Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

15. fundur 31. janúar 2017 kl. 17:00 - 18:15 Bæjarþingsalur

Þriðjudaginn 31. janúar 2017 kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í bæjarþingsalnum að Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 17:00.

Mætt voru:

Jón Hjörvar Valgarðsson formaður og fulltrúi nemenda í Fjölbrautarskóla Vesturlands
Eyrún Sigþórsdóttir fulltrúi nemenda Brekkubæjarskóla
Stefán Kaprasíus Garðarsson nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands og fulltrúi Hvíta húss
Ylfa Claxton fulltrúi nemenda Grundaskóla
Tómas Andri Jörgensson nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands og fulltrúi Hvíta húss
Eva María Jónsdóttir nemandi í Brekkubæjarskóla og fulltrúi Arnardals

Einnig sátu fundinn:

Ingibjörg Valdimarsdóttir annar varaforseti bæjarstjórnar sem stjórnaði fundinum
Þórður Guðjónsson (ÞG), bæjarfulltrúi
Vilborg Guðbjartsdóttir (VG), bæjarfulltrúi
Ólafur Adolfsson (ÓA), formaður bæjarráðs
Ingibjörg Pálmadóttir (IP), bæjarfulltrúi
Einar Brandsson (EB), bæjarfulltrúi
Valgarður L Jónsson (VLJ), bæjarfulltrúi
Kristjana Ólafsdóttir (VÓ), varabæjarfulltrúi
Regína Ásvaldsdóttir (RÁ), bæjarstjóri og Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem ritaði fundargerð.

Fundarstjóri, Ingibjörg Valdimarsdóttir, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna til 15. bæjarstjórnarfundar unga fólksins en fyrsti fundur var haldinn árið 2002.

Ingibjörg kynnti fundarmenn og dagskrá fundarins.

Erindi frá ungmennum:

Jón Hjörvar Valgarðsson, fulltrúi nemenda FVA
Fyrstur tók til máls Jón Hjörvar Valgarðsson formaður ungmennaráðs. Jón Hjörvar gerði þátttöku ungs fólks að umtalsefni. Hann byrjaði á því að þakka fyrir það tækifæri sem ungt fólk fær til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Hann ræddi um þá ákvörðun bæjarstjórnar frá því 2015 að ungmennaráð eigi áheyrendafulltrúa í Skóla og frístundaráði. Hann sagði m.a ,, Eins og flestir hér vita samþykkti bæjarstjórnin fyrir ári að ungmennaráð Akraness fengi fulltrúa inn á fundi skóla- og frístundaráðs þegar talað er um málefni sem snúa að ungmennum, og við þökkum fyrir það enda skref í rétta átt. Síðan þá hefur fulltrúa ungmennaráðsins verið boðið á tvo fundi með skóla- og frístundaráði. Þá vil ég spyrja: Er talað um málefni ungs fólks í skóla- og frístundarráði tvisvar á ári? Og ef ekki af hverju er fulltrúa ungmennaráðs Akraness ekki boðið oftar á fundi með ráðinu? Persónulega finnst mér öll mál bæjarins skipta ungu fólki máli. Hvort það sé staðsetning strætóskýla eða hvað skal gera við sementsreitinn. Það eru jú við unga fólkið sem notum strætó og munum nota það sem verður gert á Sementsreitnum í framtíðinni. Unga fólkið hefur skoðun á þessum málum og í flestum tilvikum höfum við ekki vettvang til að koma skoðunum okkar á framfæri. Því ætla ég að nota þennan bæjarstjórnarfund, þennan eina almennilega vettvang ungs fólks, til að biðla til ykkar sem sitja hér að hjálpa okkur við að hjálpa ykkur.“

Jón Hjörvar sagði frá málþingi sem haldið var í Þorpinu bæði með nemendum grunn og framhaldsskólans þar sem þjóðfundarformið var nýtt til að finna út hvaða málefni lágu helst á unga fólkinu. Mál ungmennanna á fundinum væri afrakstur af þessu málþingi. Hann benti á að þetta væri kjörin leið fyrir kjörna bæjarfulltrúa að nýta sér. ,, Eftir þjóðfundinn og niðurstöður hans fór ég að hugsa: Er þetta ekki kjörinn vettvangur fyrir bæjarstjórn og/eða skóla og frístundaráð til að sjá hvaða málefni brenna á ungu fólki? Bæjarfulltrúar og fulltrúar í skóla og frístundaráði gætu verið þátttakendur á þjóðfundinum og fengið um leið innsýn í málefni ungs fólks. Með þessu gæti aukist áhugi krakka á málefnum bæjarins og virkt þau í félagsstörfum.“

