Fara í efni  

Fulltrúaráð Grundartangahafnar (2002-2004)

1. fundur 26. ágúst 2002 kl. 11:00 - 12:00

Ár 2002, mánudaginn 26. ágúst 2002 kom fultrúaráð Grundartangahafnar saman til fundar í fundarsal í fundarsal Íslenska Járnblendifélagsins að  Grundartanga og hófst fundurinn kl. 11:00.  Fundurinn er jafnframt aðalfundur hafnarinnar.

Mættir voru: Sturlaugur Haraldsson,
 Gunnar Sigurðsson,
 Sigurður Sverrir Jónsson,
 Sigurður Valgeirsson,
 Ásbjörn Sigurgeirsson,
 Sveinbjörn Eyjólfsson,
Stefán G. Ármannsson
Hjördís Stefánsdóttir,
Svandís Vilmundardóttir,
Guðmundur Eiríksson,
Jón S. Stefánsson,
Ingi Tryggvason,
Davíð Pétursson,
Herdís Þórðardóttir,
Guðmundur Vésteinsson,
Elínbjörg Magnúsdóttir,
Eiður Ólafsson.

Auk þeirra Gísli Gíslason, hafnarstjóri Grundartangahafnar.

Fyrir tekið:

1. Stjórn fundarins:

Sturlaugur Haraldsson stakk upp á Gísla Gíslasyni sem fundarstjóra og var það samþykkt.  Gísli gerði grein fyrir samþykkt stjórnarfundar um frestun ákvörðunar um kosningu formanns og fleiri mál  Hann greindi frá boðun fundarins og að hún væri í samræmi við ákvæði 5. greinar reglugerðarinnar.

2. Skýrsla stjórnar.

Sturlaugur Haraldsson flutti skýrslu stjórnar og er hún þannig: ?Rekstur Grundartangahafnar á árinu 2001 gekk vel.  Rekstrarreikningur sýnir hagnað þrátt fyrir verulegt gengistap af lánum í kjölfar mikillar veikingar á gengi íslensku krónunnar, sem reyndar hefur gengið til baka á þessu ári.  Sjóðstreymi sýnir að veltufé og handbært fé frá rekstri er áfram gott og sjóðsstaðan því sterk.  Ekki veitir af þar sem fjárfrek verkefni eru handan við hornið. 

Í upphafi árs 2001 var þjónustusamningur við Íslenska járnblendifélagið um fjárreiður og bókhald endurnýjaður til eins árs.  Samhliða var gerður ráðningarsamningur við Pétur Baldursson í jafn langan tíma.  Pétur lauk störfum upp úr síðustu áramótum og má segja að hann hafi verið hafnarstjóri Grundartangahafnar frá upphafi í um 24 ár.  Reksturinn hefur verið í góðum höndum þennan tíma og vill stjórn hafnarinnar þakka honum sérstaklega fyrir gott starf.

Árið 2001 fór talsverður tími stjórnar í að ræða framtíðarrekstrarfyrirkomulag á Grundartangahöfn.  Niðurstaðan varð sú að í lok síðasta árs var gerður samningur við Akraneshöfn og Klafa ehf. um rekstur hafnarinnar.  Í samningnum felst að hafnarstjórinn á Akranesi annast í umboði stjórnar, framkvæmdastjórn hafnarinnar, gerð fjárhagsáætlana, verksamninga, undirbúning framkvæmda, markaðsmál o.s.frv.  

Klafi ehf. annast hins vegar daglega stjórn á hafnarsvæðinu á Grundartanga sem felst í eftirliti á hafnarsvæðinu og hafnarmannvirkjum, móttöku á skipum og þjónustu við þau.  Auk þessa mun Klafi annast reglubundið viðhald, bókhald, reikningagerð og sjá um fjárreiður fyrir Grundartangahöfn.

Fyrir þennan samning greiðir hafnarsjóður rúmar 3 milljónir króna á ári.  Samninginn telur stjórnin vera hagstæðan fyrir höfnina.  Hann gefur okkur slagkraft til góðra verka.  Með þessu nýtum við vel þá þekkingu og mannafla sem til staðar er á svæðinu.

Samningurinn er uppsegjanlegur í lok yfirstandandi árs, en hann er til tveggja ára.  Eigi síðar en í október á næsta ári munu samningsaðilar fara yfir framkvæmd samningsins og taka ákvörðun um framhald hans.  Mun hann framlengjast sjálfkrafa um eitt ár í senn ef honum er ekki sagt upp.

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að Norðurál stefnir að frekari stækkun á verksmiðju sinni.  Vonast er til að fyrirtækið geti hafist handa við að undirbúa næsta áfanga sem er tvöföldun á núverandi afkastagetu sem er um 90.000 tonn á ári.  Upp úr því ráðgera forsvarsmenn Norðuráls enn frekari stækkun upp í 240.000 tonn og með breytingu á vinnslutækni áætla þeir að komast að lokum í 300.000 tonna framleiðslugetu.

