Fara í efni  

Uppbygging við Langasand

Hótel, baðlón, heilsulind og íþróttamannvirki

Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand. Í henni felst að byggt verði hótel, baðlón og heilsulind á svæðinu. Jafnframt er lýst yfir samstarfi aðila um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Akranesi. Þá er einnig áformuð uppbygging á svæði ÍA þar sem m.a. verða nýir knattspyrnuvellir og stórbætt aðstaða fyrir iðkendur og íbúa.

Svæðið er einstaklega skemmtilegt og býður nálægðin við Langasand, Guðlaugu og íþróttasvæði ÍA upp á spennandi möguleika og fáir staðir sem bjóða upp á ljósa sandfjöru sem snýr á móti suðri.

Fyrst hefst vinna við að greina tækifæri í ferðaþjónustu og að móta stefnu á því sviði og er áætlað að þeim fasa ljúki innan fjögurra mánaða en þá hefjist vinna við deiliskipulag og aðra slíka þætti. Mikil áhersla verður lögð á samráð og samtal við bæjarbúa og hagsmunaaðila.

,,Hér er verið að fara í gang með mjög metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu í ferðaþjónustu sem okkur hefur skort á Akranesi, en auk þess getum við bætt enn frekar aðstöðu fyrir íþróttastarfið hjá okkur. Þetta eru mikilvæg skref fyrir áframhaldandi vöxt Akraness og tilað auka enn við þjónustu og upplifun á þessu fallega svæði sem gegnir lykilhlutverki í lífi Akurnesinga.“ sagði Sævar Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.

„Við hjá Ísold hlökkum til að byggja upp hótel og baðlón með fjölbreyttri þjónustu hér á þessu frábæra svæði og taka þannig þátt í að efla og byggja upp á Akranesi og um leið að styðja við ÍA. Við getum varla beðið eftir því að hefjast handa við fyrstu verkefnin,“ sagði Aðalsteinn Jóhannsson hjá Ísold fasteignum.

Spurt og svarað

Spurningar 1-14 voru birtar 7.mars 2023.
Spurningar 15-21 voru birtar 22. mars 2023.

1. Talað er um uppbyggingu á 80-120 íbúðum. Verða þessar íbúðir á Jaðarsbakkasvæðinu?

Skipulag svæðisins verður unnið í miklu samráði við alla hlutaðeigandi og tekið tillit til þess sem fyrir er. Eins og tiltekið er í viljayfirlýsingu mun Akraneskaupstaður úthluta Ísold lóðum fyrir 80-120 íbúðir, þar sem Akraneskaupstaður hefur ákvörðunarvald um hvar lóðunum er úthlutað. Í upphafi mun hugmyndavinna fara fram þar sem meðal annars verður velt upp hvort rýmd svæðisins bjóði upp á íbúðabyggð, en ekkert er ákveðið í þeim efnum. Markmiðið er að vera með fjölbreyttar íbúðagerðir, fyrir ungt fólk að festa kaup á fyrstu íbúð, fjölskyldufólk og eldra fólk sem leitast við að minnka við sig.

2. Tekur ÍA/KFÍA einhverja fjárhagslega áhættu með því að vera með aðild að samningum?

Nei – ÍA leggur ekki fram neina beina fjármuni og hagsmunir þess eru tryggðir í viljayfirlýsingunni. Með aðild ÍA / KFÍA að samningnum er jafnframt verið að leggja drög að því að íþróttasvæðið standist nútímakröfur og feli í sér mun betri aðstöðu fyrir íþróttastarf á svæðinu.

3. Er hætta á því að það verði ekki boðlegur knattspyrnuvöllur til að spila á meðan á framkvæmdum stendur?


Það er möguleiki að á framkvæmdatíma þyrfti ÍA að spila annars staðar einhverja leiki á tímibili – framkvæmdir verða þannig stilltar af að sú röskun verði eins lítil og kostur er. Til mikils er þó að vinna því með framkvæmdunum er verið að tryggja mun betri aðstöðu fyrir íþróttastarf á svæðinu.

4. Hvernig verður aðkoma að hóteli/spa og eykst umferð mikið?


Hönnun á hóteli og baðlóni verðu unnin samhliða deiliskipulagi og verður kynnt þegar skipulag liggur fyrir. Aðkoman verður ekki í gegnum íbúðagötur heldur verður leitast við með deiliskipulagi að tryggja umferðaröryggi íbúa. Jafnframt mun verða hugað að bílastæðum fyrir svæðið.

5. Hversu margar íbúðir mun byggingaraðilinn byggja annars staðar á Akranesi?

Það á eftir að koma í ljós en það er eftirspurn eftir húsnæði á Akranesi og jákvætt að fá inn öflugan aðila til aðbyggja íbúðir, sér í lagi með það að markmiði að byggja fjölbreyttar íbúðir sem hentiaólíkum hópum.

