Fara í efni  

Útilistaverk

Pýramídísk afstraksjón

Listaverkið Pýramídísk afstraksjón er eftir Ásmund Sveinsson sem fæddist árið 1893 að Kolsstöðum í Miðdölum, Dalasýslu. Listaverkið var sett upp árið 1975 í tilefni af Kvennaári og var það kvenfélag Akraness, Menningarsjóður bæjarins og Sementsverksmiðjan sem stóðu straum af kostnaði. Ásmundur nam útskurð og teikningu hjá Ríkharði Jónssyni og Þórarni B. Þorlákssyni og lærði einnig í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og París en í a.m.k. síðastnefndu borginni var hann verðlaunaður og þá fyrir prófverkefni sitt Sæmundur á selnum. Meðal listaverka sem sjá má í garði Ásmundar við Sigtún eru verkin „Tröllkona“, „Veðurspámaður“, „Garðyrkjumaður“, „Tónar hafsins“ og „Helreiðin“. Árið 1981 var verk Ásmundar, „Sonartorrek“ sett upp við Borg á Mýrum í tengslum við samnefnt kvæði Egils Skallagrímssonar sem hann orti á 10. öld til að sefa harm sinn að látnum sonum. Mörg önnur útilistaverk eftir Ásmund finnast í Reykjavík og á öðrum stöðum. Ásmundur lést árið 1982. 

Skvísurnar, Tálbeitan og Hafmeyjarslysið

Bjarni Þór Bjarnason fæddist á Akranesi árið 1948 og ólst hér upp. Hann er sonur hjónanna Þórunnar Friðriksdóttur og Bjarna Eggertssonar frá Kringlu, en það hús stendur enn, að nokkru breytt, við Mánabraut á Akranesi. Bjarni var bæjarlistamaður Akraness árið 1997. Bjarni stundaði nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands en einnig stundaði hann nám erlendis. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á verkum sínum á Akranesi og víðar. Á Suðurflös við Breið, landmegin við Gamla vita, er verk unnið úr ryðfríu stáli og gert í minningu um Hafmeyjarslysið sem varð árið 1905, rétt fyrir utan flösina. Bjarni Þór er einnig samhöfundur að útskurðarverkinu Skvísurnar við Skólabraut ásamt Guðna Hannessyni í Lykkju en verkið stendur á milli húsa þeirra. Á Elínarhöfða er verkið Tálbeita eftir Bjarna Þór Bjarnason en það var reist árið 2000 í tengslum við Reykjavík sem var þá menningarborg Evrópu.

SkutlanKubbaleikur, Skutlan, Álfaborgir, Elínarsæti og Bjartsýni

Guttormur Jónsson er fæddur er árið 1942 í Laugardalnum í Reykjavík og hefur hann verið búsettur á Akranesi síðan á sjöunda áratugnum. Gutti er húsasmiður að mennt og sótti námskeið hjá módel- og höggmyndadeild Myndlistaskólans í Reykjavík á árunum 1979-1983 en er annars að mestu sjálfmenntaður í list sinni. Hagleikur hans hefur einnig notið sín í starfi en hann var safnvörður við Byggðasafnið í Görðum um árabil. Guttormur er sonur Gretu og Jóns Björnssonar en Greta skreytti m.a. Akraneskirkju að innan á sínum tíma. Einnig skreyttu þau Bíóhöllina á Akranesi þegar hún var byggð árið 1942. Gutti á þónokkuð mörg útilistaverk á Akranesi, m.a. listaverkið Kubbaleikur við Íþróttamiðstöðina á Jaðarsbökkum sem sett var upp árið 1985, listaverkið Skutlan fyrir framan Fjölbrautaskólann við Vogabraut sem sett var upp árið 1993, listaverkið Álfaborgir við Mánabraut sem sett var upp af Sementsverksmiðjunni árið 1984, listaverkið Elínarsæti við Elínarhöfða á vestanverðu Akranesi sem sett var upp árið 2000 í samstarfi við Reykjavíkurborg sem þá var Menningarborg Evrópu og loks Bjartsýni við hús Fjöliðjunnar við Dalbraut kallast  sem sett var upp árið 1989.

