Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

2. fundur 02. desember 2003 kl. 10:41 - 18:20

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0. 


 Eftirtaldir voru mættir til fundarins:

 

Frá grunnskólunum:

 

                     Eva Eiríksdóttir, Grundaskóla  

                     Maren Ósk Elíasdóttir, Grundaskóla

                     Agla Harðardóttir, Grundaskóla

                     Aníta Lísa Svansdóttir, Grundaskóla

 

                     Líney Hendrikka Harðardóttir, Brekkubæjarskóla

                     Vilborg Inga Guðjónsdóttir, Brekkubæjarskóla

                     Björn Páll Valsson, Brekkubæjarskóla

                     Una Harðardóttir,Brekkubæjarskóla

 

Auk þeirra var mættur formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands, Máni Atlason.

 

Fundarstjóri var Gísli Gíslason bæjarstjóri og fundarritari, Andrés Ólafsson.


 

Gísli Gíslason fundarstjóri/forseti setti 2. fund bæjarstjórnar unga fólksins og bauð bæjarfulltrúa velkomna til fundar.

 

Fyrir tekið:

 

1. Forvarnarmál

Líney Hendrikka Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um það sem er að gerast í forvörnum hér á Akranesi í dag og þá sérstaklega starfsemi félagsmiðstöðvanna og skólanna. Hún sagði félagsmiðstöðvarnar í Arnardal og Hvíta húsinu bjóða upp á félagsstarf í dag en það mætti vera meira og fjölbreyttara. Líney sagði að í félagsmiðstöðinni Arnardal færi fram ágætt starf en það virtist samt ekki höfða til allra. Það væri afmarkaður hópur sem sækir Arnardal og það væru margir sem útskrifuðust úr grunnskólunum án þess að koma þar nokkru sinni inn. Þeir sem sækja Arnardal taldi hún hvorki líklegri né ólíklegri til að byrja að reykja og/eða drekka en aðrir krakkar sem ekki sækja félagsmiðstöðina. Það að byrja að reykja eða drekka fer eftir því í hvernig félagsskap ungt fólk er.

Líney sagði það hafa verið gott framtak að koma á fót þeirri starfsemi sem fram fer í Hvíta húsinu. Starfsemin þar höfðar til ungs fólks sem víða um land verður útundan, hefur ekkert að gera og leiðist á auðveldan hátt út í partístand, drykkju og eiturlyf. Hún taldi að unglingum sem væru orðnir of gamlir fyrir Arnardal finnist gott að vita af Hvíta húsinu, þar væri eitthvað sem tæki við. Líney sagði það fyrst og fremst vera skólarnir sem sæju nemendum fyrir fræðslu um áfengis og vímuvarnir.

 

Í Brekkubæjarskóla hafa verið haldnir fræðslufundir um ýmis mál og fólk fengið í skólann til að tala við krakkana. Hún sagði fræðslu um fíkniefni þurfa að vera miklu stöðugri, umræðu þarf að halda á lofti í skólunum við hvert tækifæri.  Það er ekki nóg að tala við krakkana um fíkniefni einu sinni á ári. Fræðslan þarf að vera fjölbreytt, það er ekki nóg að kennari standi upp við töflu og lesi um þessi mál yfir okkur nemendum. Við þurfum líka að heyra í fólki sem hefur reynslu af eiturlyfjum og einnig fólki sem hefur ákveðið að vera bindindisfólk alla ævi sagði Líney. Það þarf líka að sýna okkur myndir svo við sjáum hvernig dópneysla fer með fólk í raunveruleikanum. Það þarf að sjokkera unglinga til að þeir fatti hve allt þetta er hættulegt. Ef maður sér nógu oft hve reykingar, drykkja og eiturlyf geta farið illa með fólk, þá hlýtur maður að hugsa sig tvisvar um áður en maður byrjar að prófa þessa hluti sjálfur sagði Líney. Það væri best að losna við þetta drasl, sem eiturlyfin eru, alveg úr umferð. Lögreglan hér á Akranesi er ekki nógu dugleg við að finna eiturlyf og gera þau upptæk,  en það þarf örugglega að gera mikið átak í þeim málum. Bæjaryfirvöld ættu að fá lögregluna til að gera átak í fíkniefnamálum hér á Akranesi, því það er örugglega mikið meira af efnum í umferð hér á Akranesi en lögreglan hefur gert upptæk undanfarið.  

 

Eva Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, sagði að í augum margra unglinga séu forvarnir fyrst og fremst áróður eins og auglýsingaherferðir í sjónvarpi, veggspjöld og keppnir. Þessar herferðir virka ágætlega á flesta og sumar þessar herferðir gefa innsýn í þann hræðilega veruleika sem bíður þeirra sem misstíga sig og ánetjast vímu og fíkniefnum. Hún sagði þessar auglýsingaherferðir hafa verið í gangi í fjölmörg ár en ef eitthvað er þá fjölgar þeim sem misstíga sig og hvers vegna er það? Það er vegna þess að auglýsingarnar sýna afleiðingar fíkniefna og áfengisneyslu en snúa ekki að orsökinni. Eva sagðist telja að krakkar sem byrja að nota ávanabindandi efni viti oftast um þær afleiðingar sem slík neysla getur haft. Ástæðan fyrir því að þau leiðast út í neyslu er önnur. Þeim hlýtur að líða illa, skorta sjálfstraust eða hafa lélega sjálfsmynd. Því teljum við að langárangursríkast í forvörnum sé að hjálpa unglingum að öðlast nýja sjálfsmynd og skapa umhverfi fyrir þau þar sem þeim líður vel sagði Eva. Við viljum beina sjónum okkar að þeim stofnunum og félögum í bænum sem sinna forvörnum, en það eru skólarnir, félagsmiðstöðvarnar, íþróttafélögin og önnur félög. Við teljum að farsælasta forvörnin sé að styrkja starfsemi þessara aðila.

 

Eva fjallaði síðan um skólann og forvarnir. Hún sagði forvarnir gegn reykingum hafa verið mjög öflugar undanfarið og hafa vissulega borið árangur. Grundaskóli hefur kennt námsefni um skaðsemi reykinga með ákveðin markmið t.d. verum frjáls reyklaus og reyklaus bekkur. Reykingar í grunnskólum hafa snarminnkað undanfarin ár og það þykir ekki lengur vera neitt kúl að reykja. Eva sagði drykkju undir lögaldri hafa líka minnkað. Skólarnir hafa tekið þátt í allskonar vinnu sem snýr að forvörnum gegn áfengi. Það eru helst krakkar sem eru utangarðs sem reykja, drekka og nota vímuefni. Þetta er tiltölulega lítill hópur en af honum ber að hafa áhyggjur. Margir í þessum hópi eiga ef til vill í vandræðum heima fyrir og eru í uppreisn við foreldra sína. Eva velti upp þeirri spurningu hvað geta skólinn og skólayfirvöld gert? Hún sagði að skólinn gæti skapað umhverfi sem nemendum líður vel í til að hindra að þau feti þessa braut, jafnframt sem samstaða innan bekkjar skiptir alveg gríðarlegu máli. Skólinn er vinna okkar, við erum þar heilu og hálfu dagana í 10 ár sagði Eva. Ef maður á góða vini, er í öflugum bekk og í góðu umhverfi hefur það áhrif til frambúðar. Hún sagði félagslífið í skólanum skipta mjög miklu máli og væri sannarlega stór hluti forvarna. Skólarnir eru að sinna forvörnum á margan hátt, það sem mér hefur fundist hvað áhrifaríkast er að fá fyrirlesara sem segja frá eigin reynslu t.d. fengum við á síðasta ári fyrirlestur um kynsjúkdóma sem var mjög áhrifaríkur vegna þess að notaðar voru alvöru myndir sem voru vægast sagt viðbjóðslegar. Flestir krakkarnir voru sjokkeraðir á ógeðinu sem þau sáu. Það er þetta sem unglingar þurfa að heyra og sjá blákaldar staðreyndir. Við fengum líka mjög góða fyrirlestra frá HIV smitaðri manneskju og anorexíusjúklingi sem sögðu reynslusögur sínar en þeir fyrirlestrar vöktu marga til umhugsunar. Þetta finnst mér vera besta forvörnin. Ég vil sjá meira af svona framtaki sagði Eva.

