Fara í efni  

Bæjarstjórn

1424. fundur 09. desember 2025 kl. 17:00 - 21:55 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Ragnar B. Sæmundsson 2. varaforseti
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Liv Aase Skarstad aðalmaður
  • Guðmundur Ingþór Guðjónsson aðalmaður
  • Jónína Margrét Sigmundsdóttir aðalmaður
  • Sædís Alexía Sigurmundsdóttir aðalmaður
  • Ragnheiður Helgadóttir varamaður
Starfsmenn
  • Haraldur Benediktsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2505239 Fundir bæjarstjórnar 2025.

Verði afbrigðin samþykkt verður málið nr. 12 í dagskránni og númeraröð annarra mála sem á eftir koma hliðrast sem því nemur og verða nr. 12 til og með 17.

Samþykkt 9:0

1.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Fjárhagsáætlun 2026

2510100

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 27. nóvember 2025 endurskoðaða fjárhagsáætlun Heilbrigðisteftirlits Vesturlands vegna ársins 2026 og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlis Vesturlands vegna ársins 2026.

Samþykkt 9:0

2.Breytingar á gjaldskrá skipulags- og umhverfissviðs

2510009

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 27. nóvember 2025 breytingar á gjaldskrá Akraneskaupstaðar fyrir skipulags- og byggingarmál og tengd þjónustugjöld og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingar á gjaldskrá Akraneskaupstaðar fyrir skipulags- og byggingarmál og tengd þjónustugjöld og að hún verði send til birtingar í Stjórnatíðindum.

Samþykkt 9:0

3.Gjaldskrá fyrir úrgangsmál - fyrir 2026

2510012

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 27. nóvember 2025 framlagða gjaldskrá úrgangsmála fyrir árið 2026 og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Til máls tóku:
SAS og LÁS.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða gjaldská úrgangsmálum fyrir árið 2026 og að hún verði send til birtingar í Stjórnatíðindum.

Samþykkt 9:0

4.Uppbygging mannvirkja á Jaðarsbökkum - skipan starfshóps.

2510054

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 27. nóvember 2025 erindisbréf starfshóps varðandi uppbyggingu mannvirkja á Jaðarsbökkum og vísaði til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Til máls tóku:
EBr og VLJ úr stóli forseta.

Bæjarstjórn samþykkir erindisbréf starfshóps varðandi uppbyggingu mannvirkja á Jaðarsbökkum en gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum á vormánuðum 2026.

Samþykkt 9:0

5.Framkvæmdaleyfi Sjóvarnir við Grenjar, Slippurinn

2511185

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, fyrir gerð sjóvarnar við Grenjar.
Til máls tóku:
GIG og RBS.

Bæjarstjórn samþykkir að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 fyrir gerð sjóvarnar við Grenjar en um er að ræða um 120 metra sjóvörn og áætlað grjótmagn um 500 rúmmetrar.

Samþykkt 9:0

6.Reglur 2026 - afsláttur af fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega

2512021

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 reglur Akraneskaupstaðar um afslátt af fasteignagjöldum eldri borgara og öryrkja á árinu 2026 og vísaði þeim til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.
Bæjarstjórn samþykkir reglur um afslátt af fasteignagjöldum eldri borgara og öryrkja vegna ársins 2026.

Samþykkt 9:0

7.Höfði - Fjárhagsáætlun ársins 2026 og vegna tímabilsins 2027 til og með 2029.

2511024

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 að vísa fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029, til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Forseti óskar eftir að varaforseti leysi hann þar sem hann hyggst taka virkan þátt í umræðum um fjárhagsáætlun.
EBr tekur við stjórn fundarins.

Forseti gerir tillögu um að mál nr. 7, nr. 8 og nr. 9 verði tekin til umræðu saman.
Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 9 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárhagsáætlun Höfða undir lið nr. 7 og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun undir lið nr. 8.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029.

Samþykkt 9:0

8.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029.

2507075

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 að vísa fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029.

Samþykkt 9:0

9.Fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027-2029.

2505217

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 að vísa fjárhagsáætlun vegna ársins 2026 og þriggja árá áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tóku:
HB sem gerir grein fyrir helstu breytingum á milli umræðna sem og helstu forsendum fjárhagsáætlunarinnar.

