Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

9. fundur 16. nóvember 2010 kl. 17:00 - 19:00

Ár 2010, þriðjudaginn 16. nóvember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 17:00.

_____________________________________________________________ 

 

Mætt voru;      Lóa Guðrún Gísladóttir, fulltrúi NFFA í Unglingaráði

                        Sindri Snær Alfreðsson, fulltrúi Arnardals i Unglingaráði

                        Kristín Björk Lárusdóttir, fulltrúi NFFA í Unglingaráði

                        Sverrir Mar Smárason, fulltrúi Nemendafélags Grundaskóla í Arnardalsráði

                        Kristín Releena Jónasdóttir, fulltrúi Nemendafélags Brekkubæjarskóla í Unglingaráði

                        Lárus Beck Björgvinsson, fulltrúi Hvíta hússins

                        Ingibjörg Valdimarsdóttir, formaður fjölskylduráðs

                        Guðmundur Páll Jónsson, varaformaður fjölskylduráðs

                        Þröstur Þór Ólafsson, fulltrúi í fjölskylduráði

                        Einar Brandsson, áheyrnarfulltrúi í fjölskylduráði

                        Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldustofu, ritaði fundargerð.

_____________________________________________________________  

Ingibjörg Valdimarsdóttir, formaður fjölskylduráðs setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Bæjarstjórnarfundur unga fólksins hefur verið haldinn síðan 2002 og er um níunda fund að ræða. Sú breyting er nú frá fyrri fundum að fulltrúar sem sitja í fjölskylduráði sitja fundinn. Ingibjörg las fundargerð 8. bæjarstjórnarfundar unga fólksins og var fundargerðin samþykkt.

Fyrst tók til máls Lóa Guðrún Gísladóttir, en hún situr sem fulltrúi fyrir NFFA í Unglingaráði Akraness.

            Hún fjallaði í máli sínu um aðstöðu Fimleikafélags Akraness. Hún lýsti yfir ánægju sinni með að félagið hefði fengið úthlutað fleiri tímum en áður en meira þyrfti til þar sem nú eru um 370 iðkendur í félaginu. Hún lýsti síðan þeim aðstæðum sem fylgja æfingum í fimleikum og hve mikla erfiðleika það skapar að þurfa að stilla upp æfingaaðstöðunni mörgum sinnum í viku og taka saman. Það fer illa með búnaðinn sem er mjög dýr og endist ekki jafn vel og ef ekki þyrfti stöðugt að vera setja upp og taka búnaðinn niður. Hún benti á að mörg sveitarfélög hafa komið upp góðri æfingaaðstöðu fyrir fimleika og erfitt getur reynst að keppa við iðkendur sem hafa yfir mun betri æfinga- og keppnisaðstöðu að ráða.

            Hún sagði einnig frá því að vel hefði tekist til með ráðningu þjálfara og tekist hefði að skapa góðan liðsanda í hópnum sem æfir fimleika. Hún hvatti fundarmenn til að kynna sér aðstæður Fimleikafélags Akraness.

            Brottfall er mikið í fimleikum í kringum 14-15 ára aldur og taldi Lóa Guðrún að það stafaði af lélegri aðstöðu þar sem eldri þátttakendur þyrftu m.a. gryfju. Hún gerði einnig að umtalsefni forvarnargildi íþrótta og sagði að lokum:

   ?Það væri ekki einungis fimleikafélagið sem myndi græða á því að fá eigið húsnæði heldur myndu badmintonfélagið og körfuknattleiksfélagið, sem nú reyndar æfir í Jaðarsbökkum en vill vera niðri á Vesturgötu ? þar er aðstaðan enn betri, fá fleiri og betri tíma í íþróttahúsinu við Vesturgötu.?

Annar á mælendaskrá var Sindri Snær Alfreðsson, fulltrúi Arnardals í Unglingaráði Akraness:

            Hann fjallaði um starfið í Þorpinu og lýsti yfir ánægju með hvernig til hefði tekist með starfið. Aðsókn að Arnardal er mikil og telur Sindri að fleiri starfsmenn ættu að vera til staðar þegar flestir eru í húsinu. Einnig lýsti hann yfir áhuga á að fara í heimsóknir í aðrar félagsmiðstöðvar en margar félagsmiðstöðvar koma í Arnardal á hverjum vetri og gista. En Sindri telur að með meiri fjárveitingum til Þorpsins væri hægt að leysa þessi mál farsællega.