 

        

Vilborg Inga Guðjónsdóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um fræðslu sem grundvallaratriði í öllum forvörnum. Við þurfum að vita um hætturnar í umhverfi okkar og hvernig þær geta skaðað okkur sagði Vilborg. Hér á Akranesi höfum við góða skóla sem veita okkur góða fræðslu um ýmis málefni, einnig fáum við góða fræðslu í gegnum Arnardal og Hvíta húsið. Það er hægt að fullyrða að við unglingarnir vitum nokkuð vel um hvað málið snýst þegar kemur að því að ákveða hvort við ætlum að reykja, drekka eða nota fíkniefni. Vilborg rakti síðan læknisfræðilegar og aðrar afleiðingar sem reykingar, áfengisdrykkja og neysla fíkniefna geta haft en það er allt frá skertri getu, áföllum og getur jafnvel leitt til dauða. Samt byrja alltaf einhverjir unglingar að reykja, drekka eða nota eiturlyf, þrátt fyrir að hafa fengið alla þessa fræðslu um afleiðingarnar sagði Vilborg. Staðreyndin er sú að mörgum unglingum er einfaldlega skítsama um afleiðingarnar. Krakkar sem er alveg sama um eigin heilsu, velferð og jafnvel um eigið líf búa oft við erfiðar aðstæður heima og eiga kannski foreldra sem hafa ekki getu til að sinna börnum sínum.

Vilborg ítrekaði að fræðslan er grundvallaratriði í öllum forvörnum, bærinn þarf að sjá foreldrum fyrir fræðslu rétt eins og okkur unglingunum. Það þarf að kenna foreldrum að þekkja einkenni vímuefnaneyslu og hvernig eigi að bregðast við. Það þarf að kenna foreldrum einfaldar staðreyndir eins og þá að þegar þú kaupir áfengi fyrir unglinginn þinn þá ertu þú að gera vímuna eftirsóknarverða og jákvæða í augum unglingsins og gefa samþykki þitt fyrir neyslunni sagði Vilborg. Það þarf líka að kenna foreldrum að rækta sambandið við börnin sín og hvernig eigi að kenna þeim að þekkja ábyrgð og öðlast sjálfstraust. Hún sagði það að sjálfsögðu gott framtak að halda opna fundi um forvarnarmál fyrir foreldra en það er alltaf hætta á því að þeir foreldrar sem helst þyrftu að mæta á slíka fundi sleppi því að mæta. Við þurfum að finna leiðir til að koma skilaboðum til foreldra um þá miklu ábyrgð sem fylgir því að eiga ungling í dag. Það uppeldi sem við fáum hjá foreldrum okkar ræður úrslitum um það hvers konar einstaklingar við verðum. Umræðan um forvarnir og fræðslan verða að berast með einhverjum hætti inn á heimilin, inn fyrir múrana sem fólk er búið að reisa í kring um sig sagði Vilborg. Því fleiri múra sem okkur tekst að brjóta niður því fleiri einstaklingum tekst okkur að bjarga frá ógæfu.

 

Agla Harðardóttir, bæjarfulltrúi úr Grundaskóla, fjallaði um félagslíf sem forvarnir. Hún sagði allt félagslíf vera forvarnir. Það sem er í gangi núna er Arnardalur, félagslíf skólanna, skátarnir, tónlistarskólinn og margt fleira. Hér á Akranesi höfum við mjög sterkt og gott félagslíf og nefndi þar m.a. Arnardal, skólana, Skátana, tónlistarskólann og fleira en samt sem áður er alltaf hægt að bæta félagslífið. Agla sagði aðaláhyggjuefnið vera peninga. Til að geta eflt félagslíf til muna þarf peninga en þeir eru ekki alltaf fyrir hendi. Hún nefndi sem dæmi að skólarnir halda böll þriðju hverja viku og krakkarnir borga frá 500 krónum upp í 1.800 krónur til að komast inn. Agla fjallaði um þörfina á að hafa fleiri böll eða skemmtanir en það eru ekki allir sem hafa peninga til að fara á skemmtanir. Ég viðurkenni það sjálf sagði hún að ég myndi miklu frekar mæta á eitthvað sem kostar ekki neitt eða eitthvað lítið inn á, frekar en eitthvað sem kostar 500 krónur og uppúr. Hver myndi ekki gera það spurði Agla? Þá fer maður að pæla í þeirri staðreynd að eitthvað vantar en hvað er það sem vantar spurði Agla? Auðvitað það augljósa, það vantar ókeypis félagsstarf en er  hægt að hafa ókeypis félagsstarf? Í félagsstarfi eins og opnum húsum sem eru í skólunum þar sem ekkert kostar inn gerist hins vegar aldrei neitt. Agla sagði að sama mætti segja um opið hús í Arnardal, þó það sé meira hægt að gera þar heldur en í opnum húsum. Hver dagur í Arnardal er ekki neitt frábrugðinn hinum dögunum alltaf sama um að vera. Agla sagði að þau hefðu komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki hægt að hafa ókeypis félagslíf en það er hins vegar hægt að hafa ódýrt félagslíf. Hún velti upp þeim möguleika að það væri hægt að koma á ódýru félagslífi með því að fá styrki frá ýmsum aðilum fyrir ferðum eða einhverju slíku. Agla sagði það einmitt rosalega leiðinlegt við félagsstarf sem kostar mikið að það er hellingur af krökkum sem eiga stórar fjölskyldur og hafa alls ekki efni á að fara í allar þessar ferðir, á öll böllin og skemmtanirnar þó þau langi til þess. Hún sagði það vera auðvitað afskaplega leiðinlegt þegar allir vinirnir manns eru að fara í einhverja ferð að maður kemst ekki með því fjölskyldan hefur ekki efni á því.

 

Agla vísaði til þess er hún sagði í upphafi máls síns að margt væri rosalega gott í félagslífi hér Skaganum, þar mætti nefna að félagsmiðstöðin Arnardalur hefur verið rosalega dugleg að koma með eitthvað nýtt og spennandi. Nefndi hún þar ferðir, námskeið og fleira en bætti við að það mætti kosta minna að taka þátt í þessu. Í máli Öglu kom fram að henni finnst vanta fjölbreyttara félagslíf, félagslíf fyrir alla. Hún sagði það væri hægt t.d. með því að hafa marga klúbba og námskeið þar sem mér finnst að krakkarnir ættu að fá útrás fyrir sköpunargleði með því að halda námskeið þar sem þau gætu kynnt sér flest allt sem þau hefðu áhuga á t.d. leiklistar, myndlistar og föndurnámskeið. Ég held að það sé mjög mikill áhugi fyrir því sagði Agla.

