Fara í efni  

Upplestur Tapio Koivukari úr bók sinni Galdra Manga á Lesbókinni

Finnski rithöfundurinn Tapio Koivukari mun lesa upp úr bók sinni Galdra Manga. Upplesturinn er í boði Norræna félagsins á Akranesi.

Manga er ung heimasæta á kostajörðinni Munaðarnesi á Ströndum á 17. öld. Fjölskylda hennar er bjargálna og talin kunna fleira fyrir sér en almennt gerist. En þegar undarlegir fyrirburðir verða í sóknarkirkjunni í Árnesi er sjónum yfirvalda beint að Munaðarnesfólkinu. Í upphafi frásagnarinnar er Manga lögð á flótta yfir heiðina vestur í Ísafjarðardjúp eftir að Þorleifur Kortsson sýslumaður hefur látið brenna föður hennar á báli fyrir galdra. Sjálf er hún útskúfuð og sætir ásökunum sveitunga sinna um fjölkynngi. Lesandinn fylgir Möngu á flóttanum og í baráttu hennar fyrir réttlæti, en um leið eru rifjaðir upp atburðirnir sem leiddu til þess að hún forðaði sér. Sagan er byggð á raunverulegum atburðum og þjóðsagnapersónan Galdra-Manga fær hér uppreisn æru.

Tapio Kovukari er fæddur í Finnlandi árið 1959. Fjórar bækur hans hafa komið út á íslensku, Yfir hafið og í steininn 2009, Ariasman 2012, Predikarastelpan 2017 og nú í haust kom skáldsagan Galdra Manga út hjá bókaútgáfunni Sæmundi. Fyrir Predikararstelpuna hlaut Tapio hin virtu Runeberg verðlaun í Finnlandi. Hann bjó á Íslandi um skeið og vann meðal annars við byggingarvinnu í Reykjavík og smíðakennslu á Ísafirði. Á síðarnefnda staðnum kynntist hann eiginkonu sinni og búa þau nú ásamt syni í heimabæ Tapios, Rauma við vesturströnd Finnlands. Tapio er einnig mikilvirkur þýðandi íslenskra bókmennta á finnsku og hefur m.a. þýtt verk Vigdísar Grímsdóttur, Gyrðis Elíassonar og Gerðar Kristnýjar.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00