Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

3. fundur 07. desember 2004 kl. 09:01 - 11:00

Ár 2004, þriðjud. 7. desember 2004, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0.


Mættir:                Bergþóra Sveinsdóttir, Brekkubæjarskóla

                           Ása Katrín Bjarnadóttir, Brekkubæjarskóla

                           Harpa Jónsdóttir, Grundaskóla

                           Jóhanna Gísladóttir, Grundaskóla

                           Sigurrós Sigurbjörnsdóttir, Fjölbrautaskóla Vesturlands

                           Vera Knútsdóttir, Fjölbrautaskóla Vesturlands

                           Þór Birgisson, Fjölbrautaskóla Vesturlands

 

Gísli Gíslasonbæjarstjóri setti fund og stjórnaði umræðum.

 

Helga Gunnarsdóttir ritaði fundargerð og Aðalsteinn Hjartarson sá um tæknimálin.


 

Fyrst tók til máls Bergþóra Sveinsdóttir, Brekkubæjarskóla. Hún sagði frá ferð sem ungmennahópur frá Akranesi fór til Fjarðabyggðar til að taka þátt í ungmennaþingi. Ferðin var farin á grundvelli samstarfssamnings sem er í gildi milli Fjarðabyggðar og Akraneskaupstaðar. Í ferðinni skoðuðu þau félagsmiðstöðvar í Fjarðabyggð, fengu kynningu á félagslífi ungmenna þar og tóku þátt í ungmennaþingi. Á dagskrá ungmennaþingsins voru þrjú málefni: ungmennalýðræði, félagslíf ungs fólks og félagsmiðstöðvar. Bergþóra rakti það sem áhugaverðast var í ferðinni og lýsti yfir ánægju með ferðina. Bergþóra fór síðan nokkrum orðum um alþjóðasamstarf sem fram fer á vegum Arnardals og taldi það mikilvægt.

 

Næst á mælendaskrá var Vera Knútsdóttir, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún fjallaði um unglingalýðræði og sagði það felast í því að unglingar taki þátt í ákvarðanatöku hjá þeim stofnunum sem varða málefni þeirra. Sem dæmi um slíkar stofnanir nefndi hún félagsmiðstöðvar, skóla, ungmennahús, íþróttafélög og sveitarfélög. Unglingar geta tekið þátt með því að tjá skoðanir sínar með formlegum og óformlegum hætti. Vera taldi fund sem þennan dæmi um þátttöku með formlegum hætti. Hún taldi að ungmenni fengju ekki oft tækifæri til að tjá skoðanir sínar með formlegum hætti. Óformlegar leiðir eru fleiri en ein. Ein leið er að hafa beint samband við stjórnmálamenn og kynna þar sjónarmið sín og mikilvægt er að mæta velundirbúin/n og helst að vera fleiri en einn.  Önnur leið felst í því að safna undirskriftarlistum og skila til ráðamanna. Sú leið getur reynst vel þegar ungmennum finnst ákvarðanir stjórnvalda brjóta gegn hagsmunum sínum. Þriðja leið er að leita til fjölmiðla, þá er vakin athygli á viðkomandi málefni og erfitt að hunsa skoðanir sem fram koma því málið er þá orðið opinbert. Margir unglingar þekkja ekki þessar leiðir og gera sér ekki grein fyrir að þeir geta tekið þátt í stjórnmálum.

Á ungmennaþinginu kom m.a. fram að unglingum finnst að stjórnmál komi þeim ekki við því þeir hafa ekki kosningarétt. Einnig kom fram að unglingum finnst stjórnmálamenn almennt vera fremur óaðlaðandi og finnst þeir vera unglingum æðri. Vera varpaði fram spurningunni um hvað stjórnmálamenn geta gert til að fá ungmenni til að vera virkir í að tjá skoðanir sínar. Hún kom með eftirfarandi ábendingar. Stjórnmálamenn þurfa að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri á skiljanlegu máli. Stjórnmálamenn þurfa að vera sýnilegir, ættu að koma í heimsókn í skólanna og félagsmiðstöðvarnar og taka þátt því starfi sem þar fer fram og skiptast á skoðunum. Þannig geta stjórnmálamenn kveikt áhuga hjá unglingum á stjórnmálum. Unglingum er ekki sama um allt en þeir vita ekki hvernig hægt er að koma skoðunum sínum á framfæri og eru hræddir um að ekki verði hlustað á þá.

