Fara í efni  

Bæjarstjórn

1352. fundur 26. apríl 2022 kl. 17:00 - 20:00 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Elsa Lára Arnardóttir 2. varaforseti
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
  • Þórður Guðjónsson varamaður
  • Ingþór Bergmann Þórhallsson varamaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2204150, OR - aðalfundur 2022 (eigendafundur).

Málið verður númer 8 í dagskránni verði afbrigðin samþykkt og númer annarra mála á fundinum, miðað við útsenda dagskrá, hliðrast sem því nemur (verða þá nr. 9 til og með nr. 11).

Samþykkt 9:0

1.Jafnlaunavottun - úttekt 2022

2202107

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum nr. 3497 þann 7. apríl síðastliðinn uppfærða jafnlaunastefnu Akraneskaupstaðar í samræmi við ábendingar vottunaraðila og vísaði til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar afgreiðslu.

Úttekt vottunaraðila fór fram þann 28. febrúar og 1. mars síðastliðinn og gerði vottunaraðilinn smávægilegar athugasemdir um orðalag fyrirliggjandi jafnlaunastefnu Akraneskaupstaðar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir breytingar á jafnlaunastefnu Akraneskaupstaðar til samræmis við athugasemdir vottunaraðilans Versa vottun ehf.

Samþykkt 9:0

2.ÍA - rekstur, samskipti og samningur 2022-2026

2204124

Bæjarstjórn Akraness og fulltrúar ÍA gerðu með sér samkomulag um heildarúthlutun fjármuna vegna ársins 2022 til og með 2026 í desember síðastliðnum.

Frá þeim tíma hafa fulltrúar bæjarstjórnar og ÍA ásamt embættismönnum Akraneskaupstaðar að útfærslu þjónustusamnings um samstarfið sem nú liggur fyrir til samþykktar.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 13. apríl sl. þjónustusamning Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalagsins vegna áranna 2022 til og með 2026. Bæjarráð fagnaði niðurstöðunni og þakkaði fulltrúum ÍA fyrir samvinnunna í ferlinu.

Bæjarráð vísaði samningnum til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar Akraness.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir þjónustusamning Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness vegna áranna 2022 til og með 2026.

Samþykkt 9:0

3.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - A hluti

2204091

Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - A hluti
1.1 Aðalsjóður
1.2 Eignasjóður
1.3 Byggðasafnið í Görðum
1.4 Fasteignafélag Akraneskaupstaðar slf.

Bæjarráð staðfesti á fundi sínum þann 13. apríl sl., ársreikninga Aðalsjóðs og Eignasjóðs með undirritun sinni og lagði til við bæjarstjórn Akraness að ársreikningar Aðalsjóðs, Eignasjóðs, Byggðasafnsins í Görðum og Fasteignafélags Akraneskaupstaðar slf. vegna ársins 2021 yrðu samþykktir.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 3 til og með 5 saman undir dagskrárlið nr. 3 og að gerð verði grein fyrir umræðunni þar þó hvert og eitt mál verði eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega.

Samþykkt 9:0

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir óreglulega liði, er jákvæð um 245,1 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 257,1 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta með óreglulegum liðum er jákvæð um 507,3 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 101,8 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 1.979 en nam 1.652 árið 2020.
Skuldaviðmið er 20% en var 24% árið 2020.
EBITDA framlegð er 3,53% en var 0,25% árið 2020.
Veltufé frá rekstri er 16,98% en var 11,35% árið 2020.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 73% en var 84% árið 2020.
Eiginfjárhlutfall er 60% en var 59% árið 2020.
Veltufjárhlutfall er 1,87 en var 1,92 árið 2020.

Til máls tóku:
SFÞ sem gerði grein fyrir niðurstöðu ársreikninga Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021.

Framhald umræðu:
ELA, ÞG, ÓA og VLJ.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ársreikningar A- hluta Akraneskaupstaðar verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þann 10. maí næstkomandi.