Að lokum ræddi Jón Hjörvar um búsetuúrræði ungs fólks. ,,Þegar ungmenni á Akranesi útskrifast úr framhaldsskóla er stefnan sett annaðhvort suður til Reykjavíkur, norður á Akureyri eða til útlanda í háskólanám. Með þessu missum við oft ungt og efnilegt fólk sem sest að annars staðar eftir að háskólanámi líkur. Erfitt getur verið að finna húsnæði á viðráðanlegu verði með skóla, þá aðallega í Reykjavík, eins og markaðurinn er í dag. Þess má geta að mikill meirihluti útskriftarnema FVA fara í annan tveggja háskólanna í Reykjavík. Við á Akranesi eigum að líta á þetta sem kjörið sóknartækifæri. Hér er mikil uppbygging í Skóga- og Lundahverfi og tilvalið væri að reisa hér stúdentagarða þar sem almenningssamgöngur eru mjög góðar á milli Akraness og Reykjavíkur. Þetta þurfa ekki að vera glæsilegar 100m2 íbúðir heldur einfaldar stúdíó íbúðir fyrir háskólanema. Þá er líklegra á ungt fólk, jafnvel fjölskyldufólk, setjist hér að. Með því stækkar samfélagið og fjölgar atvinnutækifærum“. 

Eyrún Sigþórsdóttir, fulltrúi nemenda Brekkubæjarskóla
Eyrún byrjaði á því að hrósa því sem vel er gert og nefndi m.a innleiðingu Office 365 í grunnskólana. Hún talaði um að með tilkomu kerfisins væri auðveldara fyrir nemendur að halda utan um gögnin sín. Hún sagði ,,Vissulega var frekar snúið að læra á forritið en um leið og við náðum tökum á því var þetta orðið snilldar verkfæri til að nota í náminu. Við náum beinum tengslum við kennarana okkar og þeir sjá vinnu okkar, glósur og verkefnaskil sem deilt er með þeim. Sem sagt virkilega nytsamlegt og gagnlegt. Samt sem áður get ég ekki sleppt því að nefna tölvukost skólans. Hann er ekki upp á marga fiska. Í tölvustofunni eru 16 tengdar tölvur ásamt 4 á bókasafninu. Þótt skólinn eigi yfir 40 ipada sem er frábært og kemur að miklu gagni við nám hjá öllum árgöngum þá koma þeir að mínu mati ekki í staðinn fyrir tölvur. Fyrir stærri verkefni eins og t.d. ritgerðir, heimildaverkefni og glærukynningar er nánast nauðsynlegt að hafa aðgang að tölvum. Í bekknum mínum eru 25 nemendur og geta þeir ekki fengið aðgang að tölvu allir í einu eins og staðan er. Að mínu mati þyrfti tækjakostur að vera mun betri hvort sem litið er til borðtölva eða Ipada.“

Eyrún hrósaði ÍA fyrir frábært starf og mikla grósku og fjölbreytni í íþróttastarfi á Akranesi og benti á miklar framfarir hjá íþróttafólki á Akranesi.Hún benti þó á að ekki hentaði öllum að æfa hefðbundnar íþróttir, heldur vildu sumir frekar nýta t.d þreksali og líkamsræktarstöðvar. Hún gerði aðstöðu í þreksal að umtalsefni. ,,Tækjasalurinn þar sem finna má hlaupabretti, skíðavélar, hjól, lóð og nokkur önnur æfingatæki í í 450 til 500 fermetra rými sem er brandari fyrir 7000 manna bæjarfélag. Það liggur í augum uppi að sjö hlaupabretti duga skammt. Persónulega myndi ég ekki vilja mæta upp í rækt á álagstíma því þá stendur maður við mann og nánast allt upptekið. Við erum að tala um lítið pláss með ekki nóg af búnaði og tækjum fyrir 7000 manna bæ“

Eyrún ræddi jafnframt um mikilvægi lýsingar á skólaleiðum grunnskólabarna og benti á Skólabrekkuna svokallað, að þar vantaði lýsingu.

Stefán Kaprasíus Garðarsson fulltrúi Hvíta hússins
Stefán byrjaði á jákvæðum nótum og hrósaði fyrir það sem vel er gert. Hann nefndi m.a. að það sé verið að laga göturnar á Akranesi og þá sérstaklega Vesturgötu. Hann vildi líka hrósa nokkrum smá atriðum sem oft gleymast í daglegu lífi, til dæmis að það sé frítt í strætó fyrir alla, góðri grillaðstöðu í Garðalundi og öllu umhverfinu í Skógræktinni sem honum finnst mjög flott og umtalað meðal þeirra sem koma í bæinn.