 

Harpa Jónsdóttir, Grundaskóla tók næst til máls. Hún sagði frá félagslífi unglinga á Akranesi. Hún byrjaði á að gera grein fyrir starfsemi Arnardals. Þann 12. janúar árið 2005 eru 25 ár frá því að Arnardalur hóf göngu sína. Arnardalur er opinn þrjú kvöld i viku og eru að jafnaði um 50 ungmenni sem sækja Dalinn á kvöldin. Ef eitthvað sérstakt er á dagskrá eru um 100 ? 130 sem mæta.  Dagskrá Arnardals er breytileg, ef ekkert sérstakt er um að vera koma unglingarnir saman til að spjalla, spila eða horfa á sjónvarp. Sum föstudagskvöld eru böll og þá er yfirleitt eitthvert þema. Í Arnardal er einnig klúbbastarfsemi  þar sem stelpur og strákar geta gert eitthvað með hjá starfsmanna Arnardals. Annað hvert mánudagkvöld er námskeið í brjóstsykursgerð.

Harpa sagði einnig frá því að unglingar gætu fundið sér viðfangsefni á vegum annarra en félagsmiðstöðvarinnar. Hún nefndi fjölbreytta möguleika á vegum íþróttahreyfingarinnar og tónlistarskólans, unglingar geta farið í sund, stundað þreksalinn, tekið þátt í starfsemi KFUM og K, skátanna og grunnskólarnir hafa einnig ýmislegt í boði.  Hún nefndi nokkur dæmi um fræðslukvöld á vegum Arnardals s.s. snyrtikvöld, og fræðslu um drauga og geimverur. Næst vék hún máli sínu að þátttöku Arnardals í starfi SAMFÉS ? landssamtök félagsmiðstöðva. Sem dæmi nefndi hún STÍL ? sem er hönnunar og förðunarkeppni, spurningarkeppni og söngvakeppni en Arnardalur vann þá keppni síðast. 

 

Harpa sagði að lokum frá niðurstöðum ungmennaþinginu í Fjarðarbyggð um félagsmiðstöðvar en þar var fjallað um eftirfarandi spurningar:

 

 • Þurfum við á Félagsmiðstöðvum að halda? Svar; Já unglingar þurfa stað til að hittast, meira pláss en hver og einn hefur heima hjá sér,
 • Geta félagsmiðstöðvar verið í húsnæði skólans? Svar: Nei það er ekki gaman að fara í skólann á kvöldin, ekki nógu ?kósi? Svo lokast félagsmiðstöðin ef kemur til verkfalls.
 • Hvað á heima í félagsmiðstöðvum og hvað ekki?  Svar: Það sem á heima í félagsmiðstöðvum er: vímulaust ungt fólk, góður andi, skipulegt starf,  tónlist, jákvætt viðhorf, forvarnir, nægilegt pláss, kósíaðstaða, leiktæki, kaffihúsaaðstaða,sjónvarp/breiðtjald, fólk. Það sem ekki á að vera í félagsmiðstöð er eftirfarandi; fordómar, einelti og vímuefni.

 

Ása Katrín Bjarnadóttir, Brekkubæjarskóla var næst á mælendaskrá. Hún kynnti tillögur um félagslíf unglinga 13 ? 16 ára á Akranesi.  Hún taldi að félagslíf unglinga væri í ágætis lagi en að alltaf mætti gera betur. Hún tók fram að þær hugmyndir sem hún kynnti væru ekki verðmerktar. Hún sagði að hópurinn væri alfarið á móti því að félagsmiðstöðvar yrði færðar inn í skólana. Það leiddi til klofnings milli unglinga. Hins vegar Arnardalur er of lítill fyrir 270 unglinga, loftræsting er engin og engin aðstaða er  fyrir fatlaða. Arnardalur þarfnast andlitslyftingar og stærra húsnæðis. Segja má að Arnardalur sé úreltur eins og hann er í dag. Þar er ekki hægt að rúma þá starfsemi sem fram gæti farið í félagsmiðstöð s.s. aðstaða fyrir hljómsveitir, leiklist og tónlist. Ása Katrín lagði til við bæjarstjórn að kannað verði að félagsmiðstöðin verði flutt í KFUM og K þar sem það húsnæði er lítið notað. Það hús hentar vel þar sem þar er meira rými, þrír salir og betri aðstaða fyrir fatlaða. Ása Katrín sýndi síðan myndir frá KFUM og K húsinu. Helstu kostir eru að húsið er miðsvæðis miðað við báða grunnskólana.  Hún kynnti síðan hugmyndir um hvernig nýta mæti húsið undir starfsemi félagsmiðstöðvar. Hún benti á að fjölga þyrfti starfsmönnum í Arnardal. Einnig að kannað væri hvort hægt væri að æfa handbolta á Akranesi. Að lokum óskaði Ása Katrín eftir að bæjaryfirvöld könnuðu hvort hægt væri að útvega unglingum vinnu hjá atvinnurekendum. Unglingar vilja meira fjárhagslegt sjálfstæði og axla meiri ábyrgð. Hún benti á að úti á landi fengju unglingar vinnu á almennum markaði en ekki hér. Vinna á vegum vinnuskólans væri ekki allt sumarið.

