Fara í efni  

Bæjarstjórn

1353. fundur 10. maí 2022 kl. 17:00 - 19:35 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
 • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
 • Einar Brandsson 1. varaforseti
 • Elsa Lára Arnardóttir 2. varaforseti
 • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
 • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
 • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
 • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
 • Bára Daðadóttir aðalmaður
 • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
 • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
 • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum eftirtalin mál:
- 2201093 Deiliskipulag Skógarhverfi áf. 3A - Skógarlundur 1 (grenndarkynning skipulagsbreyting)
- 2203100 Grundartún 14 umsókn til skipulagsfulltrúa (kynning á byggingarleyfi á óskipulögðu svæði)
- 2205046 Skógarhverfi áfangi 3C og 5 - gatnagerð framkvæmdaleyfi

Málin verða númer 13 til og með 15 í dagskránni verði afbrigðin samþykkt og númer annarra mála á fundinum, miðað við útsenda dagskrá, hliðrast sem því nemur (verða þá nr. 17 til og með nr. 19).

Samþykkt 9:0

1.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - A hluti

2204091

Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - A hluti
1.1 Aðalsjóður
1.2 Eignasjóður
1.3 Byggðasafnið í Görðum
1.4 Fasteignafélag Akraneskaupstaðar slf.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 26. apríl síðastliðinn að vísa ársreikningum A-hluta til Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 1 til og með 3 saman undir dagskrárlið nr. 1 og að gerð verði grein fyrir umræðunni þar þó hvert og eitt mál verði eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega.

Samþykkt 9:0

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir óreglulega liði, er jákvæð um 245,1 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 257,1 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta með óreglulegum liðum er jákvæð um 507,3 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 101,8 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 1.979 en nam 1.652 árið 2020.
Skuldaviðmið er 20% en var 24% árið 2020.
EBITDA framlegð er 3,53% en var 0,25% árið 2020.
Veltufé frá rekstri er 16,98% en var 11,35% árið 2020.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 73% en var 84% árið 2020.
Eiginfjárhlutfall er 60% en var 59% árið 2020.
Veltufjárhlutfall er 1,87 en var 1,92 árið 2020.

Til máls tóku:

ELA, ÓA, KHS, RÓ sem leggur fram bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Ánægjulegt er að Akraneskaupstaður skilar á rekstrarárinu 2021 um 578 m.kr. afgangi á samstæðu reikningi bæjarins. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að jákvæð rekstrarniðurstaða er tilkomin vegna fjármagnsliða og einskiptis tekna sem ekki er hægt að reiða sig á til framtíðar.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa varað við þeirri þróun í rekstri Akraneskaupstaðar á undanförnum árum að útgjöld vaxa hraðar en tekjur. Í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2021 lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í bæjarstjórn um að farið yrði í viðamikla úttekt á rekstri og stjórnsýslu Akraneskaupstaðar. Rúmu ári síðar er úttektinni lokið og niðurstöður liggja fyrir. Fyrstu skref nýrrar bæjarstjórnar er að setja skýr markmið og skilgreina aðgerðir til að auka reglulegar tekjur til framtíðar.

Áhyggjur Sjálfstæðisflokksins snúa m.a. að eftirtöldum staðreyndum sem sýnilegar eru í ársreikningum Akraneskaupstaðar á kjörtímabilinu og úttekt KPMG á rekstri Akraneskaupstaðar staðfestir.

Gjöld hækka langt umfram tekjur og nú er svo komið að reglulegar tekjur sveitarfélagsins duga ekki fyrir útgjöldum. Laun og launatengd gjöld hafa hækkað um 500 m.kr. milli ára á kjörtímabilinu sem skýrist af fjölgun starfa og hækkunum kjarasamninga. Þessi útgjaldaliður er nú orðin um 70% af tekjum bæjarsjóðs og hefur sjaldan verið hærri. Hlutfall þetta er með því hæsta sem gerist hjá sveitarfélögum á Íslandi. Taka þarf á þessum vanda því útsvarstekjur duga ekki fyrir launakostnaði sveitarfélagsins.