Stefán benti á að þó margt sé gott megi gera betur . Hann benti m.a. á að það vanti fleiri ruslatunnur í bæinn og kom með þá tillögu að á Akranesi væri gjaldfrjálst Internet. Hann sagði ,, Ég vil leita út fyrir landsteinana í hugmyndum mínum og benda á að í Svíþjóð eru margir bæir með frítt net fyrir alla og ég vill fá það á Akranes. Nettengingin þyrfti ekkert endilega að vera frábær, bara rétt nóg til að bjarga sér t.d. ef maður er út í búð og þarf að millifæra á bankareikning fyrir vörunum svo maður þurfi ekki að fara heim og koma svo aftur niður í búð til að borga. Það þarf ekki að vera hægt að hala niður þáttum eða bíómyndum. Heldur bara rétt að halda okkur nettengdum því það er þannig í dag að maður verður að vera nettengdur allan daginn - alltaf.“

Stefán ræddi líka um þátttöku ungs fólks. ,, Að lokum vill ég segja að ég trúi á þá staðreynd að unga fólkið er framtíðin og við erum þau sem munu búa í nýjum breytingum í bænum í framtíðinni og því vill ég fá að sjá fleiri ungmenni innan ráða í bænum og jafnvel bjóða upp á opna fundi sem ungt fólk getur skráð sig á til að koma að sínum hugmyndum. Það má leita oftar eftir áliti ungs fólks á ýmsum málum, eins og til dæmis hvaða hugmyndir ungt fólk hefur um Sementsreitinn. Það væri hægt að vinna með Fjölbrautarskólanum með útfærslu, t.d með málþingum og fleiru“

Ylfa Claxton fulltrúi nemenda í Grundaskóla
Næst á mælendaskrá var Ylfa Claxton. Eins og hinir ræðumennirnir benti hún á fjölmargt sem vel er gert í bænum. Nefndi hún öflugt tómstundastarf, góðan tónlistarskóla og fallegan bæ. Hún gerði að umtalsefni hreyfingu barna á Akranesi. Hún sagði m.a ,, Eitt af þeim atriðum sem ég ætla að tala um í dag snýr að því að efla hreyfingu barna og ungmenna í bænum. Mikið er rætt og skrifað um hreyfingarleysi barna í nútímasamfélagi og hafðar eru áhyggjur af því að hreyfingarleysi barna verði að stóru heilsufarsvandamáli, ef ekki sé tekið í taumana. Ég tel að Akranes eigi að vera bær sem geti státað sig af því að vera barnvænt samfélag, með framúrskarandi skólum á öllum skólastigum, sem styrkir og styður við ungmenni. Skólahreystibraut væri leið til að efla útiveru og hreyfingu barna. Þá ræddi Ylfa um viðhald á húsnæði skóla og íþróttamannvirkja á Akranesi. ,,Innviðir og húsgögn eru komin til ára sinna og fyrir löngu orðið tímabært að endurnýja og bæta. Ástand margra bygginga er komið að þolmörkum, til dæmis í Bjarnalaug. Yngsta stig Grundaskóla og í raun skólinn allur er sprunginn og rúmar ekki þann fjölda nemenda sem stundar þar nám. Húsgögn og aðbúnaður er í slæmu ásigkomulagi, aðstaða fyrir útiföt lítil sem engin og rými fyrir nemendur sem þurfa stuðning er ábótavant.

Við eigum eitt flottasta íþróttahús landsins við Vesturgötu. Hús sem er flott hannað og hentar sérstaklega vel til mótahalds og leikja. Það er synd að geta ekki nýtt það hús nægjanlega vel vegna lélegs viðhalds.“

Um leið og Ylfa þakkaði fyrir að fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri lýsti hún yfir ánægju sinni með að búið væri að taka ákvörðun um byggingu fimleikahúss á Akranesi.

Tómas Andri Jörgensson fulltrú Hvíta hússins
Tómas byrjaði á því að þakka fyrir gott og öflugt íþrótta og tómstundastarf á Akranesi og einnig fagnaði hann ákvörðun um byggingu nýs fimleikahúss. Tómas gerði málefni strætó að umtalsefni. ,,Mér finnst frábært að bærinn bjóði upp á frían strætó á virkum dögum. Mig langar til að athuga hvort standi til að hafa strætó um helgar og lengur á kvöldin? Börn og unglingar eru oft á æfingum eða hjá vinum sínum á þessum tíma og ef engir foreldrar eru til að sækja þau þá er bara eitt í stöðunni fyrir þau og það er að ganga heim. Væri þá ekki betra að hafa strætó lengur til að börnin verði örugg á leið heim og þá sérstaklega á kvöldin“

