Fara í efni  

Bæjarráð

3539. fundur 10. ágúst 2023 kl. 08:15 - 13:40 í Lindinni Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Haraldur Benediktsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Fundargerðir 2023 - velferðar- og mannréttindaráð

2301003

207. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 4. júlí 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2.Fundargerðir 2023 - skóla- og frístundaráð

2301004

2018. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 4. júlí 2023.

2019. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. júlí 2023.

220. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 2. ágúst 2023.
Fundargerðinar lagðar fram til kynningar.

3.Fundargerðir 2023 - skipulags- og umhverfisráð

2301005

270. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 3. júlí 2023.

271. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 17. júlí 2023.

272. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 1. ágúst 2023.
Fundargerðinar lagðar fram til kynningar.

4.Fundargerðir 2023 - Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynningar

2301031

931. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 22. júní 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

5.Fundargerðir 2023 - Heilbrigðisnefnd Vesturlands og fylgiskjöl

2301017

184. fundargerð Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 11. júlí 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Icedocs - kvikmyndahátíð 2023

2308046

Fulltrúar Icedocs heimildamyndahátíðarinnar mæta á fundinn og kynna hvernig til tókst á nýafstaðinni hátíð dagana 19. til og með 23. júlí sl.
Bæjarráð þakkar Ingibjörgu Halldórsdóttur og Heiðari Mar Björnssyni fyrir komuna á fundinn og greinargóða kynningu á heimildamyndahátíðinni Icedocs sem hefur fest sig í sessi sem menningarviðburður á Akranesi sem fjöldi gesta sækir á hverju ári og ber hróður Akraness víða um heim.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að móta grunn að formlegra samstarfi Akraneskaupstaðar og Icedocs.

Samþykkt 3:0

Ingibjörg og Heiðar Mar víkja af fundi.

7.Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025-2027

2306146

Tíma- og verkáætlun fyrir fjárhagsáætlun 2024.



Kristjana Helga Ólafsdóttir deildarstjóri fjármála og launa og Svava Sverrisdóttir deildarstjóri reikningshalds og greininga situr fundinn undir þessum dagskrárlið sem og undir liðum nr. 8 til og með nr. 12.
Bæjarráð samþykktir tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2024.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð leggur áherslu á að tíma- og verkáætlunin verði kynnt forstöðumönnum, fagráðum og nefndum.

8.Afskriftir 2023

2306206

Afskriftabeiðni frá sýslumanni Vesturlands dags. 26. júní 2023 en um er að ræða kröfur að fjárhæð kr. 2.355 (höfuðstóll), álögð opinber gjöld vegna áranna 2017 og 2018, sem þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og árangurslaust fjárnám hefur ekki ekki tekist að innheimta. Kröfurnar teljast fyrndar frá 19. febrúar síðastliðnum.



Afskriftabeiðni frá sýslumanni dags. 27.7.2023 en um er að ræða kröfur að fjárhæð kr. 45.908 (höfðustóll), álögð opinber gjöld vegna ársins 2018. Gjaldandi býr samkvæmt Þjóðskrá í útlöndum, engar greiðslur hafa borist og engum innheimtuaðgerðum né öðru fyrningarrofi hefur verið við komið og teljast kröfurnar fyrndar frá 1. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi afskriftarbeiðnir sýslumannsins á Vesturlandi, dagsettar 26. og 27. júní 2023, samtals að fjárhæð kr. 48.263 (höfuðstóll).

Samþykkt 3:0

9.Afskriftir vegna ársins 2023

2308006

Tillaga deildarstjóra fjármála- og launa um afskriftir krafna á árinu 2023, samtals að fjárhæð kr. 2.340.958. Um er að ræða kröfur þar sem innheimtuaðgerðir hafa ekki borið árangur og fyrirliggjandi er mat um árangursleysi og í sumum tilvikum eru kröfurnar þegar fyrndar.
Bæjarráð samþykkir tillögu deildarstjóra fjármála og launa um afskriftir krafna 2023, samtals að fjárhæð kr. 2.340.958 (höfuðstóll).

Samþykkt 3:0

10.Mánaðaryfirlit 2023

2303108

Mánaðaryfirlit janúar - maí 2023.
Lagt fram.

