Fara í efni  

Bæjarstjórn

1226. fundur 26. janúar 2016 kl. 17:00 - 19:08 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
  • Ingibjörg Valdimarsdóttir aðalmaður
  • Ingibjörg Pálmadóttir aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Valdís Eyjólfsdóttir aðalmaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar stýrði fundi og bauð fundarmenn velkomna.

Forseti óskaði eftir að taka inn með afbrigðum sbr. c. lið 15. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar eftirfarandi erindi/mál:

Nr. 1601180
Kosning í ráð og nefndir 2016, samkvæmt 43. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar (verður mál nr. 4 á dagskrá fundarins).

Samþykkt 9:0

1.Kosning í ráð og nefndir 2016, samkvæmt 43. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar

1601180

Ingunn Jónasdóttir fulltrúi Bjartrar framtíðar hefur óskað lausnar sem varamaður í stjórn Höfða.
Lögð er fram tillaga frá Bjartri framtíð um að Hörður Ó. Helgason verði varamaður í stjórn Höfða.

Samþykkt 9:0

2.Deilisk. Breiðarsvæði - Breiðargata 8, 8A og 8B

1509146

Erindi skipulags- og umhverfisráðs frá fundi ráðsins þann 21. janúar sl., þar sem lagt er til við bæjarstjórn Akraness að fyrirliggjandi tillaga um breytingu að deiliskipulagi Breiðarsvæðis verði auglýst til kynningar og athugasemda í samræmi við 1. mgr. 41. gr., sbr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tóku:
EBr, VE sem leggur fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn Akraness hafnar þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um deiliskipulagsbreytingu á lóðunum við Breiðargötu 8-8B.
Þess í stað verði Skipulags- og umhverfisráði falið að leita, í samvinnu við HB Granda, að framtíðarstað fyrir þá stóru fiskþurrkunarverksmiðju sem hér er fyrirhugað að rísi. Fundinn verði staður þar sem ekki er hætta á að lyktarmengun frá framleiðslunni skerði lífsgæði íbúa eða rýri verðmæti eigna.


Greinargerð:
Akranes er bær möguleikanna. Í könnunum hefur komið fram að íbúar eru almennt ánægðir með grunnþjónustuna sem er til staðar á Akranesi. Jákvæðni og gott umtal gefur bæjarfélaginu mikið gildi.

Hluti íbúa Akraness hefur þó mátt búa um langt skeið við mikil óþægindi vegna lyktarmengunar frá starfsemi Laugafisks. Lífsgæði íbúanna sem verst hafa orðið úti vegna lyktarinnar eru verulega skert. Dögum saman yfir sumartímann veigrar fólk sér við að opna glugga og nýtur þess ekki að vera í sínu nær umhverfi. Fólk veigrar sér við að kaupa sér fasteignir á neðri Skaganum þar sem hætta er á að lyktarmengun frá verksmiðjunni trufli daglegt líf.

Nú á að leysa öll lyktarmengunar vandamál sem hafa verið uppi síðustu 15 ár í rekstri þessarar verksmiðju með því að sameina fyrir-og eftirþurrkun að Breiðargötu í nýju húsnæði, nota meira loft og óson. Reyndar á að stækka verksmiðjuna í leiðinni, allt í allt á að þrefalda framleiðsluna. Fara á úr 170 tonnum á viku í 600 tonn á viku. Það þýðir að loftmagnið sem þarf að nota við þurrkunina fer úr um 700.000 rúmmetrum á viku í næstum 4 milljónir rúmmetra á viku. Það á samt ekki að valda meiri lyktarmengun frá framleiðslunni. Eðlilegt er að setja stórt spurningarmerki við þá staðhæfingu. Ástæðan er m.a. sú að til að minnka mengun um 50% þarf að lækka styrk lyktarvaldanna um 97%. Talið er að um 40-50 efnasambönd orsaki lyktina. Lyktarþröskuldur margra þessara efna liggur mjög lágt og því þarf mjög lítið magn af þeim til að þau greinist sem óþefur. Sem dæmi þá er það þannig að ef tekst að lækka styrk mengunarefna um 90% þá minnkar lykt ekki nema um 37%. Því er ljóst að þó að menn komist fyrir stóran hluta af uppsprettunum er hugsanlegt að lyktin minnki aðeins óverulega. Vonir manna til að koma alfarið í veg fyrir lyktarmengun frá fiskverkun með tilkomu fullkomnari mengunarvarna hafa af fyrrnefndum orsökum oft reynst tálsýn.

