Fara í efni  

Fulltrúaráð Grundartangahafnar (2002-2004)

3. fundur 09. maí 2003 kl. 10:00 - 11:00

Ár 2003, föstud. 9. maí 2003, kom fulltrúaráð Grundartangahafnar saman til aðalfundar, skv. 5. grein reglugerðar Grundartangahafnar, í fundarsal Íslenska Járnblendifélagsins og hófst fundurinn kl. 10:00.


Mættir voru: Gunnar Sigurðsson,
 Sigurður Sverrir Jónsson,
 Stefán G. Ármannsson,
 Davíð Pétursson,
 Ingi Tryggvason,
 Guðmundur Páll Jónsson,
 Elínbjörg Magnúsdóttir,
 Eiður Ólafsson,
 Gunnar Sigurðsson,
Sigurður Sverrir Jónsson,
Ásbjörn Sigurgeirsson,
Helgi Þórhallsson,
Guðmundur Eiríksson,

Auk þeirra Gísli Gíslason, hafnarstjóri Grundartangahafnar.


Gunnar Sigurðsson, formaður stjórnar, setti fund og lýsti boðun fundarins, sem var í samræmi við reglugerð hafnarinnar.

 

Fyrir tekið:

 

1. Skýrsla stjórnar og hafnarstjóra.
Rekstur Grundartangahafnar árið 2002 gekk vel.  Rekstrarhagnaður varð 74,8 mkr. og útlit fyrir að árið 2003 verði einnig hagstætt.  Útlit er fyrir að umsvif hafnarinnar á næstu árum aukist verulega og skiptir þar mestu að áætlanir um stækkun Norðuráls gangi upp.  Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum í rekstri hafnarinnar og þeim verkefnum sem hafnarstjórn hefur unnið að á liðnum mánuðum.


Stjórn Grundartangahafnar.

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga á liðnu ári tóku nýir aðilar sæti í stjórn hafnarinnar og nýtt fulltrúaráð.  Í stjórn hafnarinnar voru þeir Sturlaugur Haraldsson, formaður, Marinó Tryggvason, Herdís Þórðardóttir, Kristmar Ólafsson og Ágúst Hjálmarsson.  Nýja stjórnin var skipuð þeim Sturlaugi Haraldssyni, Gunnari Sigurðssyni, Sigurði Sverri Jónssyni og Sigurði Valgeirssyni.  Vegna ágreinings um skipan fulltrúa sveitarfélaga norðan Skarðsheiðar var ákveðið að bíða dóms um það deiluefni og lá niðurstaða fyrir í desember.  Með bréfi Héraðsnefndar Mýrasýslu dags. 24. janúar s.l. var tilkynnt um að Ásbjörn Sigurgeirsson tæki sæti í stjórninni.  Í byrjun árs 2003 gekk Sturlaugur Haraldsson úr stjórninni þar sem hann hafði tekið við starfi erlendis, en var þá Guðni Tryggvason skipaður í hans stað. 

 

Á fundi stjórnar þann 10. mars kom fullskipuð stjórn saman til fundar og var formaður stjórnar kjörinn Gunnar Sigurðsson og varaformaður Guðni Tryggvason.

Í fulltrúaráð hafnarinnar voru tilnefndir:
Ingi Tryggvason, Þorvaldur T. Jónsson, Davíð Pétursson, Hjördís Stefánsdóttir, Eiður Ólafsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Guðmundur Páll Jónsson, Guðmundur Vésteinsson, Stefán Ármannsson, Marinó Tryggvason og Jón Stefánsson.

 

Þau vandkvæði sem urðu við tilnefningu í stjórn hafnarinnar beina sjónum manna að reglugerð Grundartangahafnar, sem sett var fyrir um 25 árum.  Margt í þeirri reglugerð er orðið úrelt en mestu skiptir þó að ný lög fyrir hafnir og þörf á skýrari reglum um stjórnskipulag hafnarinnar kalla á endurskoðun reglugerðarinnar.  Breytingu á reglugerð hafnarinnar verða eigendur hennar að koma sér saman um og er nauðsynlegt að ræða hvernig standa megi að því verki og koma því máli í ákveðinn farveg.

