Fara í efni  

Bæjarráð

3379. fundur 11. júlí 2019 kl. 08:15 - 11:30 í fundarherbergi 3. hæð, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Elsa Lára Arnardóttir formaður
  • Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir varamaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðný Jóna Ólafsdóttir verkefnastjóri
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðný J. Ólafsdóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat vegbóta Vesturlandsvegar um Kjalarnes

1902024

Bæjarráð bókaði á fundi sínum þann 27. júní sl. eftirfarandi bókun í tengslum við fyrirhugað umhverfismat á Vesturlandsvegi um Kjalarnes:

Skipulagsstofnun hefur tekið þá ákvörðun að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá 14. júní s.l. kemur fram að ákvörðun Skipulagsstofnunar geti tafið vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi um Kjalarnes um að minnsta kosti ár í viðbót þar sem matsferli Skipulagsstofnunar feli í sér marga tímafreka þætti. Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa marg oft ályktað um mikilvægi vegaframkvæmda um Vesturlandsveg og vakið athygli á þeim lífshættulegu aðstæðum sem vegfarendum þar er boðið upp á. Því er mikilvægt að bæði Vegagerðin og Skipulagsstofnun tryggi að tafir verði sem minnstar á framkvæmdum vegbóta við Vesturlandsveg um Kjalarnes. Bæjarráð Akraness mun eins og áður halda áfram að fylgja þessu mikilvæga máli eftir og ítrekar að orð skuli standa. Akranesi, 27. júní 2019 Elsa Lára Arnardóttir (sign) Valgarður Lyngdal Jónsson (sign) Ólafur Adolfsson (sign)

Lögð eru fram drög lögmanna Akraneskaupstaðar að kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2 plús 1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin hefur afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis og er ætlað að taka á lífshættulegum aðstæðum sem vegfarendum er boðið upp á sem óskiljanlegt er að ákvörðun Skipulagsstofnunar taki ekki mið af. Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið.

Eftir að hafa fengið ráðgjöf lögmanna er það mat bæjarráðs Akraneskaupstaðar að ákvörðunin sé háð verulegum annmörkum, sé byggð á röngum forsendum og sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar og beri að ógilda.

Ekki er um að ræða nýjan veg heldur breikkun vegarins í 2 plús 1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Land sem raskast við framkvæmdina hefur þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið. Ákvörðunin byggir á langsóttri lögskýringu og ekki er lagaheimild fyrir ákvörðuninni.

Rökstuðning vantar fyrir ákvörðuninni þar sem vísun í tilskipun eða dómafordæmi skortir. Þau víðtæku áhrif sem ákvörðun Skipulagsstofnunar hefur og sú breyting á framkvæmd sem virðist fyrirhuguð hjá stofnuninni krefst þess að rökstuðningur sé skýr.

Verulegt ósamræmi er við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matskyldu sambærilegra framkvæmda og ef breyta ætti stjórnsýsluframkvæmd þá þurfi að rökstyðja það sem ekki er gert. Ósamræmi er við ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða t.d. endurbætur á Þingvallavegi, breytingar á Kjalvegi og breikkun Grindavíkurvegar. Óskiljanlegt er hvers vegna önnur sjónarmið eru látin ráða för við ákvörðun um matskyldu breikkunar Vesturlandsvegar.

Framkvæmdin hefur ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og enginn umsagnaraðila Skipulagsstofnunar taldi að tilefni væri til að ráðast í mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin liggur ekki um náttúruverndarsvæði, fer ekki um svæði sem njóta sérstakrar verndar, ekki er brotið nýtt land vegna framkvæmdarinnar og framkvæmdin hefur ekki áhrif á opin víðerni. Skipulagsstofnun sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni og sá ekki til þess að umfang framkvæmdar væri upplýst áður en ákvörðun var tekin.

