Fara í efni  

Bæjarstjórn

1235. fundur 24. maí 2016 kl. 17:00 - 18:53 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
 • Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar
 • Ólafur Adolfsson aðalmaður
 • Ingibjörg Valdimarsdóttir aðalmaður
 • Ingibjörg Pálmadóttir aðalmaður
 • Einar Brandsson aðalmaður
 • Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir aðalmaður
 • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
 • Valdís Eyjólfsdóttir aðalmaður
 • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
 • Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri
 • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar stýrði fundi og bauð fundarmenn velkomna til fundar.

1.Deilisk. Breiðarsvæði - Breiðargata 8, 8A og 8B

1509146

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs þann 19. maí 2016 var fjallað um athugasemdir sem gerðar voru við breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis vegna lóðanna við Breiðargötu 8, 8A og 8B.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti á fundi sínum umsögn um athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar með þeim breytingum sem samþykktar voru á fundinum.

Varaformaður ráðsins lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun:

,,Lagt er til við bæjarstjórn að hin auglýsta tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði samþykkt með vísan til fyrirliggjandi umsagnar um athugasemdir dags. 19. maí og minnisblaðs Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra HB Granda hf. þar sem fram kemur að HB Grandi hf. muni ekki starfrækja fiskþurrkun á Akranesi náist ekki markmið um lágmörkun óþæginda vegna lyktar.´´

Samþykkt 2:0 (RÓ og KHÓ, VLJ situr hjá)
Til máls tóku:
EBr sem leggur fram eftirfarandi tillögu:
"Lagt er til að bæjarstjórn samþykki umsögn um athugasemdir dags. 19. maí 2016.

Jafnframt er lagt til að bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs dags. 19. maí 2016 og hina auglýstu tillögu að breytingu á deiliskipulagi með vísan til fyrirliggjandi umsagnar um athugasemdir dags. 19. maí 2016 og nýs minnisblaðs Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra HB Granda hf. dags. 24. maí 2016 þar sem m.a. kemur fram að HB Grandi hf. muni ekki starfrækja fiskþurrkun á Akranesi náist ekki markmið um lágmörkun óþæginda vegna lyktar hvort sem er vegna fyrsta eða annars áfanga."

Einar Brandsson (sign)

Forseti ber upp tillögu um samþykki umsagnar um athugasemdir dags. 19. maí 2016.
Samþykkt 8:0 (IP situr hjá)

Forseti ber upp tillögu um staðfestingu á afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs dags. 19. maí 2016 og hinnar auglýstu tillögu að breytingu á deiliskipulagi með vísan til fyrirliggjandi umsagnar um athugasemdir dags. 19. maí 2016 og nýs minnisblaðs Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra HB Granda hf. dags. 24. maí 2016 þar sem m.a. kemur fram að HB Grandi hf. muni ekki starfrækja fiskþurrkun á Akranesi náist ekki markmið um lágmörkun óþæginda vegna lyktar hvort sem er vegna fyrsta eða annars áfanga.
Samþykkt 5:0 (VÞG, VLJ, IP og VE sitja hjá)


Frh umræðu:

VLJ sem leggur fram eftirfarandi bókun:
"Við undirrituð fögnum þeim stórhuga framtíðaráformum HB Granda um framkvæmdir á hafnarsvæðinu á Akranesi, sem kynntar voru á fjölmennum íbúafundi í Tónbergi þann 28. maí 2015. Í dag 24. maí 2016 er verið að afgreiða í bæjarstjórn Akraness deiliskipulag sem snýr eingöngu að Breiðargötu 8, 8A og 8B.

Tillagan sem nú liggur fyrir snýr að stækkun fiskþurrkunarverksmiðju með tilheyrandi landfyllingu.

Málið hefur fengið mikla umræðu og fjöldi umsagna, með og á móti, fylgja skipulagstillögunni. Annars vegar hafa íbúar nálægt fyrirhugaðri verksmiðju skiljanlegar áhyggjur af óþægindum vegna lyktarmengunar, mögulegu fjárhagslegu tjóni vegna verðlækkunar á húseignum auk þess að hafa áhyggjur af umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hins vegar eru skiljanlegir hagsmunir rekstraraðila sem vilja hafa fiskþurrkunina sem næst annarri fiskvinnslu á Neðri Skaga og við höfum fulla trú á vilja eigenda og stjórnenda HB Granda til að starfa í sátt og samlyndi við umhverfið.