Haldinn var fundur í fulltrúaráði Grundartangahafnar þann 12. desember 2002 og var þar m.a. gerð grein fyrir starfsemi hafnarinnar, farið yfir fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 auk þess sem hafnarstjóri gerði grein fyrir og rætt var um skipulagsmál á hafnarsvæðinu,  framtíðarsýn  á iðnaðarsvæðið á Grundartanga, starfsemi og hlutverk hafnarinnar auk fleiri atriða sem tengjast hafnarsvæðinu.

 

Stækkun Grundartangahafnar.

Á liðnum mánuðum hefur stjórn hafnarinnar unnið að undirbúningi að stækkun Grundartangahafnar.  Nú þegar hefur botn hafnarinnar verið rannsakaður og fyrir liggja tillögur Siglingastofnunar að hönnunarforsendum.  Þá hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að ekki sé nauðsynlegt að fara í umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, en ákvörðun stofnunarinnar hefur verið auglýst og er kærufrestur til loka maímánaðar.  Jóhann Þórðarson hjá Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar og Helgi Jensson prófessor hafa unnið sitthvort álitið varðandi arðsemi stækkunar hafnarinnar og bendir flest til þess að bygging 250 metra viðlegukants til vesturs sé hagkvæm og arðsöm framkvæmd.  Í samningi hafnarinnar við Norðurál er gert ráð fyrir því að við stækkun verksmiðjunnar sé fyrirtækinu heimilt að óska eftir stækkun.  Fulltrúar Norðuráls hafa ekki óskað eftir því að svo verði, en í marsmánuði var hins vegar gert samkomulag við fyrirtækið að ef af stækkun verksmiðjunnar yrði þá tæki höfnin þátt í tafakostnaði fyrirtækisins á meðan bryggjupláss er ekki nægjanlegt. 

 

Að mati stjórnarinnar er það hins vegar mikilvægt að höfnin geti boðið upp á örugga viðlegu og nægjanlegt bryggjupláss og því var eftirfarandi samþykkt gerð á fundi stjórnarinnar þann 28. apríl s.l.:

 

?Hafnarstjórn samþykkir að stefna að lengingu viðlegukants hafnarinnar um 250 metra enda verði af framkvæmdum við stækkun Norðuráls.  Stefnt verði að því að framkvæmd verksins verði lokið á árinu 2005.  Hafnarstjóra er falið að undirbúa framhald málsins m.a. að leggja fram tillögu að forsendum hönnunar, kostnaðaráætlun verksins, áætlun um verktíma, arðsemi fjárfestingarinnar og áætlun um fjármögnun.?

 

 Það er skoðun stjórnarinnar að til þess að Grundartangasvæðið verði eins ákjósanlegur valkostur fyrirtækja og mögulegt er þá skipti meginmáli að skipulag hafnarsvæðisins og hafnaraðstaðan sé eins og best verður á kosið. 

Hafa verður í huga að þó svo að allir samningar milli Norðuráls, ríkisins, hafnarinnar, sveitarfélaga og Landsvirkjunar liggi fyrir þá hefur fyrirtækið ekki tekið endanlega ákvörðun um stækkun.  Vonandi liggur sú ákvörðun fyrir í júnímánuði.


Viðhaldsverkefni.

Stjórn hafnarinnar hefur látið gera úttekt á ástandi hafnarmannvirkjanna en ljóst er að nokkur kostnaður er fyrirsjáanlegur vegna viðhaldsverkefna sem nauðsynlegt er að sinna.  M.a. má nefna sem dæmi um verkefni lagfæringu á sigi á þekju, lagfæring grjótvarnar, malbiksskemmdir, lagfæringu á stagfestum stálþils, endurnýjun kants á eldri bryggju og fleira, en kostnaður við þessi verkefni gæti orðið samtals um 10.0 mkr.  Þá hefur verið athugað hvað kostar að setja út festibauju, sem Akraneshöfn er reiðubúin að lána Grundartangahöfn, en á meðan höfnin hefur ekki verið stækkuð er nauðsynlegt að tryggja betur en gert hefur verið viðlegu stærstu skipa sem við ákveðin skilyrði ná langt framfyrir enda hafnarinnar.  Ljóst er að í framtíðinni þarf að gera ráð fyrir auknum fjármunum til viðhalds hafnarinnar, ekki síst ef af stækkun Norðuráls verður.  Umferð um bryggjurnar er bæði mikil og þung þannig að slit verður allnokkuð, en mikilvægt er að halda mannvirkjunum í eins góðu ástandi og kostur er.

