Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

17. fundur 20. nóvember 2018 kl. 16:30 - 18:45 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
 • Jón Hjörvar Valgarðsson fulltrúi Hvíta Hússins
 • Guðjón Snær Magnússon fulltrúi NFFA
 • Guðmunda Freyja Guðráðsdóttir fulltrúi Arnardalsráðs
 • Arnheiður Anna Hallvarðsdóttir fulltrúi Arnardalsráðs
 • Embla Ísaksen fulltrúi nemendaráðs Brekkubæjarskóla
 • Helgi Rafn Bergþórsson fulltrúi nemendaráðs Grundaskóla
Fundargerð ritaði: Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir Verkefnastjóri skóla- og frístundasviðs
Dagskrá

1.Bæjarstjórn unga fólksins 2018

1808269

Bæjarstjórn unga fólksins 2018
Fundarstjóri, Valgarður L. Jónsson setti fundinn og bauð bæjarfulltrúa unga fólksins velkomna til 17. Bæjarstjórnarfundar unga fólksins.
Valgarður kynnti fundarmenn og dagskrá fundarins.

1.Helgi Rafn Bergþórsson fulltrúi nemenda í Grundaskóla
Helgi Rafn byrjaði á því að nefna á málþingi sem haldið var í Þorpinu þann 8. Nóvember. Plássleysi sem væri í Grundaskóla en búið væri að taka af unglingum þá aðstöðu sem þau höfðu fyrir afþreyingu. Hann nefndi að fjölbreytt val væri af fyrirlestrum hefur aukist og boðið sé upp á öðruvísi fræðslu. Helgi Rafn vakti næst til máls að hefja samstarf félagsmiðstöðvar Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Hann lagði til að Garðagrundin yrði fljótlega sett á framkvæmdaráætlun. Að lokum hrósaði Helgi Rafn Akraneskaupstað fyrir nýju pottana á Langasandi en benti á að það vantaði fleiri leiktæki/leikvöll þar.
2.Embla Ísaksen fulltrúi nemenda í Brekkubæjarskóla
Embla byrjaði á því að segja frá Ungmennaþingi Vesturlands sem haldið var á Laugum í Sælingsdal fyrstu helgina í nóvember og svo hafi verið málþing í Þorpinu nokkrum dögum síðar. Hún vildi hrósa skólanum sínum en þar væri boðið upp á fjölbreyttar kennsluaðferðir, góðar námsáætlanir og kennararnir veittu nemendum mikla athygli. Embla taldi þó að skólar gætu gert betur í að fræða nemendur varðandi tvö málefni, kynfræðslu og fjármálalæsi.
3.Guðjón Snær Magnússon fulltrúi nemenda í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi
Guðjón Snær byrjaði á því að fagna tilkomu nýrrar heimasíðu, Skagalif.is. Hann sagði hversu frábært væri að sjá hvar Akraness væri statt miðað við hin sveitarfélögin á Vesturlandi en á Ungmennaþingi Vesturlands hafi ýmislegt verið rætt og tekið fyrir. Hann hefði hins vegar viljað sjá fleiri bæjarfulltrúa héðan mæta til þingsins, en einungis hafi tveir fulltrúar mætt frá Akranesi. Guðjón Snær sagði frá því að á síðasta ári hafi verið gefin út handbók ungmennaráðs sveitarfélaga. http://www.sass.is/ungmennarad/handbok/ . Guðjón Rafn sagði mikilvægt að tryggja nægt framboð af ódýrum húsnæði fyrir ung fólk. Í lokin vildi Guðjón Snær nefna að það vanti sárlega betra aðstöðu til að spila körfubolta utandyra. Einnig mætti styrkja körfuboltafélag Akraness enn frekar með því að efla kvennakörfuna og yngri flokka.