HimnaríkiHimnaríki

Við Innnesveg hjá Leynisvogi er listaverkið Himnaríki eftir Jónínu Guðnadóttur (f. 1943). Jónína ólst upp á Akranesi en býr nú í Hafnarfirði. Hún er dóttir Guðna Kristjánssonar, bakarameistara, og Stefaníu Sigurðardóttur, kaupkonu, sem ættuð var frá Skuld í Vestmannaeyjum. Fjölskyldan átti heima í húsi sem þau byggðu að Suðurgötu 57 þar sem nú stendur suðurhluti Landsbankahúss. Þar var íbúðin á efri hæðinni en bakaríið og brauð- og kökusalan voru á þeirri neðri. Jónina stundaði listnám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, í Myndlistaskólanum í Reykjavík og framhaldsnám við Konstfack Skolan í Stokkhólmi. Hún hefur unnið mikið í gler og leir en hefur nú snúið sér meira að höggmyndalist. Jónína hefur haldið margar einka- og samsýningar bæði hérlendis og erlendis. Himnaríki var keypt og sett upp af Akranesbæ árið 2000 og tengist samstarfi við Reykjavíkurborg  sem þá var Menningarborg Evrópu. Pýramídinn er tákn um ævarandi þrautseigju þeirrar nægjusömu kynslóðar sjávarplássanna sem nú er horfin en lagði grunninn að nútímanum. Baðkerið á toppi hans ber trúfesti hennar vitni í upphafi árþúsunds eins og pýramídarnir fornu.

Verkið HnötturHnöttur

Listaverkið Hnöttur við leikskólann í Teigaseli við Laugarbraut er eftir Philippe Ricart. Hann er fæddur árið 1952 og kom til Íslands árið 1979 þar sem hann hefur búið síðan. Verkið var sett upp 1998 og er unnið í eir. Verkið sýnir tvö börn í boltaleik og hnötturinn sem þau halda á lofti á milli sín er fjöreggið, menningararfleifðin sem þau fá frá eldri kynslóðum. Hjá íbúð Philippe Ricart við Háholt má sjá verk hans Jarðbundinn sem fyrst var sýnt á yfirlitssýningu ýmissa lista- og handverksmanna á Akranesi í tengslum við 50 ára kaupstaðarafmæli Akraness 1992. Við Elínarhöfða mátti einnig sjá verk eftir Philippe sem hét Veiðar og var hluti af sýningunni „Strandlengjan“ sem var sett upp árið 2000 og var framlag Akraness í verkefninu Reykjavík, menningarborg Evrópu 2000. Philippe hannar og vinnur margskonar hluti, listmuni og nytjahluti, og hefur haldið fjölda sýninga á verkum sínum og tekið þátt í samsýningum með öðrum listamönnum. Philippe var bæjarlistamaður Akraness 1996.

Grettistak
Grettistak

Við Dvalarheimilið Höfða við Innnesveg er Grettistak eftir Magnús Tómasson (f. 1943). Magnús gat sér gott orð sem listamaður þegar á unga aldri og mun hafa haldið fyrstu einkasýningu sína í Bogasal Þjóðminjasafnsins 19 ára gamall, þá nemandi við Menntaskólann í Reykjavík. Hann stundaði nám meðal annars við Myndlistaskólann í Reykjavík og í Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Hann hlaut starfslaun Reykjavíkurborgar árið 1980 og varð þar með fyrsti Borgarlistamaðurinn. Grettistak var sett upp árið 1995 og var m.a. kostað af Listskreytingasjóði og var það ósk útboðsaðila að listaverkið endurspeglaði aðstæður og væri sjónrænt örvandi í umhverfinu. Hugmyndinni að Grettistaki varð til þegar hugsað var til þeirrar kynslóðar, sem nú sest til hvíldar og þeirra handa, sem skapað hafa á þessari öld næstum öll þau mannvirki, sem þjóðin á og nýtur í dag, með hugviti, stórhug og striti.