Framhald umræðu:

VLJ, RBS, SAS, KHS og VLJ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Akraneskaupstaðar vegna tímabilsins 2026 - 2029:

Í fjárhagsáætlun ársins 2026 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um tæplega 150 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 92 milljónir króna. Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum upp á rúmlega 980 milljónir króna, en eftir nánast algert framkvæmdastopp á árinu 2025 fetum við okkur hægt og rólega af stað aftur í að ráðast í mikilvægar og tímabærar framkvæmdir. Gleymum því þó ekki að á undanförnum árum hefur Akraneskaupstaður farið í gegnum eitthvert mesta framkvæmdaskeið í sögu kaupstaðarins og það mun taka tíma að ná aftur fyrri styrk hvað fjárfestingargetu bæjarsjóðs varðar.

Gjaldskrár kaupstaðarins hækka almennt um 3,5% þann 1. janúar 2026 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrám, en með þessari hóflegu hækkun stendur Akraneskaupstaður við skuldbindingar sínar, sem tengjast gildandi kjarasamningum á vinnumarkaði.

Álagningarprósenta fasteignagjalda verður óbreytt frá fyrra ári. Um árabil gekk Akraneskaupstaður mjög langt í að lækka þessa skattheimtu og þannig var á árinu 2017 álagningarprósentan fyrir íbúðarhúsnæði 0,3611% en verður 0,2714% vegna ársins 2026. Hámarks álagningarprósenta samkvæmt lögum er 0,5% og því er óhætt að segja að Akraneskaupstaður hlífi íbúum sínum verulega við þessari gjaldheimtu og afsali sér þannig talsverðum tekjum með lægri prósentu en lög gera ráð fyrir.

Staðan á íslensku efnahagslífi og alþjóðlegu hefur ekki gert rekstrarumhverfi sveitarfélaga auðvelt og sérstaklega ekki þeirra sem þurft hafa að standa í miklum fjárfestingum eins og Akraneskaupstaður hefur verið í. Við trúðum því fyrir ári síðan og trúum því enn nú, að nú sjái hugsanlega fyrir endann á háu vaxtastigi og hárri verðbólgu og batamerki eru sjáanleg í rekstrarumhverfinu. Við munum samt fara varlega og gerum til að mynda ekki ráð fyrir neinum tekjum af uppbyggingu eða lóðasölu á nýju ári. Þetta þýðir ekki að við höfum ekki trú á því að fólk hafi áhuga á að byggja húsnæði á Akranesi, heldur þýðir þetta einfaldlega að hver einasta króna sem kemur inn vegna uppbyggingar á árinu 2026 mun flokkast sem tekjur umfram áætlun. Mörg sveitarfélög setja áætlanir sínar fram með þessum hætti og við teljum það ákveðið hraustleikamerki á bæjarsjóði Akraness að við skulum geta sett okkar áætlun fram á sama hátt.

Nokkrar breytingar urðu á áætluninni á milli umræðna í bæjarstjórn og má þar helst nefna að áætlaðar tekjur vegna greiðslu arðs frá Orkuveitu Reykjavíkur eru lækkaðar um 110 milljónir, bætt var við útgjöldum vegna innleiðingar rafrænna klippikorta á gámasvæði og vegna lagfæringa á Grundaseli, en það er framkvæmd sem nauðsynlegt er að ráðast í hið fyrsta. Einnig var bætt við fjármunum vegna leikvalla og vegna lóðar Grundaskóla í framkvæmdaáætlun, svo nokkuð sé nefnt. Þá hækka tekjur vegna gatnagerðargjalda um 130 milljónir, en þar er um að ræða bókfærslu á greiðslum sem þegar hafa skilað sér til bæjarins.

Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar lögðu bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra fram tillögur vegna fjárhagsáætlunar í 9 tölusettum liðum. Reynt var að bregðast við þeim eftir bestu getu á milli umræðna og allnokkrar þeirra breytinga sem urðu á milli umræðna má rekja til þessara tillagna. Þá má einnig nefna að nú við síðari umræðu er gert ráð fyrir fjármunum til veitingar stofnframlaga til kaupa eða uppbyggingar á félagslegu húsnæði, með það fyrir augum að Akraneskaupstaður geti í kjölfarið selt einhverjar þeirra íbúða sem eru í hans eigu. Einnig var vinnu við tillögu að nýju skipuriti Akraneskaupstaðar lokið og málinu skotið til bæjarstjórnar til umræðu og afgreiðslu. Sumar af tillögunum snúa að hlutum sem þegar eru til umræðu og vinnslu í stjórnsýslu bæjarins og aðrar eru þess eðlis að þær þurfa lengri tíma og umræðu en svo að raunhæft væri að klára þær allar fyrir síðari umræðu um fjárhagsáætlun.

Við, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þökkum bæjarfulltrúum Framsóknar og frjálsra fyrir fyrrnefndar tillögur og jafnframt þökkum við fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum við gerð fjárhagsáætlunar áranna 2026 - 2029. Samstarf meiri- og minnihluta hefur verið gott við þessa áætlunargerð og við vitum að það verður áfram gott við að framfylgja áætluninni á næsta ári.

Við gerð þessarar fjárhagsáætlunar höfðum við tvö meginmarkmið að leiðarljósi. Annars vegar að tryggja jákvæðan rekstur á bæjarsjóði og hins vegar að standa vörð um alla þá þjónustu sem kaupstaðurinn veitir, en hún er og hefur um langa hríð verið framúrskarandi í öllum samanburði. Með þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram teljum við okkur stuðla af fremsta megni að því að bæði þessi markmið náist. Áætlunin er varfærin, enda gerum við ekki ráð fyrir neinum tekjum umfram það sem við getum verið nokkuð örugg um að muni skila sér, en hins vegar gerum við ráð fyrir öllum þeim útgjöldum sem við getum búist við á þessum tímapunkti.

Akraneskaupstaður er með mörg tækifæri og möguleika fyrir framan sig sem byggist á góðum og skynsömum rekstri og ákvarðanatökum undanfarinna ára. Fari allt sem horfir og eftirspurn eftir lóðum glæðist að nýju, þá verðum við tilbúin með fjölda lóða fyrir bæði íbúðarhúsnæði og fyrirtæki og góða innviði til að taka við fólksfjölgun.

Að lokum þökkum við bæjarstjóra, sviðsstjórum, fjármálastjóra og öðrum embættismönnum Akraneskaupstaðar fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Jónína Margrét Sigmundsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Guðm. Ingþór Guðjónsson (sign)
Ragnheiður Helgadóttir (sign)

Framhald umræðu:

RBS og LÁS sem leggur fram bókun Framsóknar- og frjálsra við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Akraneskaupstaðar vegna tímabilsins 2026 - 2029:

Nú er að ljúka vinnu við fjórðu og jafnframt síðustu fjárhagsáætlun núverandi bæjarstjórnar. Þegar kjörtímabilið hófst kölluðu bæjarfulltrúar Framsóknar og Frjálsra eftir því að vinna við fjárhagslega markmiðasetningu, sem hófst á kjörtímabilinu á undan, yrði haldið áfram og henni fylgt eftir. Við höfum verið óþreytandi við að halda því máli á lofti og ítrekuðum það m.a. í bókunum við fjárhagsáætlanir 2022 og 2023, sem og ítrekað í umræðum um fjármál sveitarfélagsins.

Forsenda þess að þau umfangsmiklu uppbyggingarverkefni sem unnin hafa verið á undanförnum árum - svo sem endurbætur á Brekkubæjarskóla, bygging nýs Garðasels, stækkun og uppbygging við Grundaskóla, nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka og reiðhöll í Æðarodda - gætu farið fram á ábyrgan hátt, var að fylgt yrði skýrum og sameiginlega mótuðum fjárhagslegum markmiðum.

Því voru það ákveðin vonbrigði þegar ljóst var að ekki yrði horft til þeirra fjárhagslegu markmiða, sem samþykkt voru í bæjarstjórn í mars 2025 og áttu að vera leiðarljós við vinnu fjárhagsáætlunar 2026-2029.

