Fara í efni  

Hugmyndasamkeppni

Skipulag og hönnun Langasandssvæðisins á Akranesi

Akraneskaupstaður opnaði í byrjun desember síðastliðinn fyrir rafræna íbúakönnun um þarfir, upplifun og framtíðarsýn íbúa um Langasandssvæðið fyrir væntanlega hugmyndasamkeppni. Könnunin var opin út janúarmánuð. Hér að neðan er að finna kynningarmyndband sem segir það helsta um fyrirhugaða hugmyndasamkeppni. Þann 22. janúar var auglýst forval vegna hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðisins. Nánari upplýsingar um forvalið má einnig finna hér að neðan.


Forval vegna hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðis á Akranesi

Akraneskaupstaður auglýsir eftir þátttakendum í forval fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðis og nærumhverfis. Samkeppnin er haldin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA.

Markmiðið með samkeppninni er að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Hér þarf að horfa á allt svæðið við hönnunar- og skipulagsvinnu. Sjá nánar afmörkun á korti.

Afmörkun á svæðinu sem um ræðirAfmörkun á svæðinu sem um ræðir

Svæðið er um 35 hektarar að stærð og er stór hluti svæðisins innan hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Það tekur yfir útivistarsvæði frá Leynisfjöru, Sólmundarhöfða, meðfram Langasandi að Faxabraut. Eftir svæðinu liggur strandstígur, íþróttasvæðið að Jaðarsbökkum, íbúðabyggð á Sólmundarhöfða, hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði sem og fjölbýlishúsalóðir við Garðabraut, Höfðabraut og Jaðarsbraut.

Fyrirkomulag:

Valin verða þrjú teymi til þátttöku í samkeppninni og mun hvert þeirra fá þátttökugreiðslu að fjárhæð kr. 1.500.000 án vsk. Í desember var opnað fyrir rafræna íbúakönnun um viðhorf íbúa til svæðisins og framtíðarskipulags sem verður veganesti inn í vinnu teymanna. Könnunin verður opin út janúar, nánari upplýsingar hér neðar á síðunni. Að auki verður greitt fyrir vinnings tillöguna kr. 1.000.000 án vsk og stefnir sveitarfélagið að því að ráða vinningsteymi til að vinna deiliskipulag fyrir svæðið.

Sveitarfélagið áskilur sér þann rétt til að nýta allar tillögur, hvort sem að hluta til eða í heild.

Skilyrði fyrir þátttöku í forvali:

 • Teymi skulu vera þverfagleg og í hverju teymi skal vera a.m.k. einn landslagsarkitekt.
 • Kostur er að teymi séu fjölbreytt er varðar reynslu, aldur og kyn.
 • Starfsreynsla innan viðkomandi fagsviðs skal ekki vera minni en sjö ár hjá a.m.k. tveimur aðalmönnum í teymi.
 • Í hverju teymi skal vera aðili sem hefur leyfi til að gera skipulagsáætlanir skv. 25. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
 • A.m.k. einn aðili innan teymis skal áður hafa hlotið verðlaun eða viðurkenningu í hönnun opinna svæða eða skipulagssamkeppnum.
 • Með umsókn þarf að leggja fram upplýsingar og sýnishorn af a.m.k. þremur sambærilegum hönnunar og skipulagsverkefnum.

Valnefnd skipuð fulltrúum sveitarfélagsins og forvalsfulltrúa FÍLA mun meta hvaða teymi uppfylla viðeigandi skilyrði fyrir þátttöku. Umsóknir sem uppfylla skilyrðin verða sett í pott og dregið verður um hvaða þrjú teymi munu taka þátt í samkeppninni. Útdráttur verður í viðurvist votta. Ef ekkert teymi uppfyllir skilyrði þá munu þau teymi sem uppfylla flest skilyrði verða valin. Niðurstaða útdráttar mun liggja fyrir 7. mars 2021 og skilafrestur á tillögum valinna teyma er 30. Júní.

Í dómnefnd eru fyrir hönd Akraneskaupstaðar, Ragnar B. Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs, Ólafur Adolfsson aðalmaður í skipulags- og umhverfisráði og Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi. Fulltrúar FÍLA eru Hermann Georg Gunnlaugsson landslagsarkitekt og skipulagsfræðingur, SFFÍ og Hildur Gunnlaugsdóttur arkitekt, AÍ. Verkefnastjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar er Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri og trúnaðarmaður dómnefndar er Ólafur Melsted landslagsarkitekt FÍLA.

Þeir sem vilja taka þátt í forvalinu eru beðnir um að senda upplýsingar á akranes@akranes.is fyrir 15. febrúar 2021 merkt „Þátttaka í forvali um skipulag og hönnun Langasandssvæðis“.

Nánari upplýsingar veitir Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri, saediss@akranes.is


Rafræn íbúakönnun opin frá desember til janúar 2021

Akraneskaupstaður mun í ársbyrjun 2021 efna til hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðis á Akranesi í samstarfi við FÍLA, félag íslenskra landslagsarkitekta. Markmiðið með samkeppninni er að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Þetta er stórt verkefni um dýrmætt svæði og því mikilvægt að kalla eftir skoðunum flestra. „Við viljum hefja þessa vegferð og skapa svæði sem mótast af vellíðan og heilsu fyrir alla notendur og skiptir okkur máli að fá íbúana með í lið en þetta svæði er okkar svæði“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Í ljósi heimsfaraldurs var ekki hægt að vera með hefðbundna íbúafundi og var þess í stað útbúin rafræn viðhorfskönnun um þarfir, upplifun og framtíðarsýn íbúa um svæðið. Fengu hér íbúar tækifæri að láta sínar skoðanir, þarfir og áherslur í ljós. Niðurstöður könnunarinnar verða fylgigagn við auglýsingu um samkeppnina. Könnunin samanstóð af sextíu spurningum sem flestar voru krossaspurningar og tók um 15 mínútur að svara. Þátttakendur höfðu kost á að komast í pott sem dregið var úr um og fengu einhverjir heppnir gjöf að launum. ALLIR ungir sem aldnir voru hvattir til að taka þátt. Könnunin var opin út janúarmánuð.


Kynningarmyndband um fyrirhugaða samkeppni

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00