Fara í efni  

Þjónusta við fullorðna

Akranes er fjölskyldusamfélag þar sem stuðlað er að heilbrigðu líferni íbúa með góðri lýðheilsu og velferð. Velferðar- og mannréttindasvið Akraneskaupstaðar sinnir því hlutverki að veita íbúum sveitarfélagsins þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Akraneskaupstaður veitir íbúum fjölbreytta þjónustu á ýmsum sviðum um flesta þá þætti er lúta að daglegu lífi fólksins í bænum. Hér má nálgast upplýsingar um ýmislegt er snýr að þjónustu við fullorðna, s.s. félagslega aðstoð, félagslega ráðgjöf, upplýsingar um málefni fatlaðra, upplýsingar um endurhæfingu og atvinnu með stuðningi.

Starfandi sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs er Sveinborg Kristjánsdóttir sem jafnframt veitir nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangið velferd@akranes.is og í síma 433 1000.

Gagnlegar upplýsingar um einstaka málaflokka má lesa sig til um hér að neðan. 

Fjárhagsaðstoð

Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Félagsþjónusta Akraneskaupstaðar veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og reglum um fjárhagsaðstoð á Akranesi. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu.

Réttur til fjárhagsaðstoðar

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum geta sótt um fjárhagsaðstoð. Tekjumörk eru miðuð við upphæð fjárhagsaðstoðar. Fólk sem er í skráðri sambúð í Þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.

Umsækjanda ber að kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en sótt er um fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, LÍN, fæðingarorlofssjóði, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem er veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er endurkræf. Heimildir eru til styrkja eða láns vegna sérstakra aðstæðna.

Umsókn um fjárhagsaðstoð

Umsókn um fjárhagsaðstoð skal sækja um í Íbúagátt og skal skila þar með tilheyrandi fylgigögnum. Á umsóknareyðublaði koma fram upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir.

Eftir að öllum gögnum hefur verið skilað fær umsækjandi viðtalstíma hjá félagsráðgjafa. Eftirfarandi fylgigögn þurfa að fylgja umsókninni:

 • Allar tekjuupplýsingar sl. 3 mánuði
 • Allar tekjuupplýsingar maka sl. 3 mánuði
 • Skattframtal umsækjanda og maka ef við á
 • Staðfesting frá Vinnumálastofnun ef umsækjandi er vinnufær
 • Læknisvottorð ef umsækjandi er óvinnufær
 • Staðfesting á skólavist og stundaskrá (ef sótt er um skólastyrk)
 • Veflykil fagaðila

Framfærsla barna er ekki talin með sem tekjur.

Upphæð fjárhagsaðstoðar

Fjárhagsaðstoð til einstaklinga 18 ára og eldri getur numið allt að kr. 164.640.- á mánuði. 
Fjárhagsaðstoð til hjóna og fólks í skráðri sambúð getur numið allt að kr. 263.424.- á mánuði (kr. 164.640*1,6)
Fjárhagsaðstoð er óháð því hvort barn eða börn búa á heimilinu.

Samþykkt fjárhagsaðstoð er greidd út 1. hvers mánaðar eða fyrsta virka dag ef 1. lendir á laugardegi eða sunnudegi og skal það tekið fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins er skattskyld.

Skerðing fjárhagsaðstoðar

Hafi umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, er heimilt að greiða honum hálfa grunnupphæð til framfærslu þann mánuð sem umsækjandi hafnar vinnu og mánuðinn þar á eftir. Sama á við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki sýnir fram á staðfesta skráningu sína frá Vinnumálastofnun. Þá skerðist með sama hætti réttur umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu og einstaklingsmiðaðri áætlun hjá ráðgjafa, nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. 

Þjónustuferill

Umsækjendur þurfa að tilkynna sig á milli 20. – 25. hvers mánaðar með viðtali, tölvupósti eða símtali. Umsækjendur eru boðaðir í viðtal til félagsráðgjafa á þriggja mánaða fresti, þar sem farið er yfir réttindi, skyldur, virkni og úrræði. Gerður er virknisamningur og áætlun. 

Nánari upplýsingar veitir Hrefna Rún Ákadóttir félagsráðgjafi bæði í tölvupósti á netfangið hrefna.run.akadottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Félagsleg ráðgjöf

Starfsfólk félagsþjónustu Akraneskaupstaðar veitir félagslega ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna í sveitarfélaginu. Félagsleg ráðgjöf getur staðið ein eða verið í tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu.

Markmið þjónustunnar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Unnið er samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 (skoða lögin í heild sinn hér).

Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála o.fl. Henni skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð og í samvinnu við aðra aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla, sýslumenn og heilsugæslustöðvar, eftir því sem við á.