Við minnum sérstaklega á eftirfarandi samþykkt markmið:
- Framlegðarhlutfall rekstrar 7,5% - en áætlanir gera ráð fyrir að það náist ekki á tímabilinu og verði hæst 4,9% árið 2029.
- Veltufé frá rekstri 11,5% - markmið sem ekki næst á spátímanum.
- Launahlutfall innan 60% - útkomuspá 2025 gerir ráð fyrir 57,6% en hæst fer hlutfallið í 60% við lok tímabils, eða 2029.
- Skuldaviðmið til lengri tíma innan 80% - markmið sem við erum undir og það er mjög jákvætt, enda gerir áætlunin ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda.

En að jákvæðu hliðinni í þessari endanlegu útgáfu fjárhagsáætlunarinnar og störfum núverandi bæjarstjórnar.

Það er augljóst að tekið hefur verið tillit til þeirra sjónarmiða sem við lögðum fram við fyrri umræðu, og það metum við mikils. Það er mikilvægt að vinna byggi á trausti og gagnkvæmu samtali. Þannig náum við fram bestu niðurstöðunum fyrir bæinn okkar.

Við viljum einnig leggja sérstaka áherslu á að nú stendur yfir samþykkt nýs skipurits sveitarfélagsins. Sú vinna hefur tekið sinn tíma og er á lokametrunum sem er bæði mikilvægt og tímabært. Það er brýnt að henni verði að fullu lokið áður en kjörtímabilinu lýkur, þannig að ný bæjarstjórn taki við skýrum ramma, skilgreindum verkferlum og skýrri stjórnskipan.

Slíkt skapar stöðugleika, minnkar óvissu og gerir nýrri bæjarstjórn kleift að hefja störf af krafti og með sameiginlega sýn.

Við fögnum því að jákvætt hafi verið tekið í þau sjónarmið sem við reifuðum við fyrri umræðu og þökkum fyrir vinnuna sem fór fram á milli umræðna. Við væntum þess að áfram verði unnið að þeim tillögum og breytingum sem við höfum lagt fram.

Það er gott að sjá að traust ríki milli aðila hér í bæjarstjórn sem og einnig starfsfólks bæjarskrifstofu og við viljum þakka sérstaklega fyrir að tekið hefur verið mark á ábendingum okkar.
Slíkt er ekki sjálfsagt og sýnir að fagmennska og sátt er möguleg, þó að flokkarnir hafi ólíkar áherslur.

Að lokum viljum við leggja áherslu á:
- að fjárhagsstaða sveitarfélagsins verði áfram styrkt,
- að innleiðingu skipurits verði fylgt eftir af fullri ábyrgð,
- að samráð við starfsfólk verði haft að leiðarljósi,
- og að ný bæjarstjórn taki við verkefnum þar sem gögn, forgangsröðun og rammaáætlanir liggja skýrt fyrir.

Fjárhagsáætlunin sem hér er lögð fram er mikilvægur áfangi og þó verkefnin séu mörg og áskoranir fyrir hendi, þá er framtíð Akraness björt ef við höldum áfram að vinna saman af heilindum og virðingu.

Við leggjum því áherslu á að samþykkt fjárhagsáætlun verði notuð sem vettvangur fyrir áframhaldandi uppbyggingu, stöðugleika og sameiginlega sýn - í þágu íbúa, starfsfólks og samfélagsins í heild.

Undir bókunina rita:

Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Liv Åse Skarstad (sign)
Sædís Alexía Sigurmundsdóttir (sign)

Ekki frekari umræður og gengið til atkvæðagreiðslu.
Forseti tekur að nýju við stjórn fundarins og þakka varaforseta fyrir afleysinguna.

1. Álagning gjalda 2026

Bæjarstjórn samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2026:

a. Álagt útsvar verði 14,97% vegna launa ársins 2026.
Samþykkt 9:0.