Samþykkt 9:0

4.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - B-hluti

2204098

Áreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - B hluti

2.1. Fasteignafélag Akraneskaupstaðar ehf.
2.2. Gáma
2.3. Háhiti ehf.
2.4. Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

Bæjarráð staðfestiá fundi sínum þann 13. apríl síðstliðinn ársreikning Gámu með undirritun sinni og lagði til við bæjarstjórn Akraness að ársreikningar Fasteignafélagsins ehf., Gámu, Háhita ehf. og Höfða hjúkrunar og dvalarheimilis vegna ársins 2021 yrðu samþykktir.
Rekstrarniðurstaða B-hluta fyrir óreglulega liði var jákvæð um 63,9 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 10,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða B-hluta með óreglulegum liðum var jákvæð um 71,1 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 16,9 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ársreikningum B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þann 10. maí næstkomandi.

Samþykkt 9:0

5.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021 - samstæða

2204099

Bæjarráð staðfesti á fundi sínum þann 13. apríl síðastliðinn samstæðuársreikning Akraneskaupstaðar með undirritun og lagði til við bæjarstjórn Akraness að reikningurinn vegna ársins 2021 yrði samþykktur.

Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar, fyrir óreglulega liði, var jákvæð um 308,9 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 246,3 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar með óreglulegum liðum var jákvæð um 578,4 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 84,8 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er um 2.060 en nam um 1.615 árið 2020.
Skuldaviðmið er 20% en var 24% árið 2020.
EBITDA framlegð er 4,35% en var 0,17% árið 2020.
Veltufé frá rekstri er 16,12% en var 9,79% árið 2020.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 69% en var 79% árið 2020.
Eiginfjárhlutfall er 58% en var 57% árið 2020.
Veltufjárhlutfall er 1,79 en var 1,82 árið 2020.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að samstæðurreikningi A- og B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þann 10. maí næstkomandi.

Samþykkt 9:0

6.Skipurit Akraneskaupstaðar 2021

2111039

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 7. apríl síðastliðinn breytingu á skipuriti Akraneskaupstaðar sem taki gildi þann strax að lokinni lögboðinni birtingu í Stjórnartíðindum og vísar málinu til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn Akraness.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 6 og nr. 7 saman undir dagskrárlið nr. 6 og gerð grein fyrir umræðunni þar en hvort mál fyrir sig verður eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega.

Samþykkt 9:0

EBr, ELA, KHS, IBÞ, SFÞ, VLJ, SFÞ, BD, og EBr,

Bæjarstjórn samþykkir að vísa breytingu á skipuriti Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fer fram þann 10. maí næstkomandi.

Samþykkt 9:0

7.Bæjarmálasamþykkt - samþykkt um stjórn og fundarsköp

2204145

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 7. apríl síðastliðinn skipuritsbreytingar og breytingar á samþykkt um stjórn- og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 636/2013 og vísaði til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn Akraness.
Forseti bar upp að svohljóðandi breytingartillögum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness:

Tillaga nr. 1 er varðar 26. gr. samþykktarinnar.
Gerð er tillaga um nafnabreytingu á skóla- og frístundaráði sem fær nafnið mennta- og menningarráð.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 2 er varðar 43. gr. samþykktarinnar.
Gerð er tillaga um breytingu varðandi A. lið, 2. tl. og fagráð skólamála fær heitið mennta- og menningaráð.

Gerð er tillaga aum breytingu varðandi B. lið, 3. tl. og kjörstjórn breytt í yfirkjörnstjórn sem er í samræmi við hlutverk hennar samkvæmt lögum. Jafnframt er tilvísun til kosningalaga nr. 112/2021 sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

Gerð er tillaga um breytingu varðandi B. lið, 4. tl. varðandi tilvísun til nýrra kosningalaga sbr. 3. tl.

Gerð er tillaga um breytingu þannig að E. liður fellur burt en fær raðnúmerið 1. undir staflið D.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 3 er varðar kaflaheiti VI. kafla sem verður svohljóðandi:
Bæjarráð - Mennta- og menningarráð - Velferðar- og mannréttindaráð - Skipulags- og umhverfisráð

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 4 er varðar 2. mgr. 48. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:
Bæjarráð hefur umsjón með þjónustu- og upplýsingataæknimálum, nýsköpunar- og atvinnumálum og öðrum þeim verkefnum sem öðrum ráðum eru ekki sérstaklega falin.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 5 er varðar 49. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:
- Stjórn Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis
- Almannavarnanefnd
- Yfirkjörstjórn við kosningar samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021
- Undirkjörstjórnir við kosningar samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 6 sem varðar 51. gr. samþykktarinnar sem og fyrirsögn fyrir ofan greinina sem verði svohljóðandi:

MENNTA- OG MENNINGARRÁÐ

Kosning mennta- og menningarráðs.

