Fara í efni  

Bæjarráð

3433. fundur 29. október 2020 kl. 08:15 - 13:20 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Elsa Lára Arnardóttir formaður
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í fjarfundi og samþykkja fundarmenn fundargerðina með rafrænum hætti í lok fundar.

1.Umbótavinna á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstað

2001210

Umræða um tillögur um breytingar á stjórnskipulagi Akranesakaupstaðar.
Bæjarstjóra falið að vinna að undirbúningi auglýsinga vegna ráðningar mannauðsstjóra og skipulagsfulltrúa og leggja fyrir næsta fund ráðsins.

Kostnaði vegna þessa verður mætt í áætlun 2021.



2.Breyting á staðgreiðslutekjum, framlagi Jöfnunarsjóðs og arðgreiðslna í fjárhagsáætlun 2020

2010238

Breyting á staðgreiðslutekjum, framlagi Jöfnunarsjóðs og arðgreiðslum í fjárhagsáætlun 2020.

Þorgeir H. Jónsson fjármálastjóri, Kristjana Helga Ólafsdóttir verkefnastjóri, Sigmundur Ámundason aðalbókari og Jóhann Þórðarson endurskoðandi koma inn á fundinn í gegnum fjarfundabúnað undir fundarliðum 2 til 9 kl. 09:00.
Áætlun vegna staðgreiðslutekna hefur verið endurskoðuð út frá nýrri áætlun frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2020.

Breytingin á staðgreiðslutekjum er til lækkunar að upphæð kr. 198.500.000.

Fyrir lá í júlímánuði að Jöfnunarsjóður myndi skerða framlög til sveitarfélaga á árinu 2020. Framlög hafa verið endurreiknuð og munu framlög til Akraneskaupstaðar lækka í heildina um kr. 35.359.000.

Arðgreiðslur eru hærri en áætlun gerðu ráð fyrir eða að fjárhæð kr. 72.060.000.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 29 við fjárhagsáætlun 2020 vegna breytinga á tekjum. Viðaukinn felur í sér lækkun á staðgreiðslutekjum að fjárhæð kr. 198.500.000, lækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 35.359.000 og hækkun á arðgreiðslum að fjárhæð kr. 72.060.000. Samtals breyting er lækkun á tekjum að fjárhæð kr. 161.799.000 sem færist á liði samkvæmt meðfylgjandi fylgiskjali. Breytingu á tekjum er mætt með lækkun á handbæru fé.

Bæjarráð vísar viðaukanum til endanlegrar samþykktar í bæjarstjórn.

3.Mánaðar- og árshlutauppgjör 2020

2006135

Níu mánaða uppgjör lagt fram.
Lagt fram.

4.Landsbankinn - yfirdráttarumboð og skilmálar

2010138

Skilmálar og umboð vegna yfirdráttarheimildar Akraneskaupstaðar hjá Landsbankanum.
Bæjarráð, í samræmi við 58. sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, veitir Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, fullt og ótakmarkað umboð til þess að óska eftir því við Landsbankann að yfirdráttarheimild verði veitt á tilgreindan veltureikning Akraneskaupstaðar að tilgreindu hámarki skv. meðfylgjandi fylgiskjölum og ítarbókun.

Bæjarráð veitir Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, jafnframt heimild til að óska eftir breytingum á yfirdráttarheimildinni til lækkunar frá hámarksfjárhæðinni og að fella hana niður.

Bæjarráð vísar ákvörðuninni til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar ákvörðunar.

5.Fasteignagjaldasamningur Akraneskaupstaðar og Landsbankans

2010231

Samningur Akraneskaupstaðar og Landabankans um innheimtu fasteignagjalda.
Bæjarráð samþykkir breytt verklag um uppgjör óinnheimtra fasteignakrafna í lok hvers árs sbr. 2. gr. samnings Akraneskaupstaðar og Landsbankans um innheimtu fasteignagjalda og felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins.

