Fara í efni  

Fulltrúaráð Grundartangahafnar (2002-2004)

5. fundur 14. maí 2004 kl. 10:00 - 12:00

Aðalfundur - Fundur fulltrúaráðs Grundartangahafnar var haldinn á Grundartanga, föstudaginn 14. maí 2004 og hófst hann kl. 10:00.


 

Mættir voru:  

Gunnar Sigurðsson, Akranesi,

Guðmundur Vésteinsson, Akranesi,

Lárus Ársælsson, Akranesi,

Ingi Tryggvason, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar,

Jón Stefánsson, Innri-Akraneshreppi,

Marinó Tryggvason, Skilmannahreppi.

Stefán Ármannsson, Leirár- og Melahreppi.

Helgi Þórhallsson, áheyrnarfulltrúi.

Gunnar Sigurðsson,

Sigurður Sverrir Jónsson,

Ásbjörn Sigurgeirsson,

Sigurður Valgeirsson og

Guðni Tryggvason.

  

Auk þeirra Gísli Gíslason, hafnarstjóri og Guðmundur Eiríksson.


Gunnar Sigurðsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fyrir tekið:

 

1. Skýrsla hafnarstjóra og stjórnar Grundartangahafnar.

Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem ástæða er til að geta sérstaklega:

 

Inngangur.

Stjórn Grundartangahafnar hefur á liðnum mánuðum unnið áfram að ýmsum verkefnum sem gerð var grein fyrir á fundi fulltrúaráðsins í desember s.l.  M.a. er þar um að ræða undirbúning að stækkun Grundartangahafnar, könnun á mögulegri vatnstöku og vatnsveitu á hafnarsvæðinu, skipulagsmálum, hafnarvernd o.fl.  Hæst ber þó í starfseminni sú ákvörðun eigenda hafnarinnar að stefna að sameiningu hafnarinnar við Reykjavíkurhöfn, Akraneshöfn og Borgarneshöfn.  Verður hér á eftir gerð nánari grein fyrir þeim atriðum.

 

Sameining hafna við Faxaflóa.

Í mars s.l. undirrituðu eigendur Grundartangahafnar viljayfirlýsingu um sameiningu Grundartangahafnar, Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar og Borgarneshafnar og er stefnt að því að nýtt sameinað hafnarfyrirtæki taki formlega til starfa 1. janúar 2005.  Eitt meginmarkmið sameiningarinnar er m.a. að hætt verður við gerð nýrrar hafnar í Geldinganesi, en þeirri starfsemi sem þar var ætlaður staður komið fyrir á Grundartanga.  Þá er það markmið sameiningarinnar að stuðla að því að lagningu Sundabrautar verði hraðað.  Ljóst er að þessar breyttu áherslur í rekstri hafna á svæðinu og bættar og greiðari samgöngur við höfuðborgarsvæðið munu hraða verulega uppbyggingu á Grundartanga.  Nýtt fyrirtæki verður mun öflugra fjárhagslega en hafnarsjóður Grundartangahafnar og því betur í stakk búið til að standa að hraðari uppbyggingu en áætlanir hafa verið um.  Einn af lykilþáttunum í þeim hugmyndum að byggja upp til framtíðar verulega starfsemi á Grundartanga eru kaup hafnarinnar á landi Klafastaða, en með þeim kaupum var nægjanlegt athafnarými til lengri tíma tryggt auk þess sem horft er til uppbyggingar í landi Kataness.  Skipaður hefur verið fjögurra manna starfshópur sem mun á næstu mánuðum undirbúa sameiningu hafnanna.

 

Stækkun Grundartangahafnar.

Áfram hefur verið unnið að undirbúningi að stækkun Grundartangahafnar með hönnun 250 metra bryggju til þess að höfnin anni stækkun Norðuráls og starfsemi rafskautaverksmiðju, ef af byggingu hennar verður.  Unnið hefur verið að hönnun verkefnisins og hefur Guðmundur Eiríksson verið fulltrúi stjórnarinnar gagnvart þeim aðilum sem koma að málinu.  Fyrir liggja drög að samningi við Norðurál um að nýta efni sem kemur úr grunni kerskála fyrirtækisins, sandfylling hefur verið boðin út og gögn varðandi útboð á kaupum stálþils eru tilbúin.  Reikna má með að framkvæmdin sjálf, þ.e. niðurrekstur stálþilsins, lagnir og frágangur verði boðin út á haustdögum, en sú tímaáætlun sem stjórnin hefur miðað við, þ.e. að bryggjan verði tilbúin til notkunar í lok ársins 2005 eða byrjun árs 2006, ætti að standast.

 

Skipulagsmál.