Gjöld hafa vaxið hraðar en tekjur undanfarin ár og því ljóst að áskoranir kaupstaðarins eru miklar nema það takist að stækka tekjustofna sveitarfélagsins með fjölgun íbúa og nýjum atvinnutækifærum. Samhliða auknum tekjum þarf að gæta aðhalds í rekstrarútgjöldum því ef ekki næst að auka tekjur og halda í við útgjöld er fyrirsjáanlegur niðurskurður á þjónustu til að lækka kostnað sveitarfélagsins svo tryggja megi rekstrargrundvöllinn. Útsvarstekjur 2021 jukust þó meir en síðustu ár en þær tekjur skiluðu sér ekki í bættri rekstrarniðurstöðu því rekstrarkostnaður jókst jafnframt.

Útgjöld í málaflokk velferðar- og mannréttindamála hafa farið ört vaxandi og vegur málaflokkur fatlaðs fólk þar þungt og ljóst að framlag ríkisins dugar ekki til þeirra útgjalda sem bæjarfélagið stofnar til. Uppsafnaður halli Akraneskaupstaðar af málefnum fatlaðra frá tilfærslu frá ríkinu til sveitarfélaga árið 2011 er 717 m.kr. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru uggandi yfir stöðu málaflokksins í heild en þessi hallarekstur eykur á fyrirsjáanlegan rekstrarvanda sveitarfélagsins.

Að lokum hvetja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins nýja bæjarstjórn til að mæta útgjaldaaukningu með festu og gera reksturinn sjálfbærari því tækifærin eru til staðar. Varasamt er að treysta á einskiptistekjur, þ.e. fjármagnsliði, úthlutun lóða og arðgreiðslur til að ná fram rekstrarhagnaði því þær tekjur geta brugðið til beggja vona.

Það er og verður ávallt hlutverk bæjarfulltrúa á Akranesi að verja rekstur og þjónustu Akraneskaupstaðar við íbúa og tryggja að Akraneskaupstaður geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum, uppbyggingu og þjónustu sem honum ber til framtíðar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum á kjörtímabilinu og munu áfram standa vaktina fyrir Akranes.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur G. Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

ELA, KHS sem leggur fram bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:

Ánægjulegt er að Akraneskaupstaður skilar á rekstrarárinu 2021 rúmlega 578 m.kr. rekstrarafgangi á samstæðureikningi bæjarins. Þessi jákvæða niðurstaða er 464 m.kr. betri niðurstaða en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og 721 m.kr. betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlun með viðaukum.

Þessi árangur næst þrátt fyrir að gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga sé 135 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, þrátt fyrir ójafna kostnaðarskiptingu ríkisins og Akraneskaupstaðar vegna málefna fatlaðra á árinu 2021 og þrátt fyrir að verðbólga mælist langt umfram markmið Seðlabanka Íslands.

Rekstur Akraneskaupstaðar einkennist af ábyrgri og traustri fjármálastjórn. Skuldaviðmið samstæðunnar fer lækkandi og er núna 20%, veltufé frá rekstri er 16,98% eða 1519 m.kr, veltufjárhlutfall er 1,79, eiginfjárhlutfall 58% og framlegðarhlutfall 4,35%. Handbært fé nam í árslok 1.571 m.kr og fjárfest var fyrir 1062 milljónir á árinu 2021.

Þessi sterka rekstrarniðurstaða er Akraneskaupstað mikilvæg. Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2022 var pólitísk samstaða um að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu hér á Akranesi til þess að bæta vinnuaðstæður og veita áfram góða grunnþjónustu í samfélaginu.

Útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks hafa haldið áfram að vaxa og uppsafnaður halli af málaflokknum er á árinu 2021 samtals 717 m.kr sem er með öllu óásættanlegt. Það þarf að vera forgangsatriði að halda áfram að ýta á að ríkisvaldið greiði sveitarfélögum sanngjarnt framlag til málaflokksins.

Ánægjulegt er að sjá viðsnúning í rekstri Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis. Rekstrarniðurstaða Höfða er jákvæð um rúmar 65 m.kr sem er 79 m.kr betri niðurstaða en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir.

Akranes er samfélag í sókn. Samfélag þar sem bæjarstjórn hefur lækkað álagningarprósentur á íbúðar- og atvinnuhúsnæði á kjörtímabilinu en um leið varið grunnþjónustu og ráðist í gríðarlega öfluga innviðauppbyggingu. Þessi staðreynd sýnir fram á að fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar er sterk og þessi sterka staða skapar tækifæri til að hlúa vel að velferð og lífsgæðum íbúa á Akranesi.