 

Í Grundaskóla hefur undanfarið verið í boði frístundaval, þar sem  haldin eru allskyns námskeið t.d. kleinubakstur, gítar, gler og leir bara svo eitthvað sé nefnt. Agla sagði einnig mjög mikinn áhugi fyrir því að fá einhverja hljómsveitaraðstöðu, það vantar virkilega þannig aðstöðu fyrir utan skólana þar sem hægt væri að æfa sig á kvöldin. Hún benti einnig á að Skagaleikflokkurinn mætti vera meira áberandi með því að halda námskeið fyrir krakka og setja upp einhver lítil leikrit fyrir yngri kynslóðina og jafnframt að auglýsa sig betur svo fólk viti almennilega af honum. Félagslíf er rosalega góð forvörn fyrir krakka á öllum aldri, þess vegna legg ég þá tillögu fram að allir reyni að hafa félagslífið ennþá betra og ódýrara en við höfum það í dag.

 

Máni Atlason, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Fjölbrautaskólanum, fjallaði um félagslífið í Fjölbrautaskólanum (FVA). Hann sagði að í kringum böll í FVA hefði verið mikið fyllirí en nú í haust voru reglur um meðferð áfengis og hegðun krakka á böllum í FVA hertar með misgóðum undirtektum hjá þeim sem hefur verið hent út af böllum. Máni sagði að í FVA hafi einnig verið starfandi forvarnarhópur sem kallar sig Jafningjafræðsluna en á þessari önn hafa þau verið að skipuleggja fyrirlestra á sal skólans þar sem fólk er fengið til að tala um ýmis málefni. Jafningjafræðslan fékk styrk úr forvarnarsjóði til að halda einhverskonar skemmtanir í kringum þessa fyrirlestra til að reyna að draga fleira fólk inn á þá. Máni sagði að fyrsta þemað á þeirra dagskrá hafi verið öruggt kynlíf og var Ingi Rafn forvarnarfulltrúi Alnæmissamtakanna fenginn til að koma í lok október og halda fyrirlestur á sal FVA. Honum var mjög vel tekið. Máni sagði að viku síðar hafi verið sýnt myndband á sal FVA um kynsjúkdóma jafnframt sem dreift var smokkum. Hann upplýsti að um miðjan nóvember hafi síðan Dagbjört Ásgeirsdóttir komið og haldið fyrirlestur um kynlíf og samskipti ungs fólks í Hvíta húsinu. Það var mjög fróðlegur og skemmtilegur fyrirlestur en því miður var ekki nógu góð mæting á hann. Þemað sem búið er að vera er öruggt kynlíf en þegar þar að kemur mun þemað væntanlega vera áfengi og önnur vímuefni. Nokkrir úr þessum forvarnarhópi í FVA fóru á námskeið eina helgi í Reykjavík á vegum Jafningjafræðslunnar. Það gekk mjög vel. Þau vildu nota tækifærið að þakka Aðalsteini fyrir að hjálpa til við að fjármagna þá ferð.

 

Stjórn nemendafélagsins í FVA hefur í gegnum tíðina alltaf verið tilbúin að styðja og standa fyrir viðburðum. Því má hver sem er og vill standa fyrir jafningjafræðslu í FVA koma til stjórnarinnar og gera tillögu um verkefni. Máni sagði stjórnina alltaf geta fundið húsnæði fyrir viðburði, venjulega í skólanum þar sem við fáum það ókeypis. Skólinn styður mjög vel við þetta en eina sem þarf að gera er að krakkarnir þurfa að koma á þessa viðburði. Þeir viðburðir sem hafa verið vímuefnalausir eru kaffihúsakvöld en þeir eru ókeypis fyrir þá sem eru í nemendafélaginu. Það hefur ekki gengið nógu vel að fá fólk til að vera með atriði og skemmta öðrum til að fólk nenni að mæta. Í FVA eru það böllin sem eru vandamálið í sambandi við vímuefnin þ.e.a.s. áfengi og önnur efni sagði Máni. Hins vegar hefur megnið að öðru félagslíf í FVA verið að mestu leiti laust við þessi efni. Það er mjög erfitt að fá krakka til að vera með í því að vera vímuefnalaus eftir að þau koma í FVA. Þegar þau eru komin á þann aldur eru þau mörg hver byrjuð að drekka, sum komin í sterkari efni og þess vegna erfitt að fá þau til að drekka ekki. Það er erfitt að segja 16 ára og eldra fólki hvernig það eigi að haga sér. Það er einna helst hægt með því að fræða krakkana um skaðsemi áfengis og annarra vímuefna. Nú þegar eru mjög margir að vinna mjög gott starf í þessum efnum en það má alltaf gera betur. Máni sagði að það sem honum hafi einna helst  fundist vera að í uppfræðslu hjá þessu fólki væri að venjulega kemur fólk sem hefur verið í neyslu sjálft og segir frá því sem einu sinni hafi verið hjá því. Það hafi áður verið í neyslu og þá hafi allt verið mjög slæmt en á meðan horfa krakkarnir á einhvern sem er voða töff í dag búinn að hætta, búinn að fara í meðferð og það er allt í lagi með hann. Hann er kominn með kærustu aftur og allt gott í hans lífi. Það sem vantar er að það  þarf að koma inn í hausinn á fólki að það eru ekki allir sem hætta og það eru ekki allir sem fá þann möguleika að koma seinna og segja hvað þau gerðu vitlaust. Það er stór hluti sem verða harðari vímuefnum að bráð sem hætta aldrei. Margir drepa sig á endanum í neyslu. Bubbi Morthens hefur nokkrum sinnum komið og flutt fyrirlestur um vímuefni. Í þeim hefur komið fram að það hættu ekki allir. Það væru reyndar mjög fáir sem gerðu það og í máli hans kom fram að 16 vinir hans hefðu drepist vegna eiturlyfja. Máni sagði að sér finnist að það þurfi að koma því fyrr inn í hausinn á krökkunum og á ég þar við yngstu bekki grunnskóla að það eru ekki allir sem ná að hætta ef þeir byrja. Það eru meðferðarheimili út um allt Ísland og þau eru venjulega yfirfull og með biðlista. Þegar ástandið er þannig vegna vímuefna þá er eitthvað að.

 

Það virðast margir krakkar á mínum aldri ekki trúa á alkóhólisma sem sjúkdóm sagði Máni. Það er mjög útbreidd skoðun að þetta sé bara hjá öðrum og maður eigi að geta haft stjórn á þessu, geti tekið fyllirí við og við verið síðan bara allt í lagi. Auðvitað eru mjög margir sem enda síðan í því að hafa ekki neina stjórn á þessu og þurfa á endanum að leita sér hjálpar ef ekki á illa að fara. Þess vegna held ég að til að gera forvarnarstarf öflugra hér á Akranesi og annars staðar þurfi að byrja strax í 7 eða 8 ára bekk að fá fólk sem verið hefur í neyslu og líka fólk sem ekki hefur verið í neyslu til að tala við krakkana sagði Máni. Þar gætu komið að löggan, kennarar og fleiri. Það er auðveldara að hafa áhrif á krakkana þegar þau eru pínulítil að byrja ekki að drekka. Þegar þau eru búin að ákveða að ætla ekki að byrja að drekka þá er auðveldarar að fá þau til að halda við sína skoðun en skipta um skoðun.         