Nánari upplýsingar veitir Hrefna Rún Ákadóttir félagsráðgjafi bæði í tölvupósti á netfangið hrefna.run.akadottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Stuðningsþjónusta

Auk félagslegrar ráðgjafar veitir félagsþjónustan sérhæfða ráðgjöf til fatlaðra og fjölskyldna þeirra, m.a. í formi stuðningsviðtala og ráðgjafar til fólks úti í þjóðfélaginu sem starfar með fötluðu fólki. Hjá deildinni getur fólk m.a. fengið upplýsingar um rétt sinn til þjónustu en mat á þjónustuþörf er unnið í samvinnu við þá aðila sem í hlut eiga. Samhæfing ýmissa þátta, s.s. skóla, heimilis, tómstunda og vinnu, er nauðsynleg til að þjónustan nýtist sem best. Samstarf er við greiningar- og meðferðaraðila í heimabyggð og á höfuðborgarsvæðinu.

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit hafa rétt á að sækja um sérhæfða ráðgjöf. Hægt er að óska eftir viðtali í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með því að hafa samband við þjónustuver Akraneskaupstaðar í síma 433 1000.

Eftir móttöku umsóknar er umsækjandi boðaður í viðtal hjá starfsmanni félagsþjónustunnar. Í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina. Skriflegt svar sendist umsækjanda að afgreiðslu lokinni.

Nánari upplýsingar um sérhæfða ráðgjöf veitir Berglind Jóhannesdóttir berglind.johannesdottir@akranes.is og

Arnheiður Andrésdóttir ráðgjafarþroskaþjálfi bæði í tölvupósti á netfangið arnheidur.andresdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Atvinna með stuðningi

Í lögum um málefni fatlaðra segir að veita skuli fötluðu fólki aðstoð til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði þegar þess gerist þörf. Skal það gert með sérstakri liðveislu á vinnustað, svo og fræðslu og leiðbeiningum til annars starfsfólks. Eins skal veita fötluðu fólki starfsþjálfun í almennum fyrirtækjum eða stofnunum þar sem því verður við komið. Í þeim tilvikum skal gera sérstakan samning þar sem m.a. er kveðið á um þjálfunartímabil og greiðslu kostnaðar. Er það gert í samvinnu við atvinnurekanda og Tryggingarstofnum ríkisins. 

Fatlaðir með lögheimili á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit hafa rétt á að sækja um þjónustuna. Hægt er að óska eftir viðtali í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með því að hafa samband við Þjónustuver Akraneskaupstaðar í síma 433 1000.

Eftir móttöku umsóknar er umsækjandi boðaður í viðtal hjá umsjónarmanni atvinnu með stuðningi. Í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina. Skriflegt svar sendist umsækjanda að afgreiðslu lokinni.

Nánari upplýsingar um atvinnu með stuðningi veitir Guðmundur Páll Jónsson forstöðumaður Fjöliðjunnar bæði í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall.jonsson@akraneskaupstaður.is og í síma 433 1720.

Búsetuþjónusta fatlaðra

Einstaklingur með fötlun telst sá sem vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun eða sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing langvarandi veikinda eða slyss. Í lögum um málefni fatlaðra er kveðið á um að  fólk með fötlun skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Hér á heimasíðu Velferðarráðuneytisins má einnig finna gagnlegar upplýsingar.

Réttur til búsetuþjónustu fatlaðra

Búsetuþjónusta fatlaðra er veitt bæði fötluðu fólki sem býr í eigin húsnæði, leiguhúsnæði á eigin vegum sem og fólki sem býr í íbúðakjörnum og á sambýlum. Þjónustan er veitt samkvæmt þjónustuáætlun eða þjónustusamningi við viðkomandi aðila sem byggist á niðurstöðum mats og samkomulagi við viðkomandi eða talsmann hans.

Umsókn um búsetuþjónustu

Fatlað fólk með lögheimili á Akranesi getur sótt um búsetuþjónustu rafrænt í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með skriflegri umsókn til félagsþjónustu Akraneskaupstaðar. Á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar er metin þörf fyrir stuðning í samráði við umsækjanda eða aðstandendur hans. Umsóknir eru gildar þegar umsækjandi hefur náð 16 ára aldri. Þjónusta kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en eftir að 18 ára aldri hefur verið náð.

Frekari liðveisla

Í sérstökum tilvikum skal veita einstaklingum með fötlun frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun. Umsókn um liðveislu kemur frá hinum fatlaða eða aðstandendum hans.

Nánari upplýsingar um búsetuþjónustu fatlaðra veita Gunnhildur Vala Valsdóttir á netfangið gunnhildur@akranes.is og Jórunn Petra Guðmundsdóttir á netfangið jorunn.petra.gudmundsdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00