Fara í efni  

Sementsreitur

ASK arkitektar deiliskipuleggja Sementsreitinn á Akranesi

ASK arkitektum í Reykjavík hefur verið falið að deiliskipuleggja svonefndan Sementsreit á Akranesi samkvæmt samningi sem Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Páll Gunnlaugsson arkitekt undirrituðu þann 26. febrúar 2016. Stefnt er að því að ljúka öllu skipulagsferlinu fyrir lok árs 2016. Skipulagið tekur aðallega til athafnasvæðis Sementsverksmiðjunnar. Akranes­kaupstaður tók við svæðinu í árslok 2013 og ætlar að nýta það fyrir íbúðabyggð og þjónustu auk hafntengdrar starfsemi. Efnt var til opins íbúafundar í ársbyrjun 2014 um framtíðarnýtingu Sementsreitsins og bæjarráð skipaði starfshóp til að fjalla um framhaldið. Óskað var eftir rammatillögum að skipulagi reitsins frá þremur arkitektastofum, ASK arkitektum, Kanon arkitektum og Landmótun, og tillögur þeirra voru kynntar íbúum á fundi í október 2015. Starfshópurinn ákvað í desember að semja við ASK arkitekta um að ljúka deiliskipulagsvinnunni.

Verkefnið verður unnið í nánu samráði við Faxaflóahafnir, enda er hluti skipulagssvæðisins í eigu þeirra. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á skipulagslýsingu og svo taki hin eiginlega skipulagsvinna við í maímánuði og drög að skipulagi verði kynnt almenningi síðsumars. Endanleg skipulagsgögn skulu liggja fyrir í september og þá verður skipulagið auglýst. Öllu ferlinu á að ljúka fyrir áramót.

Tillögur um skipulag Sementsreits

Tillögur að skipulagi á Sementsreitum svokallaða voru kynntar þann 22. október 2015, á opnum fundi í Tónbergi. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri setti fundinn og Rakel Óskarsdóttir formaður starfshóps um Sementsreit fór yfir vinnu hópsins og hvað framundan væri. Í starfshópnum eru einnig Dagný Jónsdóttir og Bjarnheiður Hallsdóttir og með hópnum vinna Sigurður Páll Harðarson og Hildur Bjarnadóttir á skipulags- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar.

Þrjár arkitektastofur kynntu tillögur sínar en það voru Kanon, Ask og Landmótun. Í framhaldi af kynningum þeirra var boðið upp á léttan kvöldverð áður en fundargestum var boðin þátttaka í vinnuhópum. Fundargestir fengu tækifæri á að svara spurningum um tækifæri og framtíðaruppbyggingu á Sementsreitnum út frá kynntum tillögum. Þeir sem ekki sáu sér fært að mæta á fundinn geta skoðað tillögurnar hér að neðan.

Kynningar af fundinum

                                     ASK arkitektar                        Kanon arkitektar                         Landmótun 

 Hugmynd Ask arkitekta  Hugmynd Kanon arkitekta Hugmynd Landmótunar.

Greinargerðir frá arkitektum

Kanon arkitektar: Greinargerð án mannvirkja og greinargerð með mannvirkjum

Næstu skref verða að fara í að fullgera deiliskipulag fyrir Sementsreitinn út frá þeim skipulagsgögnum sem liggja fyrir og þeim niðurstöður sem fram komu á fundinum, annars vegar út frá hópavinnunni og hins vegar út frá áðurnefndum spurningunum. Reiknað er með því að þegar sú vinna verður langt komin, að haldin verði forkynning til að kynna þau skipulagsdrög sem þá muni liggja fyrir. Í framhaldi af þeirri kynningu verður deiliskipulagsuppdráttur fullgerður og auglýstur með hefðbundnum hætti þar sem íbúar geta komið með ábendingar/athugasemdir meðan að auglýsingatími stendur yfir. Vakin er athygli á því að hægt er að senda inn fyrirspurnir eða ábendingar á netfangið sement@akranes.is og hægt er að skoða myndir frá fundinum HÉR.


Öflugar myndlistarkonur í Sementsverksmiðjunni á Akranesi

Hópur myndlistarmanna hefur nú tekið stjórnstöð Sementsverksmiðjunnar á leigu til að reka þar metnaðarfullt starf. Markmið hópsins er að vinna að eflingu myndlistar og sjónlista og svo alhliða menningarstarfsemi á Akranesi. Hópurinn mun vinna að list sinni í stjórnstöðinni og vera með opnar vinnustofur til að sýna verk sín reglulega. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Bryndís Siemsen undirrituðu leigusamning þann 2. febrúar sl. en hið leigða húsnæði er hluti Sementsverksmiðjunnar að Faxabraut 11 alls 205 fermetrar sem áður var stjórnstöð, vinnurými og rannsóknarstofa. Samningurinn gildir til 31. janúar 2017.