11.Launaviðaukar - fjárhagsáætlun 2023

2305162

Laun hafa verið endurreiknuð vegna kjarasamningsbreytinga.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 8 við fjárhagsáætlun ársins 2023.

Viðaukinn felur í sér ráðstöfun að fjárhæð kr. 214.466.562 vegna kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga við stéttarfélög launþega Akraneskaupstaðar annarra en Verkalýðsfélags Akraness en viðauki vegna þess kjarasamnings var afgreiddur í viðauka nr. 6, samtals að fjárhæð kr. 151.394.412, sbr. bæjarráðsfund nr. 3535 frá 25. maí sl.

Viðaukinn nú bókast á viðeigandi deildir samkvæmt meðfylgjandi skjali.

Viðbótarkostnaðinum, samtals að fjárhæð kr. 214.466.562, er mætt innan fjárhagsááætlunar af Óvissum útgjöldum, deild 20830-1697, að fjárhæð kr. 48.608.588, Óvissum útgjöldum, deild 31830-4620, að fjárhæð kr. 10.000.000 og deild 28020-0382 (arðgreiðslur), að fjárhæð kr. 155.857.974 og hefur ráðstöfunin því ekki áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu ársins.

Samþykkt 3:0

Heildarviðbótarlaunakostnaður Akraneskaupstaðar vegna nýrra kjarasamninga á árinu 2023 nemur samtals kr. 365.857.974.

12.Langtímaveikindi starfsmanna 2023 (veikindapottur)

2306130

Veikindapottur janúar - júní 2023.



Samantekt umsókna stofnana Akraneskaupstaðar í veikindapott fyrir tímabilið janúar til og með júní 2023.



Harpa Hallsdótir mannauðsstjóri situr fundinn undir þessum dagskrárlið.
VLJ víkur af fundi við afgreiðslu málsins.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir úthlutun fjármuna vegna kostnaðar stofnana Akraneskaupstaðar við afleysingar vegna veikindaforfalla starfsmanna á árinu 2023.

Úthlutunin er vegna tímabilsins 1. janúar til og með 30. júní og nemur samtals kr. 56.084.000 sbr. meðfylgjandi fylgiskjali.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 9 að fjárhæð kr. 56.084.000 og er ráðstöfuninni mætt af liðnum Óviss útgjöld 20830-1691 og fært á tegundarlykilinn 1691 á hverja stofnun fyrir sig samkvæmt skiptingu sbr. meðfylgjandi fylgiskjal.

Samþykkt 2:0

Harpa Hallsdóttir, Kristjana Helga Ólafsdóttir og Svava Sverrisdóttir víkja af fundi.

VLJ tekur sæti á fundinum að nýju.

13.Víkurbraut 1 - djúpgámar f. Grundaskóla - sorphirða

2306036

Umsókn um byggingarleyfi vegna djúpgáma við Grundarskóla, svæðið er ódeiliskipulagt. Búin verður til ný lóð í bæjarlandi Akraneskaupstaðar, Víkurbraut 1 og komið verður fyrir fimm djúpgámum á lóð. Aðgengi að lóð verður í gegnum núverandi aðrein, sleppistæði.



Erindið var grenndarkynnt samkvæmt 1. mgr. 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 8. júní 2023 til 10. júlí 2023, fyrir lóðarhöfum Bjarkargrund 10, 12, 14, 16, 18 og 20 og Espigrund 1. Engar athugasemdir bárust.



Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð í umboði bæjarstjórnar að samþykkja áform um byggingarleyfi sbr. grenndarkynningu.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir byggingarleyfi vegna djúpgáma við Grundaskóla á nýrri lóð, Víkurbraut 1.

Samþykkt 3:0

14.Deiliskipulag Skógarhverfi áfangi 3C - breyting Skógarlundur 42

2307076

Breyting á deiliskipulagi Skógarhverfis áfanga 3C. Breytingin felst í að lóð við Skógarlund 42 fer úr 1977 fm í 1771 fm en íbúðarfjöldi er óbreyttur. Lóð við Skógarlund 40 fer úr 1620 fm í 1791 fm. Íbúðafjöldi verði (6) íbúðir í stað (5) íbúðir, gerð verður lóð fyrir dreifistöð rafveitu við norðurhorn lóðar. Annað er óbreytt.



Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð í umboði bæjarstjórnar að breytingin verði samþykkt skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi Skógarhverfi áfanga 3C. Breytingin felst í breytingu á lóðum Skógarlundar nr. 40 og nr. 42 og afmörkun nýrra lóðar við norðurhorn lóðar nr. 42 vegna dreifistöðvar raforku og stendur sú lóð við áformaðaða þvergötu til norðurs úr Skógarlundi. Byggingarréttur Skógarlundar nr. 40 stækkar um 171 fm, fer úr 1620 fm í 1791 fm en án breytinga á íbúðafjölda. Byggingarréttur Skógarlundar nr. 42 minnkar um 206 fm, fer úr 1977 fm í 1771 en fjölgað um eina íbúð. Byggingaréttur á lóð nr. 42 fyrir bílskýli við götu er felldur út og stærð nýrrar lóðar undir dreifistöð er í samræmi við minnkun á lóð nr. 42.

Breytingin er send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 3:0

15.Deiliskipulag Skógarhverfi áfangi 3B - breyting Grenndarstöð

2307077

Breyting á deiliskipulagi Skógarhverfi 3B, lóðinni Asparskógum 25. Í breytingunni felst að koma fyrir grenndarstöð fyrir 8 djúpgámum, gerð er lóð undir gámana og bílstæði fyrir sorpbíl en annað er óbreytt.



Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð í umboði bæjarstjórnar að breytingin verði samþykkt skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir breytingu á deiliskipulagi Skógarhverfis 3B á lóðinni Asparskógar 25 sem felst í að koma fyrir grenndarstöð sorpmóttöku með 8 djúpgámum við Lækjarskóga.

Lóðin við Asparskóga 25 er minnkuð um 127 fm og hjólastíg og gönguleið hnikað lítillega til. Aðstaða fyrir þjónustubíl úrgangssöfnunar verður á stæði samhliða Lækjarskógum.

Breytingin er send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 3:0

16.Deiliskipulag Skógarhverfi áfangi 5 - breyting dælustöð

2307078

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð, sem starfar í umboði bæjarstjórnar, að breytingin sé óveruleg í skilningi skipulagslaga. Málsmeðferð verði samkvæmt 3.mgr 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir breytingu á deiliskipulagi Skógarhverfis áfanga 5 sem felst í stækkun skipulagssvæðisins um 0,15 hektara til norðurs meðfram Lækjarskógum og afmörkuð 780 fm lóð fyrir dælustöð fráveitu við Lækjarskóga nr. 1. Mannvirkið verður neðanjarðar og mun standa um 25-50 cm upp úr landi. Byggingarreiturinn er rúmur en dælustöðin verður á norðurhluta hans og sem lengst frá næstu íbúðarhúsum.

Samþykkt 3:0

17.Skógarhverfi 3C - Auglýsa lóðir til umsóknar

2308011

Tillaga um að auglýsa lóðir lausar til umsóknar.
Bæjarráð samþykkir að úthlutun lóða í Skógarhverfi 3C fari fram með útdrætti. Um er að ræða alls 7 lóðir við Skógarlund og 1 lóð við Akralund. Um er að ræða 6 raðhúsalóðir (nr. 17, nr. 19, nr. 21, nr. 38, nr. 40 og nr. 44) og 1 fjölbýlishúsalóð við Skógarlund (nr. 23) og 1 fjölbýlishúsalóð við Akralund (nr. 59).

Einnig er um að ræða 1 eina byggingarlóð sem tilheyrir áfanga 5 í Skógarhverfi, raðhúsalóðin Tjarnarskógar 15, sem einnig er laus til úthlutar með útdrætti.

Gert er ráð fyrir að gatna- og lagnagerð Skógarhverfi 3C ferði lokið í árslok 2023 og þá unnt að hefja þar uppbyggingu. Gert er ráð fyrir að uppbygging á Raðhúsalóðinni við Tjarnarskóga 15 geti hafist nokkuð fyrr eða í október nk.

