Fara í efni  

Skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands (2001-2009)

4. fundur 23. apríl 2002 kl. 12:00 - 15:05

Fundur í skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haldinn þriðjudaginn 23. apríl 2002 kl. 12:00 í fundarherbergi skólans.

Mætt voru: Þorgeir Jósefsson, formaður skólanefndar,
 Hörður Helgason skólameistari,
 Atli Harðarson, aðstoðarskólameistari,
 Ásgeir Helgi Gylfason,
 Sigríður Finsen,
 Guðrún Jónsdóttir,
 Bergþóra Jónsdóttir,
 Borghildur Jósúadóttir,
 Sigurgeir Sveinsson.

1. Skólasamningur milli menntamálaráðuneytis og FVA.

Formaður skólanefndar og skólameistari fara á fund í menntamálaráðuneytinu þann 15. maí til að ganga frá ?skólasamningi? fyrir 2002-2004.  Skólameistari fór yfir samningsdrög og þau voru rædd.
Rætt um útgáfu skóladagbókar og námskrá skólans í bókarformi.
Rætt um sjálfsmat innan skólans, þar sem kennarar skoða eigið starf og í framhaldi funda þeir með skólameistara.
Skólameistari ræddi um fartölvuvæðingu meðal kennara og að því stefnt að allir kennarar hafi fartölvur innan tveggja ára.
Vinnuaðstaða fyrir nemendur mun batna verulega fyrir næsta haust.  Næsta haust verður boðið upp á nýja áfanga fyrir þá sem eiga við námsörðugleika til að vinna gegn brottfalli nemenda.  Fundarmenn ræða um ýmsa möguleika einstaklinga til náms í skólanum.  FVA verður að taka við öllum nemendum og getur ekki hafnað nemendum nema að skólinn sé fullur.
Rætt um inntökuskilyrði skóla.  Næst rætt um nemendafjölda í skólanum, námsbrautir og námsframboð.  Síðan rætt  um að fjölga vistarplássum með sérstökum samningi við einkaaðila í samvinnu við menntamálaráðuneyti. 
Undirbúningur nýrrar eða breyttrar starfsemi.  Rætt um að FVA verði einn af kjarnaskólum í málmiðnaði. 
Skólinn hefur fengið heimild til að hefja rekstur stóriðjubrautar og grasvallabrautar næsta haust.  Stóriðjubrautin er skipulögð í samvinnu við Íslenska Járnblendifélagið og Norðurál og grasvallabrautin í samvinnu við Garðyrkjuskóla ríkisins og Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

2. Rekstraryfirlit og rekstraráætlun.

Skólameistari fer yfir rekstraryfirlit fyrir árið 2001 og er halli á árinu kr. 22.425.898.-
Fundarmenn ræða ítarlega um leiðir til að nemendur skili sér til prófs.  Rekstraráætlun fyrir árið 2002 lögð fram og rædd.

3. Endurskoðun reiknilíkans.

Reiknilíkanið er enn  í endurskoðun.  Skólanefnd lýsir áhyggjum sínum með að þeirri endurskoðun sé ekki lokið.  Það liggur fyrir og hefur verið viðurkennt af öllum sem að endurskoðuninni koma að kostnaður við skóla  eins og Fjölbrautaskóla Vesturlands hefur verið vanmetinn í reiknilíkaninu.  Það er mjög  mikilvægt fyrir skólann að endurskoðuninni ljúki sem fyrst þannig að nýtt reiknilíkan verði notað við fjárlagagerð fyrir árið 2003.  Málið rætt, þar kom m.a. fram mikilvægi þess að fjölga nemendum.  Rætt var um ýmsar leiðir til að laða nemendur að skólanum.  Einnig var rætt um hugsanlega samvinnu við aðra skóla.  Aðstoðarskólameistari upplýsti að Verkmenntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautaskóli Vesturlands hafa rætt um að hafa samvinnu um fjarnám næsta vetur.

4. Byggingaframkvæmdir.

Formaður skólanefndar fór yfir stöðu á framkvæmd við stækkun bókasafns.  Búið er að taka nýbygginu í notkun og endurnýjun stendur yfir á eldra bókasafni þar sem verður les- og vinnuaðstaða fyrir nemendur.
Formaður skólanefndar og skólameistari sátu fund með Örlygi Geirssyni skrifstofustjóra fjármálasviðs menntamálaráðuneytisins og Hermanni Jóhannessyni deildarstjóra þar sem rætt var um gerð samnings um áframhaldandi framkvæmdir við byggingu B-hluta kennslumiðstöðvar FVA.  Vonir standa til að fjárveiting fáist til hönnunar árið 2003 og framkvæmdir við byggingu kennsluhúsnæðis gætu þá hafist árið 2004.

5. Önnur mál.

Fulltrúi nemenda leggur fram þá tillögu, að í FVA verði sett saman 3ja ára stúdentsbraut sem væri í raun 3 ára námsáætlun, þar sem nemendur sjái að taki þeir áfanga í fyrirfram ákveðinni röð muni þeir geta útskrifast á 3 árum.  Með þessu myndi skólinn skuldbinda sig til að bjóða upp á áfangana á þeim tíma sem áætlaður var og leyfa nemendum að taka fleiri einingar á önn en hámarkseiningafjöldi segir til um.
20 iðnnemar eru nú 3ja vikna námsferð í Danmörku á vegum starfsmenntaáætlunar Leonardó og 8 nemendur fara til Ítalíu í byrjun júní.  Skólinn fékk einnig styrk frá Leonardó verkefninu til að senda 11 verknámskennara utan í viku kynnisför hvern.
FVA lenti í öðru sæti í málmsuðukeppni framhaldsskólanna.
Jóhanna Hálfdánsdóttir, frönskukennari, fer í  ársfrí næsta skólaár.  Staða hennar hefur verið auglýst og skólameistari segir frá umsækjendum.

  Fundi slitið kl. 15:05.

  Fundarritarar

  Borghildur Jósúadóttir
  Ásgeir Helgi Gylfason
 Sigurgeir Sveinsson.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00