Reynslan segir okkur, á sama hátt og allar skýrslur sem við höfum fengið í hendur, að framleiðsla sem þessi getur aldrei orðið án einhverrar lyktarmengunar. Með nýju húsnæði fiskþurrkunarinnar mun útbreiðslusvæðið breytast og í versta falli færast nær miðbænum. Þá gæti nýr hópur húseigenda og fyrirtækja orðið fyrir óþægindum ef ekki næst að lágmarka lyktina frá þurrkuninni.

Það er sannfæring okkar að þrátt fyrir góðan vilja HB Granda og undirritaða yfirlýsingu forstjóra um að fyrirtækið muni láta af fiskþurrkun á þessu svæði, náist markmið um lágmörkun lyktar ekki, þá verði það ekki fljóttekin eða auðveld ákvörðun eftir hundruða milljóna króna fjárfestingu. Því væri starfsemi sem þessari betur borgið á stað þar sem um hana ríkti sátt."

Ingibjörg Pálmadóttir (sign)

Valdís Eyjólfsdóttir (sign)

Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)

Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir (sign)

Frh umræðu:

RÓ, VLJ, IP, VÞG, SI,IV, VE, IP, VLJ, VÞG og
ÓA sem leggur fram eftirfarandi bókun:

"Í dag er lögð fram tillaga í bæjarstjórn Akraness um ósk HB-Granda hf um breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis, Breiðargötu 8, 8A og 8B. Tillagan markar fyrstu skref fyrirtækisins í þeirri miklu uppbyggingu sem HB-Grandi fyrirhugar á Akranesi.
Málið er flókið og umdeilt og hefur reynt verulega á íbúa, stjórnsýslu Akraneskaupstaðar og starfsmenn HB-Granda. Vandað hefur verið til verka á öllum sviðum og til grundvallar ákvörðun bæjarstjórnar liggur mikil vinna og efni, meðal annars umhverfisskýrsla frá VSÓ og haldnir hafa verið opnir fundir með íbúum á öllum stigum málsins. Í fyrirliggjandi skipulagstillögu er kveðið á um að HB Grandi þurfi að uppfylla ákveðin viðmið varðandi lyktarmengun í fyrsta áfanga verksins til að byggingarleyfi fyrir öðrum áfanga verði veitt. Jafnframt hefur forstjóri fyrirtækisins lýst því yfir að HB Grandi muni ekki halda starfseminni áfram ef ekki næst árangur varðandi lyktarmengun. Ég trúi því að niðurstaða bæjarstjórnar i þessu máli verði Akurnesingum til heilla til lengri framtíðar og að við bæjarfulltrúar munum leggja okkur alla fram við að leita sátta meðal bæjarbúa í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar í þessu umdeilda máli."

Ólafur Adolfsson (sign)

2.Deilisk. Hafnarsvæði H3 - Krókatún 22-24

1604120

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs þann 17. maí 2016 var fjallað um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hafnarsvæðis H3-Krókatún 22-24. Í breytingunni felst að stækka byggingarreit um 18 metra til austurs og auka nýtingarhlutfall lóðarinnar.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tóku:
EBr sem víkur af fundi undir þessum lið.
RÓ.

Samþykkt 8:0.

3.Fundargerðir 2016 - bæjarráð

1601006

3180. fundargerð bæjarráðs frá 12. maí 2016.
3181. fundargerð bæjarráðs frá 20. maí 2016.
Til máls tóku:
RÁ um lið númer 4 í fundargerð 3180.
ÓA um lið númer 15 og 16 í fundargerð 3180.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

4.Fundargerðir 2016 - skipulags- og umhverfisráð

1601009

33. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 17. maí 2016.
34. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 19. maí 2016.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

5.Fundargerðir 2016 - skóla- og frístundaráð

1601008

37. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2016
Til máls tók:
VLJ um lið númer 8.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir 2016 - velferðar- og mannréttindaráð

1601007

38. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 11. maí 2016.
39. fundargerð velferðar- og mennréttindaráðs frá 18. maí 2016.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2016 - Faxaflóahafnir

1601011

145. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna frá 13. maí 2016.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:53.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00