Tillaga að skilmálum, gögnum og tímasetningum, þar með talið varðandi umsóknarfrest og dagsetningu úthlutunarfundar, verða lögð fyrir bæjarráð og í framhaldinu kynnt á heimasíðu og lóðavef Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 3:0

18.Suðurgata - Auglýsa lóðir til umsóknar

2308017

Tillaga um að auglýsa lóðir við Suðurgötu til umsóknar.
Bæjarráð samþykkir að úthlutun lóða við Suðurgötu fari fram með útdrætti. Um er að ræða alls 4 lóðir, sem allt eru fjölbýlishúsalóðir (hámark tvær íbúðir), Surðurgata nr. 108, nr. 110, nr. 112 og nr. 118.

Gert er ráð fyrir að endurnýjun lagna og yfirborðs í/á Suðurgötu ljúki nú í ágústmánuði og þá verði unnt að hefja uppbyggingu. Ákvörðun liggur fyrir um niðurrif núverandi mannvirkis á Suðurgötu 108 og áætlað að þeirri framkvæmd ljúki í haust og lóðin verði þá aðgengileg til uppbyggingar.

Tillaga að skilmálum, gögnum og tímasetningum, þar með talið varðandi umsóknarfrest og dagsetningu úthlutunarfundar, verða lögð fyrir bæjarráð og í framhaldinu kynnt á heimasíðu og lóðavef Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 3:0

19.Tjarnarskógar 4 - umsókn um byggingarlóð

2307082

Umsókn Hoffells ehf. um fjölbýlishúsalóð við Tjarnarskóga 4.



Júlíus Þór Júlíusson sendi inn umsókn um lóðina 15. júlí sl. og hefur greitt umsóknargjald. Lóðin er laus til umsóknar skv. almennum skilmálum.
Bæjarráð úthlutar byggingarlóðinni (fjölbýlishúsalóð) við Tjarnarskóga nr. 4 til umsækjanda með fyrirvara um að hann standist fyrirliggjandi kröfur skv. almennum skilmálum gjaldskrár Akraneskaupstaðar fyrir gatnagerðargjald nr. 1543/2022 sbr. breytingu nr. 830/2023 og reglur Akraneskaupstaðar um úthlutun lóða frá 24. nóvember 2020.

Um úthlutunina gilda útboðskilmálar dagsettir í mars 2023. Verð skulu uppfærð miðað við breytingar á byggingarvísitölu til úthlutunardags.

Málið komi að nýju til bæjarráðs ef umsækjandi uppfyllir ekki almenn skilyrði úthlutunar skv. gatnagerðargjaldskrá Akraneskaupstaðar og ákvæði reglna Akraneskaupstaðar um úthlutun lóða.

Samþykkt 3:0

20.Tjarnarskógar 6 - umsókn um byggingarlóð

2308050

Umsókn um lóð við Tjarnarskóga 6.
Bæjarráð úthlutar byggingarlóðinni (fjölbýlishúsalóð) við Tjarnarskóga nr. 6 til umsækjanda með fyrirvara um að hann standist fyrirliggjandi kröfur skv. almennum skilmálum gjaldskrár Akraneskaupstaðar fyrir gatnagerðargjald nr. 1543/2022 sbr. breytingu nr. 830/2023 og reglur Akraneskaupstaðar um úthlutun lóða frá 24. nóvember 2020.

Um úthlutunina gilda útboðskilmálar dagsettir í mars 2023. Verð skulu uppfærð miðað við breytingar á byggingarvísitölu til úthlutunardags.

Málið komi að nýju til bæjarráðs ef umsækjandi uppfyllir ekki almenn skilyrði úthlutunar skv. gatnagerðargjaldskrá Akraneskaupstaðar og ákvæði reglna Akraneskaupstaðar um úthlutun lóða.

Samþykkt 3:0

21.30 km götur

2307058

Tillaga að 30 km hraðatakmörkun á Höfðabraut, Skarð, Skarðsbraut, Vallarbraut og Jaðarsbraut austan Faxabrautar, auk þess að afmarka svæðið framan við Vallarsel með 30 km hliðum beggja vegna. Breytingin verði send lögreglustjóranum á Vesturlandi til umsagnar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.