 

Björn Páll Valsson, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, sagði frá því að á íbúaþingi hér á Akranesi nú í haust hefðu unglingarnir hér á Akranesi verið beðnir að koma með hugmyndir um hvernig þeir vildu sjá bæinn sinn þróast í framtíðinni. Björn sagði þá hafa komið þar með ýmsar hugmyndir og tillögur sem þeir vona að hafi verið hlustað á. Meðal tillagna var tillaga um byggingu fjölnota íþróttahúss sem myndi auka fjölbreytni í íþróttalífi hér á Skaga og gefa fólki tækifæri til að stunda íþróttir allt árið. Björn sagði ekki þurfa að ræða mikið um forvarnargildi íþrótta, það hljóta allir að sjá að þegar maður er í íþróttum þar sem menn þurfa alltaf að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi þýðir ekkert að vera að fikta við reykingar, drykkju eða eitthvað þaðan af verra. Í öllu eðlilegu íþróttastarfi er lögð áhersla á hollustu og heilbrigt líferni. Sem betur fer höfum við hér á Akranesi mikla hefð fyrir fjölbreyttu og góðu íþróttastarfi sagði Björn. Það má samt alltaf gott bæta og við verðum að passa okkur að dragast ekki aftur úr öðrum bæjarfélögum hvað þetta varðar. Hann benti á að nú þegar væri búið að reisa risastór íþróttahús í Reykjanesbæ, Kópavogi, Reykjavík og á Akureyri. Svona hús geta gert mikið fyrir íþróttalíf og íþróttaáhuga í heilu bæjarfélögunum. Björn sagðist hafa trú á því að því fleiri unglingar sem stunda íþróttir reglulega allt árið, þeim mun færri  byrja  að reykja eða drekka.

 

Önnur hugmynd sem unglingarnir komu með á íbúaþinginu var að koma upp bretta og línuskautaaðstöðu fyrir áhugafólk. Þetta vantar alveg hér í bæinn og ég er viss um að slík aðstaða yrði mikið notuð af unglingum sagði Björn. Það þarf ekki að vera svo dýrt að koma upp svona aðstöðu. Það væri hægt að fá menn á verkstæðum í bænum til að smíða hluti í brautirnar. Nú sjá örugglega margir fyrir sér druslulega unglinga með úfið hár, prjónahúfur, í skítugum bolum og pokalegum buxum að renna sér á hjólabrettum sagði Björn. Margir tengja hjólabrettin og hjólabrettatískuna við eiturlyfjaneyslu og annað slíkt. Staðreyndin er hins vegar sú að það gildir alveg það sama um þetta og allar aðrar íþróttir. Ef þú ætlar að taka framförum og ná árangri þá verður þú að leggja þig allan fram, halda líkamanum heilbrigðum og í góðu formi sagði Björn. Það er náttúrulega alveg augljóst að það fer enginn fullur eða skakkur að renna sér á hjólabretti niður stigahandrið. Hann myndi ekki gera það nema einu sinni það er alveg öruggt. Þess vegna held ég að það væri mjög gott út frá sjónarhorni forvarna að koma upp slíkri aðstöðu og helst á fleiri en einum stað.

 

Aníta Lísa Svansdóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, fjallaði um íþróttir sem forvarnir. Að leggja stund á íþróttir og heilsurækt ætti að teljast til góðra forvarna. Kannanir hafa líka sýnt það að börn sem stunda íþróttir eru ekki eins líkleg til að lenda í vandræðum með áfengi og fíkniefni sagði Aníta. Íþróttastarf má því flokka sem forvarnarvinnu. Þegar stefna Íþróttabandalags Akraness (ÍA) er skoðuð kemur í ljós að íþróttafélögum er ætlað að taka þátt í almennum forvörnum og vímuefnavörnum og er sú vinna eitt af markmiðum íþróttastarfsins. Leiðir til að vinna með þessi markmið eru einnig tíundaðar í stefnu ÍA og snúast þær einkum um að ráða menntaða þjálfara og að mennta þjálfara á sviði forvarna. Þetta tel ég að sé mjög gott mál sagði Aníta. Hins vegar hef ég og þeir sem ég þekki ekki orðið vör við þessa forvarnarumræðu í mínu íþróttastarfi. Ég tel því að íþróttafélögin geti hugað betur að sínu beina forvarnarstarfi og skipulagt félagsstarf sitt betur með forvarnir í huga. Aníta sagði að það gæti verið sniðugt fyrir hin ólíku íþróttafélög að hafa samstarf um félagslíf sitt og forvarnir að einhverju leiti. Annað sem er mjög mikilvægt til þess að íþróttir geti virkað sem liður í forvarnarstarfi bæjarins, þá verða allir að geta átt kost á því að stunda íþróttir sagði Aníta. Til þess að svo geti orðið verða menn að eiga peninga og því miður teljum við að það sé of dýrt að stunda íþróttir. Aníta sagði að sérstaklega ætti þetta við um krakka sem eiga mörg systkini. Foreldrar þeirra sumra hafa ekki efni á því að senda öll börn sín í íþróttir. Hér er ekki bara verið að tala um þá sem eru fátækastir í bænum, það er líka sæmilega vel stætt fólk sem getur ekki leyft börnum sínum að æfa eins margar íþróttir og það vill. Aníta velti fyrir sér dæmi um fótboltann, æfingagjöldin eru eitthvað um 21.500 krónur á ári fyrir einstakling en þetta eru bara æfingagjöldin, þá á eftir að kaupa alla fylgihluti t.d. takkaskó, innanhússkó, legghlífar, stuttbuxur, stuttermaboli og sokka. Allir þessir fylgihlutir geta kostað um 50.000 krónur, þá erum við komin upp í 70.000 krónur sem er þó nokkuð mikil upphæð og enn eigum við eftir að reikna gjöld vegna keppnisferða og þess háttar. Samt er fótbolti ein af ódýrustu íþróttunum. Ef við skoðum fimleika sem dæmi þá kostar 4.000 krónur á mánuði að æfa þá fyrir utan keppniferðalögin og fatnað. Af þessu má álykta að það kosti aldrei minna en 70 til 100 þúsund krónur fyrir einn ungling að æfa eina íþróttgrein í eitt ár sagði Aníta. Þá getið þið rétt ímyndað ykkur hversu dýrt og erfitt er fyrir foreldra sem eiga mörg börn að leyfa þeim að æfa íþróttir. Aníta sagði að vísu kæmi systkinaafsláttur inn en hann er oftast um 50%. En það er enginn systkinaafsláttur þegar kemur að keppnisferðalögum, fatnaði og öðru sem þarf að nota til þess að geta stundað íþróttina. Þá gildir systkinaafsláttur ekki á milli greina. Aníta sagði að ef eitt barnið æfði fótbolta, annað badminton og þriðja fimleika, þá ætti systkinaafslátturinn líka að gilda. Þetta ætti að vera alveg það sama og þrjú systkini æfðu sömu íþróttina. ÍA-félögin ættu að taka sig saman og taka upp systkinaafslátt milli íþróttagreina sem myndi nýtast foreldrum. Aníta sagði þessa umræða um kostnað ef til vill ekki vera þá skemmtilegustu í heimi en nauðsynlega ef tala á um íþróttir sem forvarnir. Þeir sem koma frá fátækum fjölskyldum þar sem heimilisástand er slæmt eru sennilega í mestum áhættuhópi og því ætti bærinn að keppast við að halda slíkum krökkum inn í íþróttahreyfingunni. Aníta sagði að niðurstaðan væri sú að bærinn á að leita leiða til að tryggja það að börn geti sótt íþróttir í meira mæli. Bæði með því að styrkja starfið svo æfingagjöld lækki og einnig fylgjast með því að íþróttafélögin framfylgi forvarnarstefnu sinni.