Bæjarráð samþykkir uppsögn/breytingu á samningi aðila samkvæmt ofangreindu en gert er ráð fyrir að samningurinn framlengist um eitt ár í senn sé honum ekki sagt um fyrir 1. nóvember ár hver sbr. 8. gr. samningsins.

6.Afskriftir 2020 og 2019

2010122

Afskriftabeiðnir frá sýslumanninum á Vesturlandi fyrir árin 2020 og 2019.
Bæjarráð samþykkir afskriftabeiðni Sýslumannsins á Vesturlandi að fjárhæð kr. 12.516.322 vegna ársins 2020 og að fjárhæð kr. 7.501.062 vegna ársins 2019 en síðarnefnda beiðnin skilaði sér ekki með réttum hætti í málakerfi Akraneskaupstaðar sem skýrir tafir á afgreiðslu hennar.

7.Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga - frestir

2010130

Frestir vegna fjárhagsáætlana sveitarfélaga árið 2021.
Bæjarráð samþykkir breytingu á tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunar 2021 og þriggja ára áætlun þannig að fyrri umræða áætlunarinnar fari fram í bæjarstjórn Akraness þann 24. nóvember næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags. 15. október sl. þar sem heimild er veitt til að leggja fram tillögu að fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. desember í stað 1. nóvember komi fram ósk þar lútandi frá byggðarráði(bæjarráði) eða sveitastjórn.

Að svo stöddu eru ekki áform um að færa til tímamark síðari umræðu fjárhagsáætlunar sem samkvæmt áætlun Akraneskaupstaðar er fyrirhuguð þann 8. desember nk. en samkvæmt erindi ráðuneytisins er unnt að færa tímamarkið til 31. desermber nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins.

8.Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2022-2024

2009162

Fjárhagsáætlunargerð 2021.
Bæjarráð þakkar fulltrúum fjármáladeildar fyrir framlögð gögn. Gert er ráð fyrir aukafundi bæjarráðs fimmtudaginn 5. nóvember næstkomandi til áframhaldandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.

Þorgeir H. Jónsson fjármálastjóri, Kristjana Helga Ólafsdóttir verkefnastjóri, Sigmundur Ámundason aðalbókari og Jóhann Þórðarson endurskoðandi víkja af fundi.

9.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2021-2024

2010230

Drög að fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2021-2024.

Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kemur inn á fundinn í gegnum fjarfundabúnað undir fundarliðum 9. til 10. kl 10:30.
Lögð fram drög að fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2021 og tímabilsins frá 2022 til 2024.

Gert er ráð fyrir sameiginlegum fundi allra bæjarfulltrúa þar sem unnið verði frekar með áætlunina þriðjudaginn 3. nóvember næstkomandi kl. 16:00.

Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs víkur af fundi.

10.Suðurgata 108 - verðmat, framkvæmdir, sala

1904136

Sala á Suðurgötu 108.
Fyrir liggur að tveir tilboðsgjafar hafa áhuga á eigninni og hafa lagt fram samtals þrjú tilboð. Ekki er unnt að útiloka að fleiri tilboð berist og vegna þessarar stöðu samþykkja ELA og VLJ eftirfarandi skilyrði og skilmála vegna gildis væntanlegra tilboða í eignina og úrvinnslu þeirra í framhaldinu af hálfu Akraneskaupstaðar:

1. Tilboðsfrestur er til kl. 16:00 þriðjudaginn 3. nóvember 2020 og skal tilboðum skilað á netfangið akranes@akranes.is
2. Lágmarksfjárhæð kaupverðs skal vera 40,0 m.kr.
3. Lágmarksfjárhæð fyrstu greiðslu skal vera 15% af tilgreindu kaupverði tilboðsgjafa sbr. 2. tl.
4. Hámarkstími til að greiða að kaupverð að fullu er til 1. maí 2021.
5. Ef tilboð eru að sömu fjárhæð sbr. 1. tl. ræður greiðslutími sbr. 4. tl. úrslitum um val á tilboði þannig að það tilboð sem hefur stystan greiðslutíma telst hagstæðast að fullnægðum öðrum skilyrðum.
6. Þinglýsa þarf kvöðum á húsnæðið en efnislegt innihald kvaðanna liggur fyrir sem fylgiskjal með söluyfirliti.
7. Kaupsamningur öðlast endanlegt gildi við samþykki bæjarstjórnar.