 

Sigurrós M. Sigurbjörnsdóttir, Fjölbrautaskóla Vesturlands og starfsmaður í Hvíta húsinu. Hún fjallaði um félagsstarf ungmenna 16 ára og eldri. Hún taldi að margt væri í boði á sviði íþróttaiðkunar en staðreyndin væri sú að margir hættu íþróttaiðkun einmitt á þessum aldri. Ástæður fyrir því væru ef til vill að aukinn áhersla væri á ástundum og árangur. Flestir 16 og eldri fara í framhaldsnám og bjóða viðkomandi skólar þá upp á einhvert tómstundastarf. Flestir eyða þó mestum tíma sínum í tölvum, á rúntinum og um helgar í skemmtanir.

Hún rakti að Akraneskaupstaður ásamt Rauða kross deild Vesturlands hefði  komið á fót tómstunda- og menningarhúss fyrir ungt fólk. Á Íslandi eru nú 11 sambærileg hús starfandi. Húsin eru ólík og framtíð þeirra um margt óráðin. Sameiginleg markmið ungmennahúsanna er að bjóða upp á afþreyingu, efla ákvarðanatöku og framkvæmd þeirra málefna sem snúa að ungu fólki. Hvíta húsið var opnað 1. maí 2002. Með tilkomu þess hefur framboð á tómstundum aukist fyrir þennan aldurshóp. Tækifæri eru til að sinna menningu og listum. Í Hvíta húsinu er frír aðgangur að öflugum tölvum og interneti, 20 sjónvarpsstöðum, DVD spilarar, góðu hljóðkerfi og hljóðnemum. Í Hvíta húsinu er rekin sjoppa og kaffihús. Gestir geta spjallað við vini og kunningja, lesið dagblöð og tímarit og lært fyrir skólann. Hvíta húsið er notað af fleirum en ungu fólki, fatlaðir og geðfatlaðir hittast þar t.d. einu sinni í viku. Á efri hæð hússins er fundaraðastaða og hittist hópur ungra AA félaga þar einu sinni í viku, forvarnarfulltrúi Fjölbrautaskólans er með hópastarf einu sinni í viku, lan hópur hefur þar aðstöðu og Tensing rekur þar útvarp. Hvíta húsið hefur skipulegar uppákomur sem dæmi nornakvöld, tónlistarkvöld og fleira.  Vegna stutts starfstíma hefur Hvíta húsið ekki náð að skjóta rótum í huga ungs fólks, aðsókn mætti vera meiri og jafnari. Nýjung í starfseminni er Tensing. Hvíta húsið er nauðsynlegt og efling starfseminnar skilar sér án vafa út í þjóðfélagið. Það verður að vera staður þar sem ungt fólk getur hist án vímuefna og áfengis. Við megum ekki sofna á verðinum og verðum að halda áfram að finna leiðir til að efla ungt fólk til heilbrigðari og uppbyggilegri lífsmáta.

 

Sigurrós kynnti síðan niðurstöður frá málþinginu í Fjarðarbyggð:

 

 • Fyrst var fjallað um spurninguna hvort þörf væri fyrir ungmennahús. Strákarnir svöruðu spurningunni játandi og voru ástæðurnar eftirfarandi: lan, græjur, hangout, félagsskapur, æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir, fyrirlestrar um ýmis málefni. Stelpurnar svöruðu spurningunni einnig játandi og ástæður voru eftirfarandi: sinna tómstundaiðkun sinni, minnka líkur á að unglingar fari út í  neyslu vímuefna.
 • Síðan var fjallað um hvernig ungmennahús eiga ekki að vera: Ekki endalausir fyrirlestrar  um dóp, kynsjúkdóma og kynlíf ? þreyttur áróður.
 • Hvernig eiga ungmennahús að vera. Ekki staður þar sem bæjaryfirvöld hugsa fyrir unga fólkið ? unga fólkið á að vera með frá byrjun. Unglingar eiga sjálfir að koma með hugmyndir sem starfsmenn hjálpa þeim að koma í framkvæmd (strákar). Verður að vera staður til að chilla á. Skemmtistaður án vímuefna. Leggja meira upp úr að vera staður fyrir 16 -17 ára ungmenni. (stelpur)

 

 