Starfshópur um Sementsreit

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. október síðastliðinn erindisbréf vegna starfshóps um Sementsreitinn. Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi verður formaður. Hlutverk starfshópsins er að móta tillögur um hvernig staðið verður að  skipulagi og uppbyggingu á Sementsreitnum. Um er að ræða lóðir við Faxabraut 11A, Faxabraut 11B, Faxabraut 11C, Mánabraut 13, Mánabraut 20 auk lóða við Suðurgötu sem Akraneskaupstaður fékk með samkomulagi við Sementsverksmiðjuna hf,  31. júlí 2003.  Til viðbótar kemur síðan lóð við Faxabraut 11 þar sem Sementsverksmiðjan er með starfsemi í dag. Þeirri lóð verður skilað 1.ágúst 2028. Meginverkefni starfshópsins verður að leiða vinnu um skipulag á Sementsreitnum, að leiða samráðsferli við íbúa, til dæmis í gegnum lögbundið ferli um skipulagslýsingu sem er undanfari skipulagsvinnu og að móta tillögur um hvernig sé best að standa að uppbyggingu á Sementsreitnum til lengri tíma litið. Stefnt er að því að tillögur að nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi verði lagðar fyrir skipulags-og umhverfisnefnd fyrir 1. ágúst 2015 og að tillögur að deiliskipulagi og tillögur um uppbyggingu svæðisins liggi fyrir í árslok 2015. 


Skagaleikflokkurinn í Sementsverksmiðjuna

Þann 17. september sl. var undirritaður leigusamningur á milli Akraneskaupstaðar og Skagaleikflokksins en félagið mun leigja svokallað „starfsmannarými“ í Sementsverksmiðjunni sem er staðsett fyrir neðan matsalinn í skrifstofubyggingunni að Mánabraut 20. Um er að ræða u.þ.b. 150 m² sem félagið fær leigt til tveggja ára. Húsaleigan reiknast sem styrkur til félagsins og er hún endurskoðuð í september ár hvert. Í samningnum er kveðið á um að Skagaleikflokkurinn ábyrgist að rekið verði metnaðarfullt starf, en markmið leikfélagsins er að vinna að eflingu leiklistar, bókmennta og annarrar alhliða menningarstarfsemi. Þeim markmiðum verður meðal annars náð með því að halda uppi sýningum á íslenskum og/eða erlendum leikverkum og taka þátt í viðburðum á vegum Akraneskaupstaðar.


Íbúafundur vegna Sementsreits

Á haustdögum 2013 hófust, að frumkvæði fulltrúa Sementsverksmiðjunnar, viðræður um málefni verksmiðjunnar. Þann 27. desember 2013 undirrituðu fulltrúar Akraneskaupstaðar, Sementsverksmiðjunnar ehf. og Arion banka samning um eignarhald Akraneskaupstaður á stærstum hluta mannvirkja og lóða Sementsverksmiðjunnar, þ.e. á svokölluðum Sementsverksmiðjureit. Þar með var hægt að hefja skoðun á þeim nýtingarmöguleikum sem svæðið býður uppá.

Skipulagsmál reitsins voru reifuð á íbúafundi þann 18. janúar 2014 þar sem Kanon arkitektar, í samvinnu við Akraneskaupstað, kynntu ýmsar hugmyndir að nýtingu svæðisins. Á fundinum var m.a. unnið í vinnuhópum undir stjórn Kanon arkitekta. Um 160 manns sóttu fundinn sem var vel heppnaður. Áfram verður unnið með þær hugmyndir sem fram komu á fundinum.

Myndbandsupptökur af fundinum

Ávarp forseta bæjarstjórnar á íbúafundi um Sementsreitinn - Sveinn Kristinsson

Fundarstjóri íbúafundar um skipulagsmál á Sementsreit - Guðfinna S. Bjarnadóttir

Forsendur fyrir nýrri notkun á Sementsreitnum - Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri

Sementsreiturinn og sóknarfærin - Kannon arkitektar

Kynningar af fundinum

     

Í lok íbúafundarins fór Regína Ásvaldsdóttir yfir næstu skref bæjaryfirvalda í tengslum við Sementsreitinn. Huga þarf að rekstri svæðisins og vinna áfram með þær hugmyndir sem fengu mestan hljómgrunn á fundinum. Einnig þarf að huga að verðmætum þeirra eigna sem fylgja verksmiðjunni og setja af stað skipulagsvinnu fyrir svæðið. Loks skiptir máli að bæta yfirbragð svæðisins. 

Netfangið sement@akranes.is hefur verið stofnað og er hægt að senda inn fyrirspurnir/ábendingar á netfangið um hvaðeina sem snertir Sementsverksmiðjureitinn.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • Akraneskaupstaður 433 1000
  • Skrifstofan er opin alla virka daga kl. 09:30 - 12:00 og 12:30 - 15:30
  • Stillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449