           Síðan ræddi Sindri um Írska daga og hvernig dagskrá þeirra höfðar til unglinga. Taldi hann að huga ætti betur að öllum aldurshópum þegar dagskrá Írskra daga væri skipulögð.

Kristín Björk Lárusdóttir, fulltrúi NFFA í Unglingaráði Akraness var næst á mælendaskrá:

            Hún fjallaði um Vökudaga, sem nú voru haldnir  í áttunda skiptið og lýsti yfir ánægju sinni með hvernig þeir hafa þróast en síðan varpaði hún fram spurningunni: En hvernig sjá unglingarnir Vökudaga?  Hún taldi að ekki væri margt sem höfðaði til ungmenna og nauðsynlegt væri fyrir skipuleggjendur að hafa samstarf við þá sem sjá alla jafna um dagskrá sem höfða til ungs fólks, s.s. nemendafélög grunn- og framhaldsskóla og starfsmenn í Þorpinu.

            Hún fór síðan yfir nokkra dagskráliði og sagði;

     ?Þegar eru í dagskránni hinir glæsilegu tónleikar ?Ungir-gamlir? sem haldnir eru árlega á vegum grunnskólanna og tónlistarskólans. Þeir eru ávallt vel heppnaðir og vel sóttir af öllum aldurshópum. Ótrúlegt er að sjá hve margir flottir og hæfileikaríkir krakkar eru hér á skaganum. Þetta er frábært tækifæri og líklega það eina fyrir mörg þeirra til að koma fram á alvöru tónleikum.? 

            Hún talaði síðan um þátttöku skólanna og hve leikskólarnir væru virkir þátttakendur í Vökudögunum og er það vel. Hún taldi að hlutur grunnskólanemenda gæti verið meiri og fjölbreyttari en nú er. Hún sagði það skoðun sína að Fjölbrautskólinn gæti tekið meiri þátt og að nemendurnir hefðu margt fram að færa. 

            Að lokum sagði Kristín:

     ?Við nemendur í FVA teljum þó að við höfum ýmislegt fram að færa. Í skólanum er til dæmis boðið upp á áfanga í fatasaum, þar sem nemendur hanna og sauma flíkur sem vert væri að sýna. Innan nemendafélagsins eru margir klúbbar sem eru að gera góða hluti. Fyrstan vil ég nefna listaklúbbinn sem er einstaklega virkur og hefur staðið fyrir skemmtilegum uppákomum í vetur. Leiklistaklúbburinn hefur einnig undanfarin ár sett upp leiksýningar á vorin, en það er hugmynd sem við höfum rætt í nemendastjórn FVA að færa þessar sýningar yfir á haustönn þannig að þær geti orðið hluti af Vökudögum. Tónlistarklúbburinn heldur árlega tónlistarkeppni FVA þar sem hljómsveitir skipaðar nemendum troða upp. Þessi keppni er þegar hluti af Vökudögum og fékk hún þetta árið 100.000 króna styrk frá Akraneskaupstað. Vil ég fyrir hönd Fjölbrautaskólans þakka kærlega fyrir það!?

Fjórði á mælendaskrá var Sverrir Mar Smárason, fulltrúi Nemendafélags Grundaskóla í Arnardalsráði.

            Hann byrjaði á að þakka fyrir þá aðstöðu sem Arnardalur og Hvíta húsið hafa fengið. Síðan ræddi hann um Akraneshöllina sem opnuð var um haustið 2006 og síðan þá hefur hún verið mikið notuð, bæði af KFÍA og öðrum. Hans mat er að Akraneshöllin sé bylting og hafi mikla þýðingu fyrir knattspyrnu á Akranesi. Þó Höllin sé ekki hvorki einangruð né upphituð þá er það miklu betra en að vera úti í vindi og úrkomu.