2.Uppfærsla á vélbúnaði símkerfis

1904204

Á bæjarráðsfundi 26. apríl 2019 var neðangreint samþykkt:
Bæjarráð samþykkir kaup á vélbúnaði fyrir símkerfi Akraneskaupstaðar ásamt vinnu við uppsetningu búnaðarins að fjárhæð kr. 1.600.000. Útgjöldunum verður mætt af liðnum 20830-4660 en til ráðstöfunar þar er samtals kr. 10.188.000 að teknu tilliti til framangreindar ráðstöfunar. Fjárhæðin skal færast á lið 21400-4660.
Bæjarráð samþykkir jafnframt kostnað vegna leyfisgjalda símtækjanna samtals kr. 500.000. Útgjöldunum verður mætt af liðnum 20830-4995 en til ráðstöfunar þar er samtals kr. 13.807.400 að teknu tilliti til framangreindrar ráðstöfunar. Fjárhæð skal færast á lið 21400-4340.

Við úrvinnslu hefur komið í ljós að greiða þarf þrjú ár fyrirfram í stað eins árs fyrir leyfiskostnað símtækja. Óskað er eftir að útgjöldum að fjárhæð 1.100.000 verði mætt af liðnum 20830-4995 en til ráðstöfunar þar er samtals kr. 3.727.400 að teknu tilliti til framangreindrar ráðstöfunar. Fjárhæð skal færast á lið 21400-4340.
Bæjarráð samþykkir erindið.

3.Bíóhöllin - rekstur

1905299

Útboðsgögn vegna reksturs Bíóhallarinnar lögð fram.
Bæjarráð samþykkir framlögð útboðsgögn á rekstri Bíóhallarinnar og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

4.Þjónustuþörf grunnskólanna 2019-2020

1906217

Á Skóla- og frístundaráðsfundi 2. júlí var erindi Brekkubæjarskóla um aukna þjónustuþörf vísað í bæjarráð til afgreiðslu.
Elsa Lára víkur af fundi undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir erindið. Rakel Óskarsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

5.Dalbraut 1 - samningur um bílastæði

1906119

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag um bílastæði við Dalbraut 1, sem nýtast munu Dalbrautarreit þ.m.t. þjónustumiðstöð. Lagt er til við bæjarráð að samþykkja fyrirliggjandi samkomulag.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag og felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins.

6.Höfði - viðauki 2019

1907054

Erindi frá Höfða vegna viðauka 1 til umfjöllunar og afgreiðslu bæjarráðs.
Bæjarráð samþykkir viðauka 1 frá Höfða. Rakel Óskarsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

7.Ferðaþjónusta fatlaðra og aldraðra

1904148

Erindi frá Höfða um endurskoðun á samningi um ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til Velferðar- og mannréttindaráðs.

8.Höfði - endurbætur á 2. hæð umsókn í framkvæmdasjóður aldraðra 2019

1902255

Heilbrigðisráðherra hefur að tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra samþykkt umsókn Höfða um styrk vegna endurbóta á 2. hæð.
Bæjarráð fagnar því að Höfði hafi fengið úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.
Rakel Óskarsdóttir fer af fundi og Ólafur Adolfsson kemur inn í hennar stað.

9.Írskir dagar 2019

1810031

Bæjarráð fór yfir framkvæmd Írskra daga. Ísólfur Haraldsson forsvarsmaður Lopapeysunnar mætti á fundinn.
Bæjarráð vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í að skipuleggja og taka þátt í að gera upplifun íbúa og gesta á Írskum dögum á Akranesi eins vel heppnaða og raun bar. Bæjarráð þakkar Ísólfi fyrir greinargóðar upplýsingar á fundinum og tekur undir orð hans um að skerpa þurfi á undirbúningi fyrir næsta ár svo öryggi gesta verði tryggt þegar svo mikill fjöldi kemur saman til skemmtanahalds.

10.Holtsflöt 9 - Vaktafyrirkomulag

1904110

Ósk um viðbótarstöðu á næturvakt búsetuþjónustunnar við Holtflöt 9. Gunnhildur Vala Valsdóttir forstöðumaður búsetuþjónustu og Sveinborg Kristjánsdóttir starfandi sviðsstjóri Velferðar- og mannréttindasviðs sitja fundinn undir þessum lið.
Frestað til næsta fundar og bæjarstjóra falið að vinna málið áfram.

Fundi slitið - kl. 11:30.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00