GrásleppukarlarGrásleppukarlar í Kalmansvík

Inni við Kalmansvík er listaverk sem nefnt er Grásleppukarlar í Kalmansvík og er eftir innfæddan Akurnesing, Jón Pétursson. Jón (1935-2010) vann löngum sem vélvirki hjá Þorgeir og Ellert hf. á Akranesi og Hval hf. í Hvalfirði. Hann var hagur til hugs og handa, átti auðvelt með að setja saman vísur og kvæði og var meðal annars hönnuðurinn og smiðurinn að gestabókarkössum þeim, úr ryðfríu stáli, sem er að finna á Geirmundartindi (frá 1998) og Háahnjúk (frá 1997), hæstu tindum fjallsins okkar. Grásleppukörlunum var komið fyrir á þessum stað árið 2001 og verkið afhjúpað af Gísla Gíslasyni, þáverandi bæjarstjóra, og það afhent bænum til varðveislu og eignar. Þorgeir og Ellert hf. gáfu járnið í verkið og Þorgeir og Helgi hf. gáfu steinsteypuna (5 tonn) undir verkinu. 

SjómaðurinnSjómaðurinn

Á Akratorgi er Sjómaðurinn eftir Martein Guðmundsson sem fæddist 1905 og lést árið 1952. Marteinn nam bæði á Íslandi og í París og Kaupmannahöfn. Listaverkið var afhjúpað árið 1967 af Lilju Pálsdóttur, eiginkonu Séra Jóns M. Guðjónssonar prests og prófasts á Akranesi, og er reist til minningar um drukknaða sjómenn. Á undirstöðunni er hending úr kvæðinu Sjómannasöngur eftir Steingrím Thorsteinsson; Sjómannslíf í herrans hendi / helgast fósturjörð. Dóttir Marteins er Steinunn listamaður í Hulduhólum í Mosfellsbæ og bæjarlistamaður þar árið 2003. Sjómaðurinn er staðsettur á Akratorgi í miðbæ Akraness en Akratorg var uppgert árið 2014 og stendur því Sjómaður á nýju, glæsilegu torgi. 

FótboltamennFótboltamenn

Á hringtorginu sem nefnist Faxatorg og er staðsett við austurenda Skagabrautar og Stillholts er að finna listaverkið Fótboltamenn eftir Sigurjón Ólafsson (1908-1982). Sigurjón lærði húsamálun og nam síðar m.a. hjá Ásgrími Jónssyni og Einari Jónssyni. Hann stundaði einnig nám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og í Róm. Hann fékk gullpening Listaskólans í Danmörku á sínum tíma og kom aftur til Íslands í stríðslok 1945. Sigurjón var einn af frumkvöðlum abstrakt-listar (óhlutbundinnar) höggmyndalistar á Íslandi og vann í stein, járn, leir og tré. Ragnar Jónsson í Smára tengdist honum sem mörgum öðrum listamönnum á sínum tíma og var honum m.a. innanhandar með húsbygginguna í Laugarnesi í Reykjavík. Verkinu mun hafa verið lokið á fjórða áratug síðustu aldar. Það var keypt af Akranesbæ og sett upp árið 2001 er 50 ár voru liðin frá því að Íþróttabandalag Akraness varð fyrst Íslandsmeistari meistaraflokksliða.