 

Una Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um lög um auglýsingar á vímuefnum. Í máli Unu kom fram að á Íslandi væru lög sem segja að ekki megi auglýsa áfengi opinberlega. Samt sjáum við næstum á hverjum degi bjórauglýsingar í sjónvarpi og í blöðum og menn reyna alltaf að ganga aðeins lengra. Það eru meira að segja farnar að sjást auglýsingar í tímaritum um svokallaða áfenga gosdrykki. Una sagði að unglingar og ungt fólk væru augljóslega markhópur þeirra sem eru að  auglýsa áfengi. Flestar eru auglýsingar þessar hressilegar, fyndnar og með myndum af ungu fólki sem skemmtir sér vel. Þar að auki er þeim oft komið fyrir í dagskrá og efni sem ætlað er ungum notendum. Það er greinilega verið að höfða til ungs fólks og að laða að nýja viðskiptavini sagði Una. Þessir svokölluðu áfengu gosdrykkir eru gott dæmi um það hvaða aðferðum menn eru tilbúnir að beita til að fá unglinga til að drekka. Áfengi er dulbúið í þessum drykkjum. Una sagði að með því að blanda því saman við sæta gosdrykki með allskonar ávaxtabragði og til að toppa þetta allt er þessu skellt í ótrúlega flottar og litríkar flöskur. Samkeppnin í því hver sýnir flottustu flöskuna er ekkert smá hörð. Sætasta gosið í flottustu flöskunni laðar náttúrulega að flesta unglingana og vinnur þar með samkeppnina. Það er náttúrulega alveg augljóst að þessir drykkir eru ekki framleiddir fyrir fimmtugt fólk sem er kannski búið að drekka af og til í tugi ára. Þessir drykkir eru einfaldlega framleiddir til að fá ungt fólk til að drekka og helst alltaf yngra og yngra fólk sagði Una. Áður fyrr þurftu unglingar sem voru að prófa í fyrsta sinn að drekka að pína ofan í sig íslensku brennivíni í volgu kóki sem yfirleitt endaði með því að allt kom upp aftur. Áfengisframleiðendur eru svo sannarlega búnir að finna ráðið við þessum vanda og tappa því á flöskur. Una sagði að nú reddi unglingar sér bara sætu og bragðgóðu gosi í litríkum flöskum og drekka eins og ekkert sé. Síðan er lítið mál að skipta yfir í bjórinn og auglýsingarnar í fjölmiðlum láta okkur reglulega vita af því hvaða bjór sé flottast að kaupa í dag.

 

Eins og fram kom í máli Unu í upphafi þá eru áfengisauglýsingar ólöglegar á Íslandi eða hvað spurði Una? Þessi lög virðast ekki nógu skýr því einhvern vegin tekst mönnum að fá svoleiðis auglýsingar birtar í fjölmiðlum. Það er greinilega mjög auðvelt að fara á svig við þessi lög og örugglega er það meiriháttar mál að kæra menn og draga þá fyrir dómstóla. Það kom fram í máli Unu að Þorgerður Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri áfengis og vímuvarnarráðs segði viðurlögin við brotum á þessum lögum vera ekki harðari en svo að auglýsendur líta bara á þau sem viðunandi fórnarkostnað fyrir vel heppnaða auglýsingu. Markaðurinn skilar fórnarkostnaðinum til baka. Una sagðist vilja leggja það til að bæjaryfirvöld á Akranesi skori á þingmenn kjördæmisins og á Alþingi allt í nafni forvarna að þeir taki þessi lög til endurskoðunar með það að markmiði að þeir geri þau skýrari og skilvirkari. Það er augljóst að þessi lög virka ekki í dag og því þarf að breyta. Hvað barnavínið og áfengu gosdrykkina varðar er kannski erfiðara að gera eitthvað sagði Una. Við getum auðvitað ekki stjórnað því hvað þau í ÁTVR hafa í hillunum hjá sér. Við getum hins vegar sent bréf til stjórnenda ÁTVR og sagt þeim að við höfum áhyggjur af þróun mála og hvatt þá til að passa vel upp á það að ekki sé  verið að kaupa áfengi til að afhenda unglingum. Lögreglan ætti að geta fylgst vel með þessu þeir eru jú í sama húsi sagði Una.

 

Maren Ósk Elíasdóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, vakti athygli á forvörnum í málefnum sem eru minna áberandi svo sem fordómum gagnvart fólki sem á við geðsjúkdóma að stríða t.d. átraskanir, geðklofa og þunglyndi. Maren sagðist einnig muni fjalla um einelti og örlítið um kynlíf og kynsjúkdóma. Fordómar gegn geðsjúkum byggjast oftar en ekki bara á því að almenningur er illa upplýstur hvað þessi mál varðar. Maren sagði skólana ekki hafa annast fræðslu um þessi málefni, en fræðslan þarf í rauninni nauðsynlega að fara fram. Þá getur bæjarstjórnin staðið að fræðslu, því það er svo margt sem hægt er að  gera til að fræða fólk t.d. með því að halda fyrirlestra, jafnvel í samstarfi við skólana. Það ætti að byrja svona fræðslu nógu snemma til að koma í veg fyrir fordómana. Maren sagði að í grunnskólanum hefði mikið verið rætt um eineltismál, en bærinn hefur að öðru leiti ekki tekið mikinn þátt í þeirri umræðu. Það sem skólarnir hafa helst viljað gera fyrir utan reglulegar kannanir á tíðni eineltis er að halda fyrirlestra bæði fyrir unglinga og foreldra. Þá sagði Maren nemendaráð beggja skólanna vera virk í félagsstarfinu sem er viss forvörn en ekki alveg fullnægjandi. Því auðvitað eru þeir sem þola einelti ekki mikið að taka þátt í félagslífinu sem skólarnir eru að bjóða upp á. Það sem bærinn gæti gert sagði Maren er að hafa einhverja fyrirlestra sem þurfa þá að vera þannig að allir vilji koma. Því það segir sig bara sjálft ef einhver félagsráðgjafi er með fyrirlestur um einelti, þá nenna krakkar ekkert að koma og hlusta á hvað hann hefur að segja. Það myndi virka betur ef sá sem væri með fyrirlesturinn væri þolandi eða jafnvel gerandi eineltis. Maren sagðist vilja benda á að fundir eða fyrirlestrar ættu að vera fyrir foreldrana og unga fólkið saman. Kynfræðslan er alltaf að batna og tel ég hana vart verða betri en auðvitað má alltaf gera betur sagði Maren. Maren sagðist að lokum vilja fara yfir það sem þau bæjarfulltrúarnir frá Grundaskóla vilja leggja áherslu á í forvarnarstarfi. Þau telja að best sé að styrkja betur félagsstarf og íþróttastarfsemi svo allir hafi aðgang að þess konar félagsstarfi. Starfsemi sem þarf að borga fyrir getur í raun ekki verið forvarnarstarf fyrir alla. Í máli Marenar kom fram að þau telja að íþróttafélögin geti sinnt forvarnarstarfi sýnu betur með því að vinna betur eftir forvarnarstefnu sinni. Það væri eflaust gott að íþróttahreyfingin, þeir sem sjá um félagslíf í skólum og Arnardal ynnu betur saman og skipulegðu forvarnarstarf sitt í sameiningu. Það mætti einnig fjölga fyrirlestrum, námskeiðum og kynningum á ýmsum málum eins og t.d. geðsjúkdómum, einelti og fleiru.