6. Hverjir standa á bak við verkefnið og fjármagna það?


Fasteignafélagið Ísold stendur að og ber ábyrgð á verkefninu. Meðal verkefna félagsins er uppbygging Jórvíkurhverfisins á Selfossi (www.jorvik800.is) og Brúarfljót, uppbygging geymslu- og iðnaðarhúsnæðis í Mosfellsbæ (www.bruarfljot.is). Ísold er að fullu í eigu Bull Hill Capital.

7. Fá framkvæmdaaðilar afslátt af gatnagerðargjöldum?

Það eru engin ákvæði um slíkt í viljayfirlýsingunni og sérstaklega kveðið á um greiðslu gatnagerðar- og byggingaréttargjalda til að tryggja jafna stöðu byggingaraðila á Akranesi.

8. Ef ekki er staðið við skilyrði um uppbyggingarhraða og önnur atriði – hvernig getur sveitarfélagið brugðist við?

Í viljayfirlýsingunni eru tímamörk og ef þau eru ekki uppfyllt fellur hún úr gild

9. Hefur verið kannað hvort það er eftirspurn eftir hóteli á Akranesi?

 Mikil eftirspurn er eftir gistingu allt í kringum höfuðborgarsvæðið og ljóst er að Akranes býður upp á ýmsa möguleika fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda. Hugmyndir um að byggja hótel í tengslum við uppbyggingu á frábærri íþróttaaðstöðu er einstakt tækifæri. Fyrsti fasi verkefnisins er að vinna að stefnumótun í ferðamálum fyrir Akranes. Með uppbyggingu sem þessari verða innviðir Akranesskaupstaðar enn sterkari og hægt að halda úti fjölbreyttara þjónustuframboði en áður.

10. Ísold og Akranesk. ætla að vinna að stefnumótun í ferðamálum fyrir Akranes. Hvenær og hvernig verður það unnið?


Viljayfirlýsing tilgreinir að aðilar muni setja á stofn starfshóp sem mun á næstu 8 vikum draga fram áskoranir og tækifæri sem ferðamál á Akranesi standa frammi fyrir og móta stefnu og markmið út frá þeim. Síðan verður aðgerðaáætlun sett fram þar sem sundurliðað er það sem snýr að m.a. hóteli, baðlóni, heilsulind og íþróttamannvirkjum á svæðinu.

 11. Hvernig er starfshópur um stefnumótun ferðaþjónustu á Akranesi skipaður og fá íbúar að segja sína skoðun?

Ákveðið hefur verið að Ísold muni skipa 2 fulltrúa, Akraneskaupstaður mun skipa 2 kjörna fulltrúa og Íþróttabandalagið 1 fulltrúa og Knattspyrnufélagið 1 fulltrúa. Í gegnum vefsíðuna "Okkar Akranes" má gera ráð fyrir að íbúar á Akranesi verði spurðir spurninga sem starfshópurinn nýtir sér. Þá liggja þegar fyrir ýmis gögn sem starfshópurinn mun nýta sér, t.d. hugmyndasamkeppni um Langasandssvæðið þar sem 3 góðar hugmyndir litu dagsins ljós. Jafnframt er fyrirhugað að halda íbúafund þegar starfshópur hefur lokið störfum og hugmyndirnar verða kynntar á þeim fundi.

 12. Hvað þýðir að aðilar munu vinna saman að aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu fyrir svæðið?

Í viljayfirlýsingunni er þessi ferli lýst nokkuð vel, en þessar breytingar þarf að gera þannig að verkefnið sé mögulegt. Mjög margir aðilar koma að svona verkefni og það getur verið flókið að sjá fyrir öll þau úrlausnarefni sem geta komið upp, eins og lýst er t.d. varðandi náið samráð við Veitur um vatn á svæðinu. Mjög mikilvægt er að allt sé unnið í nánu samstarfi við þá aðila sem nýta svæðið í dag; það eru knattspyrnufélagið, Íþróttabandalagið, Sundfélag Akraness sem og allir Skagamann sem nýta sér þessa útvistarperlu á hverjum degi.

 13. Hvenær munu Skagamenn fá að sjá fyrstu hugmyndir um hvernig svæðið kemur til með að líta út í framtíðinni?

Gert er ráð fyrir í viljayfirlýsingunni að innan 6 vikna frá undirritun muni skipulagslýsing sem og nánari lýsing á verkefninu liggja fyrir.