Í tengslum við stækkun Grundartangahafnar hefur þurft að óska eftir breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi hafnarinnar.  Það verkefni er komið vel áleiðis og ættu samþykkt aðalskipulag og deiliskipulag vegna stækkunarinnar að liggja fyrir innan fárra vikna.  Þá hefur verið í gangi vinna við aðalskipulag Skilmannahrepps.  Vilja stjórnarinnar um að nánast allt land Klafastaða austan þjóðvegar verði skipulagt sem hafnar- og athafnasvæði hefur verið komið á framfæri auk þess sem óskað hefur verið eftir því að gert verði ráð fyrir hafnarmannvirkjum austan og vestan við núverandi höfn.  Gert er ráð fyrir að aðalskipulagstillagan verði afgreidd frá hreppsnefnd Skilmannahrepps á þessu ári.  Í framhaldi af sameiningu hafnanna er síðan nauðsynlegt að huga að heildar deiliskipulagi á landi Klafastaða, en reikna má með að það verkefni muni taka nokkurn tíma og að til þess verks þurfi að fá aðila til ráðgjafar sem hafi sérþekkingu á skipulagi hafnasvæða.

 

Vatnsmál.

Unnið hefur verið að úttekt á möguleikum á vatnstöku og vatnsveitu á Grundartangasvæðinu og hefur m.a. verið rætt við fulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur um aðkomu þeirra að málinu.  Fulltrúar OR eru nú að skoða ýmsar hliðar málsins, en brýnt er að finna hagkvæma lausn á þessum málum.  Þá má geta þess að Helgi Þórhallsson, hjá IJ, hefur bent á að mögulegt sé að gera ákveðnar breytingar á vatnsnotkun verksmiðjunnar sem hafi það í för með sér að vatn sem nú er nýtt til kælingar verði  notað á annan máta, en um gæti verið að ræða 5-6 sek./lítra.

 

Hafnarvernd.

Grundartangahöfn hefur í samvinnu við Akraneshöfn fengið ráðgjafa frá Hönnun, Admon og Rafhönnun til að undirbúa innleiðingu reglna um hafnarvernd á Grundartanga, en reglur þar að lútandi taka gildi 1. júlí n.k.  Fyrir liggur svonefnt áhættumat og tillaga um verndarráðstafanir, en beðið er eftir afstöðu Siglingastofnunar til verndarráðstafananna.  Fyrir liggja tilboð í nauðsynlegar girðingar og eftirlitsmyndavélar og rætt hefur verið við fulltrúa Norðuráls, Járnblendifélagsins og Klafa um framkvæmd reglnanna.

 

vegtenging.

Framkvæmdir standa nú yfir við lagningu nýrra vegtengingar frá þjóðvegi niður á iðnaðar- og hafnarsvæðið á Grundartanga.  Áætlað er að framkvæmdum ljúki í haust.

 

Rafskautaverksmiðja.

Aðilar, sem hafa hug á að reisa rafskautverksmiðju í landi Kataness hafa haldið undirbúningi sínum áfram, en ekki liggur fyrir hvort af verkefninu verður.  Af hálfu hafnarinnar hafa verið lögð fram drög að samningi um afnot væntanlegs fyrirtækis að höfninni og eru þau drög með svipuðu sniði og samningar hafnarinnar við Járnblendifélagið og Norðurál.

  

Samningar við Járnblendifélagið og Norðurál.

Með nýjum hafnalögum verður sú breyting á að frá og með 1. júlí n.k. verður ákvörðun um gjaldskrá alfarið í höndum hafnarstjórna í stað samræmdrar gjaldskrár sem samgönguráðuneytið hefur hingað til gefið út.  Vegna þessa hefur verið rætt við fulltrúa Norðuráls og Járnblendifélagsins um að vörugjöld samkvæmt samningum við fyrirtækin taki breytingum með sviðuðum hætti og gildir í samningum Alcoa við Fjarðabyggð.  Af hálfu Grundartangahafnar er þó gerð krafa um að samningi hafnarinnar við Járnblendifélagið falli út ákvæði um forkaupsrétt félagsins að elsta hluta hafnarinnar og að fyrirtækið gefi eftir áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnarinnar.  Í staðinn kæmi ákvæði um samráðsnefnd fyrirtækjanna og hafnarinnar.  Ekki liggur fyrir afstaða til þessara hugmynda en á næstu dögum verður formlega óskað eftir viðræðum um þessi mál.

 

Viðhaldsverkefni.

Stjórn hafnarinnar hefur samþykkt að fela Guðmundi Eiríkssyni að annast undirbúning og framkvæmd nokkurra viðhaldsverkefna hjá höfninni.  M.a. er um að ræða endurnýjun á dekkjarúllum, lagfæringu á þekju, endurbætur á öryggismálum hafnarinnar og lagningu malbiks.  Samhliða þessu hefur verið lögð áhersla á að vinna að snyrtingu svæðisins.

 

Marinó Tryggvason spurðist fyrir um með hvaða hætti mætti spara vatn hjá IJ og svaraði Helgi því lauslega.  Guðmundur Eiríksson gat nokkurra atriða varðandi vatnsmálin.  Helgi nefndi nokkur atriði varðandi hugmyndirnar um byggingu rafskautaverksmiðju.