        

Forseti sagðist nánast sammála öllu því sem hér hefur verið sagt í dag og afar fróðlegt margt sem hefur komið fram. Reyndar er eitt og annað sem maður hefur ekki sjálfur leitt huga að, sem sýnir nú reyndar hvað það er mikil þörf á að bæjarfulltrúar tjái sig um forvarnarmál. Forseti sagði það vera þannig að það mætti auðvitað fjalla um forvarnarmál í mjög víðu samhengi eins og þið hafið verið að gera. Það eru ekki bara reykingar eða áfengi, það er líka fræðsla um kynlíf, einelti og fordóma gagnvart umhverfinu. Það er auðvitað afar fróðlegt að heyra hvað hér hefur verið farið vítt yfir sviðið. Forseti sagðist reyndar vera í þeirri stöðu að geta tekið undir margt af því og allt sem þau Björn og Aníta héldu fram varðandi forvarnargildi íþrótta. Það eru hins vegar ekki allir sem vilja stunda íþróttir. Það er auðvitað margt fleira sem þarf að styðja við og fólk vill taka þátt í, sem er auðvitað góð forvörn líka eins og hefur komið hér fram varðandi félagsstarfið. Forseti beindi máli sínu til Mána bæjarfulltrúa unga fólksins úr Fjölbrautaskólanum og spurði hann hvort að það sé mikil breyting í rauninni að fara úr grunnskóla upp í fjölbrautaskóla varðandi annars vegar forvarnarstarfið og hins vegar hvort menn verði full hömlulausir þegar þangað kemur og hvort að þetta sé eitthvað sem eigi að taka til sérstakrar skoðunar? Það væri einnig fróðlegt að heyra hvort að það sé mikill munur á félagsstarfinu í  grunnskóla og í fjölbrautaskóla?

 

Forseti upplýsti í framhaldi af orðum Öglu um Skagaleikflokkinn að Akraneskaupstaður hefur tekið á leigu um 200 fermetra húsnæði við Suðurgötu fyrir Skagaleikflokkinn. Tilgangurinn með því að afhenda Skagaleikflokknum það húsnæði til rekstrar var einmitt að leggja áherslu á starfsemi fyrir ungt fólk. Forseti spurði Öglu hvernig við eigum að koma því á framfæri við Skagaleikflokkinn hvernig leikflokkurinn geti náð betur til unglinga og yngri barna til þess að efla þennan þátt í starfi sínu? 

Forseti sagði að af mörgu fleiru væri að taka og ég tala nú ekki um þennan afar athyglisverða pistil frá Unu varðandi breytingar á lögunum um auglýsingar á áfengi. Forseti sagðist halda að allir þeir sem hér sitja í bæjarstjórn og þeir sem sitja hér á pöllum og hlíða á mál ykkar, þeir hljóti í öllum grundvallaratriðum að vera fullkomlega sammála ykkur. Það er auðvitað gegnum gangandi tvískinnungur í því annars vegar þar sem löggjafinn segir með því að Alþingi setur í lögin og síðan hitt hvað við sjáum í sjónvarpi, heyrum í útvarpi og þær auglýsingar sem hafa verið settar fram. Forseti spurði Unu hvort ekki væri þá ástæða líka til fyrir nemendafélögin að vekja alveg sérstaka athygli einmitt á þessu og koma því á framfæri við alþingismenn ekki síður þó það væri hér í bæjarstjórn og væri það ekki sterkast að þetta kæmi frá unglingunum sjálfum til þingmanna?

 

Máni, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Fjölbrautaskólanum, sagði muninn á því að koma úr grunnskóla upp í fjölbrautaskóla vera rosalegan. Á grunnskólaballi  eru kannski einhverjir svona hálffullir sem rétt ná að laumast inn en er síðan hent út. Það er ekki mikið fyllirí á grunnskólaböllum, það var allavega ekki þegar ég var í grunnskóla. Þegar krakkar sem eru 16 ára og koma úr tíunda bekk koma upp í fjölbrautaskóla, þá eru þau venjulega að koma í stóran skóla. Máni sagði að þó þau væru orðin 16 ára þá eru þau skíthrædd þarna og mörg þeirra híma svona út í horni og vita ekkert hvert þau eigi að fara á göngunum. Þau eru  frekar hrædd fyrstu dagana og svo ef þau fara á fyrsta ballið sem er busaball þora þau ekki að vera öðruvísi en hinir eldri. Það er bara ekki séns fyrir þau, þau eru skíthrædd við stóru krakkana. Þegar þau koma þá skipta þau sér mikið í flokka, sum þeirra drekka í einhverju partíi fyrir ballið og svona helmingurinn af þeim kemst á ballið. Hinn helmingurinn ?drepst? svo einhvers staðar sagði Máni. Hluti nýnemanna sem koma edrú á ballið, finnst ofboðslega leiðinlegt og fara á fyllirí eftir ballið. Önnur koma edrú á ballið og eru full á næsta balli eða hætta að mæta á böll. Það eru mjög fáir og ég held að þurfi mjög mikið til að þora að segja nei á fyrsta ballinu, því það vantar ekki að manni sé boðið áfengi sagði Máni. Það stendur röðin í kringum þau sem ekki drekka að reyna að troða ofan í þau áfengi. Ég stóð einmitt í því sjálfur að reyna að útskýra fyrir um 50 fullu fólki á hverju einasta balli að maður ætlaði ekki að drekka og þau virtust ekki skilja það sagði Máni. Það er mjög flókið fyrir þau, en það er allavega hægt að sleppa því að drekka þó maður sé í fjölbraut. Það eru nokkrir krakkar sem eru allsgáðir á böllum en það er ekki mjög stór hópur. Það virðist bera mest á þeim sem eru blindfullir og með læti og þess vegna finnst mörgum að allir séu fullir. Máni sagði frá því að alltaf hafi verið sýnt leikrit á seinni önninni en það væri hluti af forvarnarstarfi í FVA. Nú í ár verður leikritið Kardimommubærinn sýndur. Það hefur sýnt sig að þegar krakkar eru settir inn í leikrit þá hafa þau svo mikið að gera að þau hafa ekki tíma í að vera full. Það þarf hugarfarsbreytingu þar sem eldri nemendur í fjölbraut þyrftu að koma því inn í hausinn á sér, að þó þau hafi einhverja ósiði þá þýðir það ekki að allir aðrir þurfi að hafa þá. Máni sagði að sér væri alveg sama hvað fólk gerir við sinn frítíma en það þarf ekki að draga aðra með sér í óreglu. Það eru viss tímamót í lífi unglinga sem eru áhættumeiri en önnur varðandi það að drekka í fyrsta sinn þ.e.  verslunarmannahelgin þar verða margir fullir í fyrsta sinn, eftir samræmdu prófin en grunnskólarnir hafa reynt að koma í veg fyrir það með því að fara með krakkana í ferðir og svo er það fyrsta ballið í fjölbraut það eru mjög margir sem eru fullir í fyrsta sinn þar og eftir það fullir á hverju einasta balli sagði Máni. Það finnst mér bara of mikið. Þeir sem vilja kynna sér hvernig böll í fjölbraut eru geta farið inn á heimasíðuna okkar nemendafélagsins sem er nffa.is, þar geta þeir skoðað myndir og þar sjá þeir það á langflestum myndunum að krakkarnir eru blindfullir, þeir eru að detta, þeir eru að sofna og þeir eru að æla.  Það er líka eitthvað að þegar það kostar okkur 320 þúsund krónur, þar af voru tæpar 100 þúsund krónur í gæslu einfaldlega vegna þess að fólk er blindfullt og getur ekki haft hemil á sér. Það er ekki  eðlilegt að það þurfi 10 manns í gæslu til að passa fólk.  Ef það getur ekki passað sig sjálft þá á það að leita sér hjálpar sagði Máni.

 

Agla, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, sagði að til þess að vekja áhuga unglinga og yngri kynslóðar á Skagaleikflokknum væri mögulega hægt að halda leiklistarnámskeið eða að setja upp leikrit sem þau gætu tekið þátt í. Það eru eflaust margir krakkar sem hefðu áhuga á að taka þátt í slíku en það mundi þurfa að auglýsa þetta vel og kannski að fara í skólana og kynna þetta ítarlega sagði Aníta.

