að skógræktarfélagið taki að sér eftirlit og ráðgjöf varðandi meðferð skógræktarinnar að Klafastöðum.  Ljóst er að á næstu árum þarf að grisja skóginn að Klafastöðum og er það markmið stjórnarinnar að unnt verði að nýta plöntur sem til falla við slíkt í Borgarfirði og á Akranesi, en ýmis félagasamtök hafa lýst yfir áhuga á að fá plöntur af svæðinu.  Hefur Golfklúbburinn í Borgarnesi og Golfklúbburinn Leynir þegar fengið nokkuð af plöntum þegar nokkurt magn var fjarlægt vegna lagningar nýrrar vegtengingar s.l. vor.

 

8.1  Ný vegtenging að höfninni.

Nú er að ljúka framkvæmdum við legningu nýrrar vegtengingar að iðnaðarsvæðinu á Grundartanga.  Ólokið er yfirlagningu seinna olíumalarlags en að því gerðu er framkvæmdum lokið.

 

9.1  Lóðamál.

Á árinu var unnið að skipulagi lóðamála á hafnarsvæði Grundartangahafnar og úthlutað lóð til Stjörnugríss hf. fyrir byggingu mjölsílóa.  Þá hefur einnig verið rætt við Sementsverksmiðjuna hf. um afmörkun lóðar verksmiðjunnar á svæðinu, sem notuð er undir kol.

 

9.1 Niðurlag.

Framangreint eru helstu atriði varðandi rekstur og framkvæmdir við Grundartangahöfn. 

 

Nú um áramót verður sem kunnugt er sú breyting á rekstri Grundartangahafnar, að höfnin verður rekin í sameignarfélagi með Akraneshöfn, Reykjavíkurhöfn og Borgarneshöfn.  Með stofnun Faxaflóahafna sf. er stígið djarft og stórt skref í því að horfa til framtíðar með uppbyggingu hafnarmannvirkja, þróunar lands og samgöngumála.  Þrátt fyrir þessa breytingu verður það enn sem fyrr verkefni sveitastjórnarmanna norðan Hvalfjarðar að koma áfram brýnum verkefnum á svæðinu og hafa áhrif á þá þróun mála til hagsbóta fyrir svæðið í heild.  Stjórn Grundartangahafnar færir öllum þeim sem komið hafa að rekstri Grundartangahafnar, og þeim sem hafa setið í stjórn og fulltrúaráði hafnarinnar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag með þeirri ósk að sú breyting sem framundan er verði til heilla.

 

2.  Tillaga varðandi helstu framkvæmdir á árinu 2005.

Eftirfarandi minnisatriði varðandi ýmis verkefni við Grundartangahöfn hafa verið tekin saman og verða þau til umfjöllunar við gerð framkvæmdaáætlana Faxaflóahafna sf.  Guðmundur Eiríksson fór yfir þau og gerðir grein fyrir helstu atriðum þar að lútandi:

 

?Minnsblað vegna framkvæmda

og verkefna á Grundartanga.

 

 

a)       Stækkun hafnar.

Stálþil vegna framkvæmda við stækkun hafnarinnar kemur til landsins 22. eða 23. desember n.k.  Kostnaður við þann þátt með virðisaukaskatti er áætlaður 156 mkr.  Búið er að bjóða niðurrekstur stálþils út og verða tilboð opnuð fimmtudaginn 16. desember n.k.  Bjóða þarf út sérstaklega lagnir, frágang svæðisins (hugmynd er um að leggja malbik til bráðabirgða, en steypta þekju síðar þegar jarðvegur hefur sigið).  Þá þarf að gera ráð fyrir girðingu á nýtt athafnasvæði og lýsingu.

 

b)      Skipulag hafnarsvæðis og Klafastaða.

Í drögum að áætlun er gert ráð fyrir 10.0 mkr. framlagi til skipulagsvinnu á svæðinu.

 

c)      Endurnýjun á dekkjarúllum.

Samningur í gildi við GTT-tækni og í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir 10.0 mkr. til að ljúka því verkefni sem samið var um á árinu 2004.

 

d)      Viðhald elsta hluta hafnarinnar.

Nauðsynlegt er að endurnýja kant og stiga á bryggjunni auk ljósabúnaðar.  Áætlaður kostnaður um 20.0 mkr.

 

e)      Rif á Klafastöðum.

Fyrir liggur samþykkt um að rífa hús á jörðinni Klafastaðir.  Kostnaður gæti verið um 1 ? 1.5 mkr.

 

f)       Landfylling vegna lóðar fyrir Stjörnugrís.

Stjórn hafnarinnar hefur samþykkt að úthluta Stjörnugrís lóð undir mjölsíló.  Lóðin er sem stendur ekki byggingahæf og ekki hefur verið gengið frá lóðarleigusamningi.  Til þess að lóðin verði byggingarhæf þarf að setja grjót og malarefni í fyllingu undir sílóin.  Kostnaður gæti verið á bilinu 7 ? 10 mkr.

