Fara í efni  

Bæjarstjórn

1413. fundur 13. maí 2025 kl. 17:00 - 19:08 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Ragnar B. Sæmundsson 2. varaforseti
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Liv Aase Skarstad aðalmaður
  • Guðmundur Ingþór Guðjónsson aðalmaður
  • Jónína Margrét Sigmundsdóttir aðalmaður
  • Sædís Alexía Sigurmundsdóttir aðalmaður
  • Ragnheiður Helgadóttir varamaður
Starfsmenn
  • Haraldur Benediktsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2024 - A hluti

2502248

Síðari umræða bæjarstjórnar um ársreikninga Akraneskaupstaðar vegna A-hluta en fyrri umræðan fór fram þann 22. apríl sl.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 1 til og með 3 saman undir dagskrárlið nr. 1 og að gerð verði grein fyrir umræðunni þar þó hvert og eitt mál verði eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega undir viðeigandi dagskrárlið.

Samþykkt 9:0

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði, er neikvæð um 146,3 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 2,2 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 73,8 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 112,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur A-hluta:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 494,170 en nam 927,6 m.kr. árið 2023.
Skuldaviðmið er 71% en var 53% árið 2023.
EBITDA framlegð er 2,24% en var 1,88% árið 2023.
Veltufé frá rekstri er 6,70% en var 12,03% árið 2023.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 121% en var 95% árið 2023.
Eiginfjárhlutfall er 43% en var 51% árið 2023.
Veltufjárhlutfall er 1,05 en var 0,60 árið 2023.

Forseti óskar eftir að 1. varaforseti, Einar Brandsson, bæjarfulltrúi, leysi sig af þar sem hann hyggst taka til máls undir þessum dagskrárlið.

EBr tekur við stjórn fundarins.

Til máls tóku:
VLJ sem leggur fram bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar:

Á undanförnum árum hefur Akraneskaupstaður framkvæmt og fjárfest fyrir á tólfta milljarð króna og með því tvöfaldað eignasafn sitt á örskömmum tíma. Til að fjármagna þessar framkvæmdir hafa rúmir fjórir milljarðar króna verið teknir að láni, að öðru leyti hefur kaupstaðurinn átt fyrir öllum þessum fjárfestingum sem er ekkert minna en glæsileg frammistaða.

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2024 sýnir greinilega að við erum að koma út úr þessu mikla fjárfestingaskeiði og eðlilega hefur rekstur bæjarsjóðs þyngst. Skuldir hafa aukist, launakostnaður hækkað og að auki hafa væntingar um auknar tekjur kaupstaðarins ekki gengið eftir. Er þar helst um að ræða að sala á byggingarrétti á lóðum hefur gengið hægar en vonir stóðu til, en þar að auki endurspegla auknar skatttekjur frá íbúum ekki þá fjölgun íbúa sem þó hefur orðið.

En þótt skuldir hafi vaxið og væntingar um tekjur brugðist, þá lýkur bæjarsjóður Akraneskaupstaðar fjárhagsárinu 2024 réttu megin við núllið, þó rekstrarafgangur sé vissulega ekki mikill. Við bæjarstjórn og stjórnendum kaupstaðarins blasir þó það verkefni að hagræða þarf í rekstri. Handbært fé hefur minnkað hratt síðustu árin og nú er svo komið að lausafé er orðið mjög lítið og hrekkur ekki alltaf til, til að standa undir reglulegum útgjöldum. Úrbóta er þörf og þörfin er brýn.

Til að hagræða í rekstri kaupstaðarins leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fram eftirfarandi tillögur:

1) Farið verði vandlega yfir greiðslur vegna yfirvinnu starfsmanna með það að markmiði að greina hvort draga megi úr kostnaði vegna þeirra.

2) Dregið verði úr kostnaði vegna aðkeyptrar þjónustu þvert á svið, þannig að kostnaðurinn verði a.m.k. 10% innan fjárhagsáætlunar ársins 2025.

3) Reiknilíkön leikskóla og grunnskóla verði yfirfarin og borin saman við sambærilega þjónustu annarra sveitarfélaga.

4) Endurráðningar í stjórnsýslu og þeirri þjónustu þar sem ekki liggja reiknilíkön að baki, þurfa samþykki bæjarráðs.

5) Farið verði yfir orkunotkun stofnana og t.d. vegna götulýsingar og tækifæri greind til sparnaðar, m.a. með LED væðingu.

