Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

8. fundur 12. janúar 2010 kl. 14:10 - 16:45

Ár 2010, þriðjudaginn 12. janúar, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 16:00.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0.

 

Mættir voru:          Valdís M. Þórðardóttir f.h.  Arnardals

                              Hlín Guðný Valgarðsdóttir, Brekkubæjarskóla

                              Guðmundur Böðvar Guðmundsson f.h. NFFA

                              Sólveig Samúelsdóttir, Grundaskóla

                              Árný Lára Sigurðardóttir f.h. Hvíta hússins og NFFA

                             

 

Eydís Aðalbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs stjórnaði fundi.

Einnig sat fundinn Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldustofu og ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

Eydís bauð fundarmenn velkomna og rakti að tímasetning fundarins væri í tilefni af 30 ára afmæli félagsmiðstöðvarinnar Arnardals.     

 

Fyrst tók til máls:

Valdís Marselía Þórðardóttir fulltrúi í Ungmennaráði Akraness, f.h. Arnardals.

 

Valdís fjallaði um þau tímamót sem nú eru en félagsmiðstöðin Arnardalur á þrjátíu ára afmæli og því var óskað eftir að halda bæjarstjórnarfundinn einmitt í dag .Hún fór yfir sögu Arnardals í stuttu máli:

 

?Þegar að Félagsmiðstöðin Arnardalur opnaði formlega fyrir 30 árum, þá var hún staðsett á Kirkjubraut 46 í húsi sem áður var m.a. elliheimili. Framkvæmdin hófst hinsvegar fljótlega haustið 1979 og voru nemendur í híbýlafræði undir stjórn Jóns Runólfssonar fengnir til að gera kostnaðaráætlun, drög að teikningum ofl. Veggir voru rifnir niður og öll sú vinna fór fram í sjálfboðavinnu af unglingum og nefndarmönnum í æskulýðsnefnd. Fékk nefndin 8 milljónir sem mátti kosta til verksins og stóðust  allar áætlanir, meðal annars vegna þess að það voru svo margir að vinna verk í sjálfboðavinnu við undir dyggri stjórn æskulýðsráðs. Arnardalur opnaði formlega þann 12.janúar 1980 þar sem efri hæðin á Kirkjubraut 46 var tekin í notkun.?  

 

Valdís fjallaði síðan um innra starf Arnardals s.s. opnunartíma, dagskrá, klúbbastarf, félagsfærnihópa og atburði sem eru fastir liðir í starfseminni. Valdís fór síðan yfir hlut unglinga í stjórn Arnardals og sagði af því tilefni:

 

?Öll þessi ár hefur Arnardalur verið með Arnardals nefnd eða ráð. Í þessu ráði eru nemendur úr báðum skólunum sem hittast reglulega og hjálpast að við að skipuleggja viðburði, opin hús, böll og fleira með hjálp starfsfólks. Ráðið sér einnig til þess að skreyta fyrir böll og viðburði og taka til eftir þau.?

 

Síðan sagði Valdís:

 

?Tímamót urðu sögu Arnardals í upphafi árs 2008 þegar Félagsmiðstöðin flutti starfsemi sína að Þjóðbraut 13. Ungmennahúsið Hvíta húsið flutti einnig sína starfsemi að Þjóðbraut 13 en það hafði áður verið til húsa að Skólabraut 9. Til varð Frístundamiðstöðin Þorpið, miðstöð frístunda ungs fólks á Akranesi.

Aðstaðan í Þorpinu er frábær og hefur gert það að verkum að fjölbreytni hefur aukist til mikilla muna. Þá er aðstaða fyrir fatlaða til fyrirmyndar ólíkt því sem var á Kirkjubrautinni.?

 

Valdís fór síðan yfir hvernig aðstaðan í Þorpinu hefur nýst og hvað má betur fara. Hún fjallaði um hvernig niðurskurður hefur birst í rekstri Þorpsins.

 

Umfjöllun sinni um Arnardal lauk Valdís með þessum orðum:

 

?Ég skil vel að það þurfi að spara og öll þurfum við að taka þátt í því en ég vil minna á að ástandið verður ekki alltaf svona og mun þetta lagast þegar fram líða stundir. Þá vona ég svo sannarlega að Félagsmiðstöðin Arnardalur fái það sem hún á skilið.?