 14. Munu Skagamenn áfram geta gengið meðfram Langasandi eins og gert er í dag?

Já, á því verður engin breyting, göngustígar og umgengni íbúa um svæðið er tryggð og gera má ráð fyrir að hún verði eins og best verður á kosið.

15. Hvað gerist ef Ísold hættir við verkefnið?

Samkvæmt viljayfirlýsingu eru réttindi Ísoldar ekki framseljanleg sem þýðir að Ísold getur ekki áframselt öðrum aðilum verkefnið sem hugsanlega telja sig ekki vera skuldbundna samkvæmt þessari viljayfirlýsingu eða öðrum samningum.

16. Hvaða íþróttamannvirki stendur til að reisa og hver mun fjármagna þá uppbyggingu?

Farið verður í það að meta og skoða möguleika svæðis í tengslum við hvaða uppbyggingu sé hægt að fara í á svæðinu í tengslum við framtíðarsýn samstarfsaðila í verkefninu. Samráð verður haft við íbúa í gengum skipulagsferlið og horft verður á gögn frá hönnunarsamkeppni. Líklegt er að uppbygging íþróttamannvirkja muni ná til knattspyrnuvalla, stúku, flóðlýsingar og sundlaugar. Mögulega verður einnig til skoðunar aðstaða til uppbyggingar líkamsræktar.

Framangreind mannvirki eru ekki í fjárhagsáætlunum Akraneskaupstaðar næstu fjögur ár en það verður hluti af vinnunni að rýna hvort hægt verði að taka þessi mannvirki fyrr inn í fjárfestingaráform Akraneskaupstaðar og hvort 3ji aðili komi að slíkri uppbyggingu. Reiknað er með að byggingarréttargöld sem koma inn vegna uppbyggingar Ísoldar verði nýtt til uppbyggingar íþróttamannvirkja á svæðinu

17. Hvað er áætlað að hótel af þeirri stærð sem hugmyndin geri ráð fyrir að rísi þurfi mikið pláss í fermetrum talið og hvað þarf mikið pláss fyrir bílastæði við hótel af þessari stærð?

Ekki liggur fyrir á þessu stigi áætlað fótspor hótel og baðlóns, í skipulagsvinnunni framundan mun það ákvarðast og fer það eftir þolgetu svæðisins.

Hluti skipulagsvinnunar mun snúast um fjölda bílastæða fyrir allt Jaðarsbakkasvæðið, þar með talið hótelið. Ekki er útlokað að bílakjallari verði hluti þeirrar lausnar.

18. Nú skrifuðu formenn ÍA og knattspyrnufélagsins undir viljayfirlýsinguna, eiga þessi félög umrædda lóð eða hafa með skipulag á henni að gera?

Akraneskaupstaður er eigandi landsvæðisins. ÍA hefur til umráða hluta af umræddum mannvirkjum á svæðinu. Ennfremur er ÍA leigutaki ásamt Akraneskaupstað um lóð við Jaðarsbakka 1. Því er eðlilegt að ÍA sé samráðsaðili við uppbyggingu og skipulagsgerð. 

19. Er einhver trygging fyrir því að byggingin stækki ekki á byggingartíma, eins og gerðist með Sólmundarhöfða 7?

Ekki verður farið yfir leyfilegt byggingarmagn samkvæmt gildu skipulagi. Hinsvegar er ekki hægt að útiloka að því skipulagi verði breytt. 

20. Fyrst að bæjaryfirvöld vilja leyfa byggingu þarna, hvers vegna er þá ein besta lóð við Faxaflóa ekki boðin út?

Viljayfirlýsingin er til marks um vilja bæjaryfirvalda að hótel, baðlón og heilsulind geti styrkt svæðið í heild sinni fyrir íbúa og íþróttafélögin. Útboðsfyrirkomulag var ekki talið henta í þessu tilfelli þar sem talið var að það myndi auka fjármögnunaráhættu á uppbyggingu hótels, baðlóns og heilsulindar. Einnig var áhugi hjá ÍA, KFÍA og Ísold fasteignafélagi að starfa með Akraneskaupstað að þessu verkefni.

21. Stendur til að starfshópur eigi að búa til langtíma heildræna stefnu kaupstaðarins í ferðamálum?

Akraneskaupstaður er ekki að fara að taka það sem kemur út úr vinnu þessa hóps og gera það að stefnu Akraneskaupstaðar í ferðamálum, enda yrði slík stefna aldrei unnin á þennan hátt. Það er hins vegar mjög jákvætt, í ljósi þess að slík stefna hefur ekki verið unnin fyrir Akraneskaupstað, að aðilar sem standa að Ísold fasteignafélagi leiti eftir samstarfi við bæjaryfirvöld um stefnumörkun fyrir verkefnið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00