Sementsveggurinn

Fjórar málaðar myndir sem nokkuð var farið að láta á sjá voru að finna sjávarmegin á skeljasandsþróarvegg Sementsverksmiðjunnar. Þessar myndir tengdust m.a. sumarhátíð sem haldin var hér nokkrum sinnum um miðjan tíunda áratuginn og nefndist sú hátíð „Sumar og sandur“. Vestasta myndin var eftir Guttorm Jónsson. Myndin næst þar við hlið var eftir Bjarna Þór Bjarnason, því næst var mynd gerð af börnum í Grundaskóla undir umsjón kennara síns, Mariellu Thayer, sem þá bjó á Akranesi. Austast var mynd eftir Jón Pétursson, höfund að Grásleppukörlunum í Kalmansvík. Á þeim hluta þróarveggjarins sem í austur snýr var elsta teikningin, frá því um 1980 og tengdist hún hugmyndasamkeppni barna úr Brekkubæjarskóla að beiðni Sementsverksmiðjunnar. Viðurkenningu fyrir hugmyndina fékk Gísli Eyleifsson og var hugmyndin svo útfærð undir umsjón Bjarna Þórs Bjarnasonar kennara.

Verkið SíberíaSíbería

Listaverkið Síbería stendur hjá Akranesvita á Breið. Listakonan Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og faðir hennar Guðlaugur Maríasson settu listaverkið upp 2017 en verkið var keypt af Akraneskaupstað. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar 2016 að kaupa verkið að fenginni umsögn menningar- og safnanefndar. Einnig styrktu fyrirtækin Smellinn, sem steypti sökkull sem er undir verkinu og Vélaleiga Halldórs uppsetningu listaverksins en þeir gáfu sand sem einnig er notaður í undirstöðuna. Listaverkið var unnið sumarið 2015 norður í Árneshreppi á Ströndum úr rekaviði sem hafði verið tekinn þar úr fjörunni. Verkið var flutt suður og sýnt á Vökudögum á Akranesi sama haust. Talið er að bróðurpartur alls viðs sem rekur til Íslands komi frá Síberíu.

Minnisvarði Guðmundar Jónssona

Minnisvarði Guðmundar Jónssonar

Í Garðalundi er minnisvarði um Guðmund Jónsson (1906-1988), garðyrkjuráðunaut Akranesbæjar um og upp úr miðri tuttugustu öldinni. Guðmundur lagði gjörva hönd á margt er tengdist ræktunarmálum á Skaganum á þessum árum og hóf meðal annars skógrækt hér í Garðalundi. Minnisvarðinn var settur upp af Akranesbæ árið 1997. Á steindranginum, sem náðist við gerð Hvalfjarðargangna, er lágmynd af Guðmundi Jónssyni við starf sitt og hefur verið haft orð á því að vangamyndin af Guðmundi líkist honum sérlega vel. Á báðum hliðum drangsins eru fallegar blómamyndir og á skildi sem með fylgir segir úr ljóði Guðmundar Böðvarssonar frá Kirkjubóli í Hvítársíðu. Minnisvarðinn er eftir Pál Guðmundsson (f. 1959) frá Húsafelli í Borgarfirði. Páll stundaði nám m.a. í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík og við Listaháskólann í Köln. Hann hefur bæði unnið við málara- og höggmyndalist og hefur haldið fjölda einka- og samsýninga bæði hérlendis og erlendis og varð fyrsti formlegi héraðslistamaður Borgfirðinga árið 2001. Páll á verk bæði víðsvegar um landið og einnig erlendis. Á heimaslóðum að Húsafelli má til dæmis sjá draugana 18 á sínum stað og verkin öll í Bæjargilinu.

