Fara í efni  

Tómstunda- og forvarnarnefnd (2002-2008)

95. fundur 09. desember 2008 kl. 17:15 - 18:15

95. fundur tómstunda- og forvarnarnefndar Akraneskaupstaðar var haldinn í Þorpinu þriðjudaginn 9. desember 2008 og hófst hann kl. 17:15. 


 Mætt á fundi:            Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, formaður

                                Halldór Jónsson,

                                Jónína Margrét Sigmundsdóttir

                                Sævar Haukdal,

                                Jón Þór Þórðarson, áheyrnarfulltrúi ÍA

 

Einnig sat Hörður Jóhannesson fundinn ásamt Helgu Gunnarsdóttur sem ritaði fundargerð.


 1.  Styrkir til íþrótta- og æskulýðsmála. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram tillögu um að beina því til bæjarstjórnar að styrkir til íþrótta- og æskulýðsfélaga verði hækkaðir frá því sem samningur við ÍA segir til um. Með tillögunni var lagður fram eftirfarandi rökstuðningur:

?Á undanförnum árum hefur daglegt líf breyst mikið, meðal annars á þann veg að dagleg hreyfing landsmanna hefur minnkað. Þetta á við um alla aldursflokka. Breyting þessa nýja lífmynsturs er meðal stærstu forvarnarmála sem nú er glímt við. Með því að auka daglega hreyfingu barna og unglinga með aukinni tómstunda- og íþróttaiðkun eflist líkamsþroski þeirra um leið og heilsufar batnar. Jafnframt vekur það áhuga þeirra á heilbrigðu líferni og gefandi tómstundastarfi.

 Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Akraness var því heitið að niðurgreiðslur á þátttökugjöldum barna í íþrótta- og æskulýðsstarfi verði auknar á kjörtímabilinu. Með þeim tillögum sem tómstunda- og forvarnarnefnd leggur nú fram er þetta loforð uppfyllt. Með lækkandi kostnaði foreldra er þess jafnframt gætt að auknir fjármunir til íþrótta- og tómstundafélaga skili sér í metnaðarfyllra starfi. Þá munu þessar tillögur gefa stjórnum félaga kost á að einbeita sér enn frekar að innra starfi, fjölga iðkendum og haldið þeim lengur í starfi félaganna.

 Aukin framlög bæjarfélagsins eru viðurkenning á því mikla og fórnfúsa starfi sem unnið hefur verið í íþrótta- og tómstundafélögum á undanförnum árum og í trausti þess að félögin geri enn ríkari kröfur til þess starfs sem fram fer á þeirra vegum.

 Á þeim umbrotatímum sem nú ríkja í þjóðfélaginu er fátt mikilvægara en forvarnarstoð heimilanna styrkist og það er tillögum þessum ætlað að gera.?

Næsta ár stóð til að styrkupphæðin yrði 10.000.000 á lokaári samnings Akraneskaupstaðar við ÍA um þessa styrki. Lagt er til að því verði breytt og styrkupphæðin verði á þennan veg næstu fimm árin:

 

Árið 2009

Kr. 14.000.000

Árið 2010

Kr. 15.000.000

Árið 2011

Kr. 17.000.000

Árið 2012

Kr. 18.000.000

Árið 2013

Kr. 20.000.000

 

 Fundarmenn styðja heilshugar tillögu meirihlutans og var samþykkt að beina tilmælum til bæjarráðs um að almenn framlög til íþrótta- og æskulýðsfélaga verði hækkuð í samræmi við töflu hér að framan.

2.  Afrekssjóður. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram tillögu um að komið yrði á fót afrekssjóði. Gerð er tillaga um að Akraneskaupstaður leggi kr.  2,5 milljónir í upphafi, ÍA leggi einnig fram stofnframlag og sömuleiðis yrði leitað eftir framlagi frá fyrirtækjum. Sjóðunum yrði skipuð sérstök stjórn. Markmið sjóðsins væri að styðja við afreksfólk sem oft þarf að bera mikinn kostnað vegna æfinga og keppnisferða. Lagt er til við bæjarráð að fulltrúa frá ÍA og fulltrúa frá Akraneskaupstað verði falið að leggja fram tillögu að reglugerð fyrir sjóðinn ef bæjarráð fellst á erindið. Tillaga meirihlutans samþykkt einróma.

3.    Ávísun á öflugt tómstundastarf. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram tillögu um að upphæð ?Ávísunar á öflugt tómstundastarf? yrði hækkuð verulega. ?Ávísun á öflugt tómstundastarf? hefur nú verið send til allra nemenda grunnskóla sl. þrjú haust. Upphæðin hefur verið kr. 5.000.- frá upphafi. Ríflega 60% ávísanana eru nýttar. Í október sl. lagði nefndin til við bæjarráð að ávísunin mundi framvegis einnig gilda fyrir 16 og 17 ára og var það samþykkt. Með vísan til rökstuðnings sem bókaður er í lið 1. fundargerðarinnar er bæjarráð hvatt til að hækka upphæð ávísunarinnar umtalsvert. Reikna má  með að nýtingarhlutfall hækki og eðilegt að reikna með að 80% ávísana skili sér. Gerð er tillaga um að  ávísunin hækkar í kr. 20.000 og þá þarf að reikna með 20.000.000 á fjárhagsáætlun næsta árs. Fundarmenn eru sammála um að það muni skipta verulegu máli fyrir heimilin á Akranesi að fá þennan styrk til að hindra brottfall úr æskulýðs- og tómstundastarfi þegar efnahags-þrengingarnar fara að koma meira í ljós. Ef að heildarupphæð nýttra ávísana nær ekki 20 milljón króna þá er að lagt til að afgangurinn komi til úthlutunar til íþrótta- og tómstundafélaga skv. sömu reglum og gilda um beina styrki til þeirrar starfsemi. Nefndin telur að teknu tilliti til ofangreinds þá eigi ávísunin að vera send út í ársbyrjun og hafa gildistíma til 1. desember sama árs.

 4.    Önnur mál. Jón Þór upplýsti að nú væri verið að undirbúa kjör íþróttamanns Akraness.Umræða hefur verið í nefndinni á umliðnum árum um að hlutverk íþróttamanns Akraness yrði aukið. Það er álit nefndarinnar að æskilegt væri að viðkomandi tæki þátt í forvarnarstarfi með sínu félagi og á vegum ÍA     meðal barna og unglinga.  Nefndin beinir því til bæjarráðs að íþróttamanni Akraness verði veittur fjárstyrkur sem viðurkenning fyrir sitt forvarnarstarf sem unnið væri í samráði við ÍA.

  Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:15

 

 

 

 

 

 

 

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00