 

Valdís notaði einnig tækifærið til að vekja athygli á að víða í bænum vantar ruslatunnur.

 

Næst á mælendaskrá var Hlín Guðný Valgarðsdóttir fulltrúi í  ungmennaráði Akraness fyrir hönd Brekkubæjarskóla.

 

Hlín gerði að umtalsefni hvernig sparnaður í sveitarfélaginu birtist nemendum grunnskólans. Hún lýsti skilningi á að við þær aðstæður sem nú væri uppi þyrfti að spara en það væri alltaf spurning um forgangsröðun.

 

Niðurskurður í skólunum bitnar fyrst og fremst á nemendum og því að nemendur fá ekki forfallakennslu. Hlín taldi að um nokkurra ára þróun væri að ræða og nú væri svo komið að forfallakennsla væri nánast horfin. Hún taldi það vera réttindi nemenda að fá forfallakennslu því að það kæmi á endanum niður á námsárangri ef engin forfallakennsla væri.

 

Af þessu tilefni sagði Hlín:

 

? Þó svo að margir haldi að við verðum bara fegin þegar við fáum ekki forfallakennslu sem að reyndar er oft rétt, þá kemur þetta á endanum niður á okkar námsárangri. Þetta vitum við og þess vegna viljum við í raun og veru frekar fá forfallakennslu heldur en frí.?

 

Síðan fjallaði Hlín um niðurskurð sem hefur bitnað á ferðalögum s.s. Reykjaskólaferð í 7. bekk og ferð að Laugum sem og skerðingu á félagslífi. Hlín fjallaði um gildi félagslífs og hvernig þátttaka í því getur komið í veg fyrir að nemendur lendi í vandræðum síðar meir.

 

Hlín taldi að forgangsraða ætti fólkinu í bænum fremst og sérstaklega hagsmunum ungs fólks sem setja ætti framar ýmsum verklegum framkvæmdaum.

 

Næstur tók til máls Guðmundur Böðvar formaður NFFA og fulltrúi í unglingaráði Akraness.

 

Guðmundur Böðvar fjallaði í upphafi um starf stjórnar nemendafélags FVA.

Stjórnin varð að glíma við mikinn halla frá fyrra ári og við tók verkefnið að skera niður kostnað og reyna að koma fjármálunum á réttan kjöl. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að sú fjárhagslega staða sem nemendafélagið var komið í, megi ekki endurtaka sig.

 

?Því legg ég til að skólinn skipi manneskju til að aðstoða komandi stjórnir við fjárhagslegar hliðar félagsins, manneskju sem hefur aðeins það eina hlutverk en ekki önnur innan skólans því það er í mörgu að snúast þegar bóka á listamenn fyrir alls kyns viðburði á vegum félagsins því fyrir framan listamennina sitja oft harðsvífnir umboðsmenn sem hafa það eina hlutverk að ná sem hagstæðustu samningum fyrir listamennina.?

 

Síðan fjallaði Guðmundur Böðvar um hvað væri framundan í félagslífi framhaldsskólanemenda. Þar er af nógu að taka m.a. Kaffihúsakvöld, Wipeout kvöld í Þorpinu, leikrit, árshátíð og margt, margt fleira. Af þessum atburðum eru tveir umfangsmestir: árshátíðin og leikrit. Leikritið sem sett verður upp í vetur er samið og leikstýrt af þeim Einari Viðarssyni og Gunnari Sturlu Hervarssyni. Af þessu tilefni sagði Guðmundur Böðvar:

 

? Ég hef velt því fyrir mér hvernig bæjaryfirvöld geti komið til móts við félagið varðandi leikritið. Kostnaður við  viðburð af þessu tagi er mikill og spyr ég því þig háttvirtur bæjarstjóri, hvernig bæjaryfirvöld geti hugsað sér að koma til móts við félagið í þeim efnum og kem ég með þá hugmynd að notkun Bíóhallarinnar um ákveðinn tíma gæti komið inn í formi styrks til nemendafélagsins.?