            Sverrir Mar sagði að ýmislegt mætti samt bæta:

    ?Til dæmis eru í höllinni margar tunnur sem eru fullar af boltum sem 4. flokkur og yngri nota. Þessir boltar frjósa í kuldanum og eru því harðir þegar þeir eru notaðir.

    Einungis þriðji, annar og meistaraflokkur fær að geyma sína bolta í boltaherberginu í vallarhúsinu og þurfa því ekki að nota frostna bolta. Af hverju ekki að gera sérstakt geymsluherbergi fyrir alla bolta sem notaðir eru??

            Síðan fór hann nokkrum orðum um miðbæ Akranes. Hann taldi að það væri að lifna aftur yfir gamla miðbænum og benti á að búið væri að taka til hendinni varðandi viðhald húsa. Að lokum sagði Sverrir Mar:

     ?Til þess að miðbærinn verði flottur og aðlaðandi þarf að setja eitthvað skemmtilegt eða menningarlegt í þessi hús. Það er eitt og annað sem Akranes vantar og það er staður sem fólk getur komið með fjölskyldunni á góðum sumardegi og sest niður og fengið sér snarl og legið í sólbaði, en til þess er reyndar skrúðgarðurinn sem hér áður var mjög fallegur en í dag er ekkert gert til þess að hafa hann flottan til þess að fólk fari þangað, þá er ég að meina að það þurfi að gera það almennilega ekki bara setja nokkur blóm og búið. Borgarnes hefur Skallagrímsgarð og Reykjavík hefur Austurvöll og Hljómskólagarðinn og allir eru þeir mikið notaðir.?

Kristín Releena Jónasdóttir, fulltrúi Nemendafélags Brekkubæjarskóla tók næst til máls.

            Hún fjallaði einkum um skólamál í sínu erindi. Hún taldi að huga mætti betur að kennslu á unglingastiginu og að auka ætti vægi fagkennara í stað þess að umsjónarkennarar kenni margar greinar. Hún benti á að alltaf yrði að hafa uppi námskröfur og mikilvægi þess að nemendur taki ábyrgð á eigin námi.

            Hún benti einnig á að með því að fela sama kennara mikla kennslu í sama bekk þá fellur kennsla meira og minna niður hjá sama bekk þar sem skólarnir hafa ekki tök á að sinna forfallakennslu. Hún sagði það sína skoðun að ekki sé í lagi að fella niður kennslu og að nemendum veiti ekki af allri þeirri kennslu sem þeir geta fengið.

           Kristín Releena fjallaði einnig um kynfræðslu og sagði:

     ?Mig langar líka að minnast á annað í skólanum. Það er kynfræðsla. Í 9.bekk fá krakkar á unglingastigi einu sinni kynfræðslu sem stendur yfir í 180 mínútur. Engin kynfræðsla er í 10. og 8.bekk. Þetta er alls ekki nóg fræðsla. Kennarar sem kenna lífsleikni eiga að geta talað um þetta í lífsleiknitímum en oft er það ekki gert. Ræða þarf reglulega um kynlíf við unglinga og best væri að fá einhvern aðila til þess, sem er vanur að ræða um svona hluti.

    Með því að ræða reglulega um kynlíf við unglinga verða þau ófeimnari við að spyrja og fá meiri upplýsingar fá einhverjum ábyrgum aðila.

    Ef sett yrði  meira fjármagn í þennan þátt kennslunnar hefði hjúkrunarfræðingur meiri tíma til að sinna þessu og unglingarnir fengju meiri kynfræðslu.

    Með þessum breytingum á skólanum okkar held ég að við gætum gert góðan skóla enn betri.?

Lárus Beck Björgvinsson fulltrúi Hvíta hússins.

            Lárus fjallaði nokkuð um starfsemi Hvíta hússins og kom með hugmyndir að nýbreytni í starfi Hvíta hússins. Hann fjallaði um hvernig hægt væri að auka þátttöku stelpna í starfinu og sagðim.a:

    ?Það sem ég tel að mest þurfi að bæta í starfsemi Hvíta hússins er það hve lítið kvenþjóðin nýtir sér aðstöðuna. Að sjálfsögðu er húsið hugsað fyrir bæði kyn, þ.e.a.s. þjóna afþreyingarþörf beggja kynja. Það væri því fróðlegt að gera áhugakönnun hjá stelpunum í skólanum, um hvað sé hægt að gera til að vekja áhuga kvenna á starfsemi hússins. Það væri t.d. hægt að setja upp einhverskonar fatamarkað, þar sem krakkarnir gætu selt og keypt notuðföt.?

