Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

11. fundur 21. nóvember 2012 kl. 08:40 - 16:50

Ár 2012, þriðjudaginn 20. nóvember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 16:00.

 

Mætt voru:
Daníel Þór Heimisson, fulltrúi nemenda í FVA
Veronica Líf Þórðardóttir, formaður nemendaráðs Grundaskóla
Sindri Snær Alfreðsson, fulltrúi Hvíta hússins
Karen Guðmundsdóttir, formaður nemendaráðs Brekkubæjarskóla
Valdimar Ingi Brynjarsson, formaður NFFA
Margrét Brandsdóttir fulltrúi Arnardals

Einnig sátu fundinn:
Þröstur Ólafsson, formaður fjölskylduráðs
Einar Brandsson, áheyrnarfulltrúi fjölskylduráðs
Elsa Lára Arnardóttir, varafulltrúi í fjölskylduráði


Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldustofu, ritaði fundargerð.

 

Þröstur Ólafsson, formaður fjölskylduráðs setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Bæjarstjórnarfundur unga fólksins hefur verið haldinn síðan 2002 og er um ellefta  fund að ræða. Þröstur fór yfir 10. bæjarstjórnarfundar unga fólksins frá árinu 2011.

 

Fyrstur tók til máls Daníel Þór Heimisson, fulltrúi Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi..
Daníel fjallaði um írska daga og lýsti ánægju yfir hvernig staðið var að undirbúningi hátíðarhaldanna. Sérstaklega hve vel bærinn var skreyttur og einnig að öll hátíðarhöldin fóru fram í miðbænum. Daníel taldi að bjóða þyrfti upp dagskrá fyrir aldurinn 12-18 ára sem ekki væri mjög útlátasöm fyrir þátttakendur. Hann stakk upp á keppni í óhefðbundnum íþróttum milli hverfa og ratleikjum svo dæmi séu nefnd.
Daníel vildi einnig vekja athygli á hve góð aðstaða er í Skógræktinni, Garðalundi. Hins vegar er aðkoman ekki góð vegna lélegrar götu síðasta spölinn og bílastæði er of fá. Daníel benti á að vekja þyrfti meiri athygli á Garðalundi t.d. með stóru skilti.

 

Næst á mælendaskrá var Veronica Líf Þórðardóttir formaður nemendaráðs Grundaskóla. Veronica fjallaði um íþróttamál. Hún gerði Akraneshöllina að umtalsefni og taldi hana skipta miklu máli í íþróttastarfi bæjarins. Mörgum finnst hitastigið í Akraneshöllinni vera of lágt og lagði Veronica fram hugmynd um að sólarsellur yrðu settar á höllina sem mund safna orku yfir sumarið og nýta mætti til upphitunar yfir vetur.

Um sparkvellina á Akranesi sagði hún m.a.; ?Það eru margir krakkar sem vilja fara í fótbolta á kvöldin en hætta oft við eða mega hreinlega ekki fara vegna aðstæðna. Því miður gengur það ekki alveg eins vel og undanfarin ár þar sem það er oftast engin lýsing á völlunum seinni part dags. Þar sem það byrjar snemma að dimma hér á veturna er mjög erfitt að spila fótbolta utandyra án lýsingar. Ef ljósin yrðu kveikt í nokkra tíma, seinni part dags myndi það strax breyta heilmiklu.? 

Að lokum fjallaði Veronica um brottfall úr íþróttum. Hún taldi að meginástæðan fyrir brottfalli væri sú að það verður miklu meiri alvara í íþróttunum sem hentar alls ekki öllum. Það sé lögð meiri áhersla á keppni og árangur. Það eru margir sem vilja fá að æfa án þess að ætla sér eitthvað meira með því í framtíðinni.
Það væri möguleiki fyrir bæinn að aðstoða íþróttafélögin, t.d. hvetja íþróttafélögin til að bjóða upp á eitthvað fyrir þá unglinga sem vilja ekki skuldbinda sig íþróttinni en vilja samt fá að vera með. Veronica sagði; ?Nú er verið að gera forvarnarstefnu fyrir Akraneskaupstað og er það því gott tækifæri fyrir ÍA að setja sér sína eigin forvarnaráætlun, margsannað er að íþróttir og annað skipulagt félagsstarf hefur mikið og margsannað forvarnargildi. Það er margt sem er jákvætt við íþróttaiðkun og margt sem krakkarnir læra af því að stunda hana. Það verður aukin færni í mannlegum samskiptum, hópkennd verður til, sjálfsagi styrkist og fleiri hlutir sem munu pottþétt nýtast þeim vel í framtíðinni.?

