Fara í efni  

Vel sóttur fundur um Sementsreitinn

Um 160 manns sóttu vinnufund síðastliðinn laugardag á vegum Akraneskaupstaðar og Kanon arkitekta um Sementsreitinn á Akranesi. Akraneskaupstaður, Arion banki og Sementsverksmiðjan ehf. skrifuðu undir samning þann 27. desember síðastliðinn um að Akraneskaupstaður yfirtæki mannvirki og lóð á Sementsreitnum, um 5,5 hektara land án endurgjalds. Heildarstærð svæðisins sem verður skipulagt, það er mannvirki og lóð Sementsverksmiðjunnar og lóðir í nágrenninu eru um 10 hektarar.

Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar setti fundinn og fór yfir sögu sementsframleiðslu á Akranesi. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri kynnti efni samningsins og þær forsendur sem arkitektastofan Kanon fékk við undirbúning fundarins. Regína lagði áherslu á að Kanon hefði fengið það verkefni að koma með hugmyndir, kveikja í fólki, en ekki fullmótaðar tillögur. Halldóra Bragadóttir frá Kanon sýndi tengsl reitsins við miðbæinn, Langasand og höfnina, sýndi erlend dæmi og loks nokkrar ólíkar hugmyndir að skipulagi svæðisins. Að fyrirlestrum loknum var hópavinna sem arkitektar frá Kanon og fulltrúar skipulags-og umhverfisnefndar stýrðu undir forystu Guðfinnu S. Bjarnadóttur sem var fundarstjóri. ,,Við lögðum áherslu á það á fundinum að þetta væri upphafið að samráðsferli, svona nokkurs konar ferðalagi inn í framtíðina á þessum áhugaverða stað“ sagði Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Í framhaldinu af fundinum verður farið í nánari greiningu á hugmyndum og einnig þarf að formgera þá þróunarvinnu sem er framundan.

Akraneskaupstaður mun setja upp sérstakt svæði á vefnum fyrir Sementsreitinn á næstu dögum auk þess sem íbúar munu geta sent hugmyndir og fyrirspurnir á netfangið sement@akranes.is.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin alla virka daga
    kl. 09:30 - 12:00 og 12:30 - 15:30