 

g)      Athafnasvæði Norðuráls á hafnarsvæðinu.

Á skipulagi Grundartangahafnar er gert ráð fyrir að Norðurál hf. hafi til umráða svæði umhverfis núverandi súrálgeymi.  Þar mun nýr og stærri geymir rísa innan skamms og gert er ráð fyrir frekari stækkun og aðstöðu fyrir skemmu.  Svæðið undir súrálsgeymana er án endurgjalds, en gert ráð fyrir að gerður verði leigusamningur um afnot lóðar undir skemmu.  Svæðið, sem fyrirhugað er undir skemmubyggingu er sem komið er ekki byggingarhæft þar sem lóðin er að hluta til á óuppfylltu landi.  Svæðið fyllist smám saman með jarðefnum, en ef tekin er ákvörðun um að gera svæðið byggingarhæft fyrr mun það kosta einhverjar fjárhæðir.

 

h)      Aðstaða fyrir lóðsbáta.

Á liðnum mánuðum hefur verið skoðað með hvaða hætti megi skapa viðleguaðstöðu fyrir lóðsbáta við Grundartangahöfn.  Upphaflega var gert skoðað hvort gera mætti ráð fyrir þeirri aðstöðu í núverandi stækkun, en frá því var horfið og aðrir möguleikar skoðaðir.  Nú er verið að vinna við undirbúning að útfærslu á viðlegu austan hafnarinnar.  Engin ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdina en talið hefur verið nauðsynlegt að skapa þessa aðstöðu til að fækka ferðum lóðsbáta inn á Grundartanga.

 

i)        Vatnsmál.

Á vegum Grundartangahafnar hefur verið unnið að skoðun á vatsnmálum á svæðinu.  Rætt hefur verið við Orkuveitu Reykjavíkur um aðkomu fyrirtækisins að rekstri vatnsveitu og jafnvel kaupum á vatnsveitu í eigu Íslenska Járnblendifélagsins ehf.  Sem stendur hefur Grundartangahöfn ekki aðgang að vatni nema til þeirra mannvirkja sem þegar eru fyrir hendi og skipa sem til hafnarinnar koma.  Nauðsynlegt er að vinna áfram í samvinnu við OR að lausn málsins.

 

j)         Malbiksframkvæmdir.

Gera þarf ráð fyrir endurnýjun og viðhaldi malbiks á svæðinu en ljóst er að vegna álags þá er nauðsynlegt að gera við nokkur svæði.

 

 

 

k)     Flæðigryfja fyrir kerbrot.

Á hafnarsvæðinu er opin flæðigryfja sem notuð er fyrir kerbrot frá Norðuráli.  Gryfja þessi er rekin samkvæmt starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og gildir leyfið til á.a.g. 2025.  Sveitarfélögin á svæðinu hafa skuldbundið sig til að tryggja nægjanlegt rými fyrir kerbrotagryfjur í framtíðinni.  Nauðsynlegt er að huga að framgangi málsins á hverjum tíma í ljósi þeirra krafna sem gerðar eru til gryfjunnar.

 

Akranesi 13. desember 2004.

 

Gísli Gíslason                                        Guðmundur Eiríksson

hafnarstjóri.                                                      verkefnisstjóri.?

 

Formaður hafnarstjórnar fór yfir ýmis atriði varðandi verkefni og framkvæmdir.

 

Marinó Tryggvason spurðist fyrir um dýði við nýja kantinn og svaraði Guðmundur Eiríksson því að á hluta svæðisins sé um 20 metra dýpi en að miðað sé við 13 metra dýpi.  Lárus Ársælsson spurðist fyrir um nýtingu á flæðigryfjum og svaraði Guðmundur þeirri fyrirspurn.

 

 

3.  Árshlutauppgjör fyrir janúar til nóvember 2004.

Lagður fram árshlutareikningur miðað við 30. nóvember 2004.  Hafnarstjóri gerði grein fyrir helstu tölum.  Davíð Pétursson spurðist fyrir um stöðu hinna hafnanna sem lagðar eru inn í faxaflóahafnir sf.  Hafnarstjóri gerði grein fyrir málinu.

 

4.      Önnur mál.

 

4.1  Sameignarsamningur fyrir Faxaflóahafnir.

Gerð var grein fyrir því að sameignarsamningur fyrir Faxaflóahafnir sf. var undirritaður miðvikudaginn 17. nóvember s.l.

 

Stefán G. Ármannsson spurðist fyrir um hvort fulltrúaráðið verði áfram við lýði, en Gunnar svaraði því til að fulltrúaráðið félli niður, en að æskilegt væri að höfnin héldi sértsakan eigendafund til að kynna starfsemi félagsins.

 

Í lok fundarins var undirritaður samstarfssamningur við Skógræktarfélag Borgarfjarðar um eftirlit og ráðgjöf við skógræktina á Klafastöðum.   Um leið og Gunnar Sigurðsson sleit fundi þakkaði hann gott samstarf og óskaði nýju fyrirtæki velfarnaðar.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:00. 

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00