Jóhanna Gísladóttir, Grundaskóla. Jóhanna sagði frá því að hún væri að ljúka grunnskóla í vor og hefur áhyggjur af því að þeim breytingum sem eru framundan. Jóhanna telur frábært að Hvíta húsið skuli vera til á Akranesi því ungmenni á aldrinum 16 ? 17 ára eigi ekki í nein önnur hús að venda, eru hvorki fullorðnir eða börn. Það er ekki nóg að bæjarfélagið geri vel við unglinga, unglingar verða líka að nýta það sem til er. Jóhanna gerði að umtalsefni að brottfall er mikið úr íþróttum á aldrinum 14- 15 ára. Frítími minnkar á þessum aldri og kröfur aukast og æfingum fjölgar. Hún benti á að sumir unglingar hafa áhuga á að stunda ákveðna íþrótt þó þau hafi ekki áhuga á að keppa í henni. Jóhanna telur að bjóða ætti upp að hægt væri að æfa íþrótt án þess að taka þátt í keppnum.

 

Vinnuframboð fyrir unglinga á aldrinum 15 -17 ára er ekki mikið. Ef krakkar eru heppnir fá þeir vinnu gegnum klíku en annars bíður þeirra ekkert annað en vinnuskólinn. Jóhanna fagnaði því að bæjaryfirvöld bjóði 17 ára unglingum vinnu á sumrin. Einnig benti hún á að samstarf milli Hvíta hússins og Arnardals mætti vera meira og nefndi sem dæmi að Arnardalur gæti boðið 17 ára nemendum á ball að hausti. Ungmennahúsið þarf ef til vill meiri kynningu meðal framhaldsskólanemenda en starfsemi þess er að aukast. Unglingar á Akranesi vilja vera með í ráðum bæði ef breytingar standa til en líka þegar verið er að undirbúa hátíðir og nefndi Jóhanna sem dæmi ?Írska daga? sl. sumar þar sem takmarkað tilboð var í boði fyrir unglinga. Það vantar að ræða við unglinga um hvað eigi að gera. Unglingar hafa skoðanar og hafa áhuga á að koma þeim á framfæri.

 

Þór Birgisson, Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þór fjallaðir um menningarstarf unglinga á Akranesi. Hann sagði það það fælist í leiklist, tónlist, dansi og hjá sumum pólitík. Hann  gerði tvennt að umfjöllunarefni: Tensing og menningaraðstaða fyrir unglinga. Tensing er stærsta verkefni sem Hvíta húsið hefur ráðist í, en Tensing á sér langa sögu erlendis. Tensing er menningarspengja sem samanstendur af leiklistarhópi, tónlistarhópi, danshópi, hljómsveit, tæknihópur, hönnunarhópur og útvarpshópur. Tensing er sjálfstætt félag innan Hvíta hússins. Verkefnastjóri er Elínborg Halldórsdóttir og hefur hún unnið að fjáröflun vegna verkefnisins. Þór lýsti yfir áhyggjum vegna fjárhags verkefnisins og hvatti hann bæjaryfirvöld til að styrkja starfið. Söngurinn er miðpunkturinn í starfinu, félagar í Tensing hittast, syngja og ræða hugmyndir að dagskrá. Samstarf er milli Tensing hópa, annars vegar gegnum Tensing World og hins vegar Tensing Europe. Starfsemi Tensingshópins er ætluð fólki frá 15 ? 22 ára. Eitt meginmarkmið hópsins er að hvetja ungt fólk til að vera gerendur menningar en ekki bara neytendur. 

Þór nefndi síðan menningarhúsnæði á Akranesi. Hann lýsti yfir ánægju sinni með framvindu mála á Akranesi. Hann nefndi að Skagaleikflokkurinn væri kominn með gott húsnæði og í bígerð væri að koma upp æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir. Hann rakti að oft hefði orðið að loka æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir vegna slæmrar umgengni. Hann taldi að það skipulag sem fyrirhugað væri núna væri frábært, fylgst yrði með notendum og þeir þyrftu að borga sig inn eins og aðrir gerðu t.d. í sund. Hann endaði ræðu sína á að vonandi yrði þess skamms að bíða að ungt fólk gæti talið í taktinn í hljómsveit framtíðarinnar.

 

 

Gísli Gíslason, forseti fundarins, taldi eftirtektarvert hve jákvæðir ræðumenn hefðu verið og ánægðir með margt sem snertir félagslíf ungs fólks. Hann varpaði síðan nokkrum spurningum til ræðumanna. Hann spurði Bergþóru hvort hún teldi að við gætum lært eitthvað sérstakt af heimsókninni í Fjarðarbyggð og beindi þeirri spurningu til Veru hvort ungt fólk hefði ekki næga möguleika til að koma skoðunum sínum á framfæri t.d. tölvupóst.