Bæjarstjórn skal á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kjósa þrjá fulltrúa í mennta- og menningarráð til eins árs og jafnmarga til vara.
Kosningar í mennta- og menningarráð skulu vera leynilegar og bundnar hlutfallskosningar ef einhver bæjarfulltrúi óskar þess.
Framboð sem hefur fulltrúa í bæjarstjórn og á ekki kjörinn fulltrúa í mennta- og menningarráð skal hafa einn áheyrnarfulltrúa í ráðinu og annan til vara.
Bæjarstjórn kýs formann og varaformann mennta- og menningarráðs úr hópi kjörinna bæjarfulltrúa og um kosningu og kjörgengi í ráðið fer samkvæmt 27. gr. samþykktar þessarar.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 7. sem varðar 52. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráð skal að jafnaði halda fund á föstum tíma og eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Aukafundi skal halda eftir þörfum að ákvörðun formanns eða ef sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs, bæjarstjóri, formaður ráðsins eða a.m.k. tveir ráðsmenn óska þess.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 8 sem varðar 53. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs undirbýr ráðsfundi í samráði við formann ráðsins. Hann sér um að mennta- og menningarráð sé boðað til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá a.m.k. einum sólarhring fyrir fund. Geti ráðsmaður ekki sótt fund, tilkynnir hann forföll til sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs og óskar eftir því að varamaður verði boðaður.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 9 sem varðar 54. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Formaður mennta- og menningarráðs stjórnar fundum ráðsins og sér um að allt fari löglega og skipulega fram á fundum þess. Hann úrskurðar í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma út af fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar ráðsins.
Heimilt er að taka mál til meðferðar í mennta- og menningarráði þótt ekki sé það tilgreint í dagskrá. Þó er skylt að fresta afgreiðslu slíks máls ef einhver ráðsmanna óskar þess.
Bæjarskrifstofa Akraneskaupstaðar annast ritun fundargerða mennta- og menningarráðs, sé þess óskað. Um ritun fundargerða mennta- og menningarráðs gilda sömu reglur og um ritun fundargerða bæjarstjórnar sbr. 15. gr.
Mennta- og menningarráðsfundir skulu haldnir fyrir luktum dyrum og er óheimilt að greina frá ummælum einstakra fundarmanna á fundum.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 10 sem varðar 55. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráð fer með umsjón og eftirlit með málum sem heyra undir framkvæmd eftirfarandi laga og reglugerða byggðra á þeim, eins og þau eru á hverjum tíma og að því marki sem lögin setja skyldur á herðar sveitarfélaga:
- Forvarnir sbr. lög um lýðheilsustöð nr. 18/2003.
- Æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamál sbr. lög nr. 64/1998 og lög nr. 70/2007.
- Grunnskóla sbr. lög nr. 91/2008.
- Leikskóla sbr. lög nr. 90/2008 og reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995.
- Tónlistarskóla sbr. lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985.
- Daggæslu barna sbr. reglugerð nr. 198/1992 um eftirlit og leyfisveitingar vegna daggæslu barna í heimahúsum.
- Aðrar lagasetningar Alþingis sem á hverjum tíma tengjast verkefnum ráðsins.
- Rekstur og starfsemi menningar- og safnamála utan verkefna sem varða viðburðahald.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 11 sem varðar 56. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Eftirtaldar nefndir og stjórnir sem kjörnar eru af bæjarstjórn heyra undir stjórnsýslu mennta- og menningarráðs:
- Menningar- og safnanefnd
- Fulltrúaráð Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 12 sem varðar 57. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Mennta- og menningarráði er heimil fullnaðarafgreiðsla mála sbr. 29. gr.
Mennta- og menningarráð úrskurðar um heimild til endurupptöku mála skv. 31. og 77. gr.
Bæjarstjórn setur mennta- og menningarráði erindisbréf.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 13 sem varðar 63. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Eftirtaldar nefndir og stjórnir sem kjörnar eru af bæjarstjórn heyra undir stjórnsýslu velferðar- og mannréttindaráðs:
- Barnaverndarnefnd.
- Öldungaráð.
- Notendaráð um málefni fatlaðs fólks.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 14 sem varðar 8. mgr. 73. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs er staðgengill bæjarstjóra nema bæjarstjórn ákveði annað.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 15 sem varðar 75. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Bæjarstjórn er heimilt að fela eftirtöldum embættismönnum fullnaðarafgreiðslu mála á sama hátt og með sömu skilyrðum og nefnd eru í 29. gr.:
1. Deildarstjóra fjármála og launa í umboði bæjarráðs að afgreiða afslátt af fasteignasköttum til elli- og örorkulífeyrisþega á grundvelli samþykktra reglna þar um.
2. Byggingarfulltrúa að afgreiða mál samkvæmt samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúans á Akranesi.
3. Bæjarstjóra að veita umsagnir samkvæmt áfengislögum um áfengisveitingaleyfi lögum um veitinga- og gististaði um veitingu og endurnýjun rekstrarleyfa.
4. Félagsmálastjóra í umboði velferðar- og mannréttindaráðs að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð á Akranesi, samþykktar af bæjarstjórn.
Bæjarstjórn skal setja skýrar reglur um afgreiðslu embættismanna, en viðkomandi ráð hafa eftirlit með þeim og kalla reglulega eftir skýringum og upplýsingum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra. Embættismanni er alltaf heimilt að vísa ákvörðun skv. 1. mgr. til viðkomandi ráðs til fullnaðarafgreiðslu. Mál sem starfsmenn afgreiða skulu kynnt í viðkomandi ráði með skriflegri skýrslu í lok hvers ársfjórðungs.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 16 sem varðar 79. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna bæjarfélagsins fer eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga, starfsmannastefnu, jafnlaunastefnu og jafnréttisáætlun.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 17 sem varðar 87. gr. samþykktarinnar sem verði svohljóðandi:

