Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

12. fundur 27. nóvember 2013 - 02:00

Ár 2012, miðvikudaginn 27. nóvember 2013, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 17:00.

Mætt voru:
Aldís Lind Benediktsdóttir, fulltrúi nemenda Brekkubæjarskóla
Bergþóra Ingþórsdóttir, fulltrúi nemenda Fjölbrautarskóla Vesturlands
Elínborg Llorens Þórðardóttir fulltrúi Hvíta hússins
Jón Hjörvar Valgarðsson, fulltrúi nemenda Grundaskóla
Júlía Björk Gunnarsdóttir, fulltrúi Arnardals

Einnig sátu fundinn:
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri sem stjórnaði fundinum
Dagný Jónsdóttir bæjarfulltrúi
Einar Benediksson, bæjarfulltrúi
Einar Brandsson, bæjarfulltrúi
Guðmundur Páll Jónsson, bæjarfulltrúi
Gunnhildur Björnsdóttir, bæjarfulltrúi
Sveinn Kristinsson, bæjarfulltrúi
Þröstur Ólafsson, bæjarfulltrúi
Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs sem ritaði fundargerð.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri setti fund og bauð fundarmenn velkomna til 12. bæjarstjórnarfundar unga fólksins en fyrsti fundur var haldinn árið 2002.

Fyrstur tók til máls Jón Hjörvar Valgarðsson og fjallaði hann um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann fór yfir þær skyldur sem fylgja því að Alþingi hefur leitt sáttmálann í íslensk lög og hvaða skyldur það leggur á herðar sveitarfélaga. Hann bar upp eftirfarandi spurningar til bæjarfulltrúa:
? Er leitað eftir sjónarmiðum barna og ungmenna og tekið tillit til skoðana þeirra?
? Er virðing fyrir sjónarmiðum barna höfð að leiðarljósi hjá starfsmönnum Akraness?
? Hefur Akranes verið að sjá til þess að allir sem vinna með börnum fái fræðslu í  innihaldi barnasáttmálans?
? Hefur bæjarstjórn og nefndamönnum staðið til boða kynning á barnasáttmálanum?
? Er barnasáttmálinn á námsskrá allra skólastiga?
? Er fræðsla í barnasáttmálanum hluti af nýliðaþjálfun starfsfólks Akraness?
? Er kunnátta og fræðsla barna um barnasáttmálann könnuð í skólunum?
Jón Hjörvar hvatti að lokum bæjarfulltrúa til að vinna að því að Akranes yrði í fararbroddi þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem vinna að mannréttindum barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Næst á mælendaskrá var Bergþóra Ingþórsdóttir nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands. Hún fjallaði bæði um menningarmál og málefni framhaldsskólanemenda. Hún lagði til að ungt fólk ætti fulltrúa í menningarnefnd Akraneskaupstaðar svo hugað væri að því við stærri atburði s.s. á Írskum dögum að eitthvað af dagskránni væri við hæfi ungmenna. Síðan ræddi hún um námsframboð í framhaldsskólum og nauðsyn þess að námið væri sniðið að áhuga nemenda í meira mæli en nú er til að sporna gegn brottfalli. Einnig taldi hún að í grunnskóla ættu nemendur að taka áhugasviðspróf svo þeir vissu betur hvaða nám og störf hentuðu þeim. Að lokum gerði Bergþóra einelti að umtalsefni og fór yfir niðurstöður úr innra mati FVA en þar kemur meðal annars fram að 25% nemenda telja að einelti eigi sér stað milli nemenda og 30% nemenda telja að kennarar leggi nemendur í einelti.

Júlía Björk Gunnarsdóttir, fulltrúi Arnardals  fjallaði um íþróttaaðstöðu á Akranesi og hve misjafnlega væri búið að íþróttagreinum. Hún taldi að flestar greinar byggju við bærilega eða góða aðstöðu en svo væri ekki þegar kæmi að fimleikum og sundi. Hún rakti afleiðingar þess ef aðstaðan er ekki fullnægjandi, margir hætta og sumir fara að æfa með félögum í öðrum sveitarfélögum sem búa við betri aðstöðu. Júlía Björk benti á að máli skipti að koma upp hreystibraut sem nemendur hafi aðgang að. Hún skoraði á bæjaryfirvöld að bæta aðstöðu umræddra íþróttagreina og mikilvægi þess að ungt fólkt temdi sér heilsusamlegan lífstíl.