MótþróiMótþróa

Við Flæðilæk og vestan við hesthúsahverfið á Æðarodda hjá gömlu akstursleiðinni inn til Akranes, reistu hjónin Ármann Gunnarsson, vélvirki (f. 1937) og Helga Sólveig Bjarnadóttir (f. 1933) verk sitt Mótþróa árið 2005. Þau hjónin hafa löngum verið kennd við Steinsstaði á Akranesi. Bjargið undir verkinu fluttu þau úr landi Steinsstaða og vó það 8-9 tonn. Á bjarginu stendur hringlaga form, um 2 metrar í þvermál, og innan hringsins er mynd af hesti í háreistu tölti sem horfir til fjallsins. Það var Bjarni Þór Bjarnason, Akranesi, sem teiknaði Mótþróa eftir hugmyndum Ármanns sem fór síðan með A4 teikninguna til bróðursonar síns, Runólfs Þórs Sigurðssonar, byggingartæknifræðings á Akranesi, sem setti teikninguna á tölvutækt form og geisladisk. Með diskinn í hönd leitaði Ármann til fyrirtækis eins í Reykjavík sem kallast „Style“ og með nýjustu tækni sem notar háþrýsta vatns- og sandblöndu til skurðarins var hesturinn unninn í ryðfrítt stál. Á Akranesi var það Vélsmiðjan Steðji sem sá um að valsa hringformið, Skaginn hf. sá um glerblásturinn og Ármann sauð síðan verkið saman og kom því fyrir á sínum stað.

Systurnar sjö Systurnar sjö

Systurnar sjö er verk sem er unnið úr járni og stendur á eyju í tjörninni í Garðalundi. Verkið er eftir Guðlaug Bjarnason (Gulla, f.1950) sem á ættir að rekja til Suðurlands. Haft er fyrir satt að nafn verksins vísi til birkihrísla í Þórsmörk með sama nafni og að það tengist ekki því að Guðlaugur átti og á sjö systur. Listamaðurinn mun ekki vilja að verkið sé varið eða verndað gegn náttúruöflunum og væntir þess að það fái að forganga í  náttúru vorri. Guðlaugur stundaði nám við Handíða- og myndlistaskóla Íslands og þar hefur hann haldið fyrirlestra um vinnslu listaverka í margs konar formi. Hann nam einnig í Skotlandi og Þýskalandi. Guðlaugur hefur haldið einkasýningar hérlendis og samsýningar erlendis og færði hann Listasafni Akraneskaupstaðar þetta verk árið 1994 í minningu bróður síns Höskuldar Heiðars Bjarnasonar.

Brjóstmynd af Þorgeiri Jósefssyni
Brjóstmynd af Þorgeiri Jósefssyni

Við horn Kirkjubrautar og Merkigerðis var árið 2005 komið fyrir brjóstmynd af Þorgeiri Jósefssyni, vélvirkjameistara og forstjóra Þorgeirs og Ellerts hf. Vel var við hæfi að velja myndinni þennan stað því að við Kirkjubraut bjó Þorgeir með fjölskyldu sinni um áraraðir í húsum sem hann byggði neðst við götuna og einnig byggði hann Litla-Bakka við Vesturgötu, nálægt vesturenda Merkigerðis en í því húsi bjó Þorgeir sín fyrstu hjúskaparár. Þorgeir sat um árabil í hreppsnefnd og bæjarstjórn á Akranesi og var þingsalurinn þá í grenndinni og í stjórn sjúkrahússins var hann um langa hríð. Árið 1982 var hann gerður að heiðursborgara Akraness. Það voru starfsmenn hjá Þorgeiri og Ellert hf sem færðu Þorgeiri þessa brjóstmynd að gjöf á sextíu ára afmæli hans árið 1962. Myndin er eftir Ríkharð Jónsson (d. 1972) sem kunnur var og er fyrir margs konar listaverk sín. Frummyndin, úr gifsi, er geymd á Byggðasafninu.