6) Eignir í eigu kaupstaðarins, sem ekki eru nýttar undir starfsemi á hans vegum, verði seldar. Hér er bæði átt við húsnæði og land, svo sem þann hluta Akrakotslands sem ekki verður nýttur undir framtíðarstækkun íbúðabyggðar á Akranesi.

7) Lokið verði við úttekt KPMG á helstu rekstrarþáttum á velferðar og mannréttindasviði og hún nýtt til að greina tækifæri til hagræðingar. Í framhaldinu verði sams konar úttektir framkvæmdar á fleiri sviðum.

8) Gerð verði rýning á samningum og leyfisgjöldum með það að markmiði að draga úr aðkeyptri þjónustu og öðrum kostnaði.

Þessar átta tillögur til hagræðingar í rekstri Akraneskaupstaðar leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér með fram til umræðu og eftirfylgni. Við lýsum því jafnframt yfir að við erum opin fyrir öllum góðum ábendingum og tillögum um það sem betur mætti fara í rekstri kaupstaðarins og meðal annars tilbúin að skoða leiðir til að auglýsa eftir tillögum beint frá íbúum á Akranesi.

Samheldni og samhugur eru lykilatriði til að verkefni eins og hagræðing í rekstri heils bæjarfélags gangi vel. Að við öll, kjörnir fulltrúar sem og allt starfsfólks bæjarins, stefnum einhuga í sömu átt með það að markmiði að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs, svo að á Akranesi getum við haldið áfram að byggja upp innviði og þjónustu í hæsta gæðaflokki.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Jónína M. Sigmundsdóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Einar Brandsson (sign)
Guðmundur Ingþór Guðjónsson (sign)
Ragnheiður Helgadóttir (sign)

Áframhaldandi umræða:
LÁS og RBS sem leggur fram bókun bæjarfulltrúa bæjarfulltrúa Framsóknar og frjálsra:

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2024 sýnir 4,5 milljón króna afgang af samstæðureikningi. Þessi niðurstaða verður að teljast ófullnægjandi þegar hún er sett í samhengi við fyrri rekstrarár og þau sveitarfélög sem við gjarnan berum okkur saman við. Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum yfir því hvernig rekstur bæjarsjóðs hefur þróast til verri vegar á þessu kjörtímabili.

Ljóst er að án einskiptistekna, svo sem arðgreiðslna frá Orkuveitunni og Faxaflóahöfnum sem námu alls um 342 milljónum króna á árinu 2024, væri rekstrarafkoman verulega neikvæð. Ef þær tekjur hefðu ekki verið fyrir hendi má efast um greiðslugetu bæjarsjóðs og þar með um sjálfbærni rekstursins. Til að standa undir fjárhagsáætlun ársins 2025 er nauðsynlegt að auka framlegð úr rekstri um að minnsta kosti 700 milljónir króna.

Gert var ráð fyrir 100 m.kr. hagræðingu í fjárhagsáætlun ársins 2024 sem því miður urðu að engu í meðförum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Einnig má nefna að ekki var gripið til markvissa aðgerða til að sporna við auknum útgjöldum í rekstri og sést það glögglega í ársreikningi sem liggur hér til samþykktar.

Rekstrarkostnaður heldur áfram að hækka umfram tekjur og ber þar að nefna annan rekstrarkostnað sem hækkar um 940 milljónir króna frá upphaflegri áætlun eða um 30%. Þar af fóru 850 milljónir króna umfram heimildir ársins 2024, án þess að viðaukar væru lagðir fram eða samþykktir. Slíkt verklag er í andstöðu við lög og reglur um fjármál sveitarfélaga sem okkur ber að framfylgja og felur í sér alvarlegt frávik frá meginreglum um gagnsæi og ábyrga fjármálastjórnun. Fjárhagsáætlun er ekki einungis leiðbeinandi plagg - hún er lagaleg og rekstrarleg stoð reksturs sveitarfélagsins og breytingar á henni verða að fara í gegnum viðeigandi ferla. Þá hefur ítrekað verið bent á að óvissa og óskýrar forsendur fjárhagsáætlunar 2025 gefi tilefni til að ætla að útgjöld muni áfram aukast, þrátt fyrir markmið um lækkun rekstrarkostnaðar.

Framsókn og frjálsir hafa áréttað þessa þróun og kallað eftir viðbrögðum meirihlutans. Við sem bæjarfulltrúar berum lagalega og siðferðislega skyldu til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og standa vörð um gagnsæi, ábyrgð og faglega stjórnsýslu. Við hjá Framsókn og frjálsum skorumst ekki undan þeirri ábyrgð!

Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra lýsa ánægju með að fjárhagsleg markmið bæjarsjóðs hafi loks verið samþykkt. Hins vegar voru það mikil vonbrigði að það hafi tekið 34 mánuði af núverandi kjörtímabili að ljúka þeirri vinnu, þrátt fyrir að KPMG hafi skilað úttekt á rekstri og stjórnsýslu Akraneskaupstaðar í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga árið 2022 og að vinna hafi verið langt komin áður en núverandi meirihluti tók við.

Ljóst er að svigrúm til fjárfestinga verður mjög takmarkað næstu ár. Til að bregðast við lausafjárvanda hefur þurft að skera niður fjárheimildir til skipulags- og umhverfismála, m.a. viðhald gatna og frestun stærri innviðaverkefna.

Núna eru liðnir 5 mánuðir af árinu 2025 og hafa ekki verið skilgreindar árangursríkar aðgerðir til að ná fram lækkun rekstrarkostnaðar. Nú er tíminn! Við viljum ekki sitja hér að ári liðnu í sömu eða verri sporum með þá vitneskju að lítið hafi verið gert. Stillum okkur saman og skorumst ekki undan þeirri ábyrgð sem okkur hefur verið falin, samfélaginu til heilla.

Undir þetta skrifa bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra:

Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Liv Åse Skarstad (sign)
Sædís Alexía Sigurmundsdóttir (sign)

Áframhaldandi umræða:
VLJ, LÁS, SAS, KHS og LÁS.

Valgarður L. Jónsson tekur að nýju við stjórn fundarins og þakkar EBr fyrir afleysinguna.

Framhald umræðu:
EBr, VLJ úr stóli forseta og RBS.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um afgreiðslu ársreikninga A-hluta Akraneskaupstaðar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir ársreikninga A-hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2024 og staðfestir með áritun sinni:

Samþykkt 9:0

2.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2024 - B-hluti

2502247

Síðari umræða bæjarstjórnar um ársreikninga Akraneskaupstaðar B-hluta en fyrri umræða fór fram 22. apríl sl.
Rekstrarniðurstaða B-hluta fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði var neikvæð um 41,7 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 17,9 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða B-hluta var neikvæð um 69,3 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 110,0 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um afgreiðslu ársreiknings B-hluta Akraneskaupstaðar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir ársreikninga B-hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2024 og staðfestir með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

3.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2024 - samstæða

2502246

Síðari umræða bæjarstjórnar Akraness um samstæðuársreikning Akraneskaupstaðar (A- og B-hluti) en fyrri umræða fór fram þann 22. apríl sl.
Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar, A- og B- hluta, fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði, var neikvæð um 154,7 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 28,2 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings Akraneskaupstaðar með óreglulegum liðum var jákvæð um 4,5 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 2,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur samstæðu:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er um 222,4 en nam um 796,2 m.kr. árið 2023.
Skuldaviðmið er 67% en var 52% árið 2023.
EBITDA framlegð er 2,13% en var 1,66% árið 2023.
Veltufé frá rekstri er 5,73% en var 10,06% árið 2023.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 113% en var 90% árið 2023.
Eiginfjárhlutfall er 40% en var 48% árið 2023.
Veltufjárhlutfall er 0,95 en var 0,57 árið 2023.

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um afgreiðslu samstæðuársreiknings (A- og B- hluta) Akraneskaupstaðar:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir samstæðuársreikning Akraneskaupstaðar og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit vegna ársins 2024 og staðfestir með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

4.Fundargerðir 2025 - velferðar- og mannréttindaráð

2501003

244. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 22. apríl 2025.

245. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 6. maí 2025.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

5.Fundargerðir 2025 - skóla- og frístundaráð

2501004

262. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. maí 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir 2025 - skipulags- og umhverfisráð

2501005

325. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 5. maí 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2025 - Faxaflóahafnir

2501024

251. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 24.01.2025.

252. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 28.02.2025.

253. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 05.03.2025.

254. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 25.03.2025.

255. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 31.03.2025.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2025 - Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynningar

2501029

977. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 11. apríl 2025.

978. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. apríl 2025.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

9.Fundargerðir 2025 - SSV

2501027

187. fundargerð stjórnar SSV frá 12. mars 2025.

188. fundargerð stjórnar SSV frá 30. apríl 2025.
Til máls tók:
RBS, um fundargerð nr. 187 og biðst forláts á hve seint fundargerðin barst til Akraneskaupstaðar.
RBD um fundargerð nr. 188, dagskrárlið nr. 3.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:08.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00