 

Sindri Snær Alfreðsson fulltrúi Hvíta hússins  var næstur á mælendaskrá. Hann fór yfir starfsemi Hvíta hússins og sagði að meiri hluti þeirra sem sækja HH væru strákar.  Oft væru þetta sömu strákar og voru virkir í Arnardal.
Á undanförnum árum hefur starf  Hvíta hússins verið kynnt fyrir  nýnemum Fjölbrautaskólans. Sindri taldi að ráðast þyrfti í merkingar á húsinu hið fyrsta og eftirsóknarvert væri að fá fleiri til að sækja það. 
Sindri Snær vék síðan máli sínu að aðstöðu til hljómsveitaræfinga. Húsnæði í kjallara Íþróttahússins á Vesturgötu, Tjörnin, var nýtt  fyrir hljómsveitir í nokkur ár. Þar var grunnbúnaður s.s. hljóðfæri og söngkerfi. Þessari aðstöðu var lokað fyrir ríflega tveimur árum. Helsti galli við þá aðstöðu var að æfingar urðu að vera á opnunartíma Íþróttahússins. Síðan hafa hljómsveitir þurft að leiga aðstöðu og ekki allir sem hafa efni á því. Sindri Snær sagði síðan frá hvernig þessum málum er háttað í Hafnarfirði en þar geta hljómsveitir fengið aðstöðu en nýta eigin hljóðfæri. Sindri taldi að talsverð þörf væri fyrir æfingarhúsnæði þar sem margir væru að æfa eða hafa áhuga en ekki aðstöðu.

 

Karen Guðmundsdóttir formaður nemendaráðs Brekkubæjarskóla tók næst til máls.
Hún fjallaði um samvinnu milli grunnskólanna og taldi að hún ætti að meiri en nú er. Hún gerði að umtalsefni að innan leikskólanna væru árgangamót og spurði hvort ekki væri hægt að setja þau á dagskrá grunnskólanna. Frá fyrsta bekk í grunnskóla og fram á unglingastig liggja leiðir árganganna ekki saman sem hóps. Karen lýsti þeirri skoðun sinni að þetta verkefni ætti að vera á höndum skólanna frekar en foreldra. Hún taldi að með því að auka kynni innan heils árgangs þá hefði það í för með sér betri anda og kæmi í veg fyrir ríg milli skóla. Af þessu tilefni sagði hún; ?Við eigum frábæra skóla hér báðir grunnskólarnir eru frábærir og svo eigum við líka mjög góða leikskóla og frábæran tónlistarskóla. En ég vil samt reyna að koma meiri samvinnu milli skólanna, það myndi gera margt mikið léttara.?

Að lokum kom hún þeirri skoðun nemendaráðs Brekkubæjarskóla á framfæri að opna mætti sturturnar á Langasandi fyrr á vorin og gott væri að hafa sturtur hjá Aggapalli og huga að aðgengismálum að sandinum.

 

Næstsíðastur á mælendaskrá var Valdimar Ingi Brynjarsson formaður Nemendafélags Fjölbrautarskólans á Vesturlandi

Valdimar fjallaði um Vökudaga sem hann lýsti yfir ánægju með. Hann taldi hins vegar að dagskrá sem höfðaði meira til 16 -18 ára aldurs mætti vera fyrirferðarmeiri. Hann taldi að þátttaka ungmenna geti verið meiri eins og reynt var haustið 2011 en þá stóð hópur ungmenna fyrir málverkasýningu og fleiru. Hann kynnti hugmynd um að nýta mætti tækifærið til að leggja áherslu á forvarnir og kynningar í því skyni. Hann benti á að tímasetning Vökudaga og Forvarnardagsins væri nánast sú sama

Næst ræddi Valdimar um aðkomu Akraneskaupstaðar að félagslífi í FVA og æskilegt væri að Akraneskaupstaður styrkti viðburði sem NFFA ræðst í. Framundan er hæfileikakeppni sem koma mun í staðinn fyrir Tónlistarkeppni sem verið hefur undanfarin ár. Hæfileikakeppnin mun snúast um söng, uppistand, leikin atriði og fleira. Besta frammistaða verður verðlaunuð og einnig valinn fulltrúi í Söngvakeppni framhaldsskólanna.