Þá má nefna að nauðsynlegt er fyrir höfnina að láta vinna öryggisáætlun þannig að öryggismál verði í samræmi við lög og reglur.  Ennfremur þarf að endurskoða viðbragðsáætlun hafnarinnar sem komin er til ára sinna.


Skipulagsmál.

Nokkur umræða hefur orðið um skipulagsmál Grundartangahafnar.  Á vegum hreppanna sunnan Skarðsheiðar er verið að vinna aðalskipulag fyrir þau fjögur sveitarfélög og hefur það m.a. áhrif á Grundartangasvæðið.  Áhersla hefur verið lögð á að iðnaðarsvæðið á Grundartanga verði stækkað frá því sem nú er til þess að auka enn möguleika á starfsemi á svæðinu.  Í framhaldi þyrfti að huga að deiliskipulagi svæðisins í heild en sem stendur er aðeins í gildi deiliskipulag fyrir verksmiðjur Norðuráls, Íslenska Járnblendifélagsins og Grundartangahöfn.  Nauðsynlegt er að skoða gaumgæfilega í því sambandi það svæði sem tæki yfir Klafastaði og Katanes.  Fyrrverandi stjórn hafnarinnar hefur rætt við eiganda Klafastaða, Guðmund Sigvaldason, um kaup á landi hans, en ekki haft erindi sem erfiði.  Hreyfing er nú að koma á það mál að nýju og verður rætt við hann áfram um möguleika þess að fá óvilhalla aðila til að verðmeta landið og ganga til samninga á grundvelli þess. 

 

Þá er rétt að nefna að brýnt er að huga að vatnsöflun og dreifingu á Grundartangasvæðinu og hafa Skilmanna- og Hvalfjarðarstrandarhreppur leitað til Orkuveitu Reykjavíkur í því sambandi, enda litið svo á að sveitarfélögin hafi það verkefni á hendi.

 

Grundartangahöfn, Norðurál og Íslenska Járnblendifélagið rituðu sameiginlega erindi til Vegagerðarinnar um nýjan vegtengingu iðnaðarsvæðisins við þjóðvegakerfið.  Sátt er um nýja veglínu og er verkefnið nú komið inn á vegaáætlun.  Það er því verkefni Vegagerðarinnar að leita eftir því við Skilmannahrepp að hin nýja veglína verði færð í skipulag þannig að unnt sé að hefjast handa við framkvæmd verkefnisins.  Mikilvægt er að þetta verkefni fái greiðan framgang og að hafist verði handa við veglagninguna sem allra fyrst.

 

Þegar litið er á svæðið í heild er ljóst að margt er óunnið til þess að gera það eins álitlegt fyrir starfsemi og kostur er.  Skipulagsmál, vatnsmál, eignarhald lands og fleira þarf að vinna úr og móta heildarsýn á þá starfsemi sem æskilegt og áhugavert er að reka á svæðinu.  Þegar það liggur fyrir getur markaðssetning svæðisins orðið mun öflugri en er í dag.


Ný hafnalög.