Ef að lágmarki 20% þeirra sem kosningarrétt eiga í bæjarfélaginu óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga skal bæjarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 18 felur í sér að eldra bráðabirgðaákvæði sem hafði raðnúmerið 88 falli burt.

Samþykkt 9:0

Tillaga nr. 19 sem varðar 89. gr., sem fær nýtt raðnúmer og verður 88. gr. og ritað verði inn í greinina viðeigandi dagsetningar vegna málsmeðferðar bæjarstjórnar Akraness.

Samþykkt 9:0

8.OR - aðalfundur 2022 (eigendafundur)

2204150

Tillaga fyrir eigendafund hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu að bókun bæjarstjórnar Akraness til framlagningar á aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur sem fram fer þann 28. apríl næstkomandi:

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að leggja fyrir eigendafund hjá Orkuveitu Reykjavíkur, tillögu um að stjórn Orkuveitunnar leggi aukna áherslu á framleiðslu og sölu á raforku í starfsemi sinni. Fyrirsjáanlegur er mikill vöxtur í eftirspurn eftir grænni orku sem framleidd er með sjálfbærum hætti m.a. vegna markmiða um orkuskipti og jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040, með tilheyrandi tækifærum í aukningu á verðmætasköpun fyrirtækisins.

Orkuveitan, sem er eitt öflugasta orkufyrirtæki landsins, á að vera í fararbroddi þegar kemur að fullnýtingu sjálfbærra auðlinda sem fyrirtækinu er treyst fyrir og nýta þau tækifæri sem felast í því að þróa þekktar tæknilausnir til að lágmarka orkusóun og bæta orkunýtingu þeirra auðlindastrauma sem nú þegar eru virkjaðir.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Einar Brandsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)
Ingþór Bergmann Þórhallsson (sign)

9.Fundargerðir 2022 - bæjarráð

2201002

3498. fundargerð bæjarráðs frá 13. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2022 - skóla- og frístundaráð

2201004

190. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. apríl 2022
Til máls tók:
BD um dagskrárlið nr. 4.
ÞG um dagkrárliði nr. 2 og nr. 3.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2022 - skipulags- og umhverfisráð

2201005

235. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 11. apríl 2022
Til máls tóku:

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 20:00.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00