Tómas ræddi um styttingu náms í framhaldsskóla og afleiðingar þess. ,,Eins og þið vitið var framhaldsskólinn styttur niður í 3 ár árið 2015. Það sem gerðist með styttingu um eitt ár lengdist skóladagurinn mikið. Oft og tíðum eru nemendur ekki búnir fyrr en klukkan 5 eða jafnvel 6 í skólanum.Þá vil ég benda á að þjónustan í skólanum breyttist ekki með lengri skóladegi. Skrifstofan, tölvuverið, bókasafnið og mötuneytið lokar allt klukkan 3. Það þýðir að þeir sem eru til 4,5 eða jafnvel 6 í skólanum geta ekki keypt sér mat að borða eða fengið sér vatn að drekka úr vatnsvélinni eftir klukkan 3, nema auðvitað þau pakki nesti á hverjum degi. Einnig hafa nemendur ekki aðgang að tölvum til að vinna í og geta ekki hitt neinn sem vinnur á skrifstofunni eftir klukkan 3, t.d. ef þau þurfa að kaupa bækur uppá skrifstofu eða ef þau vilja fá ráðgjöf um hitt og þetta í skólanum. Það er eins og þetta hafi ekki verið hugsað til enda þegar þessu var breytt“.

Tómas ræddi einnig um götur bæjarins og mikilvægi þess að gera stórátak í endurnýjun gatna og skilta. Að endingu þakkaði Tómas fyrir að ungt fólk fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Eva María Jónsdóttir fulltrúi Arnardals
Eva María byrjaði á því að hrósa starfsfólki Arnardals og talaði um mikilvægi þess að hafa skemmtilega starfsmenn í starfi með unglingum. Síðan gerði hún valfög í grunnskólum að umtalsefni. ,, Ég ætla að byrja á því að hrósa skólanum mínum og Brekkubæjarskóla fyrir tónlistarvalið vegna þess að mikil ánægja er með það. Það sem krökkunum finnst svo skemmtilegt við það er að nemendur fá að vinna saman óháð hvor skólanum þau eru í. Það mætti yfirfæra það á fleiri valgreinar og bjóða upp á meira samstarf á milli skólanna, þar sem krakkar í unglingadeild fái fleiri tækifæri til að vinna saman óháð skóla. T.d væri hægt að hafa textíl, smíði svo eitthvað sé nefnt.“

Eva ræddi líka um sundkennslu. ,,Okkur finnst báðir skóla hafa kosti og galla, við viljum sameina kosti skólana og taka út gallana. Það sem er vel gert í Grundaskóla eða okkur finnst það kostur að hafa 20 tíma í sundi í 9 og 10. bekk og þá ertu búinn með sund skylduna það árið. Það er að segja við nemendur t.d í 10.bekk þurfum að mæta í 20 fyrstu sundtímana. Þannig getur nemandi verið búinn í sundi í mars eða apríl.Það sem er vel gert í Brekkubæjarskóla er það að þau hafa kynjaskipt sund, sem að okkur finnst kostur vegna þess að þá eru miklu meiri líkur að það verði betri mæting í sund. Mér finnst eins og báðir skólar ættu að taka þessar tvær aðferðir í uppsetningu í kennslu á sundi. Þannig að það væri samræmi á milli skóla, að báðir skólar væru þá með 20 tíma og kynjaskipt sund í unglingadeild. Þessi breyting í Grundaskóla gæti stuðlað á betri líðan. Og í rannsókn Andra Snæ Stefánssonar um kynjaskiptingu í íþróttakennslu kemur fram að kynjaskipting getur haft jákvæð áhrif á mætingu og líðan stelpna í sundi“

Ingibjörg Valdimarsdóttir fundarstjóri þakkaði fulltrúum nemenda fyrir þeirra framsögu og gaf orðið laust.

