Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

5. fundur 12. desember 2006 kl. 16:23 - 16:30

Ár 2006, þriðjudaginn 12. desember 2006, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0.


 Mætt voru:             Þór Birgisson, formaður NFFA

                              Líf Lárusdóttir, Grundaskóla

                              Lárus Björgvinsson, Brekkubæjarskóla

                              Berþóra Sveinsdóttir, Brekkubæjarskóla

                              Sigurbjörg Gyða Guðmundsdóttir, Arnardal

                              Árni Snær Ólafsson, Grundaskóla

                              Ásdís Sigtryggsdóttir, Hvíta húsinu

 

 Gísli S. Einarsson bæjarstjóri setti fund og stjórnaði umræðum.

 

Einnig sat fundinn Helga Gunnarsdóttir, sviðsstjóri fræðslu-, tómstunda- og íþróttasviðs sem ritaði jafnframt fundargerð.  Jón Pálmi Pálsson bæjarritari stjórnaði útsendingu.


 

Dagskrá:

 

Bæjarstjóri fór nokkrum orðum um tilgang fundarins og mikilvægi þess fyrir bæjarstjórn að hafa samráð við ungt fólk og fór yfir dagskrá fundarins. 

 

Fyrstur tók til máls:

 

Þór Birgisson, formaður unglingaráðs og formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hann byrjaði á að færa bæjarstjóranum blóm í tilefni afmælis bæjarstjórans. Þór fjallaði um starfslýsingu verkefnisstjóra æskulýðs- og forvarnarmála.  Um starfslýsinguna sagði hann meðal annars:

 

?Nú ætla ég að ræða starf Verkefnisstjóra æskulýðs og forvarnarmála. Eftir að hafa lesið starflýsingu verkefnastjórans, kom það mér á óvart hversu víðtækt starfið er. Þetta er ekki lengur einungis miðað við forvarnir eins og til var ætlast í byrjun, heldur er viðkomandi sem fær starfið líka orðinn æskulýðsfulltrúi.

Ég skil vel bæjarstjórn að vilja útvíkka starfið til að fá sem mest út úr því fyrir þennan launakostnað. En er það rétta leiðin að stokka uppí hlutum sem hafa reynst vel?

Hvað ef þetta starf gengur ekki upp? Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn.

 

Það er erfitt að skynja skjótan árangur af forvörnum. Oft er reynt að skilgreina hann með prósentum og viðmiðum en ekki er hægt að sjá hann með berum augum. Þannig að ef verkefnastjóri æskulýðs- og forvarnarmála vill sanna sig á sínu sviði, þarf hann að fara eftir starfslýsingu sinni. Er þá ekki hætta á því að hann velji þá leið sem sýnir árvökulum augum dyggð sína í starfi, þ.e.a.s. sinni yfirborðslegum þáttum starfsins eins og launaútreikningum og starfsmannahaldi. Þá er því miður hætta á því að forvarnir gleymist.?

 

Þór fjallaði síðan um ungt fólk á Akranesi sem sækir háskólanám til Reykjavíkur og sagði í því sambandi:

 

?Nú mun ég tala um Skagamenn sem sækja háskóla. Það er mjög framsækið fólk sem er gott að hafa í bæjarlífinu. En oftar en ekki flytur þetta fólk til Reykjavíkur og glatar því tengslum sínum við Skagann. Þetta er eitthvað sem bærinn ætti að taka þátt í að fyrirbyggja. Ég er ekki að segja að bærinn eigi að borga námið eða neitt svoleiðis. Það er svo lítið sem þarf til að fólki líði vel. Ein hugmynd er að gefa háskólanemum strætókort, það myndi slá 2 flugur í einu höggi. Ýta undir notkun strætó og halda háskólanemum á Akranesi. Margt smátt gerir eitt stórt.?

 

Þór óskaði síðan eftir að bæjarstjórnarfundur unga fólksins yrði haldinn fyrr að haustinu þar sem þessi tímasetning hentar nemendum mjög illa.