 

Guðmundur Böðvar sagði það sína skoðun að ungt fólk hefði nægar hugmyndir og skoðanir og getu til að breyta hlutum og sem dæmi þá hefði stjórn NFFA tekist að snúa tapi í rekstri félagsins í hagnað. Hann hvatti bæjarfulltrúa til að fara vandlega yfir það sem fram kemur á bæjarstjórnarfundi unga fólksins og hafa áfram samráð við ungt fólk.

 

Að lokum gerði Guðmundur Böðvar að umtalsefni málefni ungs fólks sem lokið hefur stúdentsprófi og vill gjarnan halda áfram að búa á Akranesi en stunda nám í Reykjavík. Hann velti fyrir hvort bæjaryfirvöld hefðu áform um að koma til móts við þennan hóp t.d. samgöngur milli Reykjavíkur og Akraness. Hann sagði að lokum:

 

 ?Ég kem því fram með mína persónulegu hugmynd en hún felur í sér að bærinn verði sér úti um langferðabíl og setji af stað áætlunar ferðir milli Akraness og Reykjavíkur eða semji við eitt af rútufyrirtækjum bæjarins til að sjá um þau mál. Einnig hefur mér dottið í hug hvort ekki sé hægt að leggja niður gjaldið í Hvalfjarðargöngin fyrir nemendur sem sækja skóla til Reykjavíkur og myndu þeir  til að mynda framvísa litlum passa í gjaldskýlinu til stuðnings því að þau sæki skóla til Reykjavíkur og yrði það ef til vill bæjaryfirvöld sem myndu útdeila slíkum pössum.?

 

Þá tók til máls Sólveig Rún Samúelsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Akraness f.h. Grundaskóla.

 

Sólveig fjallaði um stöðuna í samfélaginu, kreppu, skuldir, óvissu og niðurskurð. 

 

Sólveig lýsti yfir óánægju með að niðurskurðurinn bitnaði á félagslífi nemenda. Einnig ræddi hún um að niðurskurðurinn hefði dregið úr félagslífi innan grunnskólanna s.s. böllum og opnum húsum. Ekki hefði verið skipaður umsjónarmaður með félagslífinu í Grundaskóla svo dæmi væri nefnt. Hún ræddi einnig um mikilvægi ferða eins og ferð í Reykjaskóla og að Laugum sem felldar hafa verið niður.

 

Síðan sagði Sólveig:

 ?Á meðan ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er í dag skil ég fullvel að Akraneskaupstaður sé með sparnaðaráætlanir. En á komandi árum trúi ég að ástandið muni batna til muna og þá er um að gera að grunnskólarnir fái að halda aftur opnu húsin, böllin og fleira í sínum skólum.?

 

Sólveig fjallaði síðan um gildi íþróttastarfs og hve kostnaðarsamt það er fyrir fjölskyldur. Hún fagnaði því framtaki bæjaryfirvalda að styrkja fjölskyldur með ?Ávísun á öflugt tómstundastarf? og sagði þær hafa komið í góðar þarfir og skipt sköpum um tækifæri barna og unglinga til að taka þátt í íþróttum.

 

Að lokum sagði Sólveig:

 

?Í vor verður kosin ný bæjarstjórn og af því tilefni langar mig að biðja núverandi og tilvonandi bæjarfulltrúa að hafa í huga að sparnaður í málefnum ungs fólks er ekki þjóðhagslega hagkvæmur þegar upp er staðið, þar eru menn að kasta krónunni en hirða aurinn.?

 

Síðust á mælendaskrá: Árný Lára Sigurðardóttir fulltrúi í Ungmennaráði Akraness f.h. Hvíta hússins.

 

Árný Lára fjallaði um atvinnuleysi og áhrif þess á ungt fólk. Hún vitnaði m.a. í skýrsluna ?Ungt fólk án atvinnu ? virkni þess og menntun? sem unnin var fyrir félags- og tryggingamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra nóvember 2009 en þar kemur fram að aldurshópurinn 16-24 ára sé viðkvæmur aldurhópur þar sem þessi ungmenni hafa litla sem enga reynslu á vinnumarkaðnum.  Einnig kemur fram í skýrslunni að 30% langtímaatvinnulausra í október 2009 voru ungt fólk 30 ára og yngri og höfðu 77,4% þeirra einungis lokið grunnskólaprófi.

