Fara í efni  

Notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi

18. fundur 20. nóvember 2023 kl. 16:15 - 17:00 í Lindinni Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Halldór Jónsson aðalmaður
  • Ólöf Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Ágústa Rósa Andrésdóttir aðalmaður
  • Böðvar Guðmundsson aðalmaður
  • Sólveig Salvör Sigurðardóttir aðalmaður
  • Jóhanna Nína Karlsdóttir aðalmaður
  • Sylvía Kristinsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Sveinborg Kristjánsdóttir deildarstjóri farsældarþjónustu fullorðinna
  • Hildigunnur Árnadóttir sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs
Fundargerð ritaði: Sveinborg Kristjánsdóttir deildarstjóri farsældarþjónustu fullorðinna
Dagskrá

1.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2024 - 2027

2309268

Formaður kynnir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2024 og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 2024-2030 sem lagðar voru fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Samkvæmt þeim verða engar fjárveitingar til byggingar er hýsa skal áhaldahús bæjarins og endurvinnslu Fjöliðjunnar fyrr en seint á næsta kjörtímabili eða árið 2028. Að sama skapi verða engar fjárveitingar til byggingar Samfélagsmiðstöðvar fyrr en á árinu 2026 eða sama ár og næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram.
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi lýsir yfir miklum vonbrigðum og hryggð með þessar tillögur bæjarstjórnar ekki síst vegna þess að þær eru lagðar fram án nokkurs formlegs samráðs við Notendaráð. Þá eru þær með öllu óskiljanlegar í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á Akranesi á liðnum árum. Hafi verið þörf á meiri varfærni í framkvæmdum hafa engar slíkar viðvaranir verið viðraðar opinberlega. Áðurnefndar tillögur eru hins vegar skýrt merki um forgangsröðun bæjarstjórnar. Sú forgangsröðun er afar dapurleg og með öllu óásættanleg að mati Notendaráðs.
Notendaráð skorar því á bæjarstjórn að standa við margítrekaðar metnaðarfullar eigin hugmyndir um uppbyggingu Fjöliðjunnar og tímasetningu í stað þess að setja þær enn einu sinni á byrjunarreit.
Stefnufesta, orðheldni og fyrirsjáanleiki verður ávallt að ríkja í málefnum fatlaðs fólks. Áætlanir sem fela í sér að nauðsynleg endurreisn starfsemi Fjöliðjunnar taki á annan áratug eru ekki sæmandi.

Greinargerð:
Þegar hús Fjöliðjunnar skemmdist mikið í eldsvoða þann 7.maí 2019 blasti við íbúum á Akranesi mikið endurreisnarstarf. Bregðast þurfti hratt við svo tryggja mætti þá mikilvægu starfsemi er þar fer fram. Tryggja þeim viðkvæma hópi sem þar starfar nauðsynlegt öryggi og skýra framtíðarsýn.
Þegar starfseminni hafði verið komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði hófst umræða innan bæjarstjórnar og utan með hvaða hætti ætti að endurreisa starf Fjöliðjunnar. Um skeið vann starfshópur sem um síðir lagði til að hús Fjöliðjunnar yrði endurbyggt og það stækkað samkvæmt eldri teikningum.
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks hvatti þó til þess á þeim tíma að horft yrði á fleiri möguleika við uppbygginguna ekki síst til þess hvort betra væri til framtíðar litið að byggja starfsemina upp frá grunni, jafnvel þó sú lausn tæki lengri tíma í útfærslu og byggingu.

Í desember 2021, þegar áðurnefndur starfshópur hafði að mestu lokið starfi sínu, tveimur og hálfu ári eftir brunann, ákveður bæjarstjórn Akraness samhljóða að fara aðra leið. Byggja skyldi svokallaða Samfélagsmiðstöð á Dalbraut og byggt yrði nýtt hús er hýsa skyldi starfsemi endurvinnslu Fjöliðjunnar og áhaldshúss bæjarins.
Þetta voru að sönnu mjög metnaðarfullar hugmyndir og að vandlega athuguðu máli ákvað Notendaráðið að styðja þessar hugmyndir þrátt fyrir að þær kostuðu einhverjar tafir á uppbyggingu. Þessi viðsnúningur bæjarstjórnar urðu mörgum er unnið höfðu að fyrri hugmyndum talsverð vonbrigði. Stuðningur Notendaráðsins var hins vegar skýr enda lá fyrir samhljóða vilji bæjarstjórnar um að flýta þessum framkvæmdum með öllum tiltækum ráðum.

Hönnun beggja bygginga hefur tekið sinn tíma ekki síst vegna þess mikla og vandaða samráðs sem haft hefur verið við þá er málið varðar. Aldrei hefur neitt annað komið fram en það væri full samstaða innan bæjarstjórnar um framkvæmdahraðann. Síðast kom sá vilji skýrt fram á fundi Notendaráðs þann 1.nóvember síðastliðinn þar sem formaður stýrihóps um samfélagsmiðstöð kynnti nýjustu teikningar af fyrirhugaðri Samfélagsmiðstöð.

Þrátt fyrir alla þessa forsögu ákveður bæjarráð samt á fundi sínum þann 6.nóvember og bæjarstjórn á fundi sínum þann 14.nóvember að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 2024-2030 þar sem öllum fyrri orðum og gjörðum er kollvarpað. Bygging áhaldahúss er í raun slegin út af borðinu með því að seinka henni fram á síðari hluta næsta kjörtímabils. Þungi í byggingu Samfélagsmiðstöðvar færist einnig í raun til næstu bæjarstjórnar.
Með tillögu að fjárhagsáætlun bæjarstjórnar má því segja að uppbygging Fjöliðjunnar sé nú enn einu sinni á byrjunarreit fjórum og hálfu ári eftir brunann. Mikil seinkun framkvæmda veldur óhjákvæmilega mikilli sóun á fjármunum þeim sem varið hefur verið í hönnun og undirbúning.

Samráðsleysi bæjarstjórnar við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar er í hrópandi ósamræmi við það mikla traust sem ríkt hefur milli bæjarstjórnar annars vegar og Notendaráðs og annarra þeirra er að málinu hafa komið undanfarin ár.

Fundi slitið - kl. 17:00.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00