 

Brjóstmynd af Ingunni Sveinsdóttur og Haraldi Böðvarssyni

Brjóstmynd af Ingunni og Haraldi

Brjóstmyndin af þeim hjónum Ingunni Sveinsdóttur og Haraldi Böðvarssyni við Vesturgötu 32 er eftir Gyðu L. Jónsdóttur sem fædd er árið 1943 og dóttir Lilju Pálsdóttur og séra Jóns M. Guðjónssonar. Verkið er unnið í trefjasteypu og var sett upp árið 1974. Gyða stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík og m.a. við St. John Cass Collage og Central School of Art í London. Einnig nam hún um hríð við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Gyða hefur tekið þátt í einka- og samsýningum hér á landi og samsýningum erlendis. Hún hefur unnið ásamt öðrum listamönnum að smáum og stórum verkum með brenndar munsturflísar og þá aðallega í tengslum við járnbrauta- og neðanjarðarstöðvar og göng í Bretlandi, m.a. við King´s Cross, the Dover Underpass og við Elephant and Castle stöðina, enda var hún búsett í mörg ár í Bretlandi.

Gnýr

Gnýr

Listaverkið Gnýr við Garðabraut 2 er frá árinu 2001 og var sett upp það sama ár. Það er eftir Grím Marinó Steindórsson (f. 1933) úr Kópavogi og er gert úr ryðfríu, slípuðu stáli. Það er í eigu tryggingarfélagsins Sjóvár sem flutti það ár í húsnæðið við Garðabraut. Grímur Marinó stundaði nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík hjá Kjartani Guðjónssyni, myndlistarmanni og Ásmundi Sveinssyni, myndhöggvara. Síðar lauk hann m.a. sveinsprófi í málmiðnaði frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Grímur Marinó hefur haldið margar einka- og samsýningar hérlendis og erlendis og mörg verka hans eru í einka- og opinberri eigu. Hann hlaut starfslaun Kópavogsbæjar 1994. Meðal annarra útilistaverka eftir Grím Marinó eru Landspóstarnir að Stað í Hrútafirði (1993) og Á heimleið í Stykkishólmi til minningar um drukknaða sjómenn (1996).

Hringrás

HringrásÁ sjómannadaginn, 1. júní 2008 var útilistaverkið Hringrás vígt á lóð við Sjúkrahúsið og Heilsugæslustöðina á Akranesi. Verkið er eftir myndlistarkonuna Ingu Ragnarsdóttur (f. 1955). Verkið var valið eftir að haldin hafði verið samkeppni á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna. Inga lauk námi úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1977 en hélt síðan utan til náms við Akademíuna í Munchen en þaðan lauk hún burtfararprófi með Diplóma árið 1987.  Að útskrift lokinni fékk hún verkefni við útiverk í hinu gamla háskólahverfi í Schwabing í Munchen en síðan þá hefur hún verið að mestu búsett í Þýskalandi. Verkið er vatnsverk í tveimur hlutum.  Annars vegar er fjögurra metra há, klofin súla með fjórum stöllum, þar sem fjórir fossar steypast niður milli stallanna og hins vegar snigill sem hringar sig um vatnsflauminn þar sem hann rennur að nýju niður í jarðlögin inn í hina eilífu hringrás vatnsins.  Súlan er staðsett í lítilli ferkantaðri tjörn en snigillinn er í stærri tjörn sem er hringlaga og á milli tjarnanna er lækur.  Verkið er steypt í brons en tjarnirnar eru lagðar sjávargrjóti með steinsteyptum ramma í kring.