 

Líf Lárusdóttir, formaður nemendaráðs Grundaskóla og fulltrúi í unglingaráði, tók næst til máls og byrjaði á að vitna til bæjarstjórnarfundar unga fólksins árið 2005 og sagði ánægjulegt að bæjarstjórn skyldi bregðast við óskum um styrk til handa nemendafélaginu í Brekkubæjarskóla. Líf óskaði eftir sams konar styrk til handa nemendafélagi Grundaskóla við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2007.  Hún taldi að huga ætti meira að jákvæðum fréttum í bæjarfélaginu og draga fram allt það glæsilega starf á sviði tónlistar, leiklistar og íþrótta sem unglingar og ungt fólk er að iðka í bænum. Hún gerði að umtalsefni að flest sem lýtur að aðstöðu ungs fólks er til mikillar fyrirmyndar sem og þjónusta í bæjarfélaginu. Hún hvatti bæjarstjórn til að hugsa stórt og nýta sóknarfærin sem eru á hverju strái og sagði að lokum:

 

?Ungt fólk á Akranesi hvetur bæjarstjórn Akraness til að hugsa stórt. Hugsa til framtíðar. Hér eru endalaus sóknarfæri á öllum sviðum. Bærinn er að stækka, atvinnutækifærum fjölgar, nálægð við Reykjavíkursvæðið gefur fleiri valmöguleika, bættar samgöngur efla tengslin og svo mætti lengi telja. Við skulum sameinast um allt það jákvæða og byggja síðan á því til að gera betur í ýmsu sem betur má fara. Á Akranesi er ein besta íþróttaaðstaðan á landinu og þó víðar væri leitað, við eigum frábæra leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, öfluga heilsugæslu, tónlistarskóla og fjölda verslana. Þjónustustigið er hátt og velvilji og þjónustulund ríkjandi. Akranes á líka heilbrigða æsku, einstaklinga sem skara framúr í íþróttum í hinum ýmsu íþróttagreinum, í námi, í tónlist, í myndlist og svo mætti lengi telja. Ef marka má rannsóknir hinna ýmsu háskólastofnana þá standa ungir Akurnesingar sig betur gagnvart neyslu áfengis, tóbaks og annara eiturefna heldur en jafnaldrar þeirra í öðrum sveitarfélögum. Við komum stolt fram fyrir hönd okkar bæjar í íþróttakeppnum, á tónleikum, á leiksýningum og bara dags daglega. Við erum Akurnesingar og ætlum að bera höfuð hátt og gera alltaf okkar besta. Ég held að þið fullorðnu mættuð oftar vera bara stolt af okkur í stað þess að sjá það sem betur má fara hjá einstaka manni. Unglingsárin eru stundum tími mikilla átaka. Ég minni hins vegar okkur öll á að án átaka verður enginn þroski.?

 

Lárus Björgvinsson, fulltrúi í nemendaráði Brekkubæjarskóla, kvaddi sér hljóðs og gerði tvennt að umtalsefni. Annars vegar Ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum og hins vegar Akraneshöllina.  Um ungmenna- og tómstundabúðirnar sagði hann meðal annars:

 

?Mér persónulega finnst mjög mikilvægt að þessi dvöl nemenda í 9. bekk verði fest í sessi í skólastarfinu hérna á Akranesi.  Þátttökugjald fyrir hvern nemanda er 10.000 krónur og tel ég að þeim peningum sé vel varið.  Innifalið er fæði og aðstaða að Laugum, allur kostnaður við námskeið og viðburði og ferðin að Eiríksstöðum.  Hvað kosta einar góðar gallabuxur?  Kannski væru foreldrar tilbúnir að taka þátt í kostnaði við dvöl að Laugum, það mætti að minnsta kosti kanna það.

 

Umgmenna- og tómstundabúðirnar eru bara ætlaðar nemendum úr 9. bekk og þær eru reknar í anda hugmyndafræði Ungmennafélags Íslands.  Lögð er áhersla á tómstundir og mikilvægi þeirra í forvarnarstarfi.  Aðalmarkmið með dvölinni er að efla sjálfstraust, þjálfa nemendur í að koma fram og viðra skoðanir sínar og gera þá um leið hæfari til að taka þátt í félagsstarfi.  Í þessari þjálfun takast nemendur á við ýmisviðfangsefni sem snerta sjálfstæð vinnubrögð, framkomu, ræðumennsku og tjáningu.  Einnig fá nemendur að kynnast sögu Íslands og fara í heimsókn að Eríksstöðum í Haukadal og fræðast líka um söguslóðir í nágrenni Lauga.?