Valdimar fjallaði líka um hvort Akraneskaupstaður gæti styrkt þá háskólanemendur sem kjósa að búa á Akranesi meðan þeir sækja nám í  Reykjavík. Styrkurinn gæti verið í formi niðurgreiðslu/endurgreiðslu á gangnagjaldi.

Að lokum fjallaði Valdimar um námsframboð í FVA. Á niðurskurðartímum er gerð krafa um lágmarksfjölda í námsáföngum þ.e. 20 nemendur. Ef sá fjöldi næst ekki þá er áfanginn ekki kenndur. Að lokum sagði Valdimar; ?Frá okkar sjónarhóli er það eiginlega bara kostur, þá eru færri í tímum þannig að nemendurnir fá meiri athygli frá kennaranum og hægt er að komast yfir meira efni eða jafnvel fara enn betur ofan í það efni sem verið er að kenna hverju sinni. Og væri gaman að þetta væri tekið til skoðunar.?

 

Síðust á mælendaskrá var Margrét Brandsdóttir fulltrúi Arnardals.

Margrét ræddi sérstaklega um nemendamötuneytið í í Grundaskóla og þá slæmu aðstöðu sem er til að elda hádegisverð frá grunni. Aðstaðan eins og hún er í dag býður ekki upp á mikið meira en upphitun. Hún hrósaði starfsmönnum í mötuneytinu sem gera sitt besta. Margrét taldi að með betri aðstöðu mætti bæta næringargildi matarins og það væri mikilvægt.

Einnig gerði Margrét Akraneshöllina að umtalsefni. Akraneshöllin er að mati hennar frábær fyrir allan aldur, allir sem vilja hafa aðgang og höllin er mikið sótt. Síðan sagði Margrét; ?Bekkjarbróðir minn kom með þá hugmynd að hafa vefmyndavél staðsetta í höllinni þannig ef maður vill t.d. fara að leika sér í höllinni þá getur maður farið inná einhverja ákveðna vefsíðu og gáð hvort höllin sé laus, eða hvort einhver leikur sé í gangi sem manni langar að kíkja á.
Þessi hugmynd væri líka frábær fyrir krakka sem eiga t.d. ekki marga vini en langar samt að fara í höllina og spila með krökkum í staðinn fyrir að vera bara einn.? 

 

Þröstur þakkaði framsögumönnum fyrir áhugaverð erindi og gaf orðið laust.

Einar Brandsson kvaddi sér hljóðs og þakkaði fyrir þetta tækifæri til skoðanaskipta við fulltrúa ungmenna á Akranesi. Einar svaraði ýmsu af því sem bæjarstjórnarfulltrúar höfðu gert að umtalsefni s.s. írska daga, Garðalund, Akraneshöllina, æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir, samvinnu grunnskólanna á nemendagrundvelli, vökudaga, mötuneytismál o.fl..
Einar varpaði fram þeirri spurningu hvort hægt væri að vinna verkefni innan skóla, í Þorpinu sem nýttustu til skreytinga á bænum t.d. á írskum dögum.

Þröstur varpaði fram spurningum til bæjarfulltrúa um ýmislegt sem fram kom í þeirra máli, t.d. hvort hægt er að fá bæjarbúa til að taka meiri þátt í skreytingum bæjarins á hverfavísu á írskum dögum, hvernig auka má þátttöku ungs fólks á hátíðum á Akranesi o.fl. m.a. ástæður þess að það dregur úr aðsókn eftir 16 ára aldur í Þorpinu.

Formaður fjölskylduráðs þakkaði í lokin þátttakendum fyrir fundinn og hvatti fundarmenn til að halda bæjarfulltrúum við efnið.

 

Fundi slitið kl. 16:50

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00