Fara í efni  

Skipulagsnefnd (2000-2002)

46. fundur 28. mars 2000 kl. 13:00 - 14:25
46. fundur skipulagsnefndar Akraness haldinn í fundarsal bæjarskrifstofu Stillholti 16-18, þriðjudaginn 28. mars 2000, kl. 13:00.

Mættir: Jóhannes Snorrason formaður, Sigurlína Guðrún Júlíusdóttir, Edda Agnarsdóttir, Guðbjartur Hannesson og Lárus Ársælsson.
Auk þeirra Skúli Lýðsson byggingar- og skipulagsfulltrúi og Hafdís Sigurþórsdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Arnardalsreitur deiliskipulag.
Breyting á lóðamörkum Háholts 16 og Skagabrautar 21, sem farið var með í grenndarkynningu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. Engar athugasemdir bárust.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framkomin tillaga að breytingu verði samþykkt.

2. Ásar / Traðarbakkaland.
Deiliskipulag sem auglýst var samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Tillagan var auglýst frá og með 11. febrúar sl. til og með 10. mars 2000, athugasemdafrestur var til 24. mars 2000. Athugasemdir bárust frá Golfklúbbnum Leyni.
Athugasemdir Golfklúbbsins Leynis:
1. Þegar skipulag stækkaðs Garðavallar var unnið gerði aðalskipulag Akraness ekki ráð fyrir neinni byggð sunnan þáverandi byggðar í Jörundarholti ofan merkts göngu- og reiðstígs. Golfklúbbnum Leyni var úthlutað land til stækkunarinnar sem markaðist á umræddu svæði af landamerkjaskurði Innri-Akranesshrepps og Akraness og framhaldi hans að nefndum stíg, merkt rautt á meðfylgjandi teikningu. Tók skipulag nýrra golfbrauta mið af þessum mörkum og liggur nú braut 17 (verður opnuð í sumar) samsíða nefndri markalínu.
Til að hafa golfvöllinn ekki á óþarflega dreifðu svæði var 17. braut höfð eins nærri næstu braut (braut 14) og kostur var, og er holuflöt brautarinnar staðsett nánast fyrir miðri lóð nr. 174 í Jörundarholti. Lengra í austur komst brautin ekki. Eðlileg högglína eftir brautinni inn á holuflötina er dregin inn á meðfylgjandi teikningu (græn lína). Fjarlægð fyrrnefnds vallarmarkaskurðar frá þessari högglínu var þá afar rífleg og hverfandi líkur á að golfboltar bærust yfir skurðinn.
Nú gerir fyrrnefnt nýtt deiliskiplag ráð fyrir íbúðabyggð þar sem þrjár lóðir, númer 18, 21 og 23 eru að hluta inni á því landi sem Golfklúbbnum var úthlutað og þannig mun nær leiklínu 17. brautar, en ef miðað hefði verið við umræddan landamerkjaskurð og framhald hans. Ávallt þegar golfbraut liggur samsíða íbúðalóðum er fyrir hendi hætta á að afvegaleiddir golfboltar berist inn á lóðir næstliggjandi húsa. Líkur á slíku eru þó mun minni þegar húsin eru vinstra megin höggstefnu (hjá rétthentum leikmönnum, sem eru mun fleiri en örvhentir).
Þótt líkur á óhöppum þessu samfara séu afar litlar er hættan samt sem áður fyrir hendi og því vill ég fyrir hönd GL óska eftir að í byggingarskilmálum fyrir umræddar lóðir verði þeim sem þær hreppa gerð skriflega grein fyrir því að þeir búi við mörk golfvallar og að afvegaleiddir golfboltar geti hugsanlega ratað inn á lóðirnar og að Akraneskaupstaður og Golfklúbburinn Leynir fyrri sig allri skaðabótaábyrgð sem hljótast kann af ?slysum? sem orðið gætu af slíkum boltum.
Með þessari athugasemd telur Golfklúbburinn Leynir sig lausan undan allri ábyrgð sem kann að skapast af framangreindum ástæðum.
2. Inn á deiliskipulagsuppdrátt Ása-Traðarbakkalands er dregin breytt lega afrennslisskurðar (landamerkjaskurðar) norðan umræddra lóða (merkt með orange-lit). Það er ósk GL að við lokahönnun þessa vatnsvegar verði hönnuður golfvallarins, Hannes Þorsteinsson, hafður með í ráðum, enda myndar umræddur vatnsvegur náttúruleg mörk golfvallarins og íbúðabyggðarinnar. Gæta verður þess að sem mest ?fæling? verði fólgin í vatnsveginum, s.s. með því að útbúa grunnar tjarnir og/eða hóla á svæðinu svo og með markvissri gróðursetningu.
Utan þess sem að framan er tilgreint þá vill stjórn GL árétta að hún telur það golfíþróttinni á Akranesi til framdráttar hversu mikil nálægð er milli byggðar og golfvallarins. Bæði er stutt fyrir fjölmarga iðkendur á golfvöllinn og svo eykur nálægð vallarins bæði fegurðargildi og verðgildi næstliggjandi íbúðarhúsa.
Hingað til hefur þetta nábýli verið vandræðalaust og án óhappa. Það er tilgangur þessara athugasemda að svo megi verða um alla ókomna framtíð.

Bókun nefndarinnar: Mörk deiliskipulagssvæðis eru í samræmi við gildandi aðalskipulag. Fjarlægð byggðar frá mörkum golfvallar var ákveðin í fullu samráði við stjórn Golfklúbbsins Leynis. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framkomin tillaga að deiliskipulagi dags. 10. janúar 2000, verði samþykkt óbreytt.

3. Fjárhagsáætlun.
Endurskoðun á fjárhagsáætlun vegna skipulagsmála.
Lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun byggingar- og skipulagsfulltrúa vegna skipulagsvinnu. Nefndin samþykkir að fela byggingar- og skipulagsfulltrúa að kynna endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir bæjarstjórn.

4. Vesturgata 24. (01.000.933.18)
081154-2289 Hörður Kári Jóhannesson , Vesturgötu 24, 300 Akranesi.
Umsókn Runólfs Þ Sigurðssonar fyrir hönd Harðar um heimild til að skipta lóðinni, samkvæmt teikningu Njarðar Tryggvasonar. Byggingarnefnd vísaði málinu til skipulagsnefndar.
Framkomin tillaga að deiliskipulagi varðar breytingar á lóðamörkum lóðar nr. 24 við Vesturgötu. Nefndin telur ekki nauðsynlegt að fram fari grenndarkynning á framkominni tillögu að deiliskipulagi og leggur til að framkomin tillaga að deiliskipulagi verði samþykkt.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 14:25.
   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00