4.Arnheiður Anna Hallvarðsdóttir fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Arnardals
Fyrst vildi Arnheiður Anna ræða um gott málþing sem haldið var í Þorpinu og hversu lánsöm við erum á Akranesi með margt s.s. skólana, kennara og skemmtilegar bæjarskemmtanir. Arnheiður Anna lagði til að það vantar læsta skápa fyrir nemendur á unglingastiginu. Hún var sammála Guðjóni Snæ með það að efla mætti kvennakörfuboltann. Hún spurði að því hvort það stæði eitthvað til að bæta líkamsræktaraðstöðuna í íþróttahúsinu á Vesturgötu samhliða bygginguna á fimleikahúsinu? Einnig sé aðstaðan á Jaðarsbökkum slæm líka. Arnheiður Anna vill að bætt verði í bæjarskemmtanir/hátíðir í bænum. Núna sé boðið upp á viðburði en það vanti eitthvað sem ungmenni á aldrinum 14-18 ára gætu sótt. Í lokin vildi Arnheiður Anna benda á það við byggingu á fimleikahúsi hafi skólalóðin þeirra minnkað og spurði hvort það stæði til að bæta þeim þessa skerðingu?

5.Guðmunda Freyja Guðráðsdóttir fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Arnardals
Guðmunda Freyja vill að það mætti bjóða upp á fjölbreyttari valgreinar í skólunum og að nemendur fái tækifæri til að koma með hugmyndir að námsgreinum.Næsta umfjöllunarefni var staðsetning gagnbrauta en hún nefndi að það vantar gangbrautir á nokkrum stöðum og spurði einnig hvort það yrði ekki settar gangbrautir við hringtorgið við Esjubraut. Guðmunda Freyja talaði um að á Akranesi megi finna áhugaverða staði eins og t.d. skógræktina en því miður sé það þannig að þegar hefur rignt mikið verður göngustígurinn ekki göngufær sérstaklega fyrir eldra fólkið. Því næst nefnir hún að atvinnumöguleikar ungs fólks á Akranesi eru ekki miklir en boðið sé upp á vinnuskólann en það mætti hafa vinnuskólann með öðru fyrirkomulagi. Í lokin talar um að það sé margt vel gert í bænum og boðið sé upp á margar íþróttagreinar. Hún bendir á að unga fólkið hafi ekki eingöngu framtíðina fyrir sér heldur viti þau hvernig þau vilja njóta framtíðarinnar.

6.Jón Hjörvar Valgarðsson fulltrúi Hvíta hússins
Jón Hjörvar var síðastur á mælendaskrá en hann byrjaði á því að ræða að nú væri hann að mæta í fimmta skiptið á bæjarstjórn unga fólksins og það væri hans upplifun að fyrirkomulag fundanna hafi þróast í jákvæða átt. Það hafi átt sér stað ákveðin vitundarvakning meðal ungs fólks varðandi það að hafa áhrif og að aðilar innan stjórnsýslunnar væru farin að hlusta á raddir þeirra. Hann sagði að Ungmennaþingið á Laugum hafið verið skemmtilegt og árangursríkt. Jón Hjörvar segir að tilraunaverkefnið sem hófst fyrir tveimur árum þegar hann tók sæti sem áheyrnarfulltrúi ungmenna í skóla- og frístundaráði hafi gengið vel en nú sé komin tími til að taka næstu skref. Hann leggur til að settur verður á fót samráðshópur ungmenna og bæjarfulltrúa. Hópurinn fengi það hlutverk að skoða hvaða leiðir eru færar til að auka enn aðkomu ungmenna að þeim málefnum sem snerta þau. Að lokum hvatti hann bæjarfulltrúa til að kynna sér skýrslu ungmennaþingsins og niðurstöður málþings ungs fólks en þar er að finna góða punkta um hvernig hægt er að gera daglegt líf barna og ungmenna á Akranesi betra.

Valgarður L. Jónsson fundarstjóri þakkaði bæjarfulltrúum fyrir þeirra framsögu og tók saman helstu erindi þeirra. Hann benti einnig á það hafi verið til fyrirmyndar hversu örugg ungmennin voru í ræðupúltinu. Þrátt það væri ekki til siðs að klappa á bæjarstjórnarfundum óskaði eftir því að þeim yrði gefið öflugt klapp. Að því loknu gaf hann orðið laust.