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts verða eftirfarandi á árinu 2026:

i. 0,2714% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 6:3, RBS/LÁS/SAS á móti

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 6:3, RBS/LÁS/SAS á móti

iii. 1,6146% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 6:3, RBS/LÁS/SAS á móti

c. Gjald vegna meðhöndlunar úrgangs vegna íbúðarhúsnæðis verður samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er í Stjórnartíðindum og eru gjöld mismunandi eftir úrgangsflokki og stærð íláta.
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2026 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 30.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2026.
Samþykkt 9:0

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2026, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2026.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem byggir m.a. á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og greiningargögnum viðskiptabankanna. Heimilt er með sértækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki um 3,5% þann 1. janúar 2026 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrá.
Samþykkt 9:0

Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2026:

A. Gjaldskrá leikskóla, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

B. Gjaldskrá vegna skólamáltíða í leikskólum, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

C. Gjaldskrá frístundar, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

D. Gjaldskrá dagstarfs, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

E. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

F. Gjaldskrá íþróttamannvirkja, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0

G. Gjaldskrá Guðlaugar, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

H. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar, þar hækkar gjald vegna aksturs samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%) en sá hlutur er varðar þrif á heimilum stendur í stað þar sem ekki liggur fyrir vænt hækkun þjónustuveitanda (aðkeypt vinna).
Samþykkt 9:0

I. Gjaldskrá Bókasafns Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

J. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum fjárhagsáætlunar (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

K. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness,hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

L. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

M. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%) og er samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er í Stjórnartíðindum.
Samþykkt 9:0

N. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%) og er samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er í Stjórnartíðindum.
Samþykkt 9:0

O. Gjaldskrá Akranesvita, hækkun samkvæmt grunnforsendum (hækkun sem nemur 3,5%).
Samþykkt 9:0

P. Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs íbúðarhúsnæðis á Akranesi (sorpgjald), sértæk ákvörðun umfram grunnforsendur og er samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er í Stjórnartíðindum sbr. lið 1. c hér að framan og eru gjöld mismunandi eftir úrgangsflokki og stærð íláta.
Samþykkt 9:0

3. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2026.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 2,0 m.kr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2026 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2027 til og með 2029, ásamt tillögum.

Samþykkt 6:0, RBS/LÁS/SAS sitja hjá.

Helstu niðurstöðutölur í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 A- og B- hluta eru eftirfarandi :
Tekjur: 15.144 m.kr.
Gjöld: 14.885 m.kr.
Afskriftir: 516 m.kr.
Fjármagnsgjöld: 104 m.kr.
Óreglulegir liðir: 483 m.kr.

Fjárhagsáætlun 2026 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta að fjárhæð um 92 m.kr.
Eignir í árslok verða 25.397 m.kr. og eigið fé í árslok 10.032 m.kr.
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er áætlað 651 m.kr. á árinu 2026.

10.Skipurit Akraneskaupstaðar 2025

2505262

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 breytingar á skipuriti Akraneskaupstaðar og vísar þeim til umræðu og ákvörðunar bæjarstjórnar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Til máls tóku:
SAS sem gerir grein fyrir ástæðum og forsendum varðandi fyrirliggjandi tillögur um breytingar á skipuriti Akraneskaupstaðar.

Tillögurnar fela í sér eftirfarandi helstu breytingar:

a. Skrifstofa bæjarstjóra er lögð niður.

b. Breytingar á stjórnsýslu- og fjármálasviði
- Heiti sviðsins er breytt í fjármála- og þjónustusvið.
- Stofnuð verði mannauðs- og launadeild sem heyri undir sviðið.
- Stofnuð verði þjónustu- og þróunardeild sem heyri undir sviðið.
- Fjármáladeild verði fjármála- og innkaupdeild.

c. Breytingar á skóla- og frístundasviði.
- Heiti sviðsins verði mennta- og menningarsvið.
- Menningar- og safnamál heyri undir sviðið.
- Akranesviti heyri undir menningar- og safnamál.
- Menningar og safnanefnd verði lögð niður frá og með 1. júní 2026 og málefni sem þann málaflokk varða heyri undi mennta- og menningarráð.

d. Breytingar á velferðar- og mannréttindasviði.
- Formfesting breytinga á velferðar- og mannréttindasviðs frá árinu 2023 sem byggðu á stjórnunarkenningum sem leggja áherslu á samþættingu, skýrar ábyrgðarlínur og markvissa teymisvinnu. Með þeim var skapað sveigjanlegra og samhæfðara umhverfi sem styður betra upplýsingaflæði og þverfaglegt samstarf. Þannig var styrkt við heildstæða og samræmda þjónustu bæði við börn og fullorðna.