Elínborg Llorens fulltrúi Hvíta hússins gerði að umtalsefni samstarf unglinga á Akranesi og taldi að það hefði verið að aukast á liðnum árum sem væri mjög jákvætt. Hún ræddi síðan um starf Hvíta hússins og starfsemi þess. Elínborg hefur sótt landsþing um starf ungmennahúsa og kynnt sér starfsemi vítt og breitt um landið. Starfsemin er ólík frá einu húsi til annars. Hún taldi að mörg tækifæri væru í starfsemi af þessu tagi. Nefndi hún sérstaklega kynningu á þeim fjölmörgu ungmennaverkefnum sem bjóðast í alþjóðlegu samstarfi en hægt er að sækja um styrki til þeirra.

Aldís Lind Benedikstdóttir fulltrúi nemenda í Brekkubæjarskóla var síðust málshefjenda og ræddi hún um aðstöðu nemenda til náms. Hún taldi að margt væri í góðu lagi en fór yfir stöðuna í tölvumálum skólans sem hún taldi óviðunandi. Skoraði hún á bæjarstjórn að veita fjármunum til þess að bæta tölvukost hvort sem væri með venjulegum tölvum eða spjaldtölvum. Hún benti á að ef til vill væri hægt að spara fjármuni með því að hætta að kaupa ákveðin forrit og nota í staðinn ókeypis forrit. Að síðustu ræddi hún um að taka ætti upp það fyrirkomulag að nemendur í unglingadeild meti kennara sína. Gagnlegt væri fyrir kennara að fá upplýsingar um hvernig þeir gætu bætt sig í starfi og líka hvað þeir gera vel. Dæmi eru frá framhaldsskólum þar sem þeir leggja mat á kennara í starfi.

Regína þakkaði bæjarfulltrúum fyrir framsögurnar og lagði til að umræða um málefni bæjarfulltrúa unga fólksins yrði á þann veg fjalla um málefnin í þeirri röð sem þau komu fram í máli bæjarfulltrúanna eftir efnum og ástæðum. Fyrst var orðið gefið laust um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna.

Til máls tóku Þröstur Ólafsson, Dagný Jónsdóttir, Gunnhildur Björnsdóttir. Í máli þeirra kom fram að framundan eru ýmis verkefni sem koma þarf í farveg bæði hvað varðar fræðslu og að leitað sé  eftir sjónarmiðum barna og ungmenna um málefni sem þeim tengjast.

Málefni sem Bergþóra Ingþórsdóttir gerði að umtalsefni - menningarmál og málefni framhaldsskóla. Til máls tóku Guðmundur Páll Jónsson, Þröstur Ólafsson, Sveinn Kristinsson og Einar Brandsson tóku til máls og fjölluði um aðkomu ungmenna að nefndum sem fjalla um menningarmál og einnig málefni tengd FVA bæði námsframboð og eineltismál. Tekið var undir sjónarmið Bergþóru.

Málefni sem Júlía Björk Gunnarsdóttir gerði að umtalsefni ? nauðsynlegt að bæta aðstöðu til iðkunar fimleika og sunds, auk þess að koma upp hreystibraut. Til máls tóku Guðmundur Páll Jónsson og Gunnhildur Björnsdóttir. Þau tóku undir áhyggjur Júlíu Bjarkar af afstöðuleysi sundiðkenda og fimleikafólks.

Málefni sem Elínborg Llorens gerði að umtalsefni ? starf ungmennahúsa og kynning á tækifærum sem felast í erlendum samstarfsverkefnum. Til máls tóku Einar Brandsson og Sveinn Kristinsson lýstu yfir stuðningi yfir þau sjónarmið sem Elínborg kynnti.

Málefni sem Aldís Lind Benediktsdóttir gerði að umtalsefni- tölvukostur Brekkubæjarskóla og einnig nemendamat á störfum kennara. Til máls tóku Þröstur Ólafsson og  Dagný Jónsdóttir. Fram kom að verið væri að athuga með úrbætur varðandi tölvukost grunnskólanna og  nauðsyn þess að gera áætlanir til lengri tíma. Guðmundur Páll Jónsson spurði hvort taka ætti skref frá hefðbundnum tölvum yfir í spjaldtölvur. Aldís taldi rétt á að fara yfir í spjaldtölvur og þá að nýta þær frekar á unglingastigi.

Jón Hjörvar afhenti síðan bæjarfulltrúum eintak af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Regína þakkaði öllum þátttakendum fyrir þeirra framlag og sleit síðan fundi kl. 18:30

 

 

 

 

 

 

 

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00