 

Bergþóra sagði að mæting unglinganna væri mun betri í félagsmiðstöðina en hér og aðstaðan t.d. á Norðfirði betri í félagsmiðstöðinni.

 

Vera taldi að ungmenni hefðu tækifæri til að taka þátt í stjórnmálum en ekki allir búa yfir nægum upplýsingum um hvaða leiðir eru færar að stjórnmálamönnum. En einnig væru dæmi um að unglingar fái engin svör þó þeir komi skoðunum sínum á framfæri. Þeim sé ekki svarað vegna þess að þeir eru ekki kjósendur. Vera taldi að nokkuð væri um að framhaldsskólanemendur séu skráðir í ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkana.

 

Gísli óskaði eftir því að Harpa svaraði því hvort það hefði verið mistök að útbúa skólanna svo vel sem gert var, hefði frekar átt að leggja peningana í félagsmiðstöð. Sömuleiðis spurði hann Ásu Katrínu hvort bærinn væri að hugsa of mikið fyrir unglingana.

 

Harpa tók til máls og taldi að nauðsynlegt væri að hafa góða aðstöðu bæði í skólunum og félagsmiðstöðvum.

 

Ása Katrín sagði að bæjaryfirvöld eigi að hlusta á unglinga því þeir viti hvað kemur þeim best.

 

Gísli beindi þeirri spurningu til Sigurrósar hvort starfsemi Hvíta hússins sé á réttri leið, er búið að móta stefnuna? Hvers vegna er aðsóknin svona misjöfn? Hann bað Jóhönnu um að skýra nánar hvort bæjaryfirvöld hugsi of mikið fyrir unglingana? Er hægt að bæta skipulag vinnuskólans.

 

Sigurrós taldi að Hvíta húsið væri á réttri leið en auglýsa þyrfti betur hvað er gert þar og hvað fer fram þar. Um stefnuna taldi Sigurrós að best væri að hafa innbyggðan sveigjanleika í starfinu.

 

Jóhanna taldi að aldrei væri haft samband við unglinga þegar verið er að taka ákvarðanir sem snerta unglinga. Það ætti að hafa samráð við þá.  Um vinnuskólann sagði Jóhanna krakkar sæktu vinnuskólann til að fá félagsskapinn. Hún var ekki viss um að það væri hægt að hafa verkefnin í vinnuskólanum fjölbreyttari.

 

Gísli óskaði eftir að Þór varpaði ljósi á nokkur hugtök sem fram komu í ræðunum og sömuleiðis að hann upplýsti hvort Tensing væri í samvinnu við Skagaleikflokkinn.

 

Þór skýrði að lan væri í raun fyrirbrigði þar sem saman væri komið fullt af fólki sem tengdu tölvurnar sínar saman og þannig virkuðu allar tölvurnar sem ein og allir gætu verið í sama leiknum. Hang out merkir ?Chill? vera saman t.d. horfa á sjónvarpið. Þór upplýsti að hann vissi ekki um tengsl milli Skagaleikflokksins og Tensing.

 

Ása Katrín bað um orðið og vildi árétta að unglingar geta unnið annars staðar en í vinnuskólanum. Vinna er ekki hættuleg fyrir ungt fólk.

 

Jóhanna vildi sömuleiðis koma á framfæri sinni skoðun um unglingar geta vel unnið margvísleg störf. Finnst gæta ofverndunar í garð unglinga.

 

Vera kvaddi sér hljóðs og vildi undirstrika að unglingar hafi gott af því að vinna, það sé ekki gott að slæpast og snúa sólarhringnum við. Atvinnuleysi er hættulegt.

 

Þór bað um orðið og vildi lýsa því yfir að hann væri sammála ræðumönnum sem síðast tóku til máls. Hann vildi koma þeirri skoðun sinni á framfæri að betra hefði verið að leggja meiri peninga í félagsmiðstöð en að byggja upp félagsmiðstöðvar í skólunum.

 

Bergþóra benti á að gerðar væru kröfur til unglinga um að þau hegðuðu sér eins og þau væru fullorðin og því ættu þau einnig rétt á vinnu eins og fullorðnir.

 

Gísli lýsti yfir mikilli ánægju með það sem fram hefði komið á fundinu. Margt af því væri æskilegt að skoða rækilega og vísar því til ?eldri? bæjarfulltrúa. Hann benti á að niðurstöður úr könnun sem nefnd á fundinum ætti erindi inn á heimasíðu bæjarins. Hann þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00