RÓ er á móti og leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins áréttar fyrri afstöðu sína í málinu og er því mótfallin að húsið verði selt. Þykir bæjarfulltrúanum miður að ákvörðun um að rífa húsnæðið og úthluta lóðinni að nýju hafi verið snúið við af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Framsókn og frjálsum.

Rakel Óskarsdóttir (sign)

11.Höfði - fjárhagsáætlun 2021-2024

2010228

Fjárhagsáætlun Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis 2021 - 2024.
Lagt fram.

12.Höfði - endurbætur 2020

2001138

Erindi Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis vegna endurbóta á 2. hæð.
Bæjarráð telur ekki forsvaranlegt að fara í verkefnið án nýrrar umsóknar miðað við þær breyttu forsendur sem blasa eftir endurskoðun kostnaðaráætlunar. Að auki eru aðstæður í samfélaginu í dag þannig að erfitt er að sjá hvernig unnt sé að hafa hóp iðnaðarmanna að störfum á heimilingu á næstunni en bæjarráð er sammála stjórn Höfða um að knýjandi þörf er á endurbótum á húsnæðinu. Stærra viðfangsefni er hins vegar hið fjárhagslega umhverfi sem ríkisvaldið hefur búið sveitarfélaginu sem rekstararaðila þjónustu þessa málaflokks sem raunverulega er alfarið á ábyrgð ríkisins að veita. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag gengur tæplega lengur og aðgerða þörf en nokkur sveitarfélög hafa tekið ákvörðun um að skila verkefninu til baka til ríkisins.

Bæjarráð samþykkir hins vegar að standa straum af fyrirliggjandi hönnunarkostnaði en sú fjárfesting mun nýtast verði sótt um að nýju á næsta ári er opnað verður fyrir umsóknir í Framkvæmdasjóð aldraða. Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 30 að fjárhæð kr. 15.478.568 á deild 02410-5946. Bæjarráð vísar viðaukanum til bæjarstjórnar til endanlegrar samþykktar. Ráðstöfuninni verður mætt með lækkun á handbæru fé.

13.Námsleyfi í leikskólum

2002322

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum úthlutun vegna náms starfsmanna leikskólanna í leikskólakennarafræðum og vísar samþykktinni til afgreiðslu í bæjarráð.

Valgerður Janusdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs kemur inn á fundinn undir fundarliðum 11. til 12. kl. 11:30.
Bæjarráð ákvað við fjárhagsáætlunargerð vegna ársins 2020 að veita sérstaka fjárveitingu að fjárhæð kr. 4.000.000, með það að markmiði að viðhalda háu menntunarstigi starfsmanna í leikskólum og tryggja nýliðun í hópi leikskólakennara hjá Akraneskaupstað.

Nú liggur fyrir skipting útgjaldanna og bæjarráð samþykkir eftirfarandi úthlutun að fjárhæð kr. 3.638.965 vegna vor- og haustannar 2020:

1. Akrasel, fjöldi nemenda að vori 3 (kr. 419.000) og fjöldi nemenda að hausti voru 5 (kr. 1.152.317), samtals kr. 1.571.317 og er ráðstafað af deild 04020-5946 og inn á deild 04160-1691.

2. Garðasel, fjöldi nemenda að vori 1 (kr. 62.500) og fjöldi nemenda að hausti voru 1 (kr. 175.755), samtals kr. 238.255 og er ráðstafað af deild 04020-5946 og inn á deild 04140-1691.