Þann 1. júlí n.k. taka gildi ný lög um hafnir.  Þau lög hafa allnokkur áhrif á rekstur Grundartangahafnar.  M.a. verða hafnir landsins virðisaukaskattsskyldar, sem mun koma höfninni mjög vel vegna þeirra miklu verkefna sem eru framundan.  Einnig má nefna að taka þarf ákvörðun um rekstrarform hafnarinnar og sem stendur myndi höfnin flokkast undir 8. grein 2. töluliðar laganna, þ.e. höfn í eigu sveitarfélaga með hafnarstjórn.  Rétt er að vekja athygli á því að nú er mögulegt að færa rekstur hafna yfir í hlutafélagaform og kann það að vera álitlegur kostur fyrir Grundartangahöfn, en skoða þarf ýmsa þætti í því efni ef áhugi er á slíku m.a. skattskil slíks fyrirtækis o.fl.  Rétt er þó að hafa í huga að með nýjum hafnalögum er ýmis konar starfsemi hafna í eigu sveitarfélaga sett ákveðin skilyrði, en hlutafélagaformið veitir meiri sveigjanleika í starfseminni.  Þá skal nefna að frá 1. júlí n.k. mun samgönguráðherra gefa út viðmiðunargjaldskrá sem hafnarstjórn getur vikið frá innan ákveðinna marka, en að 12 mánuðum liðnum verður það alfarið í höndum hafnarstjórnar að setja sér gjaldskrá en þó innan ramma laganna.  Ný hafnalög gera ráð fyrir því að ákveðin gjöld megi taka af notendum og að tekjur skuli nota til ákveðinna verkefna.  Þessi mál þarf að skoða með tilliti til reksturs Grundartangahafnar og þeirrar þróunar sem verður á gjaldskrá nágrannahafna, t.d. í Reykjavík og í Hafnarfirði.


Almenn starfsemi.

Um síðustu áramót færðust fjárreiður og færsla bókhalds frá Íslenska Járnblendifélaginu til Klafa í samræmi við samninga þar um.  Þjónustusamningar Grundartangahafnar við Klafa annars vegar og Akraneshöfn hins vegar hafa gengið vel enda nauðsynlegt að stjórnsýsla hafnarinnar, fjárreiður og bókhald séu eins og best verður á kosið.

 

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist hafnarstjórn um lóðarmál.  Fyrirtækið Alur, sem hyggur á endurbræðslu álleyfa var búið að fá úthlutað lóð á hafnarsvæðinu, en ákvað að setja starfsemi sína niður í Helguvík.  Þá hefur verið rætt við Sláturfélag Suðurlands um lóðamál, en niðurstaða þess er að ganga ekki frá formlegum leigusamningi að svo stöddu enda er mikilvægt að huga vel að nýtingu svæðisins næst höfninni áður en ákveðið er hvernig skuli standa að nýtingu þess til framtíðar.  Þá hefur fyrirtækið Þorgeir og Helgi óskað eftir lóð undir rekstur steypustöðvar, en fyrirtækinu hefur verið svarað því að ef það fái verkefni við uppbyggingu Norðuráls þá verði litið jákvætt á að útvega þeim aðstöðu þann tíma sem það verkefni verður í gangi.

 

Í október s.l. önnuðust Grundartangahöfn og Akraneshöfn undirbúning og framkvæmd ársþings Hafnasambands sveitarfélaga, sem haldið var á Akranesi.  Gekk þinghaldið mjög vel fyrir sig og skoðuðu þingfulltrúar aðstæður og hafnarmannvirki á báðum stöðunum.  Þá tók Grundartangahöfn ásamt Akraneshöfn þátt í Sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Kópavogi á síðastliðnu hausti.  Loks má geta þess að Grundartangahöfn hefur komið upp heimasíðu sem veita á upplýsingar um starfsemina.  Uppfæra þarf þá síðu og lagfæra og er verið að skoða ákveðna þætti hvað það varðar.

 

Fjármál.

Eins og ársreikningur Grundartangahafnar ber með sér er hagnaður ársins 2002 74,8 mkr.  Rekstrarkostnaður nam 85,1 mkr. og hækkaði nokkuð milli ára m.a. vegna þess að nauðsynlegt var að sinna viðhaldsverkefnum umfram það sem ráð var fyrir gert auk þess sem nokkrir kostnaðarliðir féllu til, sem ekki verða árlegir útgjaldaliðir svo sem sýningarhald, hafnasambandsþing o.fl.  Handbært fé frá rekstri var hins vegar svipað og hafði verið árið 2001 eða 75,4 mkr. og hækkun á handbæru fé milli ára var 32,5 mkr.  Langtímaskuldir eru nú 115,0 mkr. og lækkuðu um 66,5 mkr. og skipti þar miklu að gengisþróun var afar hagstæð.  Fjárhagsstaða hafnarinnar er því mjög sterk og safnast nú fyrir fjármunir sem koma höfninni verulega til góða þegar farið verður í stækkun hafnarinnar.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust. 