Fyrst á mælendaskrá var Elsa Lára Arnarsdóttir sem þakkaði fyrir góða framsögu og hrósaði þeim fyrir örugga framkomu. Einnig þakkaði hún góða og jákvæða umræðu um bæinn sinn.
Elsa Lára byrjar á því að svara hugleiðingum Helga Rafns um aðstöðuleysið í Grundaskóla en verið sé að vinna í því máli og skoða leiðir að úrbótum. Einnig segir hún hugmynd Helga Rafns um samstarf við Hvalfjarðarsveit vera góða og vert að skoða enn frekar. Elsa Lára vildi hrósa Emblu fyrir það hugrekki að koma inn á mikilvægi þess að veitt sé góð fræðsla um líkamsvitund. Henni fannst einnig frábært hvernig Guðjón Snær hafði komið inn á barnasáttmálann. Hún sagðist vera sammála um mikilvægi þess að huga að íbúðarkostum ungs fólks. Elsa Lára þakkaði Arnheiði Önnu fyrir bæði hugmynd sína um læsta skápa og einnig að koma líka með lausnir á því. Varðandi tillögur að hátíðum er ýmislegt hægt að gera í samstarfi við ungmenni og varðandi líkamsræktaraðstöðuna þá sé verið að skoða málið heildstætt. Við erindi Guðmundu Freyju um að nemendur fái að hafa áhrif á það sem er í boði í vali sé mikilvægt að eiga samtal við kennarana. Eins varðandi göngustígana við skógræktina þá sé verið að klára vinnu við gangstíg og veg. Að lokum sagðist Elsa Lára styðja hugmynd Jón Hjörvars um að setja á fót samráðshóp og í sínu fyrra starfi hafi hún fylgst með verkefninu „Ég kýs“.

Rakel Óskarsdóttir tók næst til máls og þakkar góð erindi. Hún leggur til að á næsta bæjarstjórnarfundi unga fólksins verði fulltrúar íþróttabandalagsins boðaðir þar sem mörg erindin tengjast málefnum íþróttafélagana. Rakel notaði tækifærið og vildi þakka Lúðvík Gunnarssyni fyrir að hafa tekið það hlutverk að sér að skipuleggja ungmennaþing Vesturlands. Einnig nefndi hún að á landsþingi samband sveitarfélaga hafi hún komið með þá hugmynd að stofnað yrði ungmennaráð Vesturlands.
Rakel segir að hugmynd Helga Rafns um aukið samstarf við Hvalfjarðarsveit væri góð og eflaust mætti horfa lengra, eins og t.d. Borgarbyggð. Hún hrósaði Emblu fyrir hugrekki og kjark að koma upp og ræða kynfræðslu og sjálfsmynd. Hún væri sammála henni að efla mætti kennslu í fjármálalæsi. Hún þakkaði Guðjóni Snæ fyrir góða kennslustund og það væri góð áminning að lesa handbókina. Rakel sagðist vera sammála því að skoða þyrfti þann möguleika að vera með íbúðir fyrir stúdenta. Hún hvetur einnig Guðmundu Freyju að eiga samtalið við kennara varðandi hugmynd hennar að valgreinum. Einnig bendir Rakel á að síðasta bæjarstjórnarfundi hafi verið lögð fram tillaga að halda skólamálaþing næsta vor en það eru margar leiðir sem hægt er að fara í skólamálum á Akranesi. Að lokum þakkaði hún Jóni Hjörvari fyrir hugmynd sína með samráðshóp.

Þá kom Sandra Margrét upp og þakkaði fyrir framtakið og góða frammistöðu. Við Helga Rafn segir hún að ýmislegt sé í pípunum varðandi plássleysið og kom inn á væntanlegt íbúaþing um skólamál. Hún notaði tækifærið og hvatti ungmenni til að mæta á þingið. Hún þakkaði Emblu fyrir að opna umræðuna um kynfræðslu og líkamsvitund. Sandra Margrét bendir Guðjóni Snæ með það að efla körfuboltastarfið þá ríki frelsi við að stofna félög. Við erindi Arnheiðar Önnu um bæjarskemmtanir er Sandra Margrét viss um að hægt sé að koma til móts við ungmenni við skipulagningu. Hún fagnar einnig hversu annt ungmenni er um öryggi vegfarenda og vitnar þá til erindis Guðmundu Freyju og vísar því til umhverfis- og skipulagsráðs. Að lokum segist hún styðja hugmynd Jóns Hjörvars heilshugar um að ungmenni sitji í ráðum bæjarins.