3. Teigasel, fjöldi nemenda að vori 3 (kr. 237.500) og fjöldi nemenda að hausti voru 4 (kr. 404.365), samtals kr. 641.865 og er ráðstafað af deild 04020-5946 og inn á deild 04130-1691.

4. Vallarsel, fjöldi nemenda að vori 1 (kr. 296.000) og fjöldi nemenda að hausti voru 3 (kr. 891.025), samtals kr. 1.187.025 og er ráðstafað af deild 04020-5946 og inn á deild 04120-1691.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 31 vegna þessa og vísar til bæjarstjórnar til endanlegrar málsmeðferðar.

Bæjarráð fagnar þeim fjölda starfsmanna leikskólanna sem hefur kosið að nýta sér úrræðið.

14.Menntastefna- endurnýjun

2002069

Skóla- og frístundaráð samþykkti tillögur um væntanlega vinnu við nýja menntastefnu Akraneskaupstaðar og að gengið verði til samninga við KPMG. Afgreiðslu er vísað til bæjarráðs.
Bæjarráð samþykkir erindið.

Gert er ráð fyrir að fjárheimild sé til staðar í málaflokki 04 í yfirstandandi áætlun til að mæta útgjöldum vegna vinnu KPMG fram til áramóta en gert verður ráð fyrir útgjöldum vegna ársins 2021 í fjárhagsáætlunarvinnunni sem nú stendur yfir.

15.ÍA - rekstur, samskipti og samningur

1908011

Staða á starfshóp um framtíðarskipulag styrkveitinga Akraneskaupstaðar til íþróttabandalags ÍA og aðildarfélaga þess.

Guðmunda Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍA kemur inn á fund í gegnum fjarfundabúnað undir þessum lið kl. 12:00.
VLJ og RÓ víkja af fundir undir þessum lið. ÓA og KHS taka sæti á fundinum í þeirra stað.

Bæjarráð samþykkir að áfangaskil starfshópsins verði 16. nóvember næstkomandi en þeim fylgi m.a. tillögur um úthlutunaraðferð varðandi skiptingu framlaga Akraneskaupstaðar til aðildarfélaga ÍA og að lokaskil starfshópsins verði 27. nóvember nk.

ÓA og KHS víkja af fundi og VLJ og RÓ taka sæti á fundinum á ný.

16.Stytting vinnuvikunnar hjá Akraneskaupstað

2009164

Framkvæmd styttingu vinnuvikunnar hjá Akraneskaupstaðar.

Bæjarráð telur mikilvægt að forstöðumönnum og starfmönnum verði veitt það traust að útfæra möguleika á styttingu vinnuvikunnar í samræmi við forsendur nýgerðra kjarasamninga og því ekki ástæða til að takmarka það fyrirfram við lágmarksstyttingu vinnutíma starfsfólks í dagvinnu sem er 13 mínútur frá 1. janúar nk.

Bæjarráð veitir stýrihópnum það umboð f.h. Akraneskaupstaðar að samþykkja væntanleg samkomulög stofnana um útfærslu styttingar hjá dagvinnufólki enda feli þau ekki í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið sbr. forsendur kjarasamninga.

Bæjarráð vísar ákvörðun sinni til endanlegrar málsmeðferðar í bæjarstjórn Akraness.

17.Vinnustund, viðveru og réttindakerfi - samningur

2010023

Tillaga sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um að tekið verði upp nýtt viðverukerfi hjá Akraneskaupstað.
Bæjarráð samþykkir erindið og felur sviðsstjóra frekari úrvinnslu málsins.

18.Samtökin 78 - erindi

2010204

Erindi Samtakanna '78 til bæjarstjórnar.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
Fylgiskjöl:

19.Landsþing Sambandsins 2020

2001201

XXXV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið föstudaginn 18. desember 2020.
Lagt fram.

Sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falin úrvinnsla málsins (tilkynning um þátttöku bæjarfulltrúa o.fl.).

Fundi slitið - kl. 13:20.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00