 

Um Akraneshöllina sagði Lárus:

?Annað mál sem mig langar til að fjalla um er Akraneshöllin.  Hún er flott og nytsamleg og bæjarfélaginu til sóma.  Nú getur Akranes boðið upp á mjög flotta keppnisaðstöðu.  Þar sem aðhún er aðallega notuð á veturna, sem er kaldasti tími ársins, þá finnst mér alveg hræðilegt að hún sé hvorki einangruð né upphituð.  Krakkar eru í snjóbuxum í leikfimi útaf kulda. Ég var starfsmaður á móti 3. des. síðastliðinn og þar voru margir áhorfendur sem kvörtuðu undan kulda og einnig yfir klósettleysi.  Höllin er hins vegar byggð þannig að detti mönnum í hug íframtíðinni að einangra hana þá er hún nógu sterk til þess að þola einangrun.  Ég vona því að það verði raunveruleiki í framtíðinni að höllin verði einangruð og upphituð.  Hins vegar veit ég að það á eftir að koma tengibygging á milli núverandi sundlaugar og hallarinnar og þá batnar eflaust salernisaðstaðan og þá kemur líka veitingahús.  Við getum því hlakkað til þegar að þessi aðstaða verður öll komin.  Þegar svæðið verður fullbyggt verður þetta eflaust eitt flottasta íþróttasvæði á landinu og verður þá um leið liður í því að efla íþróttastarf hérna á Akranesi.  Íþróttastarfið er líka einn mikilvægasti liðurinn í forvarnarstarfinu hér í bænum.?

 

 Bergþóra Sveinsdóttir, formaður nemendaráðs Brekkubæjarskóla og fulltrúi í unglingaráði tók næst til máls og þakkaði fyrir stuðning bæjarstjórnar á árinu sem notaður var til að bæta félagsaðstöðu í skólanum. Bergþóra fjallaði um að hægt væri að hafa meiri samvinnu milli skólastiga og félagsmiðstöðva til að auka skapandi starf ungs fólks og sagði í því sambandi meðal annars:

 

?Finna leið til að tengja saman allt það góða og skemmtilega sem krakkar á öllum aldri eru að gera hér. Til dæmis væri gaman að vera með sameiginlegt verkefni í báðum grunnskólunum, tónlistarskólanum, Fjölbraut og svo úr Arnardal og Hvíta húsinu. Þetta gæti verið í tengslum við Vökudaga eða þá í mars/apríl í kringum páskana. Þarna gæti verið um að ræða tónlist, söng og hljóðfæraleik, upplestur, leikrit, ljóð og sögur, myndlist,  íþróttasýningar og keppni í íþróttahúsunum og allt mögulegt sem krakkar eru að gera. Þessi hátíð gæti verið haldin í Bíóhöllinni að hluta, í skólunum eða í einhverju íþróttahúsanna.  Hátíðin gæti heitið ?Hátíð unga fólksins? eða ?Skemmtidagur æskunnar? eða eitthvað annað sem lýsti því á einhvern hátt.  Það væri til dæmis hægt að taka eina heila viku, eða lengri tíma, í kringum hátíðina og gefa krökkunum tíma til að vinna sjálf að einhverjum verkefnum undir handleiðslu kennara og annars starfsfólks.?

 

Einnig gerði hún að umtalsefni að æskilegt væri að kennsluhættir væru fjölbreyttari og sagði meðal annars:

 

?Mig persónulega langar rosalega til að hafa fjölbreyttari kennsluhætti en nú eru. Ég verð rosalega þreytt á vera endalaust í bókum og langar að gera eithvað annað. Það væri hægt að hafa meira verklegt og nota það sem við lærum í bókunum og finna út úr því hvernig hægt er að nota það í lífinu.  Vinna þemaverkefni, skipta árgöngum á milli skóla og enda síðan með sameiginlegri skemmtun.  Það er svo margt hægt að gera sem gæti verið skemmtilegt.? 

 

Bergþóra ræddi ennfremur um heimanám og gildi þess að ungt fólk fylgdist með því sem er efst á baugi í samfélaginu á hverjum tíma.

 

Sigurbjörg Gyða Guðmundsdóttir,  fulltrúi Arnardals og fulltrúi í unglingaráði kom næst í ræðustól og þakkaði bæjarstjórn fyrir þær endurbætur sem gerðar hafa verið í Arnardal á síðasta ári. Hún sagði frá starfi á vegum Samtaka félagsmiðstöðva og hve vel hafi tekst til með allar samkomur sem eru á vegum Samfés. Hún kom með ábendingu til bæjarstjórnar um að efla bæri félagssstarf með unglingum og sagði af því tilefni eftirfarandi:

 

?Eins og ég sagði í upphafi þá höfum við góða aðstöðu í Arnadal en hann er bara opinn á  veturna. Á sumrin höfum við unglingarnir enga aðstöðu til þess að hittast og verðum því meira áberandi og förum að hanga í sjoppum bæjarins eða niðri í bæ.