En þó að reksturinn sé traustur þá er mikilvægt að bæjarfulltrúar haldi áfram að fara vel með fjármuni samfélagsins. Horfi áfram í það hvernig hægt er að auka tekjur kaupstaðarins og fylgist stöðugt með þróun útgjalda. Að bæjarfulltrúar séu tilbúnir til að leita leiða til að viðhalda þeirri styrku stöðu sem við höfum nú.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn H. Sveinsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)

Framhald umræðu: ÓA.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um afgreiðslu ársreiknings A-hluta Akraneskaupstaðar:

Bæjarstjórn Akranesss samþykkir ársreikninga A- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 og staðfestir hann með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

2.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - B-hluti

2204098

Áreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - B hluti

2.1. Fasteignafélag Akraneskaupstaðar ehf.
2.2. Gáma
2.3. Háhiti ehf.
2.4. Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi þann 26. apríl síðastliðinn að vísa ársreikningum B- hluta Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstrarniðurstaða B-hluta fyrir óreglulega liði var jákvæð um 63,9 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 10,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða B-hluta með óreglulegum liðum var jákvæð um 71,1 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 16,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Bæjarstjórn samþykkir ársreikninga B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 og staðfestir með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

3.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - samstæða

2204099

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 26. apríl síðastliðinn að vísa samstæðu Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar, fyrir óreglulega liði, var jákvæð um 308,9 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 246,3 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar með óreglulegum liðum var jákvæð um 578,4 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 84,8 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er um 2.060 en nam um 1.615 árið 2020.
Skuldaviðmið er 20% en var 24% árið 2020.
EBITDA framlegð er 4,35% en var 0,17% árið 2020.
Veltufé frá rekstri er 16,12% en var 9,79% árið 2020.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 69% en var 79% árið 2020.
Eiginfjárhlutfall er 58% en var 57% árið 2020.
Veltufjárhlutfall er 1,79 en var 1,82 árið 2020.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir ábyrgðar og skuldbindingayfirlit og samstæðurreikning A- og B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 og staðfestir hann með undirritun sinni.

Samþykkt 9:0

4.Skipurit Akraneskaupstaðar 2022

2111039

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 26. apríl síðastliðinn að vísa breytingu á skipuriti Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 4 og nr. 5 saman undir dagskrárlið nr. 4 og gerð grein fyrir umræðunni þar en hvort mál fyrir sig verður eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega.

Samþykkt 9:0

Til máls tóku:
EBr og RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna þeirri stjórnkerfisbreytingu sem lögð er fram til samþykktar í bæjarstjórn í dag 10. maí 2022. Um er að ræða skynsamlegar breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram í árslok 2020 og voru felldar af núverandi meirihluta Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra. Nýtt skipurit, byggt á vinnu Capacent, var tekið upp í byrjun árs 2021 og afgreitt í ágreiningi.

Núverandi breytingarnar felast einna helst í því að efla á fjármáladeild Akraneskaupstaðar með það að markmiði að skerpa áherslur á fjármálastjórnun og efla kostnaðarvitund í fagráðum og stofnunum bæjarins. Þá eru menningarmálum fundinn góður staður í skipuriti með sterk tengsl við stjórnsýsluna sem er löngu tímabært.

Skrifstofa bæjarstjóra er þá lögð niður og þeim verkefnum fundinn nýr staður í nýju skipuriti.

Skipulagsbreytingarnar sem lagðar eru nú fram til samþykktar eru unnar í sátt í bæjarráði og á milli flokka sem er mikilvægt fyrir nýja bæjarstjórn að taka við.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka sviðsstjórum og öðrum embættismönnum fyrir sýndan skilning og biðlund í þessu erfiða ferli.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur G. Adolfsson (sign)

Framhald umræðu: ELA.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn samþykkir breytingu á skipuriti Akraneskaupstaðar sem taki gildi þann 1. júní næstkomandi að lokinni birtingu í B- deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

5.Bæjarmálasamþykkt - samþykkt um stjórn og fundarsköp

2204145

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 26. apríl síðastliðinn að vísa breytingum á skipuriti og breytingum á samþykkt um stjórn- og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Forseti bar upp svohljóðandi breytingartillögur á samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013:

Tillaga nr. 1 er varðar 26. gr. samþykktarinnar.
Gerð er tillaga um nafnabreytingu á skóla- og frístundaráði sem fær nafnið mennta- og menningarráð.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 2 er varðar 43. gr. samþykktarinnar.
Gerð er tillaga um breytingu á A. lið og heimilað að kjósa í fagráðin (bæjarráð/mennta- og menningaráð/velferðar- og mannréttindaráð/skipulags- og umhverfisráð) í maí mánuði það ár sem sveitarstjórnarkosningar fara fram.