Skipulags- og umhverfisráð samþykkir framlagðar tillögur og vísar til samþykktar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir 30 km hraðatakmörkun á Höfðabraut, Skarði, Skarðsbraut, Vallarbraut og Jaðarsbraut austan Faxabrautar auk þess að afmarka svæðið framan við leikskólann Vallarsel með þrengingu.

Breytingin verði send lögreglustjóranum á Vesturlandi til umsagnar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 3:0

22.Fjárheimildir til kaupa á stofnbúnaði í leikskólann Garðasel

2307180

Erindi frá stjórnendum Garðasels vegna fyrirhugaðra kaupa á stofnbúnaði fyrir leikskólann.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir erindið frá stjórnendum leikskólans Garðasels um kaup á stofnbúnaði o.fl. að fjárhæð kr. 7.350.000.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 10 vegna kaupanna að fjárhæð kr. 7.350.000 en af þeirri fjárhæð er kr. 6.350.000 mætt með tilfærslum á milli verkefna í fjárfestingaráætlun en kr. 1.000.000 mætt af deild 20830-4660 og fært á deild 04140-4660.

Samþykkt 3:0

23.Neyðargisting í gistiskýlum Reykjavíkurborgar

2306135

Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs þann 4. júlí sl. voru lögð fyrir drög að samningi um greiðslu gistináttagjalds í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar fyrir heimilislaust fólk.



Fyrir liggur að samningurinn felur ekki í sér viðbótarkostnað umfram gistináttagjaldið sem Akraneskaupstaður þarf nú þegar að greiða. Undirritun samningsins tryggir hins vegar íbúum með lögheimili á Akranesi næturpláss í skýlunum ólíkt því fyrirkomulagi sem er í dag.



Velferðar- og mannréttindaráð fjallar um efnistök og þýðingu samnings við Reykjavíkurborg vegna neyðargistinga í gistiskýlum Reykjavíkurborgar. Ráðið leggur til við bæjarráð að samningurinn verði undirritaður, með þeim fyrirvara að samningurinn verði endurskoðaður að 12 mánuðum liðnum.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi samning Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar um greiðslu gistináttagjalds í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar fyrir heimilislaus fólks og tryggist þar með íbúum sem skráðir eru með lögheimili á Akranesi næturpláss þegar þess er þörf.

Samþykkt 3:0

24.Lokaparty hinsegin daga 2023 Lighthouse Tækifærisleyfi til áfengisveitinga

2307104

Afgreiðsla á umsögn Akraneskaupstaðar lögð fram til kynningar en um er að ræða umsögn vegna umsóknar Lighthouse Restaurant ehf. Kirkjubraut 8-10, Akranesi,um tækifærisleyfi og tímabundið áfengisleyfi vegna "Lokapartý hinsegin Vesturlands" laugardaginn 22. júlí sl. frá kl. 22:00 til 03:00 aðfararnótt 23. júlí sl.
Lagt fram.

25.Vatnsrannsóknir á Akranesi

2306149

Kynning á stöðu vatnsrannsókna á Akranesi.
Farið yfir stöðu málsins.

Starfsmenn Verkís eru sem stedur í vettvangsvinnu og reiknað með að niðurstöðum verði skilað í ágúst/september næstkomandi.

26.Umsókn um launalaust leyfi JEA

2308045

Umsókn skólastjóra Tónlistarskóla Akraness um ársleyfi frá starfi sínu.
Bæjarráð samþykkir erindið.

Samþykkt 3:0

27.Sala fasteigna Akraneskaupstaðar

2308051

Kaup og sala félagslegra íbúða.



Fyrir liggur ósk rekstrarstjóra fasteigna Akraneskaupstaðar um heimild til sölu tveggja íbúða í eigu Akraneskaupstaðar.
Bæjarráð veitir heimild til að hefja söluferli á tveimur íbúðum Akraneskaupstaðar sem unnið verði í samráði við sviðsstjóra velferðar- og mannréttindasviðs, rekstrarstjóra fasteigna Akraneskaupstaðar og starfsfólks fjármálasviðs.

Unnin verði einnig greining á möguleikum þess að fjárfest verði í einni eða tveimur íbúðum í þeirra stað.

Samþykkt 3:0

Fundi slitið - kl. 13:40.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00