Allar framangreindar breytingar eru gerðar með það að markmiði að styrkja einstök svið svið og málaflokka, skýra umboð og ábyrgð og auka skilvirkni í stjórnsýslu Akraneskaupstaðar.

Framhald umræðu:
VLJ úr stóli forseta, LÁS og SAS.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu að afgreiðslu bæjarstjórnar:

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að breytingu á skipuriti Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn sem gert er ráð fyrir að fari fram þann 13. janúar nk.

Samþykkt 9:0

11.Bæjarmálasamþykkt - samþykkt um stjórn og fundarsköp (stjórnskipulagsbreytingar)

2502073

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember 2025 meðfylgjandi breytingar á samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar og vísaði þeim til umræðu og ákvörðunar bæjarstjórnar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Breytingarnar eru tilkomnar vegna fyrirhugaðra breytinga á skipuriti Akraneskaupstaðar sem jafnframt eru til umræðna og ákvörðunar hjá bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að breytingum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt 9:0

12.Fundir bæjarstjórnar 2025

2505239

Gerð er tillaga um að fella niður fund bæjarstjórnar sem samkvæmt fundaáætlun ársins ætti að vera 23. desember næstkomandi.

Hefð er fyrir því að bæjarstjórn Akraness fundi aðeins einu sinni í desember ár hvert.
Til máls tók:
SAS.

Bæjarstjórn samþykkir að fella niður fund bæjarstjórnar sem samkvæmt samþykktri fundadagskrá vegna ársins 2025 var fyrirhugaður þann 23. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0

Næsti fundur bæjarstjórnar Akraness verður þann 13. janúar 2026.

13.Fundargerðir 2025 - bæjarráð

2501002

3611. fundargerð bæjarráðs frá 27. nóvember 2025.

3612. fundargerð bæjarráðs frá 4. desember 2025.
Til máls tóku:
EBr um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
EBr um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
VLJ úr stóli forseta um fundargerð bæjarráðs nr. nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
VLJ úr stóli forseta um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
LÁS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
LÁS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
KHS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
KHS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
JMS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
JMS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
SAS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárliði nr, 4, nr. 13 og nr. 15.
SAS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
RBS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárliði nr. 13 og nr. 15.
RBS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárliði nr. 5, nr. 11 og nr. 12.
VLJ úr stóli forseta um um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
VLJ úr stóli forseta um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
KHS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 15.
KHS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárliði nr. 11 og nr. 12.
EBr um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13 og nr. 15.
EBr um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.
RBS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13 og fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5, og leggur fram tillögu um að bæjarráði verði falið að taka málið upp á næsta fundi með það að markmiði að ná á heildstæðan hátt utan um verkefnið í fagráðum og nefndum Akraneskaupstaðar.
RBS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 12.
LÁS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárliði nr. 2, nr. 5 og nr. 15.
Lás um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárliði nr. 5.
KHS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 12.
JMS um fundargerð bæjarráðs nr. 3611, dagskrárlið nr. 13.
JMS um fundargerð bæjarráðs nr. 3612, dagskrárlið nr. 5.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

14.Fundargerðir 2025 - velferðar- og mannréttindaráð

2501003

256. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 2. desember 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Fundargerðir 2025 - skóla- og frístundaráð

2501004

274. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 3. desember 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

16.Fundargerðir 2025 - skipulags- og umhverfisráð

2501005

338. fundargerð skipulags- og umhverfis frá 25. nóvember 2025 lögð fram til kynningar.

339. fundargerð skipulags- og umhverfis frá 1. desember 2025 lögð fram til kynningar
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

17.Fundargerðir 2025 - Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynningar

2501029

989. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. nóvember 2025.
Til máls tóku:
EBr um dagskrárlið nr. 4 og nr. 5.
VLJ úr stóli forseta um dagskrárlið nr. 4.
RBS um dagskrárlið nr. 4.
KHS um dagskrárlið nr. 4.
EBr um dagskrárlið nr. 4.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum Akraness gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fundi slitið - kl. 21:55.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00