Gerð er tillaga um breytingu varðandi A. lið, 2. tl. og fagráð skólamála fær heitið mennta- og menningaráð.

Gerð er tillaga aum breytingu varðandi B. lið, 3. tl. og kjörstjórn breytt í yfirkjörnstjórn sem er í samræmi við hlutverk hennar samkvæmt lögum. Jafnframt er tilvísun til kosningalaga nr. 112/2021 sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

Gerð er tillaga um breytingu varðandi B. lið, 4. tl. varðandi tilvísun til nýrra kosningalaga sbr. 3. tl.

Gerð er tillaga um breytingu þannig að E. liður fellur burt en fær raðnúmerið 1. undir staflið D.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 3 er varðar kaflaheiti VI. kafla sem verður svohljóðandi:
Bæjarráð - Mennta- og menningarráð - Velferðar- og mannréttindaráð - Skipulags- og umhverfisráð

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 4 er varðar 2. mgr. 48. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:
Bæjarráð hefur umsjón með þjónustu- og upplýsingataæknimálum, nýsköpunar- og atvinnumálum og öðrum þeim verkefnum sem öðrum ráðum eru ekki sérstaklega falin.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 5 er varðar 49. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:
- Stjórn Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis
- Almannavarnanefnd
- Yfirkjörstjórn við kosningar samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021
- Undirkjörstjórnir við kosningar samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 6 sem varðar 51. gr. samþykktarinnar sem og fyrirsögn fyrir ofan greinina sem verði svohljóðandi:

MENNTA- OG MENNINGARRÁÐ

Kosning mennta- og menningarráðs.