Mín tillaga er sú að hafa meira félagsstarf fyrir unglinga á sumrin. Til dæmis að halda einstaka sinnum böll af því að á sumrin er oft gott veður og gæti verið gaman að fara á böll  eða sundlaugarpartí, blak í skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Svo væri hægt að fara í einhverjar ferðir eða útilegur eða halda einhvern félagsviðburð þar sem allir unglingar geta tekið þátt.

Það gæti líka orðið gaman að tvinna þess félagsstarfsemi við vinnuskólann. Í vinnuskólanum eru margir krakkar 13-17 ára gamlir. Ég hef sjálf verið í vinnuskólanum og í þann tíma sem ég vann fannst mér eitthvað vanta. Við unnum eins vinnu allan daginn, alla dagana. Þá vil ég enduvekja Skógræktarleikana þar sem Vinnuskólinn gerði sér glaðan dag og hélt óhefðbundið íþróttamót í Skógræktinni.?

Árni Snær Ólafsson fulltrúi  í nemendaráði Grundaskóla tók því næst til máls. Hann gerði að umfjöllunarefni þau tækifæri sem felast í að halda bæjarstjórnarfund unga fólksins og dæmin sönnuðu að ýmis mál sem fram hafa verið borin á þessum vettvangi hefðu náð fram að ganga. Síðan sagði hann:

 

?Ungt fólk tekur virkan þátt í fegrun bæjarins. Flest ungmenni vinna í vinnuskólanum og taka því á hverju ári þátt í þessum framkvæmdum. Það er mitt mat að enn betur megi virkja ungt fólk á þessum vettvangi. T.d. má varpa hér fram þeirri hugmynd að bæjarstjórn kalli eftir hugmyndum frá vinnuskólakrökkunum um hvar megi taka til hendinni eða hvort ráðast megi í einhver ný verkefni yfir sumartímann. Á þann hátt gæti ungt fólk unnið að eigin hugmyndum hvort sem viðkomandi verkefni er fólgið í gerð bæjarlistaverks, gróðursetningu eða einhverjum ákveðnum hönnunarverkefnum. Framlag unga fólksins þarf nefnilega ekki bara að vera fólgið í því að slá, sópa eða reyta arfa. Með svona vinnubrögðum er líklegt að unga fólkið sýni verkefnum sínum aukinn áhuga og virkni yrði meiri. Þetta er jú okkar samfélag og okkur stendur alls ekki á sama hvernig umhverfi okkar er.

 

Á síðustu misserum hefur mikið verið rætt um hlýnun á jörðinni. Það er ekki svo einfalt að ég geti komið með einhverja eina lausn á því vandamáli. Hitt vil ég þó leggja áherslu á að við getum ekki látið þessi tíðindi fara framhjá okkur eins og okkur komið þetta ekki við. Börnin okkar erfa það sem við skiljum við. Aukin mengun í heiminum og göt á ósonlaginu er orðin staðreynd. Við unga fólkið getum gert miklu betur í umhverfismálum heldur en við gerum í dag. Við getum sinnt endurvinnslu og flokkun betur, valið umhverfisvænar vörur og svo mætti lengi telja. Byrjunin er kannski sú að veita þessum málum aukinn áhuga því það er upphafið að öðru og meira.

 

Einhverjum kann að finnast þessi ræða hámenningarleg en við viljum ekki bara stoppa við daginn í dag, heldur horfa fram á við. Umhverfismál eru örugglega mál sem þarf að ræða þegar horft er til framtíðar. Okkur Skagamönnum ber að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Ég geri það að tillögu minni hér að Akraneskaupstaður skapi betri aðstæður fyrir almenning að flokka sorp á heimilum, í stofnunum og í fyrirtækjum. T.d. þarf að niðurgreiða kostnað vegna sorpsöfnunar, hafa á boðstólum hentugar tunnur og ílát. Kostnaður má ekki fæla neinn frá þessari vinnu. Hér fjárfestum við til framtíðar. Þessa vinnu má t.d. byrja í stofnunum Akranesbæjar. Kenna og fræða fólk um fyrirkomulag þessara mála þannig að vitneskjan færist út til íbúanna almennt.?

 

Ásdís Sigtryggsdóttir, fulltrúi Hvíta hússins fjallaði um tvö atriði í sinni ræðu. Annars vegar mikilvægi þess að búa brú milli grunn- og framhaldsskóla og hins vegar starfsemi Hvíta hússins. Um skil milli grunn- og framhaldsskóla sagði hún meðal annars:

 

?Mér er afar hugleikið að brúa það bil sem að oft vill myndast meðal grunn og framhaldskólanema, og þá líka fyrsta árs nema og annara nema í FVA. Þessi 2 ár eru oft mjög mikilvæg í lífi unglinga, og er það líka oft á þessum árum sem að unglingar byrja að fikta við sjálfskaðandi hegðun, svo sem fíkniefni og reykingar.