 

Una, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, sagði að auðvitað gætu þau sjálf komið þessu á framfæri varðandi auglýsingarnar, en hún varpaði þeirri spurningu til forseta hvert þau ættu að leita?

 

Forseti sagði gott að heyra að unga fólkið er tilbúið að koma þessu á framfæri sjálft og hann skyldi glaður reyna að svara því hvert mætti leita. Forseti sagði að í þessu kjördæmi væru einir 10 þingmenn sem kosnir væru á 4 ára fresti. Það er afar einfalt að líta inn á vef alþingis, sjá hvaða þingmenn þetta eru og koma þessum skilaboðum skýrt til þeirra. Þá mætti einnig senda bréfið merkt Alþingi, þannig að það sé til allra þingmanna og því væri þannig komið á framfæri. Þá væri ekki síður ástæða til að koma svona erindi til Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra sem m.a. fer með forvarnir. Forseti sagði að þau hefðu góða möguleika til að koma þessu efni á framfæri um leið og hann fullyrti að þetta væri efni sem milliliðalaust væri mjög skynsamlegt og gott að koma á framfæri við þá sem einmitt sitja á Alþingi. Ég þykist reyndar vita það að það eru margir þingmenn sem bera nokkurn kinnroða yfir því að hafa lög sem er erfitt að framfylgja sagði forseti. Þá benti forseti líka á að það er ekki bara hér í íslensku sjónvarpi sem eru áfengisauglýsingar. Þegar við horfum t.d. á fótbolta þá sjáum við að verið er að auglýsa ýmiskonar bjórtegundir sem réttilega var nefnt og einnig er mjög athyglisvert að mikið af þessum auglýsingum er beint sérstaklega að ungu fólki. Það hlýtur alltaf að vera áhyggjuefni. Forseti þakkaði þeim þrem bæjarfulltrúum er síðast töluðu fyrir þeirra svör.

 

Forseti fjallaði um ræður Evu og Líneyjar þar sem þær fjölluðu um sjokkmeðferð sem þær töldu vænlega til árangurs í baráttu við fíkniefni, reykingar og áfengi. Hann vitnaði einnig til ræðu Mána, þar sem hann skýrði frá því að á fyrirlestrum þar sem fengir væru til einhverjir þeir aðilar sem gengið hafi í gegn um þetta allt saman og kæmu svo nýgreiddir, hressir og kátir eins og ekkert hafi í skorist og segðu mönnum frá reynslu sinni og menn fá kannski þá upplifun að það sé allt í lagi að prófa þetta því þá sé ég bara eins og þessi og þessi sem koma nýstroknir og þvegnir. Í framhaldi af framansögðu spurði forseti Evu, er hætta á að þetta geti gerst að sjokkmeðferðin geti virkað öfugt og að fólk haldi að þetta sé bara allt í lagi? Forseti tók undir það sem kom fram hjá þeim að meiri fræðsla er einmitt mikilvæg jafnframt sem hann hjó sérstaklega eftir hjá Evu að það ætti að hjálpa unglingum til að öðlast góða sjálfsmynd. Hann spurði Evu hvernig við getum stuðlað betur að því? Forseti varpaði fram sömu spurningu til Líneyjar hvort sjokkmeðferðin er algild eða eingöngu góð aðferð? Hann spurði Vilborgu út í þann hluta ræðu hennar þar sem hún var að tala um aukna fræðslu til foreldra og þá hvernig hún teldi að við gætum komið því betur til skila? 

 

Eva, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, sagðist halda að þessar sjokkmeðferðir eins og þær eru kallaðar virki ekki öfugt. Hún sagðist halda að það sem þau fengu að sjá t.d. á fyrirlestri um kynsjúkdóma, þar sem var glærusýning og þau fengu að sjá mjög skýrar myndir af þessum einkennum sem fólk fær en það voru stór tippi með stórum graftarkýlum. Eva sagðist ekki halda að þetta virki ekki öfugt heldur aftur á móti hvetji fólk til að nota smokka. Eva sagði unglinga í dag sjá mjög gróft efni allstaðar t.d. í sjónvarpi þá eru endalaust einhverjar berar stelpur að dansa. Við þurfum alltaf að fá eitthvað grófara og grófara efni á móti til að hræða fólk. Eva sagðist ekki alveg viss hvernig við getum hjálpað fólki til að bæta sjálfsmyndina. Hugsanlega með umræðum í skólunum þar sem krakkarnir eru látin tala sjálf og láta sínar skoðanir á málunum í ljós. 

 

Líney, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, sagðist ekki hafa miklu við það að  bæta sem Eva sagði en ítrekaði að það að sjá hræðilegar afleiðingar t.d. eiturlyfja væri það sem hún teldi að fældi fólk frá neyslu. 

 

 Vilborg, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, sagði að það gæti virkað vel að hafa fleiri fundi með kennurum og foreldrum. Jafnframt að hafa fundi með sálfræðingum, nemendum og foreldrum. Þar geta nemendur sagt frá hvers vegna þeim líður illa og þá geta foreldrar reynt að laga það í stað þess að hundsa börn sín algerlega. Vilborg sagðist vita um dæmi þar sem foreldrar hundsa ákall barna sinna. Þau skrópa daglega og þeim líður illa. Það er eins og foreldrar viti ekki af því að þegar börnin eru að skrópa og lenda í vitleysu, að þau séu að kalla á hjálp en foreldarnir sjá það ekki sagði Vilborg.

 

Forseti ræddi þau málefni sem þau Björn, Aníta og Maren fjölluðu um. Björn fjallaði um fjölnota íþróttahús og sagðist forseti ekki efast um forvarnagildi íþrótta og að fjölnota íþróttahús myndi örugglega vera til góðs í þeirri baráttu. Það er hins vegar eins og gengur að það er alltaf spurningin um hversu langt við getum gengið varðandi fjárhag bæjarins. Þessi fjölnota hús sem hafa verið að rísa kosta um 500 til 700 milljónir en það kann að vera að það sé hægt að gera þetta með ódýrari hætti. Forseti skýrði frá því að bæjarstjórn hefur nú þegar eða er með tillögu um að skipa nefnd sem skoði hvaða möguleikar eru í íþróttum til viðbótar m.a. með byggingu fjölnota íþróttahúss. Þá vakna spurningar varðandi sundlaug, golfvöll og fleira því auðvitað eru fleiri íþróttagreinar en fótboltinn þ.e. hestamennska, golf o.s.frv.. Forseti spurði Björn hvernig hús hann vildi sjá sem fjölnota hús, hvað þyrftum við að hafa þar inni?

 

Forseti sagði Anítu hafa verið með athyglisverða ádrepu um kostnaðinn við íþróttirnar og mjög gild sjónarmið að honum finnst varðandi það sem lítur að systkinaafslætti. Það á ekki að skipta máli í hvaða félagi þú ert t.d. sundi, fimleikum eða knattspyrnu varðandi afslætti. Forseti spurði Anítu hvort það væri ekki rétt að þau sem bæjarstjórn, taki þetta upp við íþróttabandalagið með beinum hætti? Einnig velti hann því fyrir sér hvort nemendafélögin gætu látið til sín taka í þessu máli gagnvart íþróttabandalaginu?