Bæjarstjórn skal á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kjósa þrjá fulltrúa í mennta- og menningarráð til eins árs og jafnmarga til vara.
Kosningar í mennta- og menningarráð skulu vera leynilegar og bundnar hlutfallskosningar ef einhver bæjarfulltrúi óskar þess.
Framboð sem hefur fulltrúa í bæjarstjórn og á ekki kjörinn fulltrúa í mennta- og menningarráð skal hafa einn áheyrnarfulltrúa í ráðinu og annan til vara.
Bæjarstjórn kýs formann og varaformann mennta- og menningarráðs úr hópi kjörinna bæjarfulltrúa og um kosningu og kjörgengi í ráðið fer samkvæmt 27. gr. samþykktar þessarar.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 7. sem varðar 52. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráð skal að jafnaði halda fund á föstum tíma og eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Aukafundi skal halda eftir þörfum að ákvörðun formanns eða ef sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs, bæjarstjóri, formaður ráðsins eða a.m.k. tveir ráðsmenn óska þess.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 8 sem varðar 53. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs undirbýr ráðsfundi í samráði við formann ráðsins. Hann sér um að mennta- og menningarráð sé boðað til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá a.m.k. einum sólarhring fyrir fund. Geti ráðsmaður ekki sótt fund, tilkynnir hann forföll til sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs og óskar eftir því að varamaður verði boðaður.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 9 sem varðar 54. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Formaður mennta- og menningarráðs stjórnar fundum ráðsins og sér um að allt fari löglega og skipulega fram á fundum þess. Hann úrskurðar í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma út af fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar ráðsins.
Heimilt er að taka mál til meðferðar í mennta- og menningarráði þótt ekki sé það tilgreint í dagskrá. Þó er skylt að fresta afgreiðslu slíks máls ef einhver ráðsmanna óskar þess.
Bæjarskrifstofa Akraneskaupstaðar annast ritun fundargerða mennta- og menningarráðs, sé þess óskað. Um ritun fundargerða mennta- og menningarráðs gilda sömu reglur og um ritun fundargerða bæjarstjórnar sbr. 15. gr.
Mennta- og menningarráðsfundir skulu haldnir fyrir luktum dyrum og er óheimilt að greina frá ummælum einstakra fundarmanna á fundum.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 10 sem varðar 55. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráð fer með umsjón og eftirlit með málum sem heyra undir framkvæmd eftirfarandi laga og reglugerða byggðra á þeim, eins og þau eru á hverjum tíma og að því marki sem lögin setja skyldur á herðar sveitarfélaga:
- Forvarnir sbr. lög um lýðheilsustöð nr. 18/2003.
- Æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamál sbr. lög nr. 64/1998 og lög nr. 70/2007.
- Grunnskóla sbr. lög nr. 91/2008.
- Leikskóla sbr. lög nr. 90/2008 og reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995.
- Tónlistarskóla sbr. lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985.
- Daggæslu barna sbr. reglugerð nr. 198/1992 um eftirlit og leyfisveitingar vegna daggæslu barna í heimahúsum.
- Aðrar lagasetningar Alþingis sem á hverjum tíma tengjast verkefnum ráðsins.
- Rekstur og starfsemi menningar- og safnamála utan verkefna sem varða viðburðahald.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 11 sem varðar 56. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Eftirtaldar nefndir og stjórnir sem kjörnar eru af bæjarstjórn heyra undir stjórnsýslu mennta- og menningarráðs:
- Menningar- og safnanefnd
- Fulltrúaráð Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 12 sem varðar 57. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráði er heimil fullnaðarafgreiðsla mála sbr. 29. gr.
Mennta- og menningarráð úrskurðar um heimild til endurupptöku mála skv. 31. og 77. gr.
Bæjarstjórn setur mennta- og menningarráði erindisbréf.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 13 sem varðar 63. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Eftirtaldar nefndir og stjórnir sem kjörnar eru af bæjarstjórn heyra undir stjórnsýslu velferðar- og mannréttindaráðs:
- Barnaverndarnefnd.
- Öldungaráð.
- Notendaráð um málefni fatlaðs fólks.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 14 sem varðar 8. mgr. 73. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs er staðgengill bæjarstjóra nema bæjarstjórn ákveði annað.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 15 sem varðar 75. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Bæjarstjórn er heimilt að fela eftirtöldum embættismönnum fullnaðarafgreiðslu mála á sama hátt og með sömu skilyrðum og nefnd eru í 29. gr.:
1. Deildarstjóra fjármála og launa í umboði bæjarráðs að afgreiða afslátt af fasteignasköttum til elli- og örorkulífeyrisþega á grundvelli samþykktra reglna þar um.
2. Byggingarfulltrúa að afgreiða mál samkvæmt samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúans á Akranesi.
3. Bæjarstjóra að veita umsagnir samkvæmt áfengislögum um áfengisveitingaleyfi lögum um veitinga- og gististaði um veitingu og endurnýjun rekstrarleyfa.
4. Félagsmálastjóra í umboði velferðar- og mannréttindaráðs að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð á Akranesi, samþykktar af bæjarstjórn.
Bæjarstjórn skal setja skýrar reglur um afgreiðslu embættismanna, en viðkomandi ráð hafa eftirlit með þeim og kalla reglulega eftir skýringum og upplýsingum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra. Embættismanni er alltaf heimilt að vísa ákvörðun skv. 1. mgr. til viðkomandi ráðs til fullnaðarafgreiðslu. Mál sem starfsmenn afgreiða skulu kynnt í viðkomandi ráði með skriflegri skýrslu í lok hvers ársfjórðungs.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 16 sem varðar 79. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna bæjarfélagsins fer eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga, starfsmannastefnu, jafnlaunastefnu og jafnréttisáætlun.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 17 sem varðar 87. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Ef að lágmarki 20% þeirra sem kosningarrétt eiga í bæjarfélaginu óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga skal bæjarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 18 felur í sér að eldra bráðabirgðaákvæði sem hafði raðnúmerið 88 falli burt.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 19 sem varðar 89. gr., sem fær nýtt raðnúmer og verður 88. gr. og ritað verði inn í greinina viðeigandi dagsetningar vegna málsmeðferðar bæjarstjórnar Akraness.