Þessi framvinda mun gera það að verkum að óhjákvæmilega þarf að stækka Grundartangahöfn.  Ekki er fráleitt að ætla að hafist verði handa við lengingu á nýja hafnarkantinum innan þriggja til fjögurra ára ef allt gengur eftir.  Reyndar er undirbúningsvinna og rannsóknir hvað þetta varðar þegar hafnar.

Væntanleg aukin umferð um höfnina hefur leitt af sér viðræður við stærstu viðskiptavini hafnarinnar um réttindi þeirra, forgangsmál, forkaupsrétt, umgengni um höfnina, endurskoðun á vörugjöldum o.s.frv.   Jóni Sveinssyni lögmanni var falið að fara í gegnum þá samninga sem í gildi eru við Járnblendið og Norðurál og útbjó hann góða samantekt um þessi mál. 

Mynduð var þriggja manna nefnd um það verkefni að skoða vegamál og það hvernig umferð væri best háttað um iðnaðarsvæðið.  Þar er markmiðið að bæta aðkomu að iðnaðarsvæðinu og loka það betur af fyrir óviðkomandi umferð.  Nefndin er enn að störfum en ekki er komin niðurstaða í það hvenær Samgönguráðuneytið og síðan Vegagerðin munu veita fjármunum í þetta verkefni.

Nokkrar fyrirspurnir um leigu á landi hafa verið í skoðun í stjórninni um nokkurt skeið.  Þar hefur stjórnin lagt áherslu á að fá inn á svæðið hafnsækna starfsemi en þó með því leiðarljósi að reyna að koma í veg fyrir að framkvæmdir setji skorður á framtíðaruppbyggingu í grennd við hafnarkantinn.

Stjórnin stefnir að því að ná í fjölbreytt iðnaðar- og þjónustufyrirtæki inn á Grundartangasvæðið sem geta notið góðs af nálægðinni við góða höfn og öfluga stóriðju.  Frekari sókn í slíka aðila bíður hins vegar þar til landrými hafnarinnar eykst.

Útlitið er gott fyrir yfirstandandi rekstrarár, áætlanir sem gerðar voru í upphafi ársins gera ráð fyrir um 50 milljóna króna rekstrarhagnaði og að veltufé frá rekstri verði á bilinu 70-80 milljónir króna.


Ég þakka stjórn, fulltrúaráði, hafnarstjóra og viðskiptavinum fyrir ánægjulegt samstarf og býð nýja menn velkomna til starfa. ?  Ekki urðu umræður um skýrsluna.


3. Ársreikningur hafnarinnar.

Svandís Vilmundardóttir fór yfir fyrirliggjandi ársreikning hafnarinnar fyrir árið 2001, en hann var lagður fram endurskoðaður í samræmi við ákvæði reglurgerðar hafnarinnar.  Helstu niðurstöður reikningsins eru eftirfarandi:

Tekjur 79,2 mkr.
Rekstrargjöld 36,7 mkr.
Rekstrarhagnaður 42,5 mkr.
Fjármagnsgjöld 33,1 mkr.
Hagnaður ársins 9,3 mkr.
Veltufjármunir 74,8 mkr.
Skuldir samtals 231,6 mkr.
Handbært fé frá rekstri 76,2 mkr.
Handbært fé í árslok 62,3 mkr.

Sigurður Valgeirsson spurði um ógreiddan arð og svaraði Svandís því að um væri að ræða arð frá Speli ehf.  Elínbjörg óskaði eftir því að sýndur yrði samanburður milli ára í prósentum og Ásbjörn Sigurgeirsson kom inn á svipað atriði varðandi kennItölur fyrir höfnina Guðmundur Eiríksson gerði grein fyrir viðhaldsverkefnum sem unnin hafa verið og verkefnum sem nauðsynlegt er að vinna á næstunni.

4. Skýrsla hafnarstjóra.

Hafnarstjóri fór yfir ýmis mál varðandi rekstur hafnarinnar og fór yfir málefni sem varða skipulag hennar, rekstur og uppbyggingu.  Einnig gat hann atriða sem lúta að frumvarpi til nýrra hafnarlaga og snerta Grundartangahöfn.  Greint var frá þátttöku Grundartangahafnar í Sjávarútvegssýningunni 4. ? 7. september í samvinnu við Akraneshöfn og að Grundartangahöfn í samvinnu við Akraneshöfn munu annast framkvæmd ársþings Hafnarsambands sveitarfélaga þann 10. og 11. október n.k.  Umræður urðu um framtíðarskipulag og rekstur hafnarinnar m.a. um hversu hratt skuli unnið og hversu víðfeðm starfsemin á að vera.  Guðmundur Eiríksson fór yfir skipulagsmálin og rekstur Klafa á svæðinu.  Hann greindi frá því að Klafi muni taka yfir bókhald hafnarinnar á næstunni.

5. Tilnefning endurskoðenda.

Tilnefndir eru:

Ingibjörg Björnsdóttir og Skúli Garðarsson til vara og Rúnar Hálfdánarson og til vara Páll Snævar Brynjarsson.  Eru þessir aðilar rétt kjörnir.

 

Fleira ekki gert,
Fundi slitið kl. 12:00

Gísli Gíslason.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00