Næstur í ræðupúltið bæjarstjórinn Sævar Freyr sem byrjaði á því að þakka fyrir framúrskarandi málflutning. Einnig þakkaði hann þeim sem stóðu að undirbúning þessara fundar. Hann vildi þar næst útskýra af hverju ekki fleiri bæjarfulltrúar hefðu mætt á ungmennaþing Vesturlands en það væri reyndar honum að kenna þar sem honum hafi láðst að áframsenda póst sem hann hafði fengið.

Sævar Freyr sagði hversu fjölbreytt erindi ungmennanna hafi verið, það hefði verið komið inn á menntun, fjármálalæsi og að tengja ýmsar valgreinar saman. Hann ræddi hvernig við komum nýjum áskorunum, sem felast í fjórðu iðnbyltingunni inn í menntun. Hann þakkaði Guðmundu Freyju fyrir að leggja til samráðs við nemendur um hvaða valgreinar eigi að kenna. Einnig þakkaði hann Guðjóni Snæ fyrir réttmæta ábendingu á stöðu körfuboltavalla í bænum og kom inn á samstarf á milli sveitarfélaga í tengslum við íþróttir. Við Arnheiði Önnu sagði hann að það væri virkilega verið að skoða lausnir varðandi íþróttamálin og líkamsræktaraðstöðu. Það væri ljóst að lausnin væri kostnaðarsöm og því nauðsynlegt að vinna hana vel. Einnig að hugmyndir hennar að þróa bæjarhátíð væri góð. Hann væri sammála Guðjóni Snæ að það væri mikilvægt að halda unga fólkinu sem væri að mennta sig hér áfram í bænum. Hann hefði átt nýlega samtal um ýmsa þróun. Sævar Freyr sagði við Guðmundu Freyju að það væri rétt að í atvinnumálum þyrftum við að kafa dýpra og finna annars konar verkefni en vinnuskólann.

Eftir bæjarstjóranum tók Bára Daðadóttir til máls og byrjaði á því að hrósa öllum ræðumönnum fyrir frammistöðuna. Hún þakkar góða punkta og góðar ábendingar. Bára þakkaði fyrir gott ungmennaþing á Laugum og styður það heilshugar að hafa fleiri ungmenni í ráðum bæjarins.

Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir tekur næst til máls og nefnir að mikilvægi þess að eiga samtal, að ungmennin séu upplýst um það sem er verið að ákveða og fá vitneskju um hvað það er sem þau vilja. Að setja á fót samráðshópurinn gæti verið brúin þarna á milli. Gerði Jóhönnu fannst frábært að heyra að ungt fólk vildi halda viðburði með fullorðna fólkinu og væri hægt að gera enn betur í að vera í samráði við þau við skipulagningu á viðburðum. Hún hrósaði Emblu fyrir að koma með þetta mikilvæga málefni sem sjálfvitund og kynfræðsla er . Gerður Jóhanna leggur til að bæjarstjórnarfundur unga fólksins væri oftar ekki eingöngu einu sinni á ári.

Þá kvaddi Ragnar B. Sæmundsson sér hljóðs og tekur undir með þeim sem hafa komið á undan varðandi öryggi og góðar hugmyndir. Ragnar sagðist vilja svara þeim erindum sem varðar umhverfis- og skipulagsráð. Hann væri sammála körfuboltavellina og varðandi lóðina við Brekkubæjarskóla þá er verið að skoða það. Það kemur gangbraut við Esjubraut og einnig er verið að vinna að hinum ýmsum þáttum varðandi gatnagerðir í bænum. Ragnar sagði að verið væri að klára göngustíg við Garðalund að Garðagrundin væri í áætlun. Að lokum sagðist Ragnar vera sammála þeirri hugmynd um samráðshóp og efla samstarfið við Hvalfjarðarsveit.

Síðastur á mælendaskrá var Ólafur Adolfsson, hann lagði til nýjar nálganir á þeim efnum sem væru að koma inn á þessa fundi. Ungmennin tækju sig saman um málefni, hafa málefnin færri og taka þau sem væru brýnust hverju sinni. Hann ræddi um að ungmennin velti það fyrir sér hvað er það sem hefur áhrif á skoðanir þeirra. Að lokum sagði Ólafur að hann væri hissa að ekkert hefði verið rætt um það sem væri mjög mikilvægt að takast á við en það væri ungt fólk og ávanabindandi lyf.

Fundi slitið - kl. 18:45.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00