 

Árný benti á í þessu sambandi að mikilvægt væri að huga að fjölbreyttu námsframboði í FVA og koma í veg fyrir brottfall. Áhersla yrði að vera listnám samhliða bóknámi svo fleiri fengju nám við hæfi. Síðan sagði Árný:

 

?Nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands hefur í gegnum árin rekið fjölbreytt og öflugt starf og gætt hagsmuna nemenda skólans. Sem dæmi þá höfum við árlega staðið fyrir uppsetningu á leikverkum, tónlistaverkefnum og fleiru. Mikilvægt er að meta þetta starf betur en gert er sem hluta af námi því þarna leggja margir mikla vinnu fram og læra einnig mikið. Fjölmargir af fremstu listamönnum þjóðarinnar stigu einmitt sín fyrstu skref í slíkum verkefnum. Ég er viss um að með því að tengja starfsemi NFFA betur beint inn í námið er hægt að ná til enn fleiri og draga úr brottfalli.?

 

Árný vék síðan máli sínu að stöðunni í dag og þeirri staðreynd að þeir nemendur FVA sem útskrifuðust um jólin hefðu ekki allir fengið vinnu og að atvinnuhorfur framhaldsskólanemenda væru dökkar þegar litið væri til sumarsins.

 

Hún beindi síðan spurningu til bæjarfulltrúa:

 

?Ég vil spyrja um hver sé staða þessa máls hér á Akranesi? Hvernig hefur bæjarstjórn hugsað sér að koma til móts við ungmenni sem hafa enga vinnu??

 

Síðan gerði hún að umtalsefni tillögu sem samþykkt var í bæjarstjórn Akraness við gerð fjárhagsáætlunar 2010 um að skipaður yrði starfshópur til að vinna að atvinnumálum í bæjarfélaginu og benti Árný á að kannski væri heppilegt að hafa fulltrúa ungs fólks í starfshópnum.

 

Að lokum sagði Árný:

?Atvinnuleysi er mikið böl. Við skulum sameinast um að finna lausn sem hentar fyrir okkar samfélag. Akranes er bæjarfélag sem hefur upp á margt að bjóða. Hér viljum við búa en án atvinnu um lengri tíma er engum vært.

Leyfum atvinnuleysinu ekki að festa rætur hér heldur flæmum í burtu. Horfum til framtíðar með bjartsýni í huga og munum að við höfum á mörgu að byggja. Góðum skólum, öflugu menningarlífi og dugnaðarfólki. Við skulum hugsa á þann veg að atvinnuleysi er ekki vandamál heldur óleyst verkefni.?

 

Fundarstjóri varpaði fram spurningu til Valdísar um hvaða þætti í starfi Þorpsins, Valdís væri ánægðust með. Valdís sagði að sínu mati væri það böllin og félagsandinn sem ríkti hverju sinni.

 

Fundarstjóri varpaði fram þeirri spurningu til Hlínar hvers hún saknaði helst úr félagslífi nemenda frá fyrri árum. Hlín sagði að hún saknaði helst opnu húsanna í grunnskólunum og að böllin væru ekki einnig í grunnskólunum.

 

Fundarstjóri spurði Guðmund Böðvar með hvaða hætti hann teldi að bæjaryfirvöld geta hafa markvisst samráð við ungt fólk. Guðmundur Böðvar taldi heppilegast að farvegurinn væri í gegnum starfsmenn Þorpsins.

 

Fundarstjóri beindi þeirri spurningu til Sólveigar hvort efla ætti Þorpið frekar en leggja minni áherslu á félagslíf í grunnskólunum. Sólveig svaraði á þann veg að fjölbreytni væri mikilvæg að sínu mati og félagslífið hefði orðið fábreyttara en áður var.

 

Fundarstjóri spurði Árnýju hvernig hún vildi útfæra að rödd unga fólks vegna atvinnuúrræða mætti heyrast.  Árný taldi mikilvægt að hafa í huga að ungt fólk séu breiður hópur með margvíslegar þarfir en telur að nýta mætti krafta ungs fólks t.d. til listsköpunar sem mundi auðga bæjarlífið og nefndi nokkrar hugmyndir að slíkum viðburðum

 

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fyrir málflutninginn og síðan var fundi slitið kl. 16:45.

 

Helga Gunnarsdóttir, fundarritari

 

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00