 

Guðmundur Páll Jónsson tók til máls og ræddi aðeins um skipulagsmál hafnarinnar og framtíðarsýn svæðisins.  Davíð Pétursson ræddi um nauðsyn þess að ná sátt um kaup á landinu.  Það væri grundvöllur þess að skipuleggja það.  Gunnar fjallaði um sömu atriði.  Helgi Þórhallsson gat þess að nýtt vegastæði væri ákaflega mikilvægt mál og að hafnarsvæðinu yrði lokað með girðingu.  Lokun svæðisins væri mjög mikilvægt mál.


2. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar hafnarinnar.
Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi ársreikning.  Tekjur eru 85,1 mkr., rekstrarkostnaður 44,4 mkr.  Hagnaður ársins var 74,8 mkr.  Langtímaskuldir eru 115,0 mkr en heildarskuldir 158,1 mkr. og lækkuðu um 73 mkr.  Handbært fé frá rekstri var 75,4 mkr. og handbært fé í árslok 94,8 mkr.
Guðmundur Eiríksson fór yfir flutninga um höfnina á árinu 2002, sem voru vaxandi.  Skipakomum fækkaði lítillega enda þau skip sem komu stærri en áður.


3. Kosning tveggja endurskoðenda til eins árs.
Tillaga er gerð um aðalmenn Ingibjörgu Björnsdóttur og Rúnar Hálfdánarson og till vara Skúla Garðarsson og Pál Snævar Brynjarsson.  Voru ekki aðrar tillögur og eru þau rétt kjörin.

 

4. Önnur mál.
Formaður fór yfir nokkur atriði varðandi rekstur og framtíðarsýn hafnarinnar.  Hann gat þess að sameiginlegur fundur hafi verið haldin með hafnarstjórn Akraneshafnar o.fl.


Guðmundur fór yfir viðhaldsþörf hafnarinnar sem færi vaxandi.  Nauðsynlegt væri að fara yfir þau mál og vinna á þeim verkefnum. 


Hafnarstjóri gat þess að ný lög um urðun og hertar reglur varðandi það.


Elínbjörg spurðist fyrir um hvort eitthvað hafi verið gert varðandi breytingu á reglugerð hafnarinnar.  Hafnarstjóri svaraði því að nauðsynlegt væri að stjórnin annaðist ákveðinn undibúning en kallaði síðan til sameiginlegs fundar eigenda.


Ingi Tryggvason spurði hvort eitthvað hafi verið skoðað varðandi hlutafjárvæðingu hafnarinnar og gerði hafnarstjóri grein fyrir samantekt Jóhanns Þórðarsonar.


Guðmundur Páll nefndi að nauðsynlegt væri að skoða reglugerð hafnarinnar og að sveitarfélögin hittist um það mál.  Hann nefndi einnig að rétt væri að ræða við stjórn Eimskipa um málefni hafnarinnar og stjórn Reykjavíkurhafnar um sameiginleg málefni.


Ásbjörn kom að málum varðandi rekstrarformið.  Hann gat þess að ný hafnarlög gerðu ekki grein fyrir því að ekki væri gert ráð fyrir því að hafnir mynduðu hagnað og því einsýnt að breyta þyrfti rekstrarforminu.  Þetta þyrfti hins vegar að vinna í samvinnu við viðskiptaaðila hafnarinnar.  Því myndi hlutafélagaformið henta betur.


Gunnar nefndi að umræðan væri þörf um þessi atriði.  Á næsta ári verður gjaldskrá hafna frjáls og fleiri atriði þurfi að skoða í þessu sambandi.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 11:00

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00