            Það er afar lítið í boði fyrir 16 ára unglinga sem að eru nýútskrifaðir úr grunnskóla. Þeir fá jú tækifæri til að vinna í vinnuskólanum, og er það allt saman gott og blessað, en allt félagslíf virðist lamast um leið og skóla er slitið. Lítið sem ekkert er í boði fyrir unglinga undir 18 ára aldri um sumur, allt félagslíf virðist liggja niðri og er lítið um skipulagðar skemmtanir. Krakkarnir hafa ekkert að gera um helgar eða á kvöldin, og virðist það þá vera kjörið tækifæri fyrir þau til þess að fara og skemmta sér með áfengi við hönd í foreldralausum partýum og öðru slíku. Að mínu mati væri hægt að gera mikið til þess að bæta þetta, og jafnvel koma í veg fyrir mikið af þessum umsjárlausu skemmtunum með því að gefa þessum krökkum einhver önnur skemmtanaúrræði yfir sumartímann.

            Það sem að mér dettur helst í hug er að tengja þetta við vinnuskólann. Flestir eru jú í vinnuskólanum sumarið eftir 10. bekk og margir eru þar allt fram á fyrsta ár í framhaldskóla.  Vinnuskólinn hér er öflugur og er þáttaka í honum oftast mjög góð.  Ég held að það væri ekki slæm hugmynd að hafa skipulagðar skemmtanir á vegum vinnuskólans einhverjar helgar eða kvöld yfir sumartímann og eru hugmyndir að slíkri skemmtun nánast óþrjótandi. Það væri til dæmis hægt að fara saman til Reykjavíkur, fara í bíó eða í keilu, út að borða og svo framvegis. Einnig finnst mér ekki vitlaust að hafa opið í Arnardal og Hvíta húsinu einhverja daga yfir sumartímann, það væri hægt að halda þar lítil böll, vídíókvöld og annað þvíumlíkt um leið og ungmennunum yrði gefinn kostur á því að eyða tíma með vinum sínum í uppbyggjandi og vímulausu umhverfi.  Ungmenni yfir 18 ára aldri hafa flest möguleika á því að sækja aðrar skipulagðar skemmtanir, en þeir sem að hafa ekki enn náð þeim aldri virðast hafa mjög lítið fyrir stafni um sumartímann.?

 

Og um starf Hvíta hússins sagði hún:

 

?Annað málefni sem að mig langaði að koma inná, er Hvíta húsið og innviðir þess. Nú er ég hér fyrir hönd Hvíta hússins og  er það hús og sú starfsemi sem að þar fer fram öll mjög góð og blessuð. Aðsókn hefur aukist í húsið og er það alltaf að festa sig betur og betur í sessi sem félagsmiðstöð fyrir fólk á aldrinum 16 ? 25 ára. Þó má alltaf gera betur og mættum við að mínu mati taka 88 húsið í Reykjanesbæ okkur til fyrirmyndar. Í 88 húsinu er margt sem að er til eftirbreytni. Þar hefur Reykjanesbær náð að samræma þarfir margra hópa í einu húsi. Má þar til dæmis nefna að í húsinu eru nokkur billardborð sem að unglingarnir sækja mikið í, en einnig eru þau ein vinsælasta afþreying eldri borgarna á svæðinu  sem að eru með sérstakan klúbb sem að stundar billiard þar 2svar í viku og sögur herma að færri komist að en vilji. Aðstaða í húsinu er öll til fyrirmyndar, í kjallaranum er aðstaða fyrir hjólabretta og línuskauta áhugamenn, með rampi og öllu tilheyrandi. Húsið sameinar bæði venjulega félagsmiðstöð með borðtennis, billjard og pílu, sjónvarpsaðstöðu og kaffihúsi og þar að auki  er æfingaraðstaða fyrir tónlistarmenn á sama stað.?

 

 

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri þakkaði fyrir ræður bæjarfulltrúa.  Gísli spurði síðan bæjarfulltrúana út í ýmislegt úr ræðum þeirra og voru þau málefni sem gerð höfðu verið að umtalsefni rædd frekar.

 

 

Fundi slitið kl. 16:30

 

Helga Gunnarsdóttir, fundarritari (sign)

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00