Írski steinninnÍrski steinninn

Við Byggðasafnið á Görðum, á túninu vestan við grafreitinn, er Írski steinninn svokallaði, en það var írska þjóðin sem færði Íslendingum þennan minnisvarða á þjóðhátíðarárinu 1974, þegar um 1100 ár voru liðin frá landnámi. Það þótti við hæfi að steinninn yrði reistur á Akranesi þar sem sagan segir að svæðið hér hafi verið numið um 880 af írskum bræðrum af norrænum ættum, Þormóði og Katli Bresasonum. Séra Jón M. Guðjónsson var sem löngum fyrr aðal drifkrafturinn í að koma þessu verki öllu í kring og stóð í bréfa- og skeytasambandi við Íra. Flest komst réttilega til skila í þessum sendingum nema það að séra Jón mun hafa beðið um að minnisvarðinn yrði í formi keltnesks steinkross. Þetta náðist víst ekki óbrenglað og í stað þess að keltneskur kross væri sendur hingað þá settu írsku steinsmiðirnir lítið plúsmerki efst í horn áleturshliða steinsins og hafa sjálfsagt velt fyrir sér hví Íslendingar vildu ekki alveg eins hafa mínusmerki eða margföldunarmerki á þannig steini. Þessi trausti írski steinn er með áletrun á gelísku eða írsku og íslensku og að minnsta kosti er íslenska tilvitnunin í hin fornu Hávamál (Óðins) þar sem segir: „Til góðs vinar liggja gagnvegir, þótt hann sé farinn“ og er merkingin sú að aldrei er hægt að líta svo á að löng sé leiðin til vinar manns.

Minnisvarði Jóns M. GuðjónssonarMinnisvarði Jóns M. Guðjónssonar

Á Byggðasafninu á Görðum, við vesturgafl Garðahússins, elsta steinsteypta húss sinnar tegundar á landinu og þótt víðar væri leitað, er minnisvarði um títtnefndan Jón M. Guðjónsson (1905-1994). Minnisvarðinn sem er þrískiptur var reistur árið 2005 í tilefni af því að eitt hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu séra Jóns. Það var Valdimar, sonur séra Jóns, sem næst þessari vinnu kom og sá um hönnun minnisvarðans og útfærslu hans. Miðhlutinn ber dökka útlínumynd (silúettu) með vangasvip séra Jóns, gerða af Valdimari (1972) og á þennan hluta er m.a. letrað: Hugsjónamaður – Frumkvöðull í slysavörnum, byggðasafni og mörgum öðrum menningarmálum. Á drangi vinstra megin við miðhlutann er áletrun sem vissulega tengist starfi séra Jóns að slysavörnum: Sjómannslíf í herrans hendi / helgast fósturjörð sem tekið er úr Sjómannasöng eftir Steingrím Thorsteinsson. Drangurinn til hægri er með tilvitnun í kvæði Einars Benediktssonar Aldamót og snertir sú tilvitnun áhuga Jóns á Safnamálum og vilja hans að varðveita vitnisburð um gamla tíma svo að upplýsa megi kynslóðir um liðna tíð.

Glerlistaverk, steindur gluggi í VinaminniGlerlistaverk í glugga í Safnaðarheimilinu Vinaminni

Á þeirri hlið Safnaðarheimilisins sem snýr að Akraneskirkju er glerlistaverk, steindur gluggi, eftir Leif Breiðfjörð. Leifur er fæddur árið 1943 í Reykjavík og stundaði nám m.a. í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í Skotlandi og Englandi. Mörg glerlistaverka hans er að finna bæði hérlendis og erlendis, í opinberum byggingum og kirkjum, m.a. í Leifsstöð og Þjóðarbókhlöðunni, í Hallgrímskirkju og á gafli yfir vesturdyrum í St Giles dómkirkjunni við the Royal Mile í Edinborg Skotlandi. Glerlistaverkið hérna er til minningar um Lilju Pálsdóttur, eiginkonu séra Jóns M. Guðjónssonar, sem var prófastur í Borgarfjarðarprófastdæmi og sóknarprestur á Akranesi um áratugaskeið. Það var séra Jón og börn þeirra hjóna, sem færðu safnaðarheimilinu listaverkið árið 1987. Steindi glugginn í framhlið hússins sem áður var bankahús Glitnis við Kirkjubrautina er eftir Leif Breiðfjörð. Íslandsbanki, undanfari Glitnis, festi kaup á þessu sérsmíðaða glerlistaverki Leifs sem sett var upp árið 2001. Það er 29x220 sentimetrar að stærð og þarna ætlað „Til skrauts og ánægju“ að sögn bankamanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00