Þegar skoðað er magn og fjarlægð frá íbúabyggð sker Akranes sig úr. Það eru um 250 metrar í næsta íbúðahús frá Breiðargötu 8 og ný og stækkuð fiskþurrkun mun geta unnið úr allt að 600 tonnum á viku. Ef við berum það saman við verksmiðjuna á Sauðárkróki þá eru þar 650 metrar í næsta íbúðahús og þar er unnið nú úr um 95 tonnum á viku en starfsleyfi fyrir 200 tonnum. Á Þorlákshöfn eru ca. 540 metrar í næsta íbúðarhús og unnið úr 50-225 tonnum á viku en starfsleyfið er fyrir 250 tonnum. Í Grindavík eru 670 metrar í næsta hús og unnið úr um 100 tonnum á viku, en það eru ekki magn takmarkanir í starfsleyfinu.

Ef af þessari framkvæmd verður, færist lyktin á ný mið eins og sjá má á vindrósum í skýrslum um málefnið. Áhættan af þessari framkvæmd er mikil fyrir íbúaþróun í gamla bænum, torgið og ekki síst fyrir Sementsreitinn sem miklar væntingar standa til um. Þessir bæjarhlutar standa berskjaldaðri með nýrri staðsetningu.

Fiskþurrkunarverksmiðjur verða aldrei lyktarlausar, samanber allar skýrslur sem gefnar hafa verið út þar að lútandi. Stærri bæjarfélög hafa almennt ekki treyst sér til að hafa slíka starfsemi í íbúabyggð. Nokkur bæjarfélög sem eru með slíka starfsemi innanborðs bíða eftir því að starfsleyfin renni út og stefna að því að starfsemin verði byggð upp utan íbúabyggðar. Það er kvíðvænlegt fyrir framtíð Akraness ef víðsýnin er ekki höfð að leiðarljósi í þessu máli.

Það er af þessum ástæðum helstum sem undirritaðir bæjarfulltrúar leggja fram ofangreinda tillögu.

Valdís Eyjólfsdóttir (sign)
Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir (sign)
Ingibjörg Pálmadóttir (sign)

Framhald umræðu:
EBr, RÓ, ÓA, IV sem leggur fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð samþykkir hér með að senda fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu nr.1509146 vegna breiðarsvæðis - Breiðargötu 8, 8A og 8B í auglýsingu en er þó ekki með því að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögunnar sjálfrar. Þá afstöðu mun ég taka þegar allar umsagnir liggja fyrir eftir lýðræðislegt auglýsingarferli og tillagan kemur til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Ingibjörg Valdimarsdóttir (sign)

Framhald umræðu:
IP, VLJ, VÞG, RÓ, IP, VLJ og VE.

Tillaga VE/VLJ/VÞG/IP borin upp til samþykktar:

Samþykkir tillögunni: 4(VE,VLJ, VÞG og IP).
Á móti tillögunni: 5 (ÓA, EBr, RÓ, IV og SI).

Tillagan felld.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

Samþykkt er tillaga skipulags- og umhverfisráðs um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis. Lóðarmörk hafa verið lagfærð lítillega frá afgreiðslu ráðsins.

Samþykkir tillögunni: 5 (ÓA, EBr, RÓ, IV og SI).
Á móti tillögunni: 4 (VE,VLJ, VÞG og IP).

Tillagan samþykkt.

3.Starf skipulagsfulltrúa

1601381

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti á fundi sínum þann 21. janúar sl. að tilkynna Sigurð Pál Harðarson sem skipulagsfulltrúa Akraneskaupstaðar til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. mgr. 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisráð vísar ákvörðuninni til samþykktar í bæjarstjórn Akraness.
Til máls tók: RÁ.

Samþykkt 9:0.

4.Skýrsla bæjarstjóra

1601399

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri fer yfir helstu atriði í störfum sínum frá 24. nóvember 2015.

5.Fundargerðir 2016 - bæjarráð

1601006

3172. fundargerð bæjarráðs Akraness frá 14. janúar 2016.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir 2016 - skipulags- og umhverfisráð

1601009

25. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 21. janúar 2016.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2016 - velferðar- og mannréttindaráð

1601007

28. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 25. nóvember 2015.
29. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 2. desember 2015.
30. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 13. janúar 2016.
31. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 20. janúar 2016.
Til máls tóku:
IV um lið nr. 1 í 31. fundargerð.
SI um lið nr. 1 í 31. fundargerð.
VÞG um lið1 nr. 1 og 3 í 31. fundargerð.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2016 - skóla- og frístundaráð

1601008

27. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 5. janúar 2016.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:08.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00