Samþykkt 9:0

6.Deiliskipulag Sementsreit - breyting á reit C

2204194

Breyting felst í stækkun og aukningu á hæð í bílakjallara. Breytingar eru allar neðanjarðar og því ekki sýnilegar.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að skipulagsbreytingin verði samþykkt skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr.123/2010, send Skipulagsstofnun og auglýst í B- deild Stjórnartíðinda.
Til máls tóku:
EBr, RBS og VLJ úr sæti forseta.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir breytingu á deiliskipulags Sementsreit, reit C sem felst í stækkun og aukningu á hæð í bílakjallara (dýpkun á byggingareit í bílakjallara um 2,3 m og lækka kóta bílakjallara í -3,3 m frá kóta 1. hæðar).

Samþykkt 9:0

7.Deiliskipulag Dalbrautarreitur - breyting Dalbraut 8

2112207

Breyting á deiliskipulagi Dalbrautarreits var auglýst frá 17. febrúar til og með 7. apríl 2022.

Tvær athugasemdir bárust:
1. Frá Veitum ohf. dags. 7. apríl 2022.
Veitur vekja athygli á legu vatnslagna, rafstrengja og dreifistöðvar við lóðina og að gera þurfi ráðstafanir þeirra vegna við framkvæmdir og vegna færslu þeirra.

Bókun skipulags- og umhverfisráð: Haft skal samráð við Veitur ohf. við allar framkvæmdir nálægt lögnum. Ábendingar gefa að öðru leyti ekki tilefni til ályktunar.

2. Frá Jóni Bjarna Gíslasyni, Dalbraut 45, dags. 7. apríl 2022. Bent er á að við gerð deiliskipulagsins færðist byggingarlína hússins allt að 4 m nær Dalbraut. Bréfritari telur að skoða ætti ávinninginn að því að halda fyrri byggingarlínu m.t.t. hæðar fyrirhugaðrar byggingar og færa húsið frekar nær Þjóðbraut.

Bókun skipulags- og umhverfisráðs: Breytt deiliskipulag Dalbrautarreits, þar sem byggingarlína á Dalbraut 8 færðist um 3,2 m nær Dalbraut var samþykkt 10. október 2017. Breyting á Dalbraut 8, sem auglýst var 17. febrúar 2022 á ekki við um þær skipulagslínur sem um ræðir og breytir ekki afstöðu nýbyggingarinnar til næstu húsa.

Skipulags- og umhverfisráð telur ekki vera forsendur til þess að breyta meginlínum deiliskipulagsins sem m.a. felst í húsalínu meðfram Dalbraut.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að ofangreind svör verði send þeim aðilum sem gerðu athugasemdir.

Skipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun óbreytt og auglýst í B- deild Stjórnartíðinda.
Til máls tóku:
RBS, EBr og VLJ úr sæti forseta.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að svör skipulags- og umhverfisráðs verði svör bæjarstjórnar við framkomnum athugasemdum frá Veitum dags. 7. apríl síðastliðinn og frá Jóni Bjarna Gíslasyni dags. 7. apríl síðastliðinn.

Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraness samþykkir deiliskipulagsbreytingu á Dalbrautarreit, Dalbraut 8, að breytingin verði send Skipulagsstofnun og auglýst í B- deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

8.Brunavarnaáætlun Akraness og Hvalfjarðarsveitar 2022-2026

2204143

Brunavarnaráætlun Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Bæjarráð og skipulags- og umhverfisráð leggja til við bæjarstjórn Akraness að fyrirliggjandi brunavarnaáætlun verði samþykkt.
Til máls tók: SFÞ.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir brunavarnaáætlun Akraness og Hvalfjarðarsveitar vegna tímabilsins 2022 til og með 2026.

Samþykkt 9:0

9.Gatnagerðargjald - gjaldskrá 2022

2201198

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að breyting á gjaldskrá gatnagerðargjalda verði samþykkt.
Til máls tóku:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir breytingu á gjaldskrá nr. 1099/2020 fyrir gatnagerðargjald í Akraneskaupstað sem öðlist gildi við birtingu í B- deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

10.Skógarhverfi 3C og 5, úthlutun lóða

2204169

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 5. maí síðastliðinn fyrirkomulag varðandi fyrirhugaða úthlutun lóða í Skógarhverfi 3C og 5.

Í ljós kom þann 6. maí síðastliðinn að mögulegur dráttur yrði á byggingarhæfi lóða þannig að endurskoða þyrfti ákvörðun bæjarráðs.
Til máls tók: VLJ úr stóli forseta.

Bæjarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins.

Samþykkt 9:0

11.Hátíðarfundur bæjarstjórnar Akraness 2022

2205047

Bæjarstjórn Akraness áformar að halda aukafund - sérstakan hátíðarfund þann 17. maí næstkomandi, í tilefni 80 ára kaupstaðarafmælis Akraneskaupstaðar.
Til máls tóku:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að halda aukafund miðvikudaginn 18. maí næstkomandi og hefst fundurinn kl. 17:00.

Samþykkt 9:0

Forseti gerir tillögu um að fyrirhuguðum fundi bæjarstjórnar Akraness þann 24. maí næstkomandi verði aflýst.

Samþykkt 9:0

12.Móttaka flóttafólks

2203074

Móttaka flóttafólks / viðauki 4.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 24. mars síðastliðinn að hafinn yrði undirbúningur á ráðningu málastjóra vegna verkefnisins en að starfshlutfall viðkomandi yrði í samræmi við umfang verkefnisins og fól bæjastjóra frekari úrvinnslu málsins. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 31. mars síðastliðinn ráðningu verkefnastjóra tímabundið í 6 mánuði en verði þá endurskoðað miðað við stöðu verkefnisins.

Samkvæmt kostnaðarlíkani er gert ráð fyrir að mánaðarleg útgjöld tengt ráðningu verkefnastjóra verði um 1,1 m.kr. með launatengdum gjöldum. Samtals er því gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa þáttar verkefnisins verði um 6,6 m.kr.

Bæjarráð gerir ráð fyrir að ríkið endurgreiði í það minnsta hluta af þessum útgjöldum en það liggur þó ekki fyrir endanlega.

Útgjöldin verða færð á deild 02600-1691 og mætt með lækkun á rekstrarafgangi.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 4, samtals að fjárhæð 6,6 m.kr., og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar málsmeðferðar
Til máls tók: KHS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 4, samtals að fjárhæð 6,6 m.kr., sem færður verði á deild 02600-1691 og mætt með lækkun á áætluðum rekstrarafgangi.

Samþykkt 9:0
Fylgiskjöl:

13.Deiliskipulag Skógarhverfi áf. 3A - Skógarlundur 1.

2201093

Breyting á deiliskipulagi áfanga 3A Skógahverfis, breytingin felur í sér að breyta staðsetningu bílastæðis að bílskúr. Erindið var grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 123/2012, frá 7. apríl til og með 7. maí 2022. Engar athugasemdir bárust.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Til máls tóku:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir deiliskipulagsbreytingu Skógarhverfi áfanga 3A, vegna Skógarlundar 1 og að breytingin verði send Skipulagsstofnun og auglýst í B- deild Stjórnartíðinda´.

Samþykkt 9:0

14.Grundartún 14 - Umsókn til skipulagsfulltrúa

2203100

Umsókn um að stækka svalir og steyptan stiga að svölum. Nýr inngangur í kjallara skv. meðfylgjandi uppdráttum. Erindið var grenndarkynnt samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engar athugasemdir bárust og eitt samþykki.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir erindið.

Samþykkt 9:0

15.Skógarhverfi áfangi 3C og 5 - gatnagerð framkvæmdaleyfi

2205046

Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð í Skógarhverfi.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar í Skógahverfi 3C og 5, skv. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar í Skógarhverfi 3C og 5 sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Samþykkt 9:0

16.Fundargerðir 2022 - bæjarráð

2201002

3499. fundur bæjarráðs þann 28. apríl 2022.
3500. fundur bæjarráðs þann 5. maí 2022.
Til máls tóku:
EBr um fundargerð nr. 3499, fundarlið nr. 6.
VLJ um fundargerð nr. 3499, fundarlið nr. 6, úr stóli forseta.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

17.Fundargerðir 2022 - velferðar- og mannréttindaráð

2201003

181. fundargerð velferðar- og mannrétindaráðs frá 3. maí 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerðir 2022 - skóla- og frístundaráð

2201004

191. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. apríl 2022.
192. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 3. maí 2022.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

19.Fundargerðir 2022 og tilkynningar - Samband íslenskra sveitarfélaga

2201057

909. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27. apríl 2022.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:35.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00