            Lárus kom einnig með tillögu að hvernig hægt væri að kynna starfsemi Hvíta hússins fyrir nýnemum í FVA. Hann taldi að hægt væri að bjóða nemendum í lífsleikni í Þorpið og kynna starfsemina við það tækifæri.

            Lárus sagði síðan;

    ?Við hér á Akranesi erum alveg rosalega heppin með það hvað við eigum mikið að hæfileikaríku ungu fólki, tónlist á þar stóran hlut og finnst mér því mjög sniðugt að setja upp einhverskonar stúdíó þar sem ungir tónlistaráhugamenn á Akranesi geta tekið upp og klippt tónverk sín.?  

            Einnig fjallaði hann um möguleika á útvarpssendingum frá Þorpinu. Í lok umfjöllunar sinnar um starfið í Hvíta húsinu lagði hann til að settur verði hugmyndabanki í FVA þar sem hægt væri að koma með tillögur að nýjungum í starfseminni.  

            Síðan fjallaði Lárus um starf Vélhjólaíþróttafélags Akraness (VÍFA) og sagði m.a.;
    ?Vélhjólaíþróttafélag Akraness (VÍFA) var stofnað 23. maí 2006 er félag fólks sem hefur áhuga á mótocrossi og fjórhjólum, félagsmenn eru nú ca. 50 og fer ört fjölgandi. Félagið hefur fengið úthlutað 3 hektara svæði rétt utan við Akranes. Brautin nefnist Akrabraut og er hún talin ein skemmtilegasta braut landsins.?... ?VÍFA stendur fyrir keppninni Langisandur ár hvert þar sem mótorcross menn og konur etja kappi við að keyra braut á Langasandi Akranesi. Hefur þessi keppni á Langasandinum okkar verið mjög fjölmenn og gefið bæjarfélaginu okkar lit þegar hún er. Þessi keppni er hin glæsilegasta og vel að henni staðið hjá VÍFA. Það má segja að Akrabrautin er með þeim betri á landinu hvað tækni varðar. Verðum við þvíað gæta þess að halda brautinni við sem best verður á kosið og aðstæður leyfa.

    Mótorcross er sístækkandi sport og er mikil aukning á iðkun þess frá ári til árs. Þó svo að aðstæður á brautinni okkar séu mjög góðar, má þó alltaf bæta.?            

            Lárus benti að lokum á að úrbóta er þörf hvað varðar salernisaðstöðu á svæðinu og vökvunargræjur fyrir brautina.

Ingibjörg þakkaði framsögumönnum fyrir áhugaverð erindi. Hún beindi síðan spurningum til framsögumanna. Hún spurði m.a. um hvaða hugmyndir væru um framtíðaruppbyggingu frjálsíþóttaaðstöðu, hvernig væri best að standa fyrir kynfræðslu, hvaða dagskráratriði vanti á Írskum dögum, hvernig væri hægt að auka framboð á menningarefni fyrir ungt fólk á Vökudögum, hvernig væri hægt að glæða skrúðgarðinn í miðbænum meira lífi, hvar ætti að setja upp upptökustúdíó. Ungmennin svöruðu  greiðlega þeim spurningum sem að þeim var beint.

Þröstur Þór Ólafsson þakkaði fyrir erindin velti upp spurningunni um hvernig akstursíþróttir fari saman við aðra nýtingu Langasands.

Einar Brandsson þakkaði fyrir erindin og upplýsti um að nýlega er komin út skýrsla um aðstöðu hinna ýmsu íþróttafélaga og hvað úrbóta er þörf. Einar hvatti ungmenni á Akranesi til að koma með sín dagskráratriði inn á Írska daga og Vökudögum.

Fleira ekki gert, fundi slitið.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00