Fyrst á mælendaskrá var Ingibjörg Pálmadóttir bæjarfulltrúi sem þakkaði fyrir góða ræður og hve vel þau væru undirbúin. ,,Þegar maður er ungur þá lítur maður fram á veginn en þau sem eru lífsreyndari horfa gjarna aftur í bland við framtíðina.“ Ingibjörg hvatti unga fólkið til að mæta á þá viðburði og fundi sem eru opnir og til að vera dugleg við að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Einar Brandsson bæjarfulltrúi var næstu á mælendaskrá og hrósaði fulltrúum unga fólksins fyrir þeirra ræður og þær spurningar sem settar hafa verið fram. Einar taldi hugmyndina um stúdentagarða góða vegna þeirra ungmenna sem stunda háskólanám m.a. til að það auki mögulega líkurnar á að viðkomandi geti hugsað sér að setja að á Akranesi að loknu námi. Einar ávarpar „vandamál“ varðandi tækjakost í skólum en slíkur búnaður úreldist tiltölulega hratt þó vissulega sé þörfin knýjandi. Þá telur Einar ljóst að grundvöllur ætti að vera fyrir aðila til að reka mun betri líkamsræktaraðstöðu heldur en til staðar í dag en einhverra hluta vegna virðist enginn einkaaðili treysta sér enn sem komið er til að setja slíkt á laggirnar. Einar tók einnig undir orð Ingibjargar Pálmadóttur varðandi opna fundi varðandi Sementsreitinn og hvetur unga fólkið til að mæta á þessa viðburði og láta sínar skoðanir í ljós.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri þakkaði fulltrúum unga fólksins fyrir þeirra ræður sem voru vel undirbúnar og vel fluttar. Regína upplýsir að hún muni taka helstu efnisatriði þeirra inn á sviðsstjórafund til að embættismenn sem aðstoða við undirbúning mála fyrir einstök ráð fái beint í æð þau atriði sem færð voru fram á fundinum. Regína ávarpar þörfina fyrir frekari tækjavæðingu en bendir á að skólinn þurfi að taka samtalið enda sífelldar breytingar og framþróun á þessu svið. Regína kemur einnig inn á aukið samstarf á milli skólastiga og það sem bent var á varðandi helstu kosti í hvorum grunnskólanna um sig og að unnt sé að nýta það besta á hvorum stað.

Vilborg Þórunn þakkar fulltrúum fyrir afar góðar ábendingar og hversu vel unga fólkið var undirbúið. Vilborg Þórunn bendir á að stundum taki það bæjarapparatið svolítið langan tíma að breyta um stefnu líkt og um stórt skip sé að ræða en mestu skiptir þar að hlutirnir mjakist í rétta átt. Vilborg Þórunn ræðir um einstaka hugmyndir svo sem gjaldfrjáls internet og mikilvægi þess að hitta unga fólkið á þeirra vettvangi og hlusti á þau. Vilborg Þórunn nefnir einnig þann möguleika að koma ábendingum beint á framfæri við bæjaryfirvöld í gegnum heimasíðuna eða með öðrum hætti.

Valgarður Lyngdal Jónsson þakkar ungu bæjarfulltrúunum fyrir mjög áhugaverðar hugmyndir sem planta fræjum góðra hugmynda meðal eldri bæjarfulltrúa. Valgarður Lyngdal þakkar hrósið og almennt þá aðferðarfræði sem ungu bæjarfulltrúarnir beittu í sínum ræðum, að hrósa fyrst og benda síðan á það sem betur má fara. Valgarður l sagðist myndu fylgja eftir athugasemd um að fulltrúar unga fólksins væru ekki oftar boðaðir á fundi skóla- og frístundasviðs því hann væri alveg viss um að málefni ungs fólks væru oftar til umræðu. Hann minntist á tækjakost skólanna og nauðsyn þess að til staðar væri góður tækjakostur en velti einnig fyrir sér hvort það væri endilega rétt að byggja upp tölvuver heldur ætti kannski fremur að hugsa það með öðrum hætti. Umferðaröryggismál eru mjög mikilvæg og í nýlegri skýrslu Akraneskaupstaðar þar að lútandi eru hugmyndir um að draga frekar úr hraða á hliðargötum þannig að þar verði að meginstefnu til hraðinn takmarkaður við 30 km hámarkshraða. Valgarður Lyngdal ávarpar einnig frekari úrbætur í sorpmálum og hvort unga fólkið myndi vilja fylgja eftir hugmyndum um t.d. plastpokalaust bæjarfélag. Ólafur Adolfsson þakkar unga fólkinu fyrir mjög góðar ræður og frábæra frammistöðu á fundinum. Ólafur vill sérstaklega ræða hvernig unnt er að auka lýðræðislega þátttöku ungs fólks bæði til að rödd unga fólksins heyrist en ekki síður til að hinir pólitísku flokkar eigi kost á að eiga samtal við unga fólkið um þau atriði sem skiptir þau máli. Ólafur ræðir um að aðgengi fólks að bæjarfulltrúum sé mikið en því miður sé það of sjaldan að ungt fólk gefi sig fram og taki upp mál sem brenni á.

Fundarstjóri, Ingibjörg Valdimarsdóttir, þakkaði fundarmönnum fyrir þeirra framlag og sleit fundi.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00