 

Skýrslan lögð fram.

 

2.Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

Hafnarstjóri fór yfir reikningana og þeir lagðir fram.

 

Samkvæmt reikningnum voru rekstrartekjur 88,9 mkr., rekstrargjöld 12,8 mkr.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 75,5 mkr., en hagnaður ársins 67,4 mkr.  Veltufjármunir voru 108,0 mkr.m skuldbindingar og langtímaskuldir 74,0 mkr., skammtímaskuldir 47,9 mkr. og handbært fé frá rekstri 91,2 mkr.

  

3. Kosning tveggja endurskoðenda til eins árs.

Tillaga er gerð um aðalmenn Skúla Garðarsson og Pál Snævar Brynjarsson og till vara Ingibjörgu Björnsdóttur og Rúnar Hálfdánarson.  Voru ekki aðrar tillögur og eru þau rétt kjörin.

 

 

4. Tillaga að breytingu á fjárhagsáætlun ársins 2004 vegna framkvæmda við stækkun hafnarinnar.

 

Hafnarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögu:

 

?Þar sem framkvæmdir við stækkun Norðuráls hf. eru að hefjast er ljóst að tímabært er að taka ákvörðun um stækkun Grundartangahafnar, en það verkefni hefur verið í undirbúningi á síðustu mánuðum.  Gert er ráð fyrir að lengja núverandi bryggjukant um 250 metra.

 

Á liðnum mánuðum hafa verið framkvæmdar ýmsar rannsóknir og athuganir auk þess sem unnið hefur verið að hönnun verkefnisins.  Gert hafði verið ráð fyrir því að útboð á stálþili ætti sér stað á haustdögum svo og útboð við byggingu mannvirkisins.  Í tengslum við framkvæmdir Norðuráls hf. í grunni kerskálans sem mun rísa er gert ráð fyrir að nýta efni til uppfyllingar og er áætlað að kostnaður við þann verkþátt sé um 50,0 mkr.  Þá hefur sandfylling verið boðin út og nemur lægsta tilboð 55.968 þkr.  Hönnun verkefnisins er komin það langt að unnt er að bjóða út kaup á stálþili, en það mun taka 6 ? 7 mánuði að fá stálið til landsins.  Gróft áætlaður kostnaður við kaup á stálþilinu er um 1,4 m. evrur eða 123,0 mkr.  Ekki liggur ljóst fyrir hvort stálið komi til landsins fyrir áramót eða hvort greiðsla fyrir það lendi á nýju fjárhagsári.  Gerð er tillaga um að gert verði ráð fyrir greiðslu þess á árinu 2004.  Áætlað er að bjóða út framkvæmd verksins að öðru leyti á haustdögum og miða við að framkvæmdir hefjist annað hvort seint á árinu 2004 eða í byrjun árs 2005.  Verklok ættu samkvæmt því að verða í árslok 2005 eða byrjun árs 2006.  Í framkvæmdinni er gert ráð fyrir bráðabirgðaslitlagi á þekju, en að endanlegur frágangur þekjunnar eigi sér stað á árinu 2007 eða 2008.

 

M.a. vegna framkvæmda við stækkun Grundartangahafnar er nauðsynlegt að ljúka ákveðnum viðhaldsverkefnum, en viðbótar kostnaður vegna þeirra er um 10,0 mkr.  Þá er ljóst að kostnaður við að koma reglum um hafnarvernd til framkvæmda verður um 5,0 kr. meiri en ráð var fyrir gert.

 

Á grundvelli framangreinds er eftirfarandi tillaga gerð um breytingu á fjárhagsáætlun Grundartangahafnar vegna ársins 2004:

 

Tegund útgjalda.                             Var:              Verður:                   Mism.:

 

Aðkeypt önnur vinna m. vsk.

vegna viðhaldsverkefna.           10.0 mkr.            20.0 mkr.               10.0 mkr.

 

Afkoma ársins- jákvæð            -34.5 mkr           -24.5 mkr.               10.0 mkr.

 

Ný bryggja                                                                                                        

(Stálþil 123,0 mkr.

Grjótfylling 50,0 mkr. og

sandfylling 56,0 mkr.)              10.0 mkr.           239,0 mkr.             229,0 mkr.

 

Hafnarvernd                             4.0 mkr.               9.0 mkr.                5.0 mkr.

 

Afkoma ársins                           16.0 mkr.        (244.0 mkr.)           (228.0 mkr.)

 

Fjármögnun:

 

Hækkun/(lækkun) á eigin fé           0                 (100.0 mkr.)          (100.0 mkr.)

Lántaka                                        0                  144.0 mkr.             144.0 mkr.?

 

 

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

 

5. Önnur mál.

Marinó spurðist fyrir um hvort ekki komi viðbótar súrálstankur á svæðið og var því svarað játandi.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00