 

Forseti fjallaði um ræðu Marenar en hún ræddi í henni m.a. um fræðsluna. Hann sagði frá því að nú nýlega hafi verið rætt um í bæjarstjórn að bærinn myndi koma með auknum mæli að því að aðstoða nemendafélögin eða þá sem eru kosnir í nemendastjórnirnar. Hægt væri að aðstoða þau með námskeiðahaldi, svokallaðri leiðtogafræðslu sem gæti komið til góða. Það var einnig orðað hvort það ætti ekki að útvíkka aðstoðina og gefa fleirum kost á að sækja námskeið ekki bara þeim sem eru í nemendastjórnunum. Forseti spurði Maren hvort að þetta væri leið til að virkja betur nemendur með því að halda námskeið sem þetta og þá til viðbótar gætu nemendafélögin verið virkari þátttakendur í forvörnum bæjarins? Þannig að það væru ekki eingöngu embættismenn bæjarins sem væru að koma inn á fundi og segðu að það mætti ekki þetta og hitt heldur yrðu nemendafélögin virkari þátttakendur í þessu fræðslustarfi?

 

Björn, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, sagði húsið ekki þurfa að vera stórt og ekki heldur endilega með fótboltavelli. Þar gæti t.d. verið körfuboltavöllur en á þannig velli væri hægt að hafa m.a. badminton, það væri líka hægt að vera með fótboltavöll þar. Björn sagði ef verið væri að tala um innanhússfótboltavöll sem væri með gervigrasi þá væri það mjög dýrt að vera alltaf að skipta um grasið á hverju ári eða nokkurra ára millibili. Það þyrfti einnig að muna eftir klósettum, loftræstikerfi og upphitunaraðstöðu sagði Björn.

 

Aníta, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, sagði að þau gætu komið þessu í kring með því að fara á fund með formönnum aðildarfélaga Íþróttabandalags Akraness, rætt þessi mál þar og stungið upp á þessari hugmynd. Aníta sagði að ef tillagan verður samþykkt, þá gætu miklu fleiri krakkar  æft íþróttir.

 

Maren, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Grundaskóla, sagði að bærinn gæti komið inn í samstarf með nemendafélögunum. Hún nefndi sem dæmi að bærinn gæti efnt til samkeppni milli t.d. bekkja/skóla í stuttmyndagerð sem fjallaði t.d. um einelti og forvarnir gagnvart reykingum en þá þyrftu bekkirnir að gera verkefni, allir að vera með. Bærinn myndi veita verðlaun og þetta yrði um leið forvörn og félagsstarf. Maren sagði að það væri gott að koma á námskeiðum til að efla sjálfsmynd og kenna krökkum að koma fram.

 

Máni, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Fjölbrautaskólanum, ræddi um að þegar einstaklingar eins og Bubbi Morteins koma og segja ?ég var einu sinni dópisti og það er allt í lagi með mig núna? geti það gefið unga fólkinu aðra mynd en æskilegt væri. Bubbi er landsfrægur á Íslandi, hefur það mjög fínt og á mjög skemmtilegt líf að ég held þó hann hafi verið einu sinni dópisti. Máni velti upp  hvort þetta virki öfugt á krakka. Máni sagðist halda að hann hafi aðeins verið misskilinn,  hann sá líka kynsjúkdómamyndirnar og honum þótti þær vera ógeðslegar. Hann sagði það ekki vandamálið að krakkar trúa því alveg að ef maður fer að stunda kynlíf og er ekki með smokk og stelpan myndi vera með kynsjúkdóm þá mundi maður fá þennan sjúkdóm það efast enginn um það. Máni sagði að sér fyndist vanta upp á það að krakkar trúi að alkóhólismi sé sjúkdómur. Það sem ég átti við var að það vantar að þeir sem koma með fyrirlestra aðallega um vímuefni komi inn á það að það eru ekki næstum því allir sem ná að hætta. Það þyrfti að koma því inn strax hjá yngstu krökkunum og fá þau til að trúa því að það er ekki einu sinni meirihlutinn af þeim sem eru með alkóhólisma(áfengissýki) genið sem ná að hætta fyrir fullt og allt þegar þeir byrja á því að drekka. Máni sagði það sæist best á því að margir þeir sem sækja fundi og fara í meðferð, fullorðið fólk sem eru alkóhólistar, það hættir stundum árum saman en byrjar svo aftur og ef fólk trúir ekki á þetta þá veit ég ekki hvað er að fólki. Hins vegar virðist fólk lifa í einhverri afneitun um að þetta geti komið fyrir það sjálft sagði Máni. Hann sagðist hafa viljað koma því til skila að krakkarnir skyldu það að það enda ekki allir eins og fyrirlesararnir.

        

Forseti sagði að í öllum aðalatriðum gætu allir verið sammála um þessa hluti og það er mikilvægt þegar fjallað er um sjokkmeðferð að menn átti sig á því að það eru ekki allir sem standa upp og halda fyrirlestra um feril sinn.

 

        

2. Önnur mál

 

Björn, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, spurði forseta um mæðrastyrksnefndina hér á Akranesi. Hann fjallaði um starfsemi nefndarinnar á síðasta ári en í máli hans kom fram að um 60 manns á Akranesi, í Borgarnesi og í sveitunum hér í kring hefðu notið aðstoðar. Björn spurði hvort nefndin yrði endurvakin og hvort bærinn gæti aðstoðað nefndina um útvegun húsnæðis og kælis?

 

Forseti  sagði að við þekkjum það þegar farið var af stað með þessa starfsemi á síðasta ári að hún kom mörgum vel. Það hefur sýnt sig einmitt í þessari umræðu almennt um fátækt sem hefur verið núna af og til á þessu ári. Forseti sagði að þegar farið var af stað með þessa starfsemi í fyrra, hefði Akraneskaupstaður lánað Skátahúsið undir starfsemina fyrir og um jólin. Það vill nú svo til að Skátahúsið er svona hálft eða alfarið í okkar umsjá ennþá og ef það er á lausu þá er sjálfsagt ekki vandamálið að nefndin fái það til afnota fyrir og um jólahátíðna. Forseti sagði sér hins vegar ekki kunnugt um hvort það hefur verið leitað eftir þessu núna þetta árið. Það væri því hyggilegast af þeim sem fara af stað með þetta að óska eftir því að málið verði skoðað, því ég þykist vita að ef við eigum möguleika á því að verða að liði þá muni menn verða það. 

 

Forseti þakkaði bæjarfulltrúum fyrir afar fróðleg erindi og afar fróðlegar umræður. Ég fullyrði að í þessum atriðum sem þið hafið nefnt eru þó nokkuð mörg atriði sem er ástæða fyrir okkur til þess að skoða betur áfram og taka til umfjöllunar sagði forseti. Hann sagðist vita það að þeir starfsmenn okkar sem koma hvað helst og mest að þessum málum sem snúa að forvörnum að þeir hafi lagt hér hlustir við. Við vonum að út úr þessum fundi verði einhver áþreifanleg atriði svo við getum sagt að það hafi verið tímans virði að setjast hér niður og ræða um forvarnarmál sagði forseti. Hins vegar er auðvitað með forvarnarmál að þau verða ekki leyst á einum fundi og þau verða ekki leyst á tveimur fundum. Þetta er án nokkurs vafa viðvarandi verkefni sem þarf jafnt og þétt að vinna á og ég tek undir það heilshugar með ykkur að með fjölbreyttu félagsstarfi, fjölbreyttu íþróttalífi og öflugri fræðslu þá verður okkur ágengt. Þá reynum við að hafa möskvana í netinu það þéttriðna  að sem fæstir lendi þar á milli og lendi í vandræðum vegna áfengis, reykinga eða vímuefna sagði forseti að lokum. 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